Ferill 712. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1191  —  712. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Frá umhverfis- og auðlindaráðherra.I. KAFLI
Markmið, gildissvið, skilgreiningar o.fl.
1. gr.
Markmið.
         

    Markmið laga þessara er:
     a.      sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem vinna skal að með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif,
     b.      skilvirkni við umhverfismat framkvæmda og áætlana,
     c.      að almenningur hafi aðkomu að umhverfismati framkvæmda og áætlana og samvinna aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um:
     a.      skipulagsáætlanir og breytingar á þeim samkvæmt skipulagslögum og lögum um skipulag haf- og strandsvæða,
     b.      aðrar áætlanir og breytingar á þeim sem marka stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í 1. viðauka við lög þessi og eru undirbúnar og/eða afgreiddar af stjórnvöldum og unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra,
     c.      framkvæmdir sem kunna eða eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. viðauka við lög þessi.
    Lögin gilda um framkvæmdir og áætlanir á landi, í lofthelgi og í mengunarlögsögu Íslands. Lögin gilda einnig um umhverfismat framkvæmda eða áætlana í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem kunna að hafa áhrif hér á landi, sbr. 5. gr.
    Lögin gilda ekki um áætlanir sem hafa þann eina tilgang að þjóna öryggi eða vörnum ríkisins eða almannavarnaviðbrögðum. Þá gilda lög þessi ekki um fjárhags- og fjárlagaáætlanir.
    Óverulegar breytingar á áætlunum eru ekki háðar ákvæðum laga þessara. Við mat ábyrgðaraðila viðkomandi áætlunar á því hvort breytingar teljist verulegar skal taka mið af áhrifum á framkvæmdir og aðra áætlanagerð og áhrifum á umhverfið.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
     1.      Almenningur: Einn eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar, samtök þeirra, félög eða hópar.
     2.      Áætlun: Áætlun sem markar stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda sem falla undir lög þessi og er undirbúin og/eða samþykkt af stjórnvöldum og unnin samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra.
     3.      Framkvæmd: Hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd sem fellur undir lög þessi og starfsemi sem henni fylgir.
     4.      Framkvæmdaraðili: Aðili sem hyggst hefja framkvæmd sem fellur undir lög þessi.
     5.      Leyfi til framkvæmda: Leyfi sem veitt eru vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar sem fellur undir lögin og þeirrar starfsemi sem henni fylgir, svo sem framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulagslögum, byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki, starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og önnur sambærileg leyfi sem varða meginþætti framkvæmdar og/eða starfsemi og umhverfisáhrif þeirra.
     6.      Matsáætlun: Áætlun framkvæmdaraðila um hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati fyrirhugaðrar framkvæmdar og á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis verði lögð áhersla í umhverfismatsskýrslu.
     7.      Matsskyld framkvæmd: Framkvæmd sem háð er umhverfismati samkvæmt ákvæðum laga þessara ásamt þeirri starfsemi sem henni fylgir, sbr. 1. viðauka.
     8.      Mótvægisaðgerðir: Aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eða áætlunar.
     9.      Tilkynningarskyld framkvæmd: Framkvæmd sem tilkynna ber til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um hvort hún skuli háð umhverfismati, sbr. 1. viðauka.
     10.      Umhverfismatsskýrsla: Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar eða áætlunar og starfsemi sem henni fylgir ásamt tillögum um mótvægisaðgerðir eftir því sem við á.
     11.      Umsagnaraðilar: Opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lög þessi eða umhverfisáhrif þeirra.
     12.      Vöktun: Kerfisbundin mæling og skráning einstakra þátta í umhverfinu til að sannreyna umhverfisáhrif.

4. gr.
Efni umhverfismats.

    Í umhverfismati skal greina, lýsa og meta, með tilliti til viðkomandi framkvæmdar eða áætlunar, bein og óbein umtalsverð áhrif á eftirfarandi umhverfisþætti:
     a.      íbúa og heilbrigði manna,
     b.      líffræðilega fjölbreytni með sérstakri áherslu á tegundir og búsvæði sem njóta verndar,
     c.      land, landslag, víðerni, jarðmyndanir, jarðveg, vatn, loft og loftslag,
     d.      efnisleg verðmæti og menningarminjar,
     e.      næmi framkvæmdar eða áætlunar fyrir hættu á stórslysum og náttúruhamförum,
     f.      samspil þeirra þátta sem taldir eru upp í a–e-lið.

5. gr.
Umhverfismat yfir landamæri.

    Ef líklegt þykir að framkvæmd eða áætlun muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða ef ríki á Evrópska efnahagssvæðinu telur líklegt að það verði fyrir verulegum áhrifum af framkvæmd eða áætlun, skal hafa samráð við hlutaðeigandi ríki um umhverfismatið. Sama gildir ef líklegt þykir að framkvæmd í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif hér á landi.

II. KAFLI
Stjórnsýsla, forsamráð og samþætt málsmeðferð.
6. gr.
Yfirstjórn og framkvæmd.

    Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Ráðherra til aðstoðar er Skipulagsstofnun sbr. 2. mgr. Á varnar- og öryggissvæðum fer ráðherra varnarmála með lögsögu í samræmi við skilgreiningu í varnarmálalögum, sbr. og lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, og lög um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
    Hlutverk Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum þessum er:
     a.      að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim,
     b.      að veita upplýsingar og leiðbeiningar um umhverfismat framkvæmda og áætlana,
     c.      að taka ákvörðun um hvort tilkynningarskyldar framkvæmdir skuli háðar umhverfismati,
     d.      að annast kynningu matsáætlana og umhverfismatsskýrslna framkvæmdaraðila,
     e.      að gefa álit um matsáætlanir og umhverfismat framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir,
     f.      að veita ráðgjöf um umfang og áherslur umhverfismats áætlana og veita umsagnir um umhverfismatsskýrslur áætlana,
     g.      að starfrækja vefsjá og gagna- og samráðsgátt um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Skipulagsstofnun skal búa yfir eða hafa aðgang að sérfræðiþekkingu um umhverfismat áætlana og framkvæmda.

7. gr.
Gagna- og samráðsgátt.

    Skipulagsstofnun starfrækir landfræðilega gagna- og samráðsgátt um skipulag, umhverfismat og leyfisveitingar. Þar skal birta gögn, ákvarðanir og umsagnir vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana og leyfa til framkvæmdar. Allar umsagnir samkvæmt þessum lögum skulu berast í gáttina. Aðgangur að gáttinni er öllum opinn og án endurgjalds.

8. gr.
Forsamráð.

    Nú er fyrirhuguð framkvæmd háð umhverfismati samkvæmt lögum þessum og getur Skipulagsstofnun þá að eigin frumkvæði eða að frumkvæði framkvæmdaraðila eða leyfisveitanda staðið að forsamráði við fyrrnefnda aðila um fyrirliggjandi lögbundið ferli til að unnt sé að hefja framkvæmdina. Markmið forsamráðs er að stuðla að samræmdu og skilvirku ferli umhverfismats, skipulags og leyfisveitinga vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, einnig að greiða fyrir miðlun upplýsinga á milli framkvæmdaraðila, stjórnvalda og almennings auk þess að stuðla að gæðum rannsókna og gagna.
    Við forsamráð skal taka afstöðu til þess hvort sameina skuli skýrslugerð og/eða kynningu skv. 9.–11. gr.
    Forsamráð skal fara fram eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og unnt er.

9. gr.

Sameining skýrslugerðar og kynningar samkvæmt skipulagslöggjöf.

    Þegar framkvæmd sem fellur undir málsmeðferð skv. 19. gr. eða IV. kafla kallar jafnframt á skipulagsgerð á grundvelli skipulagslaga er heimilt að sameina skýrslugerð um umhverfismat framkvæmdarinnar samkvæmt lögum þessum og skýrslugerð um umhverfismat skipulagstillögunnar samkvæmt lögum þessum og skipulagslögum. Sama gildir um kynningu fyrir almenningi og umsagnaraðilum samkvæmt lögum þessum og skipulagslöggjöfinni.

10. gr.
Sameining skýrslugerðar og kynningar samkvæmt öðrum lögum.

    Ef skylt er að meta umhverfisáhrif samkvæmt öðrum lögum vegna leyfisveitinga til einstakra framkvæmda, sem jafnframt eru háðar umhverfismati skv. IV. kafla eða ákvörðun um matsskyldu skv. 19. gr., er heimilt að sameina það mat umhverfismati samkvæmt lögum þessum. Sama gildir um kynningu fyrir almenningi og umsagnaraðilum Hafa skal samráð við viðkomandi leyfisveitendur um slíka ákvörðun.

11. gr.
Samþætting skýrslugerðar og umsóknar um starfs- og rekstrarleyfi.

    Þegar um er að ræða framkvæmd vegna starfs- eða rekstrarleyfisskylds atvinnureksturs sem jafnframt er háð umhverfismati samkvæmt lögum þessum er framkvæmdaraðila heimilt að fengnu samþykki leyfisveitanda að leggja fram starfs- eða rekstrarleyfisumsókn samhliða umhverfismati framkvæmdarinnar þannig að á sama tíma verði unnið að umhverfismatsskýrslu og starfsleyfi.

III. KAFLI
Umhverfismat áætlana.
12. gr.
Ferli við umhverfismat áætlana.

    Umhverfismat áætlana er ferli sem samanstendur af eftirfarandi þáttum:
     a.      gerð umhverfismatsskýrslu,
     b.      kynningu og samráði um umhverfismatsskýrslu við umsagnaraðila og almenning og eftir því sem við á yfir landamæri,
     c.      afgreiðslu áætlunarinnar að teknu tilliti til niðurstöðu umhverfismats og samráðs.

13. gr.
Ábyrgð á umhverfismati áætlunar og tímasetning.

    Sá sem ábyrgð ber á áætlanagerð sem fellur undir lög þessi ber ábyrgð á umhverfismati hennar og kostnaði af gerð þess. Hann skal vinna umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati áætlunarinnar og annast kynningu og samráð í því skyni.
    Umhverfismat áætlunarinnar skal vinna samhliða áætlanagerðinni og liggja fyrir áður en áætlunin er samþykkt af viðkomandi stjórnvaldi eða lögð fyrir Alþingi.


14. gr.
Umhverfismatsskýrsla áætlunar.

    Umhverfismat áætlunar skal sett fram í umhverfismatsskýrslu sem verið getur hluti af greinargerð með áætluninni. Þar skal a.m.k. koma fram:
     a.      yfirlit yfir efni viðkomandi áætlunar og tengsl hennar við aðra áætlanagerð,
     b.      lýsing og mat á líklegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar þar sem lagt er mat á vægi umhverfisáhrifa út frá skilgreindum viðmiðum,
     c.      lýsing og mat raunhæfra valkosta við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar, þ.m.t. núllkosts,
     d.      lýsingu á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á,
     e.      samantekt á skýru og auðskiljanlegu máli á upplýsingum í a–d-lið,
     f.      nánari upplýsingar sem tilgreindar eru í reglugerð um efni umhverfismatsskýrslu.
             Samráð skal haft við Skipulagsstofnun um umfang og nákvæmni umhverfismatsins.
    Umhverfismatsskýrsla skal hafa að geyma upplýsingar sem sanngjarnt er að krefjast að teknu tilliti til fyrirliggjandi þekkingar, þekktra matsaðferða, efnis og nákvæmni áætlunarinnar og stöðu áætlunarinnar í stigskiptri áætlanagerð. Þá skal í umhverfismatsskýrslu koma fram að hve miklu leyti betur á við að fjalla um tiltekin umhverfisáhrif á síðari stigum áætlanagerðar til að forðast endurtekningar sama mats.

15. gr.
Kynning áætlunar og umhverfismatsskýrslu.

    Sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar skal kynna almenningi tillögu að áætluninni ásamt umhverfismatsskýrslu á áberandi hátt og leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila um tillöguna. Tillagan ásamt umhverfismatsskýrslu skal vera aðgengileg á netinu. Almenningi og umsagnaraðilum skal gefinn sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfismatsskýrsluna og koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi tillöguna og umhverfisáhrif hennar áður en áætlunin er afgreidd af viðkomandi stjórnvaldi eða lögð fyrir Alþingi.
    Heimilt er að víkja frá kynningartíma skv. 1. mgr. ef kveðið er á um annan kynningartíma í öðrum lögum.

16. gr.
Afgreiðsla áætlunar.

    Sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar skal við afgreiðslu áætlunar hafa hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum sem borist hafa við tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu, sem og ef borist hafa athugasemdir frá öðrum ríkjum vegna umhverfisáhrifa þar í landi.
    Við afgreiðslu áætlunar skal gerð samantekt um hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í áætlunina með hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og samráði um tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu. Þar skal einnig koma fram rökstuðningur fyrir endanlegri áætlun, í ljósi raunhæfra valkosta sem skoðaðir voru, og upplýsingar um hvernig hagað verði vöktun vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa af framfylgd áætlunarinnar.
    Endanleg áætlun og samantekt skv. 2. mgr. skal kynnt umsagnaraðilum og vera aðgengileg á netinu.

IV. KAFLI
Umhverfismat framkvæmda.
17. gr.
Ferli við umhverfismat framkvæmda.

    Umhverfismat framkvæmda er ferli sem samanstendur af eftirfarandi þáttum:
     a.      gerð, kynningu og afgreiðslu matsáætlunar,
     b.      gerð umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila,
     c.      kynningu og samráði um umhverfismatsskýrslu við umsagnaraðila og almenning og eftir því sem við á yfir landamæri,
     d.      athugun Skipulagsstofnunar á umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila, eftir atvikum viðbótarupplýsingum skv. 2. mgr. 21. gr., ásamt umsögnum umsagnaraðila og almennings, og álit stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdarinnar,
     e.      að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsókna um leyfi til framkvæmda.

18. gr.
Ábyrgð á umhverfismati framkvæmdar.

    Framkvæmdaraðili sem hyggst hefja framkvæmd sem er matsskyld samkvæmt lögum þessum ber ábyrgð á umhverfismati framkvæmdarinnar og kostnaði af gerð þess, þ.m.t. kostnaði af málsmeðferð Skipulagsstofnunar. Hann skal vinna matsáætlun og umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati framkvæmdarinnar.
    Framkvæmdaraðili sem hyggst hefja framkvæmd sem er tilkynningarskyld samkvæmt lögum þessum ber ábyrgð á tilkynningu framkvæmdarinnar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um hvort hún skuli háð umhverfismati.

19. gr.
Framkvæmdir sem kunna að vera háðar umhverfismati.

    Tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lög þessi skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Sama á við um framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B í 1. viðauka ef þær eru fyrirhugaðar á verndarsvæði, sbr. Iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.
    Framkvæmdaraðili skal tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd skv. 1. mgr. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Hann skal, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir.
    Telji framkvæmdaraðili með hliðsjón af viðmiðum þeim sem fram koma í 2. viðauka laga þessara að framkvæmd í flokki B skuli undirgangast umhverfismat skal hann tilkynna Skipulagsstofnun um það og rökstyðja afstöðu sína. Fer þá um málsmeðferð framkvæmdarinnar skv. 21.–24. gr.

20. gr.
Matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar.

    Skipulagsstofnun skal innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögum þessum. Skipulagsstofnun skal áður leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda, og skulu þeir veita umsögn innan fjögurra vikna frá því að beiðni Skipulagsstofnunar berst. Ef umsögn berst ekki innan fjögurra vikna getur Skipulagsstofnun tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Skipulagsstofnun skal gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og hafa hana aðgengilega á netinu.
    Nú er niðurstaða Skipulagsstofnunar að tilkynningarskyld framkvæmd skuli ekki háð umhverfismati og getur Skipulagsstofnun þá sett fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif, byggðar á þeim upplýsingum sem fram hafa komið við umfjöllun um tilkynningu framkvæmdaraðila.

21. gr.
Matsáætlun.

    Nú er fyrirhuguð framkvæmd háð umhverfismati samkvæmt lögum þessum og skal framkvæmdaraðili þá gera matsáætlun og senda til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er.
    Skipulagsstofnun kynnir matsáætlun framkvæmdaraðila fyrir almenningi á áberandi hátt og hefur aðgengilega á netinu. Almenningi skal að lágmarki veittur fjögurra vikna frestur til að skila umsögn um matsáætlunina. Stofnunin skal samhliða leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda, og skulu þeir hafa fjögurra vikna frest frá því að beiðni Skipulagsstofnunar barst til að veita umsögn um málið. Ef umsögn berst ekki innan fjögurra vikna getur Skipulagsstofnun lokið áliti sínu, sbr. 3. mgr., á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
    Skipulagsstofnun kynnir framkvæmdaraðila álit sitt um matsáætlun innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast. Framkvæmdaraðili skal leggja álitið til grundvallar við umhverfismat framkvæmdarinnar. Álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun skal fela í sér leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu, m.a. með hliðsjón af framkomnum umsögnum annarra aðila. Skipulagsstofnun skal gera þeim sem veitt hafa umsögn um matsáætlunina grein fyrir álitinu og hafa það aðgengilegt á netinu ásamt matsáætlun framkvæmdaraðila.

22. gr.
Umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila.

    Ef framkvæmdaraðili hyggur á framkvæmd sem háð er umhverfismati skal hann að lokinni málsmeðferð skv. 21. gr. vinna skýrslu um umhverfismat hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar. Framkvæmdaraðili skal tryggja að umhverfismatið sé unnið af til þess hæfum sérfræðingum. Gerð og efni umhverfismatsskýrslu skal vera í samræmi við matsáætlun og álit Skipulagsstofnunar um hana, sbr. 21. gr., og innihalda a.m.k.:
     a.      lýsingu á framkvæmdinni, svo sem um staðsetningu, hönnun og stærð, og aðra þætti framkvæmdarinnar sem máli skipta,
     b.      lýsingu og mat á líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þar sem lagt er mat á vægi umhverfisáhrifa út frá skilgreindum viðmiðum,
     c.      lýsingu og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefur kannað og upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn, með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar,
     d.      lýsingu á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á,
     e.      samantekt á skýru og auðskiljanlegu máli um upplýsingar í a–d-lið,
     f.      nánari upplýsingar sem tilgreindar eru í reglugerð um efni umhverfismatsskýrslu.
    Í umhverfismatsskýrslu skulu vera upplýsingar sem sanngjarnt má teljast að krafist sé svo að unnt sé að taka afstöðu til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar að teknu tilliti til fyrirliggjandi þekkingar og aðferða. Framkvæmdaraðili skal taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, þar sem við á.

23. gr.
Kynning umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila.

    Þegar umhverfismatsskýrsla skv. 22. gr. liggur fyrir leggur framkvæmdaraðili hana fyrir Skipulagsstofnun til kynningar og athugunar. Skipulagsstofnun kynnir hina fyrirhuguðu framkvæmd og umhverfismatsskýrslu fyrir almenningi á áberandi hátt og hefur umhverfismatsskýrsluna aðgengilega á netinu. Almenningi skal að lágmarki veittur sex vikna frestur til að skila umsögn um skýrsluna. Stofnunin skal samhliða leita umsagna umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda. Ef umsögn umsagnaraðila berst ekki innan sex vikna getur Skipulagsstofnun lokið áliti sínu um umhverfismat framkvæmdar, sbr. 1. mgr. 24. gr., á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
    Skipulagsstofnun getur farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn enda sé framlagning þeirra gagna nauðsynleg til að komast megi að niðurstöðu um umhverfismat framkvæmdarinnar.
    Heimilt er Skipulagsstofnun að hafna því að taka umhverfismatsskýrslu til kynningar og athugunar í þeim tilvikum þegar hún uppfyllir ekki skilyrði 22. gr. Skipulagsstofnun skal þá leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu hennar.

24. gr.
Álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar.

    Innan sjö vikna frá því að kynningu á umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila skv. 23. gr. lýkur skal Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt um umhverfismat framkvæmdarinnar, byggt á umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila, framkomnum umsögnum umsagnaraðila og almennings og, eftir því sem við getur átt, öðrum fyrirliggjandi gögnum sem varða umhverfismat framkvæmdarinnar. Í álitinu skal fjalla um forsendur, aðferðir og ályktanir um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila. Þá skal þar koma fram rökstudd niðurstaða stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdarinnar og, eftir því sem við á, skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun sem beint er til leyfisveitenda.
    Þegar álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar liggur fyrir skal það kynnt framkvæmdaraðila og þeim sem veittu umsögn um umhverfismatsskýrsluna og vera aðgengilegt almenningi á netinu og kynnt á áberandi hátt.

V. KAFLI
Kröfur vegna leyfisveitinga.
25. gr.
Leyfi til framkvæmda.

    Óheimilt er að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir lög þessi fyrr en álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar skv. 24. gr. liggur fyrir eða ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. um að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati.

26. gr.
Afgreiðsla leyfis til tilkynningarskyldra framkvæmda.

    Með umsókn um leyfi til framkvæmdar sem fellur í flokk B, þar sem liggur fyrir ákvörðun um að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati, skal fylgja greining framkvæmdaraðila á því hvort forsendur matsskylduákvörðunar hafi breyst verulega frá því að ákvörðun um matsskyldu skv. 18. gr. var tekin, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.
    Við ákvörðun um leyfi til framkvæmdar skv. 1. mgr. skal leyfisveitandi kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun skv. 19. gr. og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd.
    Leyfisveitandi skal tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina um kæruheimild og kærufrest. Þá skal leyfisveitandi gera leyfið aðgengilegt almenningi á netinu.

27. gr.
Afgreiðsla leyfis til matsskyldra framkvæmda.

    Með umsókn um leyfi til framkvæmdar sem háð er umhverfismati samkvæmt lögum þessum skal fylgja greining framkvæmdaraðila á því hvort forsendur umhverfismats hafi breyst verulega frá umhverfismatsskýrslu og áliti um umhverfismat framkvæmdarinnar, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.
    Við ákvörðun um leyfi til framkvæmdar skv. 1. mgr. skal leyfisveitandi kynna sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat hennar til grundvallar.
    Leyfisveitandi skal taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er rökstudd grein fyrir samræmi við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar. Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr., skal það koma fram í leyfinu.
    Leyfisveitandi skal tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína og gera leyfi, og greinargerð skv. 3. mgr., aðgengilegt almenningi á netinu innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina kæruheimild og kærufrest.

VI. KAFLI
Endurskoðun umhverfismats, undanþágur og málskot.
28. gr.
Endurskoðun umhverfismats.

    Telji framkvæmdaraðili eða leyfisveitandi, sem hefur móttekið umsókn um leyfi til framkvæmda, að forsendur umhverfismatsskýrslu hafi breyst verulega frá því að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar skv. 24. gr. lá fyrir, getur hann óskað álits Skipulagsstofnunar á því hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdarinnar að hluta eða í heild. Ef framkvæmd hefst ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar liggur fyrir skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi leyfisveitandi óska eftir slíku áliti Skipulagsstofnunar.
    Við gerð álits Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdar skv. 1. mgr. skal leggja til grundvallar hvort forsendur hafi breyst verulega frá því að álit um umhverfismat framkvæmdarinnar lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.
    Verði niðurstaðan sú að endurskoða þurfi umhverfismat að hluta eða í heild skal fara með málið skv. 21.–24. gr. eftir því sem við á.
    Álit Skipulagsstofnunar um endurskoðun umhverfismats skal auglýst með áberandi hætti. Það skal kynnt framkvæmdaraðila og leyfisveitendum og haft aðgengilegt á netinu.

29. gr.
Undanþágur frá umhverfismati.

    Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, að ákveða að tiltekin framkvæmd eða hluti hennar sé ekki háð lögum þessum. Það á þó aðeins við þegar eini tilgangur framkvæmdarinnar er varnir landsins eða almannavarnaviðbrögð og málsmeðferð samkvæmt lögum þessum mundi hafa skaðleg áhrif á tilgang framkvæmdarinnar.
    Ráðherra er heimilt í sérstökum undantekningartilvikum og þegar markmiðum laga þessara er náð að undanskilja tiltekna framkvæmd, eða hluta hennar, ákvæðum laga þessara, þó með fyrirvara um umhverfismat yfir landamæri skv. 5. gr. þegar beiting þeirra mundi hafa skaðleg áhrif á tilgang framkvæmdarinnar. Í slíkum tilvikum skal ráðherra kveða á um hvaða gögnum skuli safnað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og aðgang almennings að þeim og kynna framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og almenningi ástæður fyrir undanþágunni. Ráðherra ber áður en undanþága er veitt að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um fyrirhugaða undanþágu.

30. gr.
Málskot.

    Ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

VII. KAFLI
Eftirlit og stjórnvaldssektir.
31. gr.
Eftirlit framkvæmda.

    Leyfisveitandi eða aðrir sem falið er með lögum eftirlit með framkvæmdum hafa eftirlit með því að matsskyldri framkvæmd sé hagað í samræmi við leyfi og að framfylgt sé ákvæðum leyfisins um mótvægisaðgerðir og vöktun framkvæmda. Skal eftirlitið og hversu lengi það varir vera í hlutfalli við eðli, staðsetningu og stærð framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar. Að öðru leyti fer um eftirlitið samkvæmt hlutaðeigandi lögum.

32. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Skipulagsstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila sem hefur hafið framkvæmd sem fellur í flokk A skv. 1. viðauka án þess að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, sbr. IV. kafla. Skipulagsstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila sem hefur hafið framkvæmd sem fellur í flokk B skv. 1. viðauka án þess að tilkynna hana til ákvörðunar um matsskyldu, sbr. 19. gr. Skipulagsstofnun getur einnig lagt stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila ef hann veitir stofnuninni rangar upplýsingar um framkvæmd eða umhverfisáhrif hennar, sbr. ákvæði 19. gr., 1. mgr. 21. gr., 22. gr. og 2. mgr. 23. gr. Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af alvarleika brotsins og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna framkvæmdaraðila. Loks ber að líta til fjárhagslegs styrks framkvæmdaraðila.
    Stjórnvaldssektir geta numið frá 100.000 kr. til 25.000.000 kr.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina er tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og skulu stjórnvaldssektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
    Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun er tekin. Málskot frestar aðför.
    Heimild Skipulagsstofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að brot átti sér stað. Frestur rofnar þegar Skipulagsstofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
33. gr.
Reglugerð og leiðbeiningar um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

    Ráðherra setur í reglugerð, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, nánari ákvæði um:
     a.      umhverfismat yfir landamæri skv. 5. gr.
     b.      gagna- og samráðsgátt skv. 7. gr.,
     c.      forsamráð skv. 8. gr.,
     d.      sameiningu skýrslugerðar og kynningar skv. 9.–11. gr.,
     e.      kynningu og samráð gagnvart almenningi og umsagnaraðilum skv. III. og IV. kafla,
     f.      umfang, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu áætlunar skv. 14. gr.,
     g.      tilkynningar um framkvæmdir skv. 19. gr.,
     h.      matsáætlun og umhverfismatsskýrslu framkvæmdar skv. 21. og 22. gr.,
     i.      athugun Skipulagsstofnunar skv. 23. og 24. gr.,
     j.      leyfi til framkvæmda skv. 25.–27. gr.,
     k.      málsmeðferð við endurskoðun umhverfismats skv. 28. gr.
    Skipulagsstofnun gefur út leiðbeiningar um umhverfismat framkvæmda og áætlana framkvæmda, m.a. um:
     a.      forsamráð skv. 8. gr.,
     b.      samráð um umfang og áherslur umhverfismats áætlana skv. 13. gr.,
     c.      efni og framsetningu vöktunaráætlana skv. d-lið 14. gr.,
     d.      kynningu og samráð gagnvart almenningi og umsagnaraðilum skv. III. og IV. kafla,
     e.      efni og framsetningu matsáætlana og umhverfismatsskýrslna skv. 21. og 22. gr.,
     f.      flokkun, viðmið og vægi umhverfisáhrifa,
     g.      leyfi til framkvæmda sem falla undir lögin.
    Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, að mæla svo um í reglugerð að framkvæmd sem ekki er talin upp í 1. viðauka við lög þessi skuli háð umhverfismati ef sýnt þykir að hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Sama gildir um framkvæmd sem varðar alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Við ákvörðunina skal ráðherra fylgja viðmiðum í 2. viðauka við lög þessi og leita umsagnar Skipulagsstofnunar, leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni.
    Ráðherra setur, að fenginni tillögu Skipulagsstofnunar, gjaldskrá vegna kostnaðar stofnunarinnar við framkvæmd laganna varðandi umhverfismat einstakra framkvæmda.

34. gr.
Undanþága frá frestum.

    Þrátt fyrir tímafresti sem kveðið er á um í 19.–24. gr. getur Skipulagsstofnun, í undantekningartilvikum og í samráði við framkvæmdaraðila, framlengt þá fresti sem þar er kveðið á um. Á það við í viðamiklum málum, svo sem vegna eðlis, staðsetningar eða stærðar framkvæmdar. Skal þá framkvæmdaraðila tilkynnt skriflega um ástæðu framlengingar og fyrirhugaða tímasetningu ákvörðunar.
    Skipulagsstofnun er heimilt, í samráði við framkvæmdaraðila, að lengja kynningartíma matsáætlunar og umhverfismatsskýrslu skv. 1. mgr. 23. gr. í viðamiklum málum.

35. gr.
Takmarkanir á upplýsingagjöf.

    Með fyrirvara um ákvæði upplýsingalaga skulu ákvæði laga þessara ekki hafa áhrif á skyldur til að virða takmarkanir sem lög og stjórnsýslufyrirmæli svo og viðteknar lagavenjur setja um iðnaðar- og viðskiptaleynd, þ.m.t. hugverkarétt, eða til að tryggja almannaheill.

36. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á eftirfarandi gerðum:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið, sem vísað er til í lið 2i í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002.
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/92/ESB frá 13. desember 2011 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið sem vísað er til í lið 1a í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230/2012.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/52/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið, sem vísað er til í lið 1a I. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/2015 frá 30. apríl 2015.

37. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana.
    Ákvæði 6. gr. kemur til framkvæmda 1. desember 2022.

38. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Skipulagslög, nr. 123/2010: 5. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
                      Við gerð skipulagsáætlana skal gera grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Þegar framkvæmd sem fellur undir málsmeðferð IV. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana kallar jafnframt á skipulagsgerð á grundvelli þessara laga er sveitarstjórn heimilt, í samráði við framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnun, að sameina skýrslugerð um skipulagstillöguna og umhverfismat hennar og skýrslugerð um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sama gildir um kynningu fyrir almenningi og umsagnaraðilum samkvæmt lögum þessum og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlan. Skal þá skipulagstillaga kynnt með þeim valkostum sem gerð er grein fyrir í umhverfismati framkvæmdar. Þegar skýrslugerð er sameinuð samkvæmt þessari málsgrein getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaraðila heimild til að vinna að umhverfismati skipulagstillögunnar.
     2.      Lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011: Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
                  a.      Orðin „eða ætlað brot á þátttökurétti almennings“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
                  b.      A-liður 3. mgr. orðast svo: ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, svo sem ef kærandi telur athafnir eða athafnaleysi hafa brotið gegn þátttökuréttindum almennings eða annan ágalla hafa verið á málsmeðferð.
                  c.      Í stað orðanna „lög um mat á umhverfisáhrifum“ í b-lið 3. mgr. kemur: lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, m.a. vegna ætlaðs brots á þátttökuréttindum almennings með athöfum eða athafnaleysi eða annars ágalla sem kann að hafa verið á málsmeðferð.
                  d.      D-liður 3. mgr. fellur brott.
                  e.      Við 4. mgr. bætist: eða samþykkta ársreikninga.
     3.      Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013: Í stað orðsins „frummatsskýrslu“ í 2. mgr. 68. gr. laganna kemur: umhverfismatsskýrslu.

Ákvæði til bráðabirgða.

     1.      Í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir lög þessi er lokið við gildistöku laga þessara skulu ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda.
     2.      Þegar frummatsskýrsla vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar hefur verið send Skipulagsstofnun við gildistöku laga þessara er heimilt að ljúka umhverfismati samkvæmt þeirri málsmeðferð sem gildir í eldri lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
     3.      Þegar framkvæmdir í flokki B og C samkvæmt eldri lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, hafa verið tilkynntar til Skipulagsstofnunar eða sveitarfélags til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. sömu laga við gildistöku laga þessara er heimilt að ljúka þeirri málsmeðferð samkvæmt því sem gildir í eldri lögunum.
     4.      Þrátt fyrir ákvæði 15. gr. og 3. mgr. 16. gr. fer um kynningu, samráð og birtingu matsskyldra áætlana og umhverfisskýrslna þeirra samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006, fram til 1. desember 2022.
     5.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 20. gr., 2. og 3. mgr. 21. gr., 1. mgr. 23. gr., 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 27. gr. fer um kynningu, samráð, birtingu umhverfismatsskýrslna framkvæmda og birtingu leyfa til framkvæmda samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, til 1. desember 2022.

1. viðauki.

    Í flokki A eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar umhverfismati. Í flokki B eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli umhverfismati samkvæmt lögum þessum, sbr. einnig 2. viðauka. Sama á við um framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B ef þær eru fyrirhugaðar á verndarsvæði, sbr. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.

Flokkur framkvæmda A B
1. Landbúnaður, skógrækt og fiskeldi.
1.01 Framkvæmdir til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli sem taka til 20 ha svæðis eða stærra. X
1.02 Framkvæmdir til að leggja óræktað land eða lítt snortið svæði undir þaulnýtinn landbúnað sem taka til 5 ha svæðis eða stærra. X
1.03 Vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þ.m.t. áveitu- og framræsluframkvæmdir, sem hafa áhrif á 2 ha eða stærra svæði. X
1.04 Nýræktun skóga sem tekur til 50 ha eða stærra svæðis. Varanleg skógareyðing sem tekur til 0,5 ha svæðis eða stærra. X
1.05 Uppgræðsla lands á verndarsvæðum. X
1.06 Stöðvar eða bú með þauleldi alifugla eða svína með a.m.k.:
i. 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 fyrir hænur,
ii. 3.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða
iii. 900 stæði fyrir gyltur.
X
1.07 Stöðvar eða bú með þauleldi búfjár utan þess sem tilgreint er í tölul. 1.06. X
1.08 Sjókvíaeldi þar sem hámarkslífmassi er 3.000 tonn eða meiri. X
1.09 Þauleldi á fiski, annað en það sem tilgreint er í tölul. 1.09, þar sem hámarkslífmassi er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar eða þar sem hámarkslífmassi er 20 tonn eða meiri og fráveita er í ferskvatn. X
1.10 Endurheimt lands frá hafi. X
2. Vinnsla auðlinda í jörðu.
2.01 Efnistaka þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira. X
2.02 Efnistaka, utan þess sem tilgreint er í tölul. 2.01, þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra. X
2.03 Neðanjarðarnámur. X
2.04 Djúpborun (að frátalinni borun til að kanna stöðugleika jarðvegs), einkum:
i. borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum
ii. borun eftir jarðhita á lághitasvæðum þar sem ölkeldur, laugar eða hverir eru á yfirborði eða í næsta nágrenni,
iii. borun fyrir geymslu kjarnorkuúrgangs,
iv. vinnsla og rannsóknarboranir vegna kolvetnis utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka,
v. borun eftir vatni þar sem gert er ráð fyrir að vinna a.m.k. 70 l/sek.
X
2.05 Iðjuver ofan jarðar til að nema kol, jarðolíu, jarðgas og málmgrýti, svo og jarðbiksleir. X
3. Orkuiðnaður.
3.01 Olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiksleir á dag. X
3.02 Öll orkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira. Jarðvarmavirkjanir og önnur varmaorkuver með 50 MW uppsett varmaafl eða meira. X
3.03 Kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar, einnig þegar slík orkuver eða kjarnakljúfar (kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar teljast ekki lengur til slíkra stöðva þegar öll kjarnakleyf efni og önnur geislamenguð efni hafa verið endanlega fjarlægð af staðnum) eru rifnir niður eða teknir úr notkun (nema rannsóknastöðvar með yfir 1 kW heildarhitaafköst þar sem fer fram umbreyting á kjarnakleyfum efnum og tímgunarefnum). X
3.04 Stöðvar þar sem geisluð kjarnakleyf efni eru endurunnin. Stöðvar til framleiðslu eða auðgunar kjarnakleyfra efna, til vinnslu geislaðra kjarnakleyfra efna eða mjög geislavirks úrgangs, til endanlegrar geymslu á geisluðum kjarnakleyfum efnum, eingöngu til endanlegrar geymslu á geislavirkum úrgangi eða eingöngu til geymslu (til meira en tíu ára) á geisluðum kjarnakleyfum efnum eða geislavirkum úrgangi annars staðar en á framleiðslustað. X
3.05 Stöðvar til vinnslu og geymslu á geislavirkum úrgangi, utan þeirra sem tilgreindar eru í tölul. 3.04. X
3.06 Vinnsla á meira en 500 tonnum af jarðolíu og meira en 500.000 m3 af jarðgasi á dag. X
3.07 Flutningskerfi gass, gufu eða heits vatns. X
3.08 Leiðslur sem eru 10 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á gasi, olíu eða annars konar efnum/efnasamböndum. X
3.09 Leiðslur sem eru 10 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á koltvísýringi (CO2) til varanlegrar geymslu í jörðu, ásamt þrýstiaukadælu. X
3.10 Leiðslur til flutnings á olíu og gasi og til flutnings á koltvísýringi (CO2) til varanlegrar geymslu í jörðu utan þess sem tilgreint er í tölul. 3.08 og 3.09. X
3.11 Geymsla á jarðgasi ofan jarðar. X
3.12 Neðanjarðargeymsla á eldfimu gasi. X
3.13 Geymsla jarðefnaeldsneytis ofan jarðar. X
3.14 Gerð taflna úr kolum og brúnkolum. X
3.15 Vatnsorkuver, utan þess sem fellur undir tölul. 3.02, með uppsett rafafl 200 kW eða meira. X
3.16 Vindorkuver, utan þess sem fellur undir tölul. 3.02, með uppsett rafafl 1 MW eða meira eða mannvirki sem eru 25 m eða hærri. X
3.17 Jarðvarmaver eða iðjuver til framleiðslu á rafmagni, gufu og heitu vatni sem nemur 2.500 kW uppsettu afli eða meira, utan þess sem fellur undir tölul. 3.02. X
3.18 Niðurdælingarsvæði fyrir koltvísýring (CO2) í jörðu. X
3.19 Mannvirki sem hafa þann tilgang að fanga koltvísýring (CO2) til geymslu í jörðu frá verksmiðjum eða iðjuverum sem heyra undir flokk A eða frá verksmiðjum eða iðjuverum þar sem árleg heildarföngun koltvísýrings nemur 1,5 megatonnum eða meira. X
3.20 Mannvirki sem hafa þann tilgang að fanga koltvísýring (CO2) til varanlegrar geymslu í jörðu úr andrúmslofti eða frá verksmiðjum eða iðjuverum utan þess sem fellur undir tölul. 3.19. X
4. Framleiðsla og vinnsla málma.
4.01 Verksmiðjur þar sem fram fer frumbræðsla á steypujárni og stáli. Framleiðsla hrámálms, sem inniheldur ekki járn úr grýti, kirni eða afleiddu hráefni, sem fer fram með málmvinnsluaðferðum, efnafræðilegum aðferðum eða rafgreiningaraðferðum. X
4.02 Stöðvar til framleiðslu á steypujárni og stáli (fyrsta og önnur bræðsla) ásamt samfelldri steypingu þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.03 Stöðvar til vinnslu á járnkenndum málmum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2:
i. heitvölsunarstöðvar,
ii. smiðjur með hömrun,
iii. varnarhúðun með bræddum málmum.
X
4.04 Málmsteypusmiðjur fyrir járnkennda málma þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.05 Stöðvar til bræðslu, einnig málmblendis, á járnlausum málmum öðrum en góðmálmum, einnig endurheimtum vörum (hreinsun, steypa í steypusmiðjum o.s.frv.) þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.06 Stöðvar þar sem unnið er að yfirborðsmeðferð málma og plastefna með rafgreiningar- og efnaaðferðum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.07 Framleiðsla og samsetning vélknúinna ökutækja og framleiðsla á hreyflum í slík ökutæki þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.08 Skipasmíðastöðvar þar sem gólfflötur mannvirkja er a.m.k. 1.000 m2. X
4.09 Stöðvar til smíða og viðgerða á loftförum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.10 Framleiðsla á járnbrautarbúnaði þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.11 Málmmótun með sprengiefnum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.12 Stöðvar til að brenna og glæða málmgrýti þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5. Steinefnaiðnaður.
5.01 Koxofnar (þurreiming kola) þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5.02 Sementsverksmiðjur þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5.03 Stöðvar til framleiðslu á gleri og trefjaefni þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5.04 Stöðvar til að bræða steinefni og framleiða steinefnatrefjar þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5.05 Framleiðsla á keramikvörum með brennslu, svo sem þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteinum, flísum, leirmunum eða postulíni, þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
6. Efnaiðnaður.
6.01 Efnaverksmiðjur sem framleiða:
i. lífrænt hráefni,
ii. ólífrænt hráefni,
iii. áburð sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur),
iv. grunnvörur fyrir plöntuverndarvörur og sæfivörur,
v. grunnlyfjavörur með efnafræðilegum og líffræðilegum aðferðum,
vi. sprengiefni.
X
6.02 Meðferð á hálfunnum vörum og framleiðsla kemískra efna þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
6.03 Framleiðsla á sæfivörum, plöntuverndarvörum og lyfjum, málningu og lakki, gúmmílíki og peroxíðum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
6.04 Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu eða efnavörur með 50.000 m3 geymslugetu eða meira. X
6.05 Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu og önnur kemísk efni þar sem geymslugeta er a.m.k. 200 m3 utan þess sem tilgreint er í tölul. 6.04. X
7. Matvælaiðnaður.
7.01 Framleiðsla á olíu og fitu úr jurtum og dýrum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.02 Pökkun og niðursuða á jurta- og dýraafurðum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.03 Framleiðsla á mjólkurvörum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.04 Öl- og maltgerð þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.05 Framleiðsla á sætindum og sírópi þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.06 Sláturhús þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.07 Stöðvar til sterkjuframleiðslu þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.08 Fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 1.000 tonn á sólarhring eða meiri. X
7.09 Fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur, utan þess sem tilgreint er í tölul. 7.08 þar sem framkvæmd er staðsett í þéttbýli og framleiðslugeta er a.m.k. 500 tonn á sólarhring. X
7.10 Sykurverksmiðjur þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
8. Textíl-, leður-, timbur- og pappírsiðnaður.
8.01 Verksmiðjur sem framleiða:
i. pappírsdeig úr timbri eða svipuðum trefjaefnum,
X
8.02 Verksmiðjur til framleiðslu á pappír og pappa utan þeirra sem tilgreind eru í tölul. 8.01 og þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
8.03 Stöðvar þar sem fram fer formeðferð (t.d. þvottur, bleiking, mersivinna) eða litun trefja eða textílefna þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
8.04 Stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
8.05 Stöðvar þar sem fram fer vinnsla og framleiðsla á sellulósa þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
9.     Gúmmíiðnaður.
9.01 Framleiðsla og meðferð á vörum úr gúmmílíki. X
10. Grunnvirki.
10.01 Iðnaðarframkvæmd þar sem framkvæmdasvæði eða gólfflötur bygginga er a.m.k. 20.000 m2. X
10.02 Framkvæmd við uppbyggingu mannvirkja, svo sem við byggingu verslunarmiðstöðva, bílastæða, íþróttaleikvanga, háskóla og sjúkrahúsa og sambærilega mannvirkjagerð þar sem framkvæmdasvæði eða gólfflötur bygginga er a.m.k. 20.000 m2. X
10.03 Bygging samgöngumiðstöðva þar sem framkvæmdasvæði er a.m.k. 5.000 m2. X
10.04 Flugvellir með 2.100 m meginflugbraut eða lengri. X
10.05 Flugvellir með styttri en 2.100 m meginflugbraut. X
10.06 Lagning hraðbrauta og sambærilegra vega, svo sem lagning nýrra vega með aðskildum akstursstefnum og mislægum vegamótum. X
10.07 Lagning nýrra vega, enduruppbygging vega eða breikkun vega úr tveimur akreinum í a.m.k. fjórar sem eru 10 km eða lengri. X
10.08 Lagning nýrra vega eða enduruppbygging eða breikkun vega utan þéttbýlis sem ekki eru tilgreindir í tölul. 10.06 eða 10.07 sem eru a.m.k. 5 km. X
10.09 Viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir og viðlegubryggjur til lestunar og löndunar utan hafna (aðrar en ferjulægi) fyrir skip stærri en 1.350 tonn. X
10.10 Hafnir, vatnaleiðir og viðlegubryggjur, utan þess sem tilgreint er í tölul. 10.09 þar sem framkvæmdasvæði er a.m.k. 1 ha. X
10.11 Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem 3 km2 lands eða meira fara undir vatn eða rúmtak vatns er meira en 10 milljónir m3. X
10.12 Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem framkvæmdasvæði er a.m.k. 1 ha utan þess sem tilgreint er í tölul. 10.11. X
10.13 Lagning járnbrauta um langar vegalengdir. X
10.14 Járnbrautir, sporvagnar, lestir í lofti og neðan jarðar, svifbrautir og ámóta brautir af sérstakri gerð sem notaðar eru eingöngu eða aðallega til fólksflutninga. X
10.15 Lagning loftlína til flutnings á raforku með a.m.k. 132 kV spennu. X
10.16 Lagning loftlína til flutnings raforku, utan þess sem fellur undir tölul. 10.15, með a.m.k. 66 kV spennu; einnig óháð spennu ef staðsett á verndarsvæði. Lagning strengja í jörð, vatn eða sjó sem eru a.m.k. 10 km og utan þéttbýlis, einnig styttri en 10 km ef staðsettir á verndarsvæðum utan þéttbýlis. X
10.17 Lagning vatnsveitu um langan veg. X
10.18 Mannvirki til að verjast rofi á strandlengjum á verndarsvæðum, t.d. með stíflugörðum, brimbrjótum, hafnargörðum og öðrum varnarmannvirkjum gegn ágangi sjávar. Landfyllingar þar sem áætluð uppfylling er 5 ha eða stærri og óháð stærð á verndarsvæðum. Undanskilið er viðhald og endurbygging framangreindra mannvirkja. X
10.19 Vinnsla grunnvatns eða íveita vatns í grunnvatn með 300 l/sek. meðalrennsli eða meira á ári. X
10.20 Vinnsla grunnvatns eða íveita vatns í grunnvatn, utan þess sem fellur undir tölul. 10.19, með sem nemur a.m.k. 70 l/sek. X
10.21 Mannvirkjagerð þegar fyrirhugað er að veita meira en 1.000 l/sek. af vatni á milli vatnasviða. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn. X
10.22 Mannvirkjagerð þegar fyrirhugað er að veita vatni á milli vatnasviða, utan þess sem fellur undir tölul. 10.21. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn. X
11. Aðrar framkvæmdir.
11.01 Varanlegar kappaksturs- og reynsluakstursbrautir fyrir vélknúin ökutæki. X
11.02 Förgunarstöðvar þar sem spilliefni eru brennd, meðhöndluð með efnum eða urðuð. Aðrar förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári. X
11.03 Förgunarstöðvar þar sem úrgangur er brenndur, meðhöndlaður með efnum eða urðaður, utan þess sem tilgreint er í tölul. 11.02. X
11.04 Skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða atvinnustarfsemi, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði með afkastagetu a.m.k. 150.000 persónueiningar. X
11.05 Skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða atvinnustarfsemi, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði með afkastagetu a.m.k. 2.000 persónueiningar utan þess sem tilgreint er í tölul. 11.04. Sams konar framkvæmdir á verndarsvæðum og þar sem losað er í viðkvæman viðtaka ef afkastageta nemur a.m.k. 100 persónueiningum. X
11.06 Förgunarstöðvar fyrir seyru. X
11.07 Geymsla brotajárns, þ.m.t. farartækja, sem er a.m.k. 1.500 tonn á ári. X
11.08 Prófunaraðstaða fyrir vélar, hverfla eða hvarfrými. X
11.09 Stöðvar sem framleiða steinefnatrefjar. X
11.10 Stöðvar til að endurvinna sprengiefni eða eyða því. X
11.11 Förgun sláturúrgangs. X
11.12 Endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð eru meira en 500 tonn af úrgangi á ári. X
11.13 Varnargarðar til varnar ofanflóðum í þéttbýli. X
12. Ferðaþjónusta og afþreying.
12.01 Skíðabrekkur, skíðalyftur, kláfar og tengdar framkvæmdir sem ná yfir 15 ha svæði, eða þar sem mannvirki eru 15 m eða hærri eða framkvæmdir eru á verndarsvæði eða jökli. X
12.02 Smábátahafnir með a.m.k. 100 bátalægi. X
12.03 Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á miðhálendinu og á verndarsvæðum á láglendi utan þéttbýlis. X
12.04 Framkvæmdir við uppbyggingu orlofsþorpa eða hótela og tengdra framkvæmda utan þéttbýlis þar sem heildarbyggingarmagn er a.m.k. 5.000 m2 eða gestafjöldi (gistirúm) a.m.k. 200. X
12.05 Varanleg tjaldsvæði og hjólhýsasvæði sem eru a.m.k. 10 ha og hjólhýsasvæði óháð stærð á verndarsvæðum. X
12.06 Skemmtigarðar sem ná yfir a.m.k. 2 ha svæði. X
12.07 Golfvellir sem eru a.m.k. 18 holur. X
13. Breytingar og viðbætur við aðrar framkvæmdir.
13.01 Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf fer yfir þau viðmið sem flokkur A setur. X
13.02 Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A, utan þess sem fellur undir tölul. 13.01, og flokki B sem hafa verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. X
13.03 Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A sem ráðist er í eingöngu eða aðallega til að þróa og prófa nýjar aðferðir eða vörur og eru ekki notaðar lengur en í tvö ár. X

2. viðauki.

    Viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í flokki B í 1. viðauka.
     1.      Eðli framkvæmdar.
    Athuga þarf eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til:
       i.               stærðar, hönnunar og umfangs framkvæmdarinnar í heild,
       ii.          samlegðar með öðrum framkvæmdum,
       iii.      nýtingar náttúruauðlinda, einkum lands, jarðvegs og vatns, og líffræðilegrar fjölbreytni,
       iv.          úrgangsmyndunar,
       v.          mengunar og ónæðis,
       vi.      hættu á stórslysum og/eða náttúruhamförum sem varða framkvæmdina, þ.m.t. af völdum loftslagsbreytinga, samkvæmt vísindalegri þekkingu,
       vii.      hættu fyrir heilbrigði manna, t.d. vegna vatns- eða loftmengunar.
     2.      Staðsetning framkvæmdar.
    Athuga þarf hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til:
       i.          landnotkunar sem fyrir er eða er fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun,
       ii.      magns, aðgengileika og gæða náttúruauðlinda, þ.m.t. jarðvegs, lands, vatns og líffræðilegrar fjölbreytni, á svæðinu ofan og neðan jarðar, og getu þeirra til endurnýjunar,
       iii.      verndarsvæða:
                  (a )      náttúruminja í A-, B- og C-hluta náttúruminjaskrár, svæða sem falla undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd og landsvæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt lögum nr. 48/2011,
                  (b )      svæða sem njóta verndar samkvæmt sérlögum, svo sem Þingvalla, Mývatns- og Laxársvæða og Breiðafjarðar,
                  (c )      svæða innan 100 m fjarlægðar frá fornleifum sem njóta verndar samkvæmt lögum um menningarminjar,
                  (d )      svæða, sem njóta verndar vegna grunnvatns- og strandmengunar og mengunar í ám og vötnum í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns og reglugerð um neysluvatn,
                  (e )      svæða sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, svo sem Ramsarsamningsins (votlendi) og Bernarsamningsins (verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu), friðaðra og friðlýstra tegunda sem og ábyrgðartegunda; tegundir á válista falla hér undir enda válistar m.a. gefnir út til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Bernarsamningnum,
                  (f )      hverfisverndarsvæða samkvæmt ákvæðum í skipulagsáætlunum, sbr. ákvæði um hverfisverndarsvæði í skipulagsreglugerð,
       iv.      álagsþols náttúrunnar, einkum með tilliti til:
                  (a )      votlendissvæða, ár- og vatnsbakka og ármynna,
                  (b )      haf- og strandsvæða,
                  (c )      sérstæðra jarðmyndana, svo sem hverasvæða, vatnsfalla, jökulminja, eldstöðva og bergmyndana,
                  (d )      náttúruverndarsvæða, þ.m.t. svæða á náttúruminjaskrá,
                  (e )      landslagsheilda, ósnortinna víðerna, hálendissvæða og jökla,
                  (f )      upprunalegs gróðurlendis, svo sem skóglendis,
                  (g )      fuglabjarga og annarra kjörlenda dýra,
                  (h )      svæða sem hafa sögulegt, menningarlegt eða fornleifafræðilegt gildi,
                  (i )      svæða þar sem mengun er yfir viðmiðunargildum í lögum og reglugerðum,
                  (j )      þéttbýlla svæða.
     3.      Gerð og eiginleikar hugsanlegra áhrifa framkvæmdar.
    Áhrif framkvæmdar ber að skoða í ljósi viðmiðana hér á undan, einkum með tilliti til:
       i.      umfangs umhverfisáhrifa, t.d. með tilliti til stærðar svæðis eða fjölda fólks sem verður líklega fyrir áhrifum,
       ii.          eðlis, styrks og fjölbreytileika áhrifa,
       iii.          þess hverjar líkur eru á áhrifum,
       iv.          væntanlegs upphafs, tímalengdar, tíðni og afturkræfi áhrifa,
       v.          samlegðaráhrifa með áhrifum annarra framkvæmda,
       vi.          áhrifa yfir landamæri,
       vii.      möguleika á að draga úr áhrifum.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta byggist á tillögu starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði 15. janúar 2019, en hann skilaði ráðherra tillögu að frumvarpi 29. janúar 2021. Starfshópnum var falið að endurskoða lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Meginmarkmið með heildarendurskoðuninni var að auka skilvirkni í ákvarðanatöku vegna mats á umhverfisáhrifum og að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu þannig að ákvarðanatakan samræmdist sem best ákvæðum Árósasamnings Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1998 um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Auk þess var starfshópnum falið að endurskoða ákvæði laganna um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum, innheimtu Skipulagsstofnunar á kostnaði við málsmeðferð framkvæmda, viðmiðunargildi framkvæmda í 1. viðauka laganna auk annarra atriða sem starfshópurinn teldi rétt að taka til skoðunar. Við vinnu starfshópsins var höfð hliðsjón af greiningu Aagotar V. Óskarsdóttur lögfræðings, sem hún vann á árinu 2019 fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, á tilteknum þáttum í löggjöf Norðurlandanna og Skotlands sem fjalla um ferli mats á umhverfisáhrifum og leyfisveitinga. Niðurstöður hennar koma fram í skýrslunni „Samanburður á löggjöf nokkurra nágrannaþjóða um mat á umhverfisáhrifum. Rannsókn til undirbúnings heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum“. Í skipuðum starfshóp áttu sæti Kolbeinn Óttarsson Proppé, formaður, skipaður án tilnefningar, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, Hildur Dungal lögfræðingur, tilnefnd af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Jón Gunnarsson alþingismaður, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Pétur Reimarsson verkfræðingur, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Sigríður Droplaug Jónsdóttir, tilnefnd af frjálsum félagasamtökum, og Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í janúar 2020 tók Guðjón Bragason sviðsstjóri sæti í starfshópnum í stað Vigdísar Häsler. Með hópnum starfaði Íris Bjargmundsdóttir, lögfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, fram til janúar 2020. Tók þá við Magnús Dige Baldursson, lögfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Starfshópurinn fundaði með ýmsum hagsmunaaðilum, þar á meðal Vegagerðinni, Hafnasambandinu, Landvernd, Landsneti, Samorku, VSÓ, Umhverfisstofnun, Verkfræðingafélagi Íslands, Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, forstöðumanni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og Minjastofnun Íslands.
    Forsaga máls þessa er sú að á árinu 2018 ákvað umhverfis- og auðlindaráðherra að ráðast í endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hinn 14. ágúst 2018 var haldinn opinn hugarflugsfundur á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem fjölmargir haghafar tóku þátt í. Einnig var auglýst eftir athugasemdum eða hugmyndum almennings og annarra hagsmunaaðila vegna endurskoðunarinnar í samráðsgátt stjórnvalda haustið 2018 (mál nr. S-107/2018) áður en starfshópur var skipaður til að vinna tillögu að frumvarpi til nýrra heildarlaga.
    Skipaður starfshópur lagði það til við umhverfis- og auðlindaráðherra að frumvarp til nýrra heildarlaga fæli í sér heildarlöggjöf um bæði umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sá háttur er hafður á í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Megininntak umhverfismats er það sama hvað varðar framkvæmdir og áætlanir auk þess sem heildstæð löggjöf um efnið er talin undirstrika samspil umhverfismats framkvæmda og áætlana. Núgildandi löggjöf um umhverfismat framkvæmda er komin nokkuð til ára sinna og hefur tekið allnokkrum breytingum frá gildistöku. Með gildistöku laganna 6. júní 2000 var innleidd tilskipun Evrópusambandsins 97/11/EB. Eftir nokkrar breytingar á tilskipuninni var hún endurútgefin í heild með tilskipun 2011/92/ESB sem síðan tók breytingum með tilskipun 2014/52/ESB. Breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum hafa fylgt breytingum á tilskipuninni en reynslan sýnir að núgildandi lög eru um margt frábrugðin og flóknari en tíðkast í nágrannaríkjum Íslands eins og fram kemur í skýrslu Aagotar Óskarsdóttur og er í frumvarpi þessu leitast við að einfalda ferlið við umhverfismat framkvæmda. Lagt er upp með að ferli umhverfismats endurspegli betur kröfur viðkomandi tilskipunar og samræmist frekar því sem þekkist í nágrannaríkjunum. Starfshópurinn leggur til að allt ferli umhverfismats og samráð við almenning og umsagnaraðila fari að meginstefnu til fram í gegnum landfræðilega gagna- og samráðsgátt í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að efla rafræna stjórnsýslu og stafræna þjónustu stofnana ríkisins. Innleiðing gagna- og samráðsgáttar er mikilvægur liður í að ná fyrrgreindum markmiðum stjórnvalda. Talið er að stafrænt opið aðgengi að gögnum varðandi umhverfismat stuðli að markmiði um að efla þátttöku almennings í umhverfismatsferlinu. Með gagna- og samráðsgátt er að mati starfshópsins tækifæri til að minnka flækjustig og tvítekningar, stytta boðleiðir og auka yfirsýn og gagnsæi ferla. Þá muni til lengri tíma litið felast sparnaður í notkun gáttarinnar vegna vinnuhagræðis.

1.1. Söguleg þróun laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Umhverfismat er ferli sem miðar að því að leiða í ljós afleiðingar ákvarðana fyrir umhverfið áður en þær eru teknar og að tekið sé tillit til umhverfisáhrifa við ákvarðanatöku. Með lögum nr. 63/1993 tóku gildi fyrstu lög hérlendis um mat á umhverfisáhrifum. Með setningu þeirra voru uppfylltar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum alþjóðasamningum, einkum þeim sem er að finna í Ríóyfirlýsingunni. Að fenginni nokkurri reynslu af framkvæmd laganna og gildistöku tilskipunar 97/11/EB skipaði umhverfisráðherra nefnd 30. október 1997 sem skyldi endurskoða lögin. Á grundvelli tillagna nefndarinnar mælti umhverfisráðherra fyrir frumvarpi til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum á 125. löggjafarþingi 1999–2000.
    Lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, tóku gildi 6. júní 2000. Með lögunum urðu ýmsar breytingar sem endurspegluðu m.a. þær breytingar sem gerðar höfðu verið á tilskipun Evrópubandalagsins árið 1997. Um matsskyldar framkvæmdir var skírskotað í viðauka í stað þess að tilgreina þær sérstaklega í lögunum. Ráðherra var veitt heimild til að undanskilja ákveðnar framkvæmdir ákvæðum laganna að uppfylltum tilteknum skilyrðum í samræmi við tilskipun 97/11/EB. Mælt var fyrir um tilkynningarskyldar framkvæmdir í viðauka við lögin en slík fyrirmæli höfðu verið í reglugerð. Ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar var færð frá ráðherra til Skipulagsstofnunar og sú ákvörðun gerð kæranleg til ráðherra. Tekin voru upp í viðauka viðmið fyrir ákvörðun um matsskyldu framkvæmda. Matsferlið var einfaldað þannig að það samanstæði af tillögu að matsáætlun, matsskýrslu og að lokum úrskurði Skipulagsstofnunar sem byggðist á matsskýrslu, umsögnum og athugasemdum. Lögfest var regla þess efnis að öllum væri heimilt að gera athugasemdir. Skipulagsstofnun og framkvæmdaraðila var falið að standa saman að kynningu á framkvæmd og matsskýrslu í upphafi kynningartíma. Mælt var fyrir um heildstætt matsferli í stað frummats og frekara mats. Þá var Skipulagsstofnun heimilað að leggjast gegn tiltekinni framkvæmd án þess að krefjast ítarlegra mats vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa sem framkvæmdin gæti haft í för með sér. Aðgengi almennings að matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar var aukið með það að markmiði að tryggja að almenningur gæti haft áhrif á niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar. Sett var regla þess efnis að Skipulagsstofnun gæti mælt fyrir um að mat skyldi fara fram að nýju ef framkvæmdir hefðu ekki hafist innan tíu ára frá gerð matsskýrslu. Þá var Skipulagsstofnun heimilt að gera minni háttar breytingar á úrskurði um mat á umhverfisáhrifum og gátu allir kært úrskurði og ákvarðanir Skipulagsstofnunar. Mælt var fyrir um mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í ákvæði til bráðabirgða III í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, var kveðið á um að lögin skyldu endurskoðuð fyrir 1. janúar 2003. Við endurskoðunina skyldi sérstaklega kanna hvort ástæða væri til að sameina og samræma mat, sbr. 11.–13. gr. laganna, við leyfisveitingar fyrir einstökum framkvæmdum, í hvaða mæli skipulagsáætlanir gætu komið í stað mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar og hvort færa bæri ábyrgð á mati til framkvæmdaraðila í ríkari mæli en gert var í lögunum. Umhverfisráðherra skipaði nefnd 24. október 2001 sem falið var að endurskoða lögin.
    Frumvarp byggt á starfi skipaðrar nefndar var lagt fram á 130. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Á 131. löggjafarþingi var frumvarpið lagt aftur fram með breytingum, að teknu tilliti til athugasemda sem bárust umhverfisnefnd Alþingis. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi sem lög nr. 74/2005, um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 102/2000, og skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997. Helstu breytingar voru þær að í matsferlinu var ekki tekin afstaða til þess hvort fallast bæri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem hefði verð lýst með fullnægjandi hætti í matsskýrslu. Matsferlið skyldi miða að því að matsskýrsla framkvæmdaraðila lýsti sem best og drægi fram öll veigamikil umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og gerði grein fyrir athugasemdum almennings og umsagnaraðila við framkvæmdina. Í áliti Skipulagsstofnunar um endanlega matsskýrslu framkvæmdaraðila yrði umfjöllun um matsferlið og niðurstöðu matsskýrslu. Tekin voru af áhöld um að leyfisveitandi tæki í samræmi við viðeigandi lög ákvörðun um hvort leyfa skyldi viðkomandi framkvæmd, þegar fyrir lægi matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar, og að leyfisveitanda bæri að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Málskotsréttur til æðra stjórnvalds vegna matsskyldra framkvæmda varð bundinn við leyfi til framkvæmda og takmarkaðist við þá aðila sem ættu lögvarinna hagsmuna að gæta sem og umhverfisverndarsamtök og hagsmunasamtök eftir nánari reglum.
    Vegna skoðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á innleiðingu EES/EFTA-ríkjanna á tilskipun 85/337/EBE bárust umhverfisráðuneytinu í febrúar 2010 athugasemdir frá ESA vegna innleiðingar af hálfu Íslands. Gerði ESA aðallega athugasemdir við viðmið framkvæmda samkvæmt viðaukum laganna. Einnig voru gerðar athugasemdir varðandi mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri og heimild ráðherra til að kveða á um aðra málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum en kveðið var á um í lögunum. Í kjölfarið skipaði umhverfisráðherra 14. júní 2011 starfshóp sem var falið að vinna frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem hafðar skyldu til hliðsjónar framangreindar athugasemdir ESA auk þess sem litið var til reynslu af framkvæmd laganna. Nefndin skilaði frumvarpi sem var lagt fram á 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Var frumvarpið lagt aftur fram á 143. löggjafarþingi með nokkrum efnislegum breytingum en hlaut ekki endanlega afgreiðslu umhverfis- og samgöngunefndar. Frumvarpið var aftur lagt fram á 144. löggjafarþingi og var þar samþykkt sem lög nr. 138/2014. Með lögunum var framkvæmdum skipt í þrjá flokka, A-, B- og C-flokk, og er það sú skipan sem núgildandi lög miða við. Framkvæmdir sem ávallt skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum voru felldar í flokk A, en þær höfðu áður verið felldar undir 1. viðauka við lögin. Í flokk B voru felldar framkvæmdir sem kynnu að vera háðar mati á umhverfisáhrifum sem áður höfðu verið felldar undir 2. viðauka laganna. Í ljósi athugasemda ESA var bætt við nýjum flokki framkvæmda sem fram að því höfðu fallið utan viðmiðunarmarka framkvæmda skv. 2. viðauka. Fyrir C-flokk var mælt fyrir um einfaldari málsmeðferð en varðandi A- og B-flokk framkvæmda. Mælt var fyrir um að framkvæmdir í C-flokki væru að meginstefnu til tilkynningarskyldar til sveitarstjórnar sem skyldi fjalla um framkvæmdina og taka ákvörðun um matsskyldu hennar. Gerðar voru vægari kröfur til framkvæmdaraðila um skil á gögnum með tilkynningu um framkvæmd í C-flokki og styttri tímafresti til að taka ákvörðun um matsskyldu.
    Með bréfi, dags. 4. maí 2016, barst umhverfis- og auðlindaráðuneytinu rökstutt álit ESA þar sem fram kom það mat ESA að Ísland hefði ekki innleitt ákvæði 1. mgr. 11. gr. tilskipunar 2011/92/ESB að fullu þar sem ekki væri í íslenskum lögum að finna sérstaka kæruheimild til að kæra athafnaleysi í tengslum við þátttökuréttindi almennings hvað varðaði umhverfismat framkvæmda sem féllu undir lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Í kjölfar álits ESA var með lögum nr. 89/2018 gerð breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í þeim tilgangi að mæla sérstaklega fyrir um kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis í tengslum við þátttökuréttindi almennings vegna málsmeðferðar mats á umhverfisáhrifum framkvæmda.
    Hinn 28. apríl 2016 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp sem falið var að gera tillögu að frumvarpi til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/52/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Einnig var starfshópnum falið að taka til skoðunar ákvæði laganna hvað varðar sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum, tímalengd ákvarðana um matsskyldu, endurskoðun matsskýrslu, innheimtu Skipulagsstofnunar á kostnaði vegna málsmeðferðar framkvæmda sem heyra undir lögin og viðmiðunargildi framkvæmda í 1. viðauka laganna. Frumvarp byggt á tillögum starfshópsins hlaut ekki afgreiðslu á 148. löggjafarþingi en var samþykkt á 149. löggjafarþingi sem lög nr. 96/2019. Með lögunum voru gerðar breytingar á skilgreiningum nokkurra hugtaka laganna, mælt var fyrir um hæfniskröfur við umhverfismat og yfirferð þess auk þess sem við lögin bættist ákvæði um hagsmunaárekstra við matsskylduákvörðun sveitarfélaga. Einnig var kveðið á um inntak og ferli mats á umhverfisáhrifum og ákvæði um matsskylduákvörðun gert ítarlegra. Þá var mælt var fyrir um heimild til að sameina mat á umhverfisáhrifum á grundvelli laganna og umhverfismat á grundvelli annarra laga og samþætta umhverfismat skipulagstillagna og umhverfismat framkvæmda. Gerðar voru skýrari kröfur um rökstuðning ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsáætlun og mælt fyrir um birtingu upplýsinga og ákvarðana með rafrænum hætti. Mælt var með ítarlegri hætti fyrir um kröfur um upplýsingar í frummatsskýrslu og matsskýrslu auk mótvægisaðgerða og vöktunar. Veitt var heimild til stjórnvaldssekta, ákvæði um undanþágu frá frestum var gert ítarlegra auk þess sem mælt var fyrir um takmarkanir á upplýsingagjöf í sérstöku ákvæði. Þá voru gerðar breytingar á 2. viðauka laganna. Við vinnslu frumvarpsins kallaði starfshópurinn eftir því að lög um mat á umhverfisáhrifum sættu heildarendurskoðun.

1.2. Lög um umhverfismat áætlana.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að löggjöf um umhverfismat áætlana verði sameinuð löggjöf um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Gildandi lög um umhverfismat áætlana eru nr. 105/2006 og tóku gildi 30. júní 2006. Með þeim var innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið, sem felld var inn í XX. viðauka við EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002, 25. júní 2002. Markmið tilskipunar 2001/42/EB er að vernda umhverfið og stuðla að sjálfbærri þróun með því að láta fara fram umhverfismat við gerð áætlana sem eru líklegar til að hafa áhrif á umhverfið. Í því skyni gerir tilskipunin ráð fyrir að áhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið séu metin áður en þær eru afgreiddar og framkvæmdar. Tilskipunin fjallar um hvaða áætlanir skuli háðar umhverfismati, hvaða sjónarmið skuli hafa til viðmiðunar við ákvörðun um umhverfismat áætlunar, um málsmeðferð og inntak umhverfismats. Málsmeðferð samkvæmt tilskipuninni felur í sér gerð skýrslu um umhverfismat, kynningu og álitsumleitan meðal stjórnvalda og almennings, afgreiðslu áætlunar þar sem höfð er hliðsjón af skýrslu um umhverfismat og athugasemdum stofnana og almennings, svo og kynningu á endanlegri áætlun. Tilskipunin tekur til áætlana sem fjalla um landbúnað, skógrækt, fiskeldi, orkumál, iðnað, samgöngur, meðhöndlun úrgangs, vatnsnýtingu, fjarskipti, ferðaþjónustu eða skipulag byggðaþróunar og landnotkunar. Jafnframt skulu áætlanirnar marka stefnu fyrir leyfisveitingar um framkvæmdir sem falla undir tilskipun um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Tilskipunin tekur til áætlana stjórnvalda sem eru undirbúnar eða samþykktar af stjórnvöldum og unnar í samræmi við lög eða ákvörðun ráðherra. Ákvæði laga nr. 105/2006 taka til allrar áætlunargerðar sem háð er umhverfismati. Nokkur munur er á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, sbr. lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Það á við um nákvæmni matsins, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Annars vegar kemur það til af því að um er að ræða mat á umhverfisáhrifum af almennum ákvörðunum um landnotkun eða nýtingu haf- og strandsvæða og hins vegar mat á umhverfisáhrifum sértækra ákvarðana um einstakar framkvæmdir. Sem dæmi um hið fyrrnefnda er umhverfismat samgönguáætlunar eða aðalskipulags sveitarfélags en um hið síðarnefnda mat á umhverfisáhrifum tiltekinnar vegaframkvæmdar. Markmið umhverfismats á áætlunarstigi er að huga að umhverfisáhrifum á fyrri stigum ákvarðanatöku. Í umhverfismati áætlunar á einnig að felast mat á samlegðaráhrifum margra framkvæmda á tiltekna umhverfisþætti eða tiltekin svæði.

1.3. Árósasamningurinn.
    Með tilskipun 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB eru tekin upp tiltekin ákvæði Árósasamningsins um þátttöku almennings í undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfið og um aðgang að málsmeðferð til að vefengja efnislegt lögmæti aðgerða eða aðgerðaleysis með tilliti til þátttökuréttinda almennings. Árósasamningurinn var fullgiltur hér á landi árið 2011. Árósasamningurinn er svæðisbundinn umhverfissamningur. Samningurinn byggist á þeirri forsendu að sérhver kynslóð eigi rétt á því að lifa í umhverfi sem sé fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hennar. Öllum beri skylda til að vernda og bæta umhverfið til hagsbóta fyrir núlifandi og komandi kynslóðir. Í þessu ljósi leggur samningurinn skyldu á ríkin að tryggja almenningi ákveðin réttindi svo að hann geti haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið. Samningurinn samanstendur af þremur stoðum. Fyrsta stoðin mælir fyrir um skyldur ríkja til að tryggja að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Önnur stoðin skyldar ríkin til að tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem snerta umhverfið. Þriðja stoðin snýr að skyldu aðildarríkja til að tryggja almenningi réttláta málsmeðferð í málum sem varða umhverfið. Ákvæði samningsins hvað þessi réttindi snertir fela í sér lágmarksreglur. Þau eru mörg hver almenns eðlis og gefa aðildarríkjunum talsvert svigrúm við innleiðingu þeirra. Á það einkum við þriðju stoð hans. Markmið samningsins er sett fram í 1. gr. Samkvæmt því ákvæði skulu samningsaðilar ábyrgjast rétt til aðgangs að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgangs að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum í samræmi við ákvæði samningsins í því skyni að stuðla að verndun réttinda hvers einstaklings af núlifandi og komandi kynslóðum til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans. Í 6.–8. gr. samningsins er fjallað um rétt almennings til þátttöku í málsmeðferð þegar undirbúnar eru ákvarðanir af hálfu stjórnvalda í umhverfismálum. Ákvæði 6. gr. samningsins felur í sér að gefa skuli almenningi kost á að taka þátt í ákvörðunum um útgáfu leyfa fyrir þeim framkvæmdum sem falla undir efnissvið greinarinnar. Nánar tiltekið felur ákvæðið í sér, sbr. 2.–10. mgr. 6. gr., að upplýsa skuli almenning sem málið varðar um umsókn um leyfi og fyrirhugað ferli ákvarðanatöku, að sanngjarnir frestir séu veittir til að gefa almenningi kost á að gera athugasemdir og koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun er tekin, að almenningi skuli gert kleift að taka snemma þátt í ferlinu þegar allir kostir eru fyrir hendi og um virka þátttöku getur verið að ræða, að þar til bær stjórnvöld skuli veita þeim sem málið varðar aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta varðandi ákvarðanatökuna, að tryggja skuli að við ákvarðanatöku sé tekið eðlilegt tillit til þeirrar niðurstöðu sem liggur fyrir eftir aðkomu almennings og að almenningur skuli upplýstur um ákvörðun þegar hún liggur fyrir og rökin sem liggja að baki henni. Þriðja stoð Árósasamningsins kemur fram í 9. gr. samningsins um aðgang að réttlátri málsmeðferð. Í 1. mgr. er samningsaðilum gert að tryggja að öllum sé opin endurskoðunarleið fyrir dómstólum eða öðrum hlutlausum og óháðum aðila vegna ákvarðana stjórnvalda sem varða aðgang að upplýsingum samkvæmt samningnum. Í 2. mgr. kemur fram að tryggja skuli aðgang almennings sem málið varðar og á nægjanlegra hagsmuna að gæta að endurskoðunarleið fyrir dómstólum og/eða öðrum óháðum og hlutlausum aðila um lagagildi ákvarðana, aðgerða og aðgerðarleysis sem 6. gr. samningsins nær til, bæði að því er varðar efni og form. Hvað teljast nægjanlegir hagsmunir skal ákvarðast eftir landslögum og ávallt með það að markmiði að veita almenningi sem málið varðar víðtækan aðgang að réttlátri málsmeðferð. Hagsmunir frjálsra félagasamtaka, sem stuðla að umhverfisvernd og uppfylla kröfur samkvæmt landslögum, skulu þó alltaf teljast nægjanlegir.

1.4. EES-réttur.
    Tilskipanir ESB um mat á umhverfisáhrifum miða að árangursríkri umhverfisvernd með því að stuðla að því að þættir sem varða umhverfið séu teknir með í reikninginn þegar áætlanir eru gerðar og framkvæmdir undirbúnar þannig að hægt sé að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þeirra.
    Tvær tilskipanir ESB fjalla um mat á umhverfisáhrifum, tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB og tilskipun 2001/42/EB um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið. Tilskipanirnar hafa verið innleiddar í íslensk lög, annars vegar með lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og hins vegar með lögum um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006.
    Tilskipun 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB felur í sér skyldu til að meta umhverfisáhrif framkvæmda sem líklegar eru til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið áður en ákvörðun er tekin um hvort leyfi til þeirra sé veitt. Skyldan er orðuð í 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar þar sem segir að áður en leyfi fyrir framkvæmd sé veitt skuli aðildarríkin samþykkja allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að framkvæmdir, sem líklegt er að hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, m.a. vegna eðlis þeirra, stærðar eða staðsetningar, séu háðar kröfu um leyfi til framkvæmda og mati á áhrifum þeirra á umhverfið. Tilskipunin mælir fyrir um lágmarkskröfur að því er varðar flokka framkvæmda sem mat er lagt á, skyldur framkvæmdaraðila, efni matsins og samráð vegna þess en aðildarríkjum er frjálst að mæla fyrir um strangari kröfur að þessu leyti. Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á að útbúa matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar en aðildarríki skulu fela stjórnvaldi yfirferð skýrslunnar og getur stjórnvaldið kallað eftir viðbótarupplýsingum ef með þarf. Samráð við almenning og þá sem fyrirhuguð framkvæmd snertir er þýðingamikill hluti matsferlisins. Að lokinni athugun á matsskýrslu þarf stjórnvaldið að komast að rökstuddri niðurstöðu um umhverfisáhrifin en niðurstaðan skapar grundvöll fyrir ákvörðun um veitingu leyfis. Matsferlið allt miðar að því að styrkja þær ákvarðanir sem teknar eru og vanda undirbúning þeirra. Meðal þeirra breytinga sem tilskipun 2014/52/ESB hafði í för með sér voru skýrari reglur um tímafresti, ferli matsskylduákvörðunar var gert skýrara og markvissara, áhersla var lögð á að auka gæði matsskýrslna, m.a. með afmörkun efnis þeirra svo að þær fjölluðu fyrst og fremst um þá umhverfisþætti sem mikilvægast var að varpa ljósi á, kröfur voru gerðar um að efni matsskýrslna væri gert aðgengilegra almenningi, kröfur voru gerðar um hæfni þeirra sem vinna matsskýrslu og einnig um hæfni stjórnvalda og hlutleysi þeirra. Þá voru skýrar kröfur gerðar um mótvægisaðgerðir og vöktun umhverfisáhrifa. Eftir breytinguna hefur tilskipunin að geyma 16 greinar og fimm efnisviðauka, auk aðfaraorða og ákvæða um gildistöku og framkvæmd. I. viðauki tilgreinir matsskyldar framkvæmdir, II. viðauki framkvæmdir sem ákveða þarf hvort skuli háðar mati, II. viðauki A inniheldur upplýsingar sem framkvæmdaraðili þarf að leggja fram vegna matsskylduákvörðunar, III. viðauki tilgreinir viðmið vegna ákvörðunar um matsskyldu og IV. viðauki fjallar um þær upplýsingar sem skulu koma fram í matsskýrslu.
    Tilskipun 2001/42/EB um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið felur í sér skyldu til að meta umhverfisáhrif áætlana sem fjalla um landbúnað, skógrækt, fiskeldi, orkumál, iðnað, samgöngur, meðhöndlun úrgangs, vatnsnýtingu, fjarskipti, ferðaþjónustu eða skipulag byggðaþróunar og landnotkunar og eru stefnumarkandi að því er varðar veitingu leyfa fyrir framkvæmd verkefna sem falla undir tilskipun 2011/92/ESB. Þannig eru áætlanir sem setja ramma um framkvæmdir sem falla undir tilskipun um mat á umhverfisáhrifum að meginstefnu til háðar umhverfismati. Framkvæmdirnar sjálfar kunna svo einnig að vera matsskyldar samkvæmt tilskipun 2011/92/ESB.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Gildandi lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, eru komin nokkuð til ára sinna og hafa tekið allnokkrum breytingum frá gildistöku þeirra. Með lögum nr. 96/2019 voru gerðar breytingar á lögunum í þeim tilgangi að innleiða tilskipun 2014/52/ESB sem breytti tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Frumvarpið var unnið af starfshópi skipuðum af umhverfis- og auðlindaráðherra. Við vinnslu frumvarpsins kallaði starfshópurinn eftir því að ráðist yrði í heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. Vísast um nánari umfjöllun til inngangskafla greinargerðarinnar. Á undanförnum árum hefur einnig komið til umræðu að ferli mats á umhverfisáhrifum sé ekki nægjanlega skýrt eða skilvirkt. Reynslan af framkvæmd laganna hefur þá leitt í ljós ákveðna þörf á endurskoðun laganna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér tillögu að nýjum heildarlögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana auk tiltekinna breytinga á öðrum lögum, þ.e. skipulagslögum, nr. 123/2010, lögum nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013.

3.1. Skýr framsetning.
    Norðurlöndin og Skotland hafa farið mismunandi leiðir við að innleiða tilskipanir ESB um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Íslendingar, Finnar og Danir innleiddu tilskipanirnar með setningu sérstakra laga. Danir innleiddu báðar tilskipanirnar með einni löggjöf (d. Lov om miljøvurdering af planer og programmer og af konkrete projekter). Í Finnlandi, líkt og Íslandi, eru sérstök lög sem innleiða hvora tilskipun fyrir sig (f. Lag om förfarandet vid miljökonsekvensbedömning / Markanvändnings- och bygglag). Norðmenn og Svíar innleiddu tilskipanirnar í stærri lagabálka, Norðmenn í skipulags- og byggingarlög (n. Plan- og bygningsloven) og Svíar í umhverfislög (s. Miljöbalken). Þetta var þó gert með mjög ólíkum hætti. Í norsku skipulags- og byggingarlögunum er einungis settur fram rammi umhverfismatsins og tilskipunin innleidd og útfærð að öðru leyti í reglugerð. Í sænsku lögunum er sérstakur kafli helgaður mati á umhverfisáhrifum með ítarlegum reglum sem útfærðar eru nánar í reglugerð. Skotar innleiddu tilskipun um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda í reglugerð (e. The Town and Country Planning Regulations) og er lagastoð hennar í skosku skipulagslögunum. Í samanburði á lögum og reglugerðum þessara ríkja, sem hafa að geyma meginefni tilskipana ESB um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana, vekur það athygli að í íslensku löggjöfinni eru ákvæði laganna almennt lengri og færri en í löggjöf hinna ríkjanna. Í frumvarpinu er leitast við að bæta framsetningu laganna með því að hafa ákvæði þeirra styttri og skýrari auk þess sem gert er ráð fyrir að efni núgildandi laga færist að einhverjum hluta í reglugerð.

3.2. Sameining laga um mat á umhverfisáhrifum og laga um umhverfismat áætlana.
    Lagt er til í frumvarpinu að löggjöf um umhverfismat framkvæmda og áætlana verði í einum heildarlögum sem felur í sér sameiningu á efni gildandi laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og lögum nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Sá háttur er hafður á í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Litið er til þess að megininntak umhverfismats er það sama hvað varðar framkvæmdir og áætlanir auk þess sem heildstæð löggjöf um efnið er talin endurspegla samspil umhverfismats framkvæmda og áætlana.

3.3. Einfölduð málsmeðferð.
    Lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, skera sig úr í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og Skota að því er varðar samráð um matsáætlun þar sem kveðið er á um tvöfalt samráð hér á landi, þ.e. annars vegar samráð sem framkvæmdaraðila er ætlað að standa fyrir og hins vegar samráð á vegum Skipulagsstofnunar. Íslenska löggjöfin hefur einnig sérstöðu að því leyti að framkvæmdaraðila ber að leggja tvisvar fram matsskýrslu, þ.e. frummatsskýrslu og endanlega matsskýrslu. Þá er gert ráð fyrir tvöfaldri kynningu frummatsskýrslu. Annars vegar er um að ræða kynningu Skipulagsstofnunar og hins vegar skal framkvæmdaraðili kynna framkvæmd og frummatsskýrslu í samráði við Skipulagsstofnun. Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá fyrirkomulagi tvöfalds samráðs og tveggja matsskýrslna. Lagt er til að ferlið endurspegli betur kröfur tilskipunarinnar og verði í samræmi við það sem þekkist í nágrannaríkjum Íslands eins og nánar er rakið í 1. kafla greinargerðar.

3.4. Forsamráð.
    Til að stuðla frekar að skilvirkni í málsmeðferð vegna einstakra framkvæmda, þar á meðal hvað varðar mat á umhverfisáhrifum og gerð viðkomandi skipulagsáætlana, er í frumvarpinu gert ráð fyrir möguleika á forsamráði um ferli framkvæmdar. Með því er átt við vettvang fyrir framkvæmdaraðila, leyfisveitendur og Skipulagsstofnun til að fara yfir og samræma ferlið fram undan í þeim tilgangi að auka gæði og skilvirkni verkefnisins.

3.5. Landfræðileg gagna- og samráðsgátt.
    Með skyldubundinni notkun rafrænnar gáttar fyrir umhverfismat, skipulagsmál og leyfisveitingar má ná fram einföldun ferla og minnka þörf á endurtekningum. Það eitt að allar umsagnir og gögn sem lögð hafa verið fram vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana verði aðgengileg á sama stað yrði til bóta. Þannig hafa allir aðgang að sömu gögnum og geta vísað í fyrirliggjandi gögn og bætt við upplýsingum ef þörf krefur þegar líður á ferlið. Með rafrænni gátt má ná fram betri yfirsýn og skýrri tímalínu í einstökum málum, auðveldari samskiptum, bættu upplýsingaflæði og rekjanleika og þar með skilvirkari vinnu og tímasparnaði hjá stofnunum og framkvæmdaraðilum, samnýtingu á vinnu milli stofnana, hraðari afgreiðsluferlum og minni bið eftir afgreiðslu mála. Í þessu felast færri kynningar- og auglýsingaferli og aðhald í vinnubrögðum með gátlistum og stöðluðum formum auk betra aðgengis almennings.

3.6. Málskot einfaldað.
    Ákvæði 11. gr. tilskipunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda fjallar um aðgang almennings að endurskoðun ákvarðana fyrir dómstólum eða æðra stjórnvaldi og er í meginatriðum tekið beint úr Árósasamningnum, sbr. 9. gr. hans, einkum 2. og 4. mgr., eins og vikið er að í 21. lið aðfaraorða tilskipunarinnar. Um Árósasamninginn og tilskipun 2011/92/ESB er fjallað í köflum 1.3 og 1.4. Skv. 1. mgr. tekur rétturinn til að óska endurskoðunar hjá úrskurðaraðila til efnislegs og formlegs lögmætis ákvarðana, aðgerða eða aðgerðaleysis sem lýtur að þátttökuréttindum almennings samkvæmt tilskipuninni. 2. mgr. 11. gr. leggur það í hendur aðildarríkjunum að ákveða á hvaða stigi umhverfismats er heimilt að vefengja ákvörðun, aðgerð eða aðgerðaleysi. Í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og Skota er Ísland eina landið sem hefur opna heimild til að kæra matsskylduákvörðun efnislega en í þessu frumvarpi er ekki vikið frá slíkri heimild. Aftur á móti er lagt til að fallið verði frá sérstökum kæruheimildum vegna brota á þátttökurétti almennings. Þessum ákvæðum var bætt við lögin með lögum nr. 89/2018 í kjölfar rökstudds álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að íslensk lög tryggðu ekki réttinn til að bera athafnaleysi stjórnvalda varðandi mat á umhverfisáhrifum undir óháðan og óhlutdrægan dómstól. Reynslan af þessum ákvæðum hefur ekki bent til þess að þátttökuréttindi almennings séu betur varin með þeim en í framkvæmd úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefur einu sinni reynt á þau ákvæði, í máli 57/2020 þar sem kærð var sú „ákvörðun“ Skipulagsstofnunar að meðferð og afgreiðsla umsóknar um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi færi eftir eldri ákvæðum laga nr. 71/2008, um fiskeldi, sbr. ákvæði til bráðabirgða II. Var málinu vísað frá kærunefndinni þar sem 14. gr. núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum var ekki talin ná til þess ágreinings sem kærumálið varðaði. Við vinnslu frumvarps þessa leitaði ráðuneytið eftir nánari skýringum ESA á efni rökstudds álits stofnunarinnar í máli ESA nr. 75769 með vísan til 11. gr. tilskipunarinnar. ESA lét í té sjónarmið með þeim fyrirvara að það væri á ábyrgð íslenskra stjórnvalda að innleiða tilskipunina með réttum hætti. Lét ESA í ljós þau sjónarmið að löggjöfin yrði að mæla skýrt fyrir um að hægt væri að bera athafnaleysi stjórnvalda undir óháðan úrskurðaraðila á þeim stigum málsmeðferðar þegar heimilt væri að leita endurskoðunar. Eins og í gildandi lögum er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda og ákvarðanir leyfisveitenda um leyfisveitingu verði áfram kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Á þeim stigum málsins er hægt að koma að þeirri málsástæðu að þátttökuréttindi hafi ekki verið virt, til dæmis vegna athafnaleysis. Í samræmi við fyrrgreinda afstöðu ESA er lögð til breyting á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, þar sem sérstaklega er tekið fram að kæra á matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar eða ákvörðun stjórnvalda um veitingu leyfis geti komið til vegna ætlaðra brota á þátttökuréttindum almennings í tengslum við meðferð máls eða vegna annars ágalla á málsmeðferð. Ákvæði 11. gr. tilskipunarinnar varðar heimildir almennings sem hafa hagsmuni af niðurstöðu málsins. Ekki verður séð að þeir hagsmunir séu til staðar ef ekki er tekin matsskylduákvörðun eða ákvörðun um veitingu leyfis. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá er lagt til að kröfu um að umhverfisverndarsamtök skuli hafa endurskoðað bókhald til að eiga aðild að kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála verði breytt á þann veg að slík samtök skuli hafa endurskoðað bókhald eða samþykkta ársreikninga.

3.7. Tímafrestir.
    Borið saman við löggjöf annarra Norðurlandaþjóða og Skota eru tímafrestir í lögum um umhverfismat í mörgum tilvikum stystir á Íslandi. Ljóst er að það hefur verið erfiðleikum bundið fyrir Skipulagsstofnun að uppfylla þá stuttu tímafresti sem mælt er fyrir um í lögum nr. 106/2000. Helgast það m.a. af óraunhæfum tímamörkum, t.d. miðað við stærð stofnunarinnar. Vegna þessa hafa Skipulagsstofnun m.a. verið tryggðar auknar fjárheimildir í samræmi við umfang þeirra verkefna sem liggja fyrir hjá stofnuninni. Við gerð frumvarpsins endurskoðaði skipaður starfshópur tímafresti í núgildandi lögum með það að markmiði að þeir yrðu raunhæfir sem stuðlar að auknum fyrirsjáanleika. Samhliða því var heildarferli umhverfismatsins í frumvarpinu stytt frá því sem nú er í lögum.

3.8. Einfaldaðir framkvæmdaflokkar.
    Tilskipun 2011/92/ ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB mælir fyrir um flokka framkvæmda sem ávallt skulu háðir umhverfismati annars vegar og flokka framkvæmda þar sem taka skal ákvörðun um matsskyldu hins vegar. Tilskipunin veitir aðildarríkjum val um að taka ákvörðun um matsskyldu síðarnefndra framkvæmda hverju sinni (case by case examination) eða með því að mæla fyrir um tiltekin þröskuldsgildi eða að fara blandaða leið. Alltaf skal styðjast við III. viðauka tilskipunarinnar þar sem tilgreind eru viðmið til að ákvarða hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati. Eins og rakið er að framan var með gildistöku laga um mat á umhverfisáhrifum tekið upp það fyrirkomulag að tilgreina matsskyldar framkvæmdir í viðauka. 1. viðauki listaði upp framkvæmdir sem ávallt skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum en 2. viðauki listaði upp framkvæmdir sem tilkynna væri til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu (tilkynningarskyldar framkvæmdir). Árið 2014 var lögum um mat á umhverfisáhrifum breytt á þann veg að viðaukarnir voru sameinaðir í einn og skilgreindir þrír flokkar framkvæmda, A-flokkur sem væri ávallt háður umhverfismati (áður í 1. viðauka), B-flokkur sem væri tilkynningarskyldur til Skipulagsstofnunar (áður í 2. viðauka) og einnig var bætt við nýjum framkvæmdaflokki, C-flokki, sem náði til framkvæmda sem höfðu verið undir þeim viðmiðunarmörkum sem tilkynningarskylda náði til samkvæmt eldri lögum. Var það gert vegna athugasemda sem borist höfðu frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Reynsla af framfylgd ákvæða núgildandi laga um framkvæmdir í C-flokki gefur til kynna, í samræmi við það að um er að ræða mjög umfangslitlar framkvæmdir, að þær séu ólíklegar til að hafa mikil umhverfisáhrif. Hér er því gerð tillaga um að fella niður C-flokk framkvæmda. Framkvæmdaskilgreiningar og þröskuldsgildi framkvæmda sem falla í B-flokk hafa verið endurskoðaðar með tilliti til þessa. Þar hafa verið höfð í huga sjónarmið sem koma fram í áðurnefndum athugasemdum ESA. Einnig er horft til þeirra breytinga sem gerðar voru á tilskipun ESB árið 2014, en þar voru ákvæði um ákvarðanir um framkvæmdir í II. viðauka tilskipunarinnar útfærð frekar.
    Með frumvarpi þessu eru lagðir til endurskoðaðir framkvæmdaflokkar með það að markmiði að skilgreiningar framkvæmda séu skýrar, svo að draga megi úr vafatilfellum um það hvaða framkvæmdir falla undir lögin, að skilgreiningar framkvæmda séu viðeigandi með tilliti til þess hvenær framkvæmdir kunna að hafa veruleg neikvæð umhverfisáhrif og þá að teknu tilliti til sérstakra aðstæðna, þegar við á, hér á landi, að þröskuldsgildi séu með sama hætti skýr og viðeigandi og að falla megi frá notkun C-flokks framkvæmda, þ.e. að framkvæmdir séu tilkynningarskyldar óháð stærð og staðsetningu.

3.9. Þátttökuréttindi almennings.
    Á meðal markmiða Árósasamningsins er að tryggja rétt almennings til að koma að töku ákvarðana í umhverfismálum í þeim tilgangi að stuðla að vernd réttar hvers og eins til að búa í umhverfi sem er fullnægjandi að því er varðar heilbrigði og vellíðan. Tilskipun 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB byggist m.a. á þeirri meginforsendu að virk þátttaka almennings við töku ákvarðana sem kunna að hafa áhrif á umhverfið leiði til aukinnar ábyrgðar og gagnsæis í ferlinu við ákvarðanatökuna, geri almenning meðvitaðri um umhverfismál og gefi þeim sem tekur ákvörðunina færi á að taka tillit til athugasemda almennings við töku ákvarðana og afla þannig stuðnings við þær ákvarðanir sem teknar eru. Meginmarkmiðin með heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum eru aukin skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum og að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu þannig að hún samræmist sem best ákvæðum Árósasamningsins. Með frumvarpinu hefur málsmeðferð vegna umhverfismats framkvæmda verið einfölduð og skrefum fækkað án þess að það komi niður á þátttökuréttindum almennings. Tímapunktarnir í ferlinu þar sem almenningur getur komið að sjónarmiðum eru þeir sömu og samkvæmt núgildandi lögum en þó er gert ráð fyrir möguleika á sameiningu kynningar vegna umhverfismats framkvæmda og skipulagsáætlana. Frá áætlun og fram að veitingu leyfis til framkvæmda á almenningur kost á að koma að samráði um umhverfismat skipulagsáætlunar sem gerir ráð fyrir hinni matsskyldu framkvæmd, en almenningi skal veittur sex vikna umsagnarfrestur auk þess sem unnt er að kæra ákvörðun sveitarstjórnar um gildistöku deiliskipulags til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hvað varðar sjálfa framkvæmdina er ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu tiltekinnar framkvæmdar kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Matsáætlun skal kynnt almenningi þar sem gildandi lög gera ráð fyrir kynningu framkvæmdaraðila fyrir almenningi auk þess sem í reglugerð um mat á umhverfisáhrifum er mælt fyrir um kynningu Skipulagsstofnunar fyrir almenningi en í framkvæmd er um að ræða tvö tveggja vikna samráðstímabil um einn og sama hlutinn. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að falla frá slíku tvöföldu samráði og að Skipulagsstofnun kynni matsáætlun fyrir almenningi með fjögurra vikna umsagnarfresti. Gildandi lög mæla fyrir um sex vikna umsagnartíma um frummatsskýrslu en ekki er gert ráð fyrir samráði um matsskýrslu. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir einni umhverfismatsskýrslu með sex vikna umsagnartímabili. Þá er endanlegt leyfi til framkvæmda kæranlegt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ætla má að einfaldara ferli þar sem dregið hefur verið úr endurtekningum sé til þess fallið að styrkja aðkomu almennings að ferlinu þar sem auðveldara er að átta sig á því. Þá er gagna- og samráðsgátt ætlað að styrkja aðkomu almennings enn frekar að ferlinu með aðgengilegri upplýsingum og auknu gagnsæi.

3.10. Staða álits Skipulagsstofnunar gagnvart leyfisveitanda.
    Samkvæmt tilskipun 2011/92/ESB eru síðustu tveir þættir mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar þeir að lögbært stjórnvald komist að rökstuddri niðurstöðu um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar og að sú niðurstaða sé felld inn í ákvörðun um leyfi til framkvæmdar. Skv. 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar hafa aðildarríki val um hvort málsmeðferð umhverfismats sé felld inn í málsmeðferð vegna leyfisveitingar eða aðra málsmeðferð. Í leiðbeiningariti framkvæmdastjórnar ESB er greint frá því að tvenns konar fyrirkomulag tíðkist í aðildarríkjum varðandi matsferlið, þ.e. samþætt matsferli annars vegar og sjálfstætt matsferli hins vegar. Í samþættu matsferli fer umhverfismatið fram samhliða öðrum undirbúningi ákvörðunar um leyfi og er rökstudda niðurstaðan hluti af ákvörðun um leyfi. Í sjálfstæða ferlinu er rökstudda niðurstaðan hins vegar fengin með málsmeðferð sem er aðskilin frá undirbúningi ákvörðunar um veitingu leyfis. Samkvæmt leiðbeiningaritinu eru skilyrði sem sett eru fram í rökstuddu niðurstöðunni bindandi við töku ákvörðunar um leyfisveitingu þegar um sjálfstætt ferli er að ræða. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar séu bindandi fyrir leyfisveitanda og beri að taka þau upp í ákvörðun um leyfisveitingu. Þessi staða álits Skipulagsstofnunar gagnvart leyfisveitanda er talin tryggja hlutleysi leyfisveitanda í samræmi við kröfur tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB. Í þessu sambandi ber þó einnig að hafa í huga að leyfisveiting er síðasta skrefið í ferli umhverfismats og eru skyldur leyfisveitanda þar ríkar í ljósi rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Nýmæli er einnig í frumvarpinu að leyfisveitanda ber ætíð að meta hvort forsendur umhverfismats eigi enn við eða hvort leita þurfi álits Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi álitið að hluta eða í heild. Þá er mælt fyrir um að leyfisveitandi geri rökstudda grein fyrir samræmi afgreiðslu leyfis við álit Skipulagsstofnunar. Þannig gerir leyfisveitandi grein fyrir því hvernig hann tengir álitið við ákvörðun um leyfisveitingu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins kallar ekki á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Um er að ræða heildarendurskoðun löggjafar sem hefur verið til innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum og tilskipun um umhverfismat áætlana sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Tilskipun um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar 2011/92/ESB innleiðir tiltekin ákvæði Árósasamningsins sem Ísland er aðili að og var því tekið mið af skuldbindingum hans við gerð frumvarpsins.

5. Samráð.
    Áform um lagasetninguna fóru í opinbera kynningu í samráðsgátt stjórnvalda 11. nóvember (mál nr. 243/2020) og bárust umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sex umsagnir um áformin sem tekið var mið af við gerð frumvarps þessa.
    Í umsögn Orkustofnunar um áform um lagasetningu kvaðst stofnunin sammála því að einfalda þurfi undirbúningsferli ákvarðana vegna framkvæmda. Einkum sé óþarflega flókið samráðs- og umsagnarferli til þess fallið að flækja ákvarðanatöku. Þannig sé vel þekkt að sama framkvæmdin sé nokkrum sinnum send sömu aðilum til umsagnar. Fyrri umsagnir viðkomandi aðila séu ekki endilega aðgengilegar stjórnvaldi á næsta stigi (t.d. séu umsagnir vegna matsskylduákvarðana ekki birtar) og því geti umsagnaraðili þurft að endurtaka umsögn um sömu framkvæmd. Notkun rafrænna umsóknar- og umsagnarleiða megi telja til þess fallna að straumlínulaga umsagnar- og leyfisveitingarferli. Áformin eins og þeim sé lýst í áformaskjölunum falli betur að stjórnsýslu Orkustofnunar þar sem þau komi til með að einfalda aðkomu stofnunarinnar á málum.
    Landsvirkjun telur í umsögn sinni heildarendurskoðun laganna vera jákvæða. Núverandi ferli mats á umhverfisáhrifum hafi nýst vel við að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmda á umhverfi og stuðlað að auknu samráði og samtali á milli aðila um umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir. Landsvirkjun tekur þó undir mikilvægi þess að auka skilvirkni með því að einfalda ferli mats á umhverfisáhrifum og huga að samþættingu skipulagsferlis og leyfisveitinga. Ef vel takist til muni það bæði auka skilvirkni í stjórnsýslunni og bæta aðgengi almennings og annarra aðila að ferlunum. Mikilvægt sé að tryggja fagleg vinnubrögð og gæði þeirra gagna sem lögð séu fram. Einnig þurfi að huga að verklagi tengdu vali á valkostum og útfærslu rannsóknaráætlunar. Til dæmis geti verið til bóta að fleiri en framkvæmdaraðili geti kært ákvörðun um matsáætlun eins og núgildandi lög geri ráð fyrir. Matsáætlun sé lögð fram í upphafi ferlisins og því gott tækifæri til að útkljá óvissu og ágreining sem upp gæti komið strax við kynningu á rannsóknaráætlun og fyrirhuguðum valkostum. Því væri skilvirkara að kæruferli væri frekar virkt á þeim tíma. Í dag sé framkvæmdin sú að kæruheimild opnist ekki fyrr en við útgáfu framkvæmdaleyfis, sem sé síðast í ferlinu. Geti það verið íþyngjandi fyrir framkvæmdaraðila, m.a. hvað varði kostnað, tíma og þá miklu óvissu sem það hafi í för með sér. Einnig dragi það verulega úr málshraða og skilvirkni stjórnsýslunnar og hafi verulega neikvæð og íþyngjandi áhrif. Landsvirkjun tekur fram að matsskýrsla sé í raun viðkomandi frummatsskýrsla auk athugasemda, umsagna og viðbragða framkvæmdaraðila við þeim. Frummatsskýrslan sé kynnt fyrir almenningi og öðrum en matsskýrslan sé einungis send til álitsgjafar hjá Skipulagsstofnun. Ef þessar tvær skýrslur verði sameinaðar í eina væri matsskýrslan kynnt sem endanlegt skjal. Koma þurfi skýrt fram hvernig þær viðbætur sem felist í athugasemdum og umsögnum, auk svara framkvæmdaraðila við þeim, væru meðhöndlaðar á kynningartíma. Varðandi samþættingu við leyfisveitingarferli þurfi að huga að eðli og umfangi framkvæmda og því hvort þær séu háðar fleiri leyfum en framkvæmdaleyfi, t.d. virkjunarleyfi. Undirbúningur stærri innviðaframkvæmda sé langt ferli og mikilvægt að hægt sé að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum snemma í hönnunarferlinu. Ef fyrirhugað sé að tengja mat á umhverfisáhrifum við umsókn um framkvæmdaleyfi þurfi að huga að gildistíma umsóknar og hvernig hún tengist afgreiðslu annarra leyfa. Þá telur Landsvirkjun að skoða megi að gera ráð fyrir kynningarferli með þátttöku almennings við ákvörðun um matsskyldu.
    Umhverfisstofnun fagnar í umsögn um áform um lagasetningu að ferlið við mat á umhverfisáhrifum verði einfaldað og þátttökuréttindi almennings efld. Segir að umsagnir um mat á umhverfisáhrifum og umhverfismat áætlana séu hluti af starfsemi stofnunarinnar og stór hluti af starfi teymis starfsleyfa og umsagna.
    Samtök iðnaðarins styðja áformaðar breytingar á löggjöfinni og segja að samræming í ferli framkvæmda og áætlana sé til þess fallin að einfalda og stytta málsmeðferðartíma framkvæmda. Slíkar breytingar geti haft áhrif á ferli framkvæmda að teknu tilliti til þess að slíkar framkvæmdir séu að auki háðar öðrum leyfum eða samþykktum stjórnvalda á síðari stigum. Samtökin vekja athygli á skýrslu um málsmeðferð við leyfisveitingar og mat á umhverfisáhrifum sem VSÓ ráðgjöf hafi unnið fyrir samtökin, Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Greiningin hafi leitt í ljós að í ferlinu sé töluverður tvíverknaður, boðleiðir óþjálar og ferli óþarflega flókin. Samanburður við löggjöf nágrannaþjóða staðfesti þá greiningu. Víða séu tækifæri til að einfalda ferla og straumlínulaga til að bæta yfirsýn, draga saman verkþætti og stytta málsmeðferðartíma án þess þó að skerða þátttökurétt almennings og hagsmunaaðila eða vera í andstöðu við tilgang viðkomandi laga. Samtökin skora á ráðuneytið að taka til skoðunar hvort stafræn gagna- og upplýsingagátt sé til þess fallin að auka á skilvirkni umfram það að nýtt sé það hagræði sem geti falist í verkefninu Stafrænt Ísland, með það að markmiði að samræma enn frekar ferla, hvort sem það varði umhverfismat eða aðra stjórnsýsluferla sem framkvæmdir séu einnig undirorpnar.
    Samorka vísar í umsögn sinni til fyrrgreindrar skýrslu VSÓ ráðgjafar og telur mjög mikilvægt að í áframhaldandi vinnu verði horft til þeirra tækifæra sem komi fram í skýrslunni. Sérstaka áherslu beri í þessu sambandi að leggja á að farið verði alla leið í samþættingu ferla við gerð skipulagsáætlana og umhverfismats og veitingu framkvæmdaleyfis. Nútímatæknilausnir geti stutt við og einfaldað alla framkvæmd. Mikilvægt sé að tæknilausnir nái yfir skipulag, umhverfismat og framkvæmdaleyfi. Síðar megi hugsa sér að t.d. rannsóknarleyfi, virkjanaleyfi o.s.frv. verði einnig hluti af þessari tæknilausn.
    Orkuveita Reykjavíkur telur í umsögn sinni að einfalda megi ferlið með það að markmiði að gera það skilvirkara. Þá megi einfalda og samþætta ferla samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum annars vegar og öðrum lögum sem leiði af sér umhverfismat. Orkuveita Reykjavíkur bendir á mikilvægi þess að lögin endurspegli þær nýju áskoranir sem umhverfi, náttúra og samfélag standi frammi fyrir vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Enn fremur þurfi að leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, þar á meðal heitra og kaldra vatnslinda, og fyrirbyggjandi aðgerðir og aðlögunarhæfni samfélaga vegna loftslags- og náttúruvár. Það sé í samræmi við nýjar áherslur stjórnvalda í loftslags- og orkumálum. Orkuveita Reykjavíkur telur að færa þurfi kröfur og viðmið sem nú komi fram í viðauka 1 í lögum nr. 106/2000 til samræmis við það sem við eigi í tilskipun 2011/92/ESB. Bendir Orkuveita Reykjavíkur á ósamræmi í kröfum um stærðarviðmið leiðslna til flutnings á gasi og koltvíoxíði ( CO2, sbr. ákvæði 3.10 og 3.11 í viðauka 1 í lögunum sem samsvari ákvæðum 16 a og b í I. viðauka í tilskipuninni. Í umsögninni er lagt til að hér á landi verði sömu viðmið látin gilda. Þá er lagt til að frekar verði notast við hugtakið koltvíoxíð en koltvísýringur eins og nú sé gert í lögunum.
    Fallast má að mestu leyti á þau sjónarmið sem fram koma í umsögnum um áform um lagasetninguna sem höfð var hliðsjón af við gerð frumvarpsins. Rétt er að árétta markmið um að tryggja sem best aðkomu almennings að ákvarðanatöku um framkvæmdir snemma í ferlinu samhliða aukinni skilvirkni í stjórnsýslunni. Starfshópurinn sem vann frumvarpið hefur kynnt sér skýrslu VSÓ um málsmeðferð við leyfisveitingar og mat á umhverfisáhrifum og tekið mið af tillögum hennar, sér í lagi hvað varðar einfaldaða málsmeðferð og gegna- og samráðsgátt. Gagna- og samráðsgáttinni er ætlað að vera öflugt stjórntæki í samráði við almenning, umsagnaraðila og aðra hagsmunaaðila. Hvað varðar áform um eina matsskýrslu er tekið fram að þeim viðbótum sem felast í athugasemdum og umsögnum er ætlað að verða hluti af áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Gert er ráð fyrir að gagna- og samráðsgáttin verði þróuð í nánu samstarfi við Stafrænt Ísland og að nýta megi verkefnið í að samræma enn frekar ferla eftir því sem við getur átt. Vegna athugasemda um stærðarviðmið leiðslna til flutnings á gasi er rétt að taka fram að gerð er tillaga um að miða við 10 km í stað 1 km í gildandi lögum, en áfram verði miðað við 50 cm þvermál. Hér á landi hefur í lögum um mat á umhverfisáhrifum í sumum tilfellum verið miðað við lægri þröskuldsgildi fyrir matsskyldu framkvæmda, svo sem varðandi lengd vega, lagna og háspennulína, en lágmarkskrafa tilskipunar ESB gerir kröfu um. Helgast það af aðstæðum hér á landi, svo sem varðandi sjónræn áhrif og röskun á ósnortnu landi.
    Drög að frumvarpi voru kynnt á samráðsgátt stjórnvalda 2. febrúar 2021 með frest til umsagna til 23. febrúar (mál nr. 30/2021). Alls bárust 14 umsagnir.
    Orkuveita Reykjavíkur ásamt dótturfélögunum Carbfix, Veitum og Orku náttúrunnar (OR) telur að dýpka megi skilgreiningu hugtaksins umsagnaraðilar í frumvarpinu. Ítrekað hafi láðst að leita umsagnar Veitna þrátt fyrir að fyrirtækið fari með rekstur lögbundinna verkefna sveitarfélaga, sbr. rekstur fráveitu og vatnsveitu. Einnig megi velta fyrir sér hvort einnig ætti að fella undir skilgreininguna aðra aðila sem reki samfélagslega mikilvæga innviði á borð við fjarskiptastrengi en slíkir aðilar starfi á einkamarkaði og falli ekki undir skilgreininguna eins og hún sé nú. Stafræn gagna- og samráðsgátt sé mikið framfaraskref sem auki gagnsæi, veiti stjórnvöldum aðhald og auki traust á stjórnsýslunni. OR telur þá jákvætt að forsamráð sé sérstaklega fest í sessi í frumvarpinu. Þá sé jákvætt að mögulegt verði að sameina mat á umhverfisáhrifum og deiliskipulagsgerð. Það kalli á að tillögur verði sendar til umsagnar sameiginlega og auglýsingar verði sameinaðar sem og kynningartími. Hvað varðar 1. viðauka í frumvarpið telur OR að réttara væri að nota hugtakið „borun“ heldur en „djúpborun“ í tölul. 2.04. Þá er bent á að ekki er fjallað um borun niðurdælingarholna í tölul. 2.04, hvort sem þær eru hugsaðar til niðurdælingar vökva á jarðhitasvæðum eða niðurdælingar koldíoxíðs. Varðandi tölul. 3.07 tekur OR fram að skiljuvatnslagnir jarðvarmavera hafi í áratugi innihaldið töluvert uppleyst magn CO2 og séu því í eðli sínu svipaðar lagnir og þær sem flytja uppleyst CO2 sem dæla á niður í berglög með t.d. Carbfix-aðferðinni. Það sé því hefð fyrir slíkum vatnslögnum hérlendis í orkuiðnaði sem jarðvarmavirkjanir og hitaveitur tilheyra og séu samfélagslega mikilvægir innviðir. Ljóst sé regluverk ESB í þessum efnum horfi til lagna sem flytji CO2 á gasformi. Hvert tonn CO2 uppleyst í vatni kalli á að u.þ.b. 25-falt vatnsmagn. Sverleiki lagna sé þar af leiðandi mun meiri en fyrir sambærilegt magn CO2 sem flutt er á gasformi auk þess sem áhættan sem fylgi flutningi vatns með uppleystu gasi sé minni en flutningi á gasi, m.a. vegna lægri þrýstings. OR telur að færa þurfi tölul. 3.08 og 3.09 til samræmis við þau viðmið sem við eigi í tilskipun 2011/92/ESB. OR leggur því til að viðmiðin verði eins og lengdar- og stærðarmörkin í tilskipun 2011/92/ESB, þ.e. 40 km langar leiðslur og 80 cm þvermál í stað 10 km langra og 50 cm í þvermál eins og frumvarpið geri ráð fyrir. Þá telur OR það ranga nálgun að taka út tilvísun í jarðvarma og láta hugtakið iðjuver taka til hans. Það dragi úr skýrleika og OR leggi til að hugtakið jarðvarmaorkuver verði notað í samræmi við aðra töluliði sem tilgreina t.d. vind- og vatnsorkuver. OR gerir athugasemd við tölul. 3.18 þar sem fjallað er um geymslusvæði fyrir koltvísýring, sbr. 22. tölul. í I. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB. Í tilskipuninni sé vísað til þess að undir flokkinn falli geymslusvæði samkvæmt tilskipun 2009/31/EB um niðurdælingu á CO2. Áréttað er að undir síðarnefndu tilskipunina falli ekki verkefni til rannsóknar, þróunar eða prófunar á nýrri framleiðsluvöru og nýjum vinnsluferlum ef fyrirhuguð heildargeymsla er undir 100 kílótonnum. Af þessu leiði að svæði þar sem til stendur að dæla niður í framangreindum tilgangi og undir 100 kílótonna viðmiðunarmagninu falli ekki undir tilskipun 2009/31/EB og þar af leiðandi ekki undir tölul. 3.18 í frumvarpinu, sbr. 22. tölul. tilskipunar í I. viðauka við tilskipun 2011/92/EB. Varðandi tölul. 3.19 segir OR eðlilegt að sníða verkefnum sem fanga CO2 frá verksmiðjum eða iðjuverum sama stakk eftir því hvort horft sé til þess að dæla CO2 niður í berglög eða búa til nýjar afurðir, t.d. rafeldsneyti, úr straumnum. Þar sem um samskonar mannvirki til föngunar sé að ræða sé eðlilegt að um þau gildi sömu viðmið samkvæmt löggjöf um mat á umhverfisáhrifum. Í tölul. 6.01 sé fjallað um efnaverksmiðjur sem framleiði m.a. lífrænt og ólífrænt hráefni og ákjósanlegt væri að skýra hvort rafeldsneytisframleiðsla falli þar undir. Þá er bent á að mannvirki sem fangi CO2 beint úr andrúmslofti geti verið mjög svipuð og mannvirki sem fangi CO2 frá verksmiðjum eða iðjuverum en þeirra sé ekki getið í 1. viðauka í frumvarpinu.
    Skipulags- og byggingarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar í umsögn sinni breytingum sem geti orðið til einföldunar og styttingar á verkferlum vegna umhverfismats áætlana og umhverfismats framkvæmda.
    Í umsögn Landssamtaka skógareigenda er fjallað um markmiðsákvæði frumvarpsins. Segir að hugtakið „hringrásarhagkerfi“ sé dregið af hugtakinu sjálfbærni sem hafi meginstoðirnar þrjár, efnahag, samfélag og náttúru. Hugtakið eigi uppruna sinn í skógrækt sem geti stutt mjög vel við stoðirnar þrjár. Þá verði að vera hvati eða þrýstingur af einhverju tagi til staðar til þess að ná fram þróun í einhverja átt. Heilnæmt umhverfi vísi til landslagsheildar. Grænt land sé gróið land og heilnæmt umhverfi gæti átt við náttúruna þar sem mannanna inngrip hafi ekki notið við. Orðið „umhverfisvernd“ geti hvort heldur sem er verið til gagns eða ógagns þar sem vernd geti þýtt ákall um stöðnun á þróun. Hugtakið „víðerni“ í frumvarpinu bjóði upp á þann skilning að víðerni eitt og sér sé öðru fremra. Orðið „landslag“ feli í sér skilgreiningar og mætti ætla að ásýnd nær og fjær falli þar undir. Hvað varðar stafræna vefsjá og samráðsgátt telja samtökin það vera skref inn í nútímann en óvíst sé hvort hugmyndin þjóni tilgangi sínum til langframa þar sem almenningur verji almennt ekki tíma sínum í skrif á slíkum umsögnum og óvíst sé hver meti umsagnirnar. Samtökin telja að ferli við gerð umhverfismatsskýrslu ætti að vera stutt og hnitmiðað. Þá mætti sjá fyrir sér fjárhagslegan stuðning við gerð slíkra áætlana ef markmiðin ættu að nást í sátt við þjóðina. Þá gera samtökin athugasemd við að matsskylduviðmið nýræktunar skóga séu lækkuð. Það stuðli að „frímerkjaskógrækt“ þar sem landslagsheildir séu brotnar upp í smærri einingar.
    Samtök iðnaðarins benda á umsagnir sem sendar hafi verið á fyrri stigum og ítreka fyrri umsagnir að svo miklu leyti sem ekki hafi verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem þar komi fram. SI telja að mikilvægt sé að það sé skýrt með hvaða hætti tekið hafi verið tillit til skýrslu VSÓ ráðgjafar um málsmeðferð við leyfisveitingar og mat á umhverfisáhrifum sem var unnin fyrir samtökin, Samtök atvinnulífsins o.fl. aðila.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar eru settar fram ábendingar um ýmis hugtök, sbr. „leyfi til framkvæmda“, „umsagnaraðilar“ og „leyfisveitandi“. Þá telur stofnunin að skýra þurfi betur hvað átt sé við með hugtakinu „raunhæfir valkostir“ í frumvarpsdrögunum. Stofnunin bendir einnig á að breytt fyrirkomulag á umhverfismatsskýrslu kalli á breytingu á náttúruverndarlögum. Hvað varðar brottfall C-flokks framkvæmda bendir Umhverfisstofnun á að í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem innleiða tilskipun 2010/75/ESB um losun í iðnaði, séu viðmiðunargildin miðuð við framleiðslugetu eða afkastagetu. Ef miðað sé við stærð í viðaukanum gæti verið æskilegt að bætt sé við orðunum „að jafnaði“ svo að svigrúm skapist við mat á hvort framkvæmd ætti að falla undir lögin.
    Að mati Landsvirkjunar er mikilvægt að framkvæmdir sem augljóslega muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif verði ekki settar í málsmeðferð sem ekki hafi verið upphaflega ætluð til að ná til slíkra framkvæmda. Landsvirkjun kveðst þá fylgjandi heimild Skipulagsstofnunar til að taka ákvörðun ef umsögn umsagnaraðila berst ekki innan fjögurra vikna og telur að sams konar heimild ætti að vera bætt við 1. mgr. 21. gr. frumvarpsins. Landsvirkjun leggur einnig til að skoðað verði að álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun verði í formi ákvörðunar líkt og í núgildandi lögum og sú ákvörðun verði kæranleg af hálfu hagsmunaaðila og framkvæmdaraðila. Landsvirkjun telur þá að rétt sé að huga að kæruheimildum fyrr í ferlinu, t.d. vegna ákvörðunar um matsáætlun. Landsvirkjun telur einnig að útfæra þurfi nánar ákvæði um endurskoðun umhverfismats. Leggur Landsvirkjun til að leyfisveitanda og Skipulagsstofnun verði heimilað að endurskoða tiltekna þætti í umhverfismati að beiðni framkvæmdaraðila og að málsmeðferð verði umfangsminni en við endurskoðun umhverfismats. Í gegnum tíðina hafi framkvæmdin verið sú að Skipulagsstofnun hafi tekið til skoðunar óverulegar breytingar á matsáætlun og framkvæmd eftir að álit liggur fyrir. Landsvirkjun bendir einnig á að í 1. viðauka í frumvarpinu sé ekki gerður greinarmunur á framleiðslu vetnis eftir því hvernig það sé framleitt en þar komi helst til greina tvær gjörólíkar aðferðir og mikill munur á umhverfisáhrifum eftir því hvor aðferðin sé notuð og hafi framleiðsla vetnis beint úr raforku talsvert minni umhverfisáhrif í för með sér þar sem ekkert CO2 myndist við slíka aðferð.
    Skógræktin gerir í umsögn sinni athugasemd við að matsskylda skógræktar miðist við 50 ha lands í stað 200 ha. Að mati skógræktarinnar hafi 200 ha þröskuldsgildið í lögum verið virkt og hafi það haldið aftur af áhuga landeigenda til að rækta skóg á meira en 200 ha á landi sínu af ótta þeirra við að þurfa að leggja í ófyrirsjáanleg útgjöld vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
    Landsnet telur að með frumvarpsdrögunum sé stigið skref til samþættingar og skilvirkni. Skýrt þurfi þó að vera í lögunum að vefgátt haldi utan um öll þau gögn sem snúi að skipulagi, umhverfismati og leyfisveitingum. Landsnet telur til bóta að Skipulagsstofnun geti lokið afgreiðslu matsáætlunar þótt ekki hafi allar umsagnir borist en einnig ættu umsagnaraðilar ekki að geta fengið lengri frest en fjórar vikur til að veita umsögn. Ekki sé þó skýrt hvaða tíma Skipulagsstofnun hefur til að fara yfir og samþykkja að gögn séu fullnægjandi. Samkvæmt reynslunni sé oft óvissa um hvenær samþykkt stofnunarinnar geti legið fyrir. Þá gefi ákvæði frumvarpsins engar vísbendingar um hvaða gögn geta talist fullnægjandi. Við gerð matsáætlunar sé mikilvægt að það liggi fyrir sameiginlegur skilningur framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar um hvaða valkostir verði teknir til mats og væri æskilegt að frumvarpið kvæði á um greiningu á valkostum og rökstuðning fyrir mati á valkostum. Varðandi þá breytingu að skipulagsstofnun veiti álit um matsáætlun sé þá spurning hvernig fari með ágreiningsmál á þessu stigi. Landsnet telur einnig mikilvægt að það sé skýrt að samþykki Orkustofnunar á framkvæmdum á kerfisáætlun falli ekki undir það að vera „leyfi til framkvæmda“ í skilningi frumvarpsins. Tryggja þurfi að frumvarpið gangi ekki gegn ákvæðum raforkulaga um málsmeðferð við gerð og samþykkt kerfisáætlana. Landsnet telur mikilvægt að ákvæði um samþættingu ferla og verkaskiptingu sveitarfélags og framkvæmdaraðila sé skýr. Einnig þurfi að vera skýrt að leyfisveitendur þurfi að grundvalla ákvarðanatöku sína á afgreiðslu framkvæmdar í kerfisáætlun. Landsnet telur mikilvægt að framkvæmdaraðila gefist færi á að bregðast við ábendingum sem berast um umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila. Viðbrögð framkvæmdaraðila þurfi þá að vera aðgengileg í samráðsgáttinni til þess að þeir sem sent hafa umsagnir og athugasemdir sjái hvernig unnið hefur verið með þær. Þá gerir Landsnet athugasemd við tölul. 10.16 í 1. viðauka varðandi lagningu loftlína til flutnings raforku. Orðalag töluliðarins gæti leitt til þess að plægðar strenglagnir yrði að tilkynna inn til Skipulagsstofnunar. Þá telji Landsnet mjög mikilvægt að þegar teknar eru ákvarðanir um hvort framkvæmdir falli undir 1. viðauka og þá í hvaða flokk sé horft til samræmis milli mögulegra áhrifa sem framkvæmdirnar geta haft á umhverfi sitt og þá skipti tilhögun framkvæmdar meira máli en hvort strengur/lögn flytji fjarskipti, rafmagn eða vatn. Skoða megi tölul. 10.16–10.22 betur með það í huga.
    Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) styður sameiningu löggjafarinnar með vísan til aukins skýrleika og aðgengis, minna flækjustigs og þannig aukins gagnsæis og betra aðgengis að gögnum á einum stað í rafrænni gátt. VFÍ telur margt í frumvarpinu til þess fallið að stytta málsmeðferðartíma og bæta gæði málsmeðferðar. Tekið er fram að mikilvægt sé að forsamráð verði ekki viðbótarskref í ferlinu og að skýra mætti nánar hvað það feli í sér. VFÍ telur tillögu varðandi endurskoðun umhverfismats fela í sér ágæta leið til að sætta sjónarmið sem uppi hafi verið undanfarin ár um gildistíma umhverfismats og hafi VFÍ ítrekað lagt fram sín sjónarmið um að ekki sé æskilegt að binda endurskoðun við styttri tíma en tíu ár fyrir viðamiklar og stórar framkvæmdir. VFÍ telur þá að skýra megi nánar tímalínu málsmeðferðar. Að mati félagsins er sjö vikna frestur Skipulagsstofnunar til að afgreiða matsskýrslu óþarflega langur í flestum tilvikum. Frekar ætti að vera heimilt að lengja frestinn til að mæta fyrirsjáanlegri þörf fyrir lengri tíma í flóknari framkvæmdum. Þá gerir VFÍ athugasemd við orðalag liðar 6.01 í 1. viðauka.
    Landvernd telur að með frumvarpinu sé ferli mats á umhverfisáhrifum einfaldað sem sé um margt jákvætt. Dregið hafi þó úr möguleikum almennings til þess að koma að ferlinu með færri tilvikum þar sem framkvæmdir séu kynntar. Með því að auka aðkomu almennings snemma í ferlinu mætti forða sveitarfélögum og framkvæmdaraðilum kostnaðarsaman undirbúning við framkvæmdir sem ættu aldrei að verða. Að mati Landverndar hafi að mörgu leyti tekist að innleiða EES-tilskipun um umhverfismat framkvæmda. Sérstaklega sé ánægjulegt að í drögunum að frumvarpinu sé lagt til í samræmi við Evróputilskipunina að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum skuli raunverulega liggja til grundvallar leyfisveitingum. Landvernd telur þó enn ósamræmi vera á milli frumvarpsins og tilskipunarinnar og gerir athugasemd við að tillagan innihaldi ekki ákvæði um það að stjórnvöld skuli tryggja hlutleysi leyfisveitanda. Skipulagsstofnun virki sem leiðbeiningaraðili fyrir framkvæmdaraðila og meira vald sé sett á leyfisveitendur sem oft séu sveitarstjórnir í fámennum sveitarfélögum sem ekki hafi faglega getu til þess að sinna flóknum og sjaldgæfum málum. Þá telur Landvernd að leyfisveitendur og framkvæmdaraðilar séu oft svo nátengdir að almenningur geti ekki fyllilega treyst mati stjórnvalda. Því sé rétt að skipulagsstofnun taki ákvörðun um framkvæmdaleyfi í þeim tilvikum þegar sveitarfélög lenda í hagsmunaárekstrum og leggur til breytingu á frumvarpinu í því skyni. Landvernd bendir á að veiting leyfis sé hluti af ferlinu við umhverfismat framkvæmda og mikilvægt sé að álit Skipulagsstofnunar feli ekki aðeins í sér að athuga skýrslur og gögn. Landvernd leggur til að matsáætlun verði áfram háð samþykki Skipulagsstofnunar. Landvernd telur að erfitt verði fyrir Skipulagsstofnun að mynda álit á umhverfisáhrifum þegar framkvæmdaraðili hafi ekki tekið tillit til athugasemda umsagnaraðila og almennings. Þetta sé of mikil einföldun og í greinina þurfi að bæta umfjöllun um frummatsskýrslu. Landvernd fagnar því að gengið sé út frá bindandi áliti Skipulagsstofnunar en telur að skerpa megi á því í texta frumvarpsins. Að mati Landverndar þurfi þá að gera ríkari kröfur um birtingu framkvæmdaleyfis. Landvernd telur ákvæði. frumvarpsins ekki standast tilskipun um mat á umhverfisáhrifum þar sem hún tryggi ekki á fullnægjandi hátt að álit um mat á umhverfisáhrifum sé í fullu gildi. Hvað varðar undanþágur frá umhverfismati telur Landvernd ekki þörf á frekari undanþágum nema þegar um brýna almannahagsmuni sé að ræða. Þá sé nauðsynlegt að fallið verði frá breytingum á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála um brot á þátttökurétti almennings.
    Bændasamtök Íslands telja mikilvægt að framkvæmdir verði sérstaklega kynntar þeim sem hagsmuni hafi að gæta af mögulegum framkvæmdum, svo sem eigendum og ábúendum nágrannajarða og öðrum. Ekki nægi að kynna framkvæmdir almennt gagnvart almenningi og umsagnaraðilum eins og þeir séu skilgreindir í 11. tölul. 3. gr. Samtökin benda á að stýrihópur um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir hafi hafið störf en þegar hafi verið lagðar fram breytingar á jarðalögum þar sem lögð sé áhersla á vernd landbúnaðarlands, sbr. einnig gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands. Verkefnisstjórn vinni einnig að mótun landbúnaðarstefnu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í stefnumörkun hins opinbera sé lögð áhersla á að sveitarfélög fái aukið sjálfstæði við ákvarðanatöku um landnýtingu á sínu svæði án aðkomu eða staðfestingar ráðherra. Eðlilegt sé að sveitarfélögin ákveði hvers konar landbúnaður sé stundaður innan þeirra marka og þ.m.t. meti áhrif breytinga á þeim svæðum. Með brottfalli C-flokks framkvæmda muni umsvif sveitarfélaga í málaflokknum minnka. Bændasamtökin gera athugasemdir við þröskuldsgildi í framkvæmdaflokkum 1.02, 1.03 og 1.04 og leggja til að ekki verði hreyft við núverandi fyrirkomulagi.
    Rarik gerir athugasemd við 1. viðauka frumvarpsins í umsögn sinni. Segir að ekki sé ljóst hvort sambærilegur greinarmunur sé nú gerður á streng sem er plægður í jörð eða niðurgrafinn. Hvað varðar skilgreiningu á hugtakinu „umtalsverð umhverfisáhrif“ telur Rarik að hafi fyrri skilgreining á hugtakinu ekki verið nákvæm sé síst til bóta að fella brott skilgreiningu á hugtakinu líkt og hér sé gert. Leggur Rarik því til að hugtakið verði skilgreint sérstaklega í lögunum enda hafi hugtakið veigamikla þýðingu samkvæmt frumvarpinu. Hvað varðar áætlanir sem falla undir frumvarpið telur Rarik að taka mætti skýrlega fram að framkvæmdaáætlanir dreifiveita falli ekki þar undir. Einnig mætti kveða á um að hafi umsagnaraðili ekki skilað inn umsögn fyrir tilgreindan frest teljist hann ekki gera athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir.
    Samorka telur ýmis jákvæð skref stigin með frumvarpinu en að ganga þurfi mun lengra. Meðal helstu áhersluatriða Samorku sé að nýta rafrænar lausnir alla leið og í öllu ferlum framkvæmda. Mikilvægt sé að ekki séu búnar til séríslenskar reglur. Gerð er athugasemd við brottfall hugtaksins „umtalsverð umhverfisáhrif“. Mikilvægt sé að í lögunum finnist vísiregla um hvað teljist „umtalsverð umhverfisáhrif“. Hvað varðar einstök atriði telur Samorka að skýra þurfi nánar hvort breyting á orðalagi frá gildandi lögum feli í sér efnisbreytingu. Skýra megi nánar samspil fyrsta undirbúnings framkvæmda þar sem almenningur eftir atvikum hefur átt aðkomu eða format hefur farið fram, t.d. kerfisáætlun eða rammaáætlun þar sem veruleg greining og samtal við almenning og hagaðila fer fram sem og greining sviðsmynda, svo dæmi sé tekið. Mjög jákvætt sé að komið sé inn ákvæði um forsamráð. Aðildarfélög Samorku sjái mikil tækifæri í þessari aðferðafærði sem skapi möguleika á frekari útfærslu þessa úrræðis með það í huga að tryggja snemmaðkomu fleiri aðila að viðkomandi framkvæmd. Þá sé mikilvægt að fyrirmæli um umhverfismatsskýrslur endurspegli skýrlega áherslu á að valkostamat komi fram snemma í ferlinu og hægt sé að taka afstöðu til og taka út kosti þá þegar. Skipulagsstofnun fái með frumvarpinu rýmri tíma til að taka ákvörðun um matsskyldu og veita álit um umhverfismat. Mikilvægt sé að því fylgi kvaðir á Skipulagsstofnun þannig að frestir haldi. Af frumvarpinu megi ráða að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum feli í sér stjórnvaldsákvörðun. Sé þetta rétt ályktun sé um mjög mikla efnisbreytingu að ræða sem þarfnist nákvæmrar skoðunar.
    HS Orka tekur undir sjónarmið í umsögn Samorku. Telur HS Orka mikilvægt að ná fram samþættingu laga um framkvæmdir eða þróun atvinnuuppbyggingar á orkusviði, þannig að framkvæmd sé afgreidd gegnum eitt samfellt ferli sem taki til allra þátta uppbyggingar, frá skipulagsgerð til heimildar til framkvæmda og reksturs. Fyrir framkvæmdir á sviði orkuiðnaðar þyrfti að vera markaður farvegur í einu samfelldu ferli sem væri fyrirskrifað og haldið utan um, hvað tímasetningar og efnistök áhrærir, í samvinnu Skipulagsstofnunar og framkvæmdaraðila.
    Við yfirferð á umsögnum voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu auk þess sem ýmis lagatæknileg atriði komu til skoðunar.
    Skilgreiningu á hugtakinu „umsagnaraðilar“ hefur verið breytt þannig að hugtakið nái jafnframt til annarra lögaðila sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lögin. Þannig tekur skilgreiningin til Veitna ohf. sem ekki eru stjórnvald eða opinber stofnun en er falinn rekstur lögbundinna verkefna sveitarfélaga, þ.e. rekstur fráveitu og vatnsveitu. Þá hafa verið gerðar minni háttar breytingar á orðalagi annarra töluliða 3. gr. Nokkrir umsagnaraðilar gera athugasemd við að fallið sé frá skilgreiningu hugtaksins „umtalsverð umhverfisáhrif“ en um það vísast til athugasemda við 3. gr. Þá hefur umfjöllun í greinargerð verið yfirfarin til nánari áréttingar á þeim áætlunum og leyfum sem frumvarpið tekur til.
    Við ákvæði 1. mgr. 23. gr. hefur verið bætt heimild Skipulagsstofnunar til að ljúka áliti um mat á umhverfisáhrifum á grundvelli fyrirliggjandi gagna ef umsögn umsagnaraðila berst ekki innan tilskilins frests, til samræmis við ákvæði 21. gr. frumvarpsins.
    Í nokkrum umsögnum eru gerðar athugasemdir við það að ekki er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um matsáætlun. Skv. 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB getur framkvæmdaraðili óskað eftir áliti lögbærs stjórnvalds um umfang og sundurliðunarstig þeirra upplýsinga sem framkvæmdaraðilinn skal leggja fram í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Þá geta aðildarríki gert kröfu um slíkt álit án tillits til þess hvort framkvæmdaraðilinn óskar þess. Skv. 1. mgr. 5. gr. skal skýrsla framkvæmdaraðila byggjast á því áliti þegar það hefur verið gefið út. Í ljósi þessa er tillaga frumvarpsins talin í betra samræmi við tilskipun um umhverfismat framkvæmda en ákvæði núgildandi laga. Þá ber jafnframt að hafa í huga að framkvæmdaraðila ber að leggja álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun til grundvallar við gerð umhverfismatsskýrslu og skal gerð og efni umhverfismatsskýrslunnar vera í samræmi við matsáætlun og álit Skipulagsstofnunar.
    Í nokkrum umsögnum er vikið með beinum eða óbeinum hætti að áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdar og að hvaða marki álit stofnunarinnar bindur leyfisveitanda. Í ljósi þeirra athugasemda var nýjum kafla, kafla 3.10, bætt við 3. kafla greinargerðarinnar um meginefni frumvarpsins og vísast til hans um nánari umfjöllun.
    Hvað varðar kröfu tilskipunarinnar um hlutleysi, sbr. 9. gr. a í tilskipun 2011/92/ESB með breytingum með tilskipun 2014/52/ESB, er Skipulagsstofnun falið að komast að rökstuddri niðurstöðu um umhverfismat en það er ekki í höndum leyfisveitanda. Þá skulu skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar binda leyfisveitanda. Þetta fyrirkomulag er talið tryggja hlutleysi leyfisveitanda.
    Í umsögnum er víða að finna almenna umfjöllun um gagna- og samráðsgátt. Lögð er áhersla á gagnsætt og opið ferli sem er í samræmi við markmið frumvarpsins. Skerpt hefur verið á orðalagi ákvæðis um gagna- og samráðsgátt þannig að ljóst sé að gögnin sem ber að birta þar taki jafnframt til umsagna og gagna sem varði leyfi til framkvæmda. Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun hýsi gáttina en við hönnun gáttarinnar verða skoðaðir möguleikar á tengingum við fleiri verkefni.
    Í frumvarpinu er nú mælt fyrir um að umsagnaraðilar skuli skila umsögnum innan fjögurra vikna og að berist umsögn ekki innan þess tíma geti Skipulagsstofnun komist að niðurstöðu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ekki er þó talið fært að mæla svo fyrir að berist umsögn ekki innan þess tíma skuli litið svo á að umsagnaraðili geri ekki athugasemdir. Sjónarmið viðkomandi umsagnaraðila geta verið afgerandi þáttur í niðurstöðu um matsáætlun eða álit um mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun verður að geta átt lokamat um hvort forsendur séu til að komast að niðurstöðu en hér vegast á málshraða- og rannsóknarreglan.
    Í frumvarpinu, líkt og í núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum, er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun komist að niðurstöðu um matsáætlun innan tiltekins tíma frá því að fullnægjandi gögn berast frá framkvæmdaraðila. Í umsögnum koma fram óskir um að Skipulagsstofnun sé veittur ákveðinn frestur til að komast að niðurstöðu um hvort innsend gögn séu fullnægjandi sem og nánari lýsingu á því hvaða gögnum þurfi að skila til að gagnaskil teljist fullnægjandi. Það er mat ráðuneytisins að slíkt geti að einhverju leyti verið háð mati hverju sinni. Þá er bent á að í frumvarpinu er fjallað um hvað á að koma fram í matsáætlun og gert ráð fyrir að ákvæðið verði nánar útfært í reglugerð. Í því felst lýsing á því hvaða gögnum þarf að skila og hvernig þau skuli úr garði gerð.
    Í nokkrum umsögnum er vikið að raunhæfum valkostum. Í matsáætlun á að gera grein fyrir þeim raunhæfu valkostum sem til greina koma og í umhverfismatsskýrslu skal síðan rökstyðja þann valkost sem var valinn með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar. Vegna framkominna athugasemda skal tekið fram að við gerð matsáætlunar er ekki tímabært að taka ákvörðun um tiltekinn valkost þar sem um er að ræða áætlun um hvernig matið verði unnið, þ.m.t. út frá þeim valkostum sem lýst er í matsáætlun. Einnig koma í umsögnum fram sjónarmið um nánari skilgreiningu raunhæfra valkosta. Í IV. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB eru nánari fyrirmæli um mat á raunhæfum valkostum, en gert er ráð fyrir að efni viðaukans verði fært í reglugerð.
    Hvað varðar heimild til að sameina skýrslugerð og kynningu umhverfismats framkvæmdar og skipulagstillögu er ljóst að nánari útfærslu er þörf í reglugerð og að tekið verður þar mið af skiptingu ábyrgðar framkvæmdaraðila og viðkomandi sveitarfélags, en skipulagsáætlanir eru á ábyrgð sveitarfélaga óháð því hvort málsmeðferð er sameinuð.
    Í tveimur umsögnum er vikið að markmiðsákvæði frumvarpsins. Annars vegar koma fram sjónarmið um að þar skuli koma fram markmið um að tryggja hátt verndarstig umhverfisins og hins vegar að markmið frumvarpsins skuli vera að fram fari umhverfismat viðkomandi framkvæmdar. Í aðfaraorðum tilskipunar 2014/52/ESB kemur fram að tiltekin ákvæði breytingatilskipunarinnar séu tilkomin í þeim tilgangi að tryggja hátt verndarstig umhverfisins. Í frumvarpinu er lagt til að í a-lið 1. gr. verði tilgreind sem markmið sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem vinna skuli að með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem líklegar séu til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Talið er að markmiðsákvæði frumvarpsins sé í samræmi við markmið tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB og að ljóst sé að markmiðunum skuli náð með umhverfismati tiltekinna framkvæmda og áætlana. Vísast að öðru leyti til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.
    Eins og fram er komið er með frumvarpinu fallið frá því fyrirkomulagi að framkvæmdaraðili skili matsskýrslu tvisvar, þ.e. frummatsskýrslu og matsskýrslu, og gert ráð fyrir einni umhverfismatsskýrslu í samræmi við fyrirkomulag nágrannaþjóða okkar. Í umsögnum er vakin athygli á mikilvægi þess að framkvæmdaraðili eigi kost á því að bregðast við umsögnum, en samkvæmt núverandi fyrirkomulagi er í matsskýrslu að finna viðbrögð framkvæmdaraðila við athugasemdum við frummatsskýrslu. Er því vakin athygli á þeirri ríku rannsóknarskyldu sem hvílir á Skipulagsstofnun, en stofnuninni ber að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að komast að rökstuddri niðurstöðu um umhverfisáhrif framkvæmdar. Í því felst að leitað verði sjónarmiða framkvæmdaraðila um atriði í umsögnum þegar þörf er á.
    Við 3. kafla greinargerðarinnar um meginefni frumvarpsins hefur verið bætt kafla 3.9 um þátttökuréttindi almennings, m.a. í ljósi athugasemda í umsögnum sem þau varða. Einföldun ferlisins, auk rafrænnar samráðsgáttar, er talin styrkja aðkomu almennings að ferli við umhverfismat framkvæmda og áætlana. Um sérstakar heimildir til að kæra brot á þátttökurétti almennings vísast til umfjöllunar í kafla 3.6.
    Ákvæði 9. gr. a tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB skyldar aðildarríki til að tryggja hlutleysi lögbærra stjórnvalda samkvæmt tilskipuninni. Skv. 2. mgr. 9. gr. a skulu aðildarríki, þegar lögbæra stjórnvaldið er einnig framkvæmdaraðili, hið minnsta koma á, innan skipulags stjórnsýsluvaldsviðs síns, viðeigandi aðskilnaði á þeim starfssviðum sem stangast á þegar þau framfylgja skyldum sínum samkvæmt tilskipuninni. Bent er á að það fyrirkomulag að leyfisveitandi beri ábyrgð á umhverfismati er þekkt víða um Evrópu. Hér á landi er ábyrgð á rökstudda álitinu um umhverfismat framkvæmdar falin óháðum þriðja aðila, þ.e. Skipulagsstofnun. Telja verður að hlutverk Skipulagsstofnunar í ferlinu tryggi hlutleysi og að það hlutleysi sé styrkt með frumvarpinu þar sem skýrt er tekið fram að skilyrði í áliti stofnunarinnar sé bindandi fyrir framkvæmdaraðila.
    Tekið er undir sjónarmið um mikilvægi þess að almenningur sé upplýstur. Gildandi lög um mat á umhverfisáhrifum gera leyfisveitanda að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skuli tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis sé aðgengileg og tilgreina kæruheimildir og kærufrest þegar það á við. Í sérlögum er að finna nánari fyrirmæli um auglýsingu leyfa. Þannig skal ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda auglýst í Lögbirtingablaðinu skv. 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Þá hafa ákvæði frumvarpsins verið yfirfarin til að koma til móts við framangreind sjónarmið og skýrt tekið fram að auglýsa beri með áberandi hætti.
    Hvað varðar ákvæði um endurskoðun umhverfismats er áréttað að með ákvæðinu er framkvæmdaraðila eða leyfisveitanda heimilt að leita álits um hvort endurskoða þurfi umhverfismat óháð þeim tíma sem liðinn er frá því að álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati framkvæmdarinnar liggur fyrir. Þá er áréttuð ábyrgð leyfisveitanda á að gæta þess að leyfið sé byggt á fullnægjandi umhverfismati.
    Hvað varðar undanþáguheimildir tilskipunarinnar hefur frumvarpið tekið þeim breytingum að fallið er frá tillögu um ákvæði til innleiðingar 5. mgr. 2. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, en þar er um að ræða valkvæða heimild. Skv. 5. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar geta aðildarríki með sérstakri löggjöf undanþegið tiltekna framkvæmd ákvæðum tilskipunarinnar varðandi samráð við almenning, að því tilskildu að markmiðum tilskipunar sé náð. Ekki er talin sérstök þörf á slíku ákvæði auk þess sem ekki verður talið að slík heimild hafi áhrif á lagasetningarvald Alþingis. Aftur á móti er talið æskilegt að löggjöfin hafi viðeigandi farveg fyrir önnur tilfelli en einungis neyðartilvik í skilningi tilskipunarinnar. Ákvæði 4. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar og 2. mgr. 29. gr. frumvarpsins setja slíkum undanþágum þröngar skorður og gera að skilyrði að markmiðum tilskipunarinnar verði náð. Þá ber að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um undanþáguna.
    Í umsögnum er að finna sjónarmið um að samþætting ferla verði að taka mið af ákvæðum raforkulaga. Vegna þessa er bent á að ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum sem og ákvæði skipulagslaga taka til málsmeðferðar um áætlanagerð óháð því hvort viðkomandi framkvæmdir byggjast á stefnumótun eða áætlanagerð á grundvelli sérlaga eins og raforkulaga. Vegna þessa er rétt að benda á að ýmis önnur lög en raforkulög takmarka heimildir sveitarfélaga til ákvarðanatöku um landnotkun við skipulagsgerð, svo sem lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, sem kveða á um heimildir ráðherra til friðlýsinga og lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Engu síður ber ætíð að fara eftir þeirri lagaumgjörð sem fram kemur í skipulagslöggjöfinni og löggjöf um mat á umhverfisáhrifum við skipulagsgerð og framkvæmdir. Ekki hefur þótt tilefni til að telja upp í skipulagslögum eða lögum um mat á umhverfisáhrifum alla þá sérlöggjöf sem gildir um tilteknar framkvæmdir og gildir það einnig um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar.
    Ákvæði 1. viðauka frumvarpsins voru yfirfarin að teknu tilliti til umsagna. Hvað varðar athugasemdir um nýræktun skóga er ekki talið rétt að víkja þar frá 50 ha viðmiði. Nýræktun skóga felur í sér breytta landnýtingu og getur haft í för með sér miklar breytingar á vistkerfi og landslagi. Skógrækt er ólík hefðbundinni ræktun í landbúnaði að því leyti að almennt verður að líta á hana sem langtímaráðstöfun á landi auk þess að hafa almennt mun meiri áhrif á landslag. Í tölul. 2.04 er fjallað um djúpborun og á framkvæmdaflokkurinn sér samsvörun í d-lið 2. tölul. í II. viðauka í tilskipun 2011/92/ESB sem fjallar um „deep drillings“ af tilteknum tegundum að frátöldum iv. lið. Litið er svo á að niðurdælingarholur falli undir i. lið ákvæðisins og er talið rétt að nota hér áfram hugtakið djúpborun til samræmis við hugtakanotkun í samsvarandi lið tilskipunarinnar. Tölul. 3.08 tekur til leiðslna sem eru 10 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira, til flutnings á gasi, olíu eða annars konar efnum/efnasamböndum. Með ákvæðinu eru stærðarviðmiðin rýmkuð frá 1 km í 10 km en ekki þykja forsendur til að ganga lengra varðandi rýmkun þessara viðmiða í ljósi hérlendra aðstæðna með tilliti til landslags og jarðmyndana. Sömu sjónarmið eiga við stærðarmörk leiðslna samkvæmt tölul. 3.09. Hvað varðar tölul. 3.18 er ljóst af tilskipuninni að hann tekur ekki til niðurdælingarsvæða fyrir CO2 í jörðu ef um er að ræða verkefni til rannsóknar, þróunar eða prófunar á nýrri vöru eða aðferðum þar sem heildargeymsla er minni en 100 kílótonn. Þá hefur verið bætt við nýjum tölulið, tölul. 3.20, sem tekur til mannvirkja sem hafa þann tilgang að fanga koltvísýring ( CO2) til varanlegrar geymslu í jörðu úr andrúmslofti eða frá verksmiðjum eða iðjuverum utan þess sem fellur undir tölul. 3.19. Hvað varðar tölul. 6.01 er í leiðbeiningum framkvæmdastjórnar ESB að finna nánari leiðbeiningar um þá starfsemi sem fellur undir töluliðinn. Hvað varðar tölul. 10.16 er átt við niðurgrafna strengi, en ekki plægða strengi, en hvort heldur sem er niðurgrafna eða plægða sæstrengi og strengi sem lagðir eru í vatni. Ekki er gert ráð fyrir að strenglögn sé tilkynningarskyld á grundvelli þess að hún liggi um verndarsvæði ef eingöngu er um að ræða að óverulegur hluti strengs liggi innan verndarsvæðis.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér tillögu að nýjum heildarlögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Verði frumvarpið að lögum munu þau taka við af núgildandi lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og lögum nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, sem verða samtímis felld úr gildi. Með brottfalli C-flokks framkvæmda minnka umsvif sveitarfélaga í málaflokknum en þau bera samkvæmt núgildandi lögum ábyrgð á ákvörðun um matsskyldu framkvæmda í C-flokki og taka við tilkynningum vegna slíkra framkvæmda. Með breytingunni er málsmeðferð umhverfismats framkvæmda einfölduð nokkuð. Þá er vonast til að samþætting stjórnsýsluferla hafi í för með sér einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu. Aukin skilvirkni ætti að vera til hagsbóta fyrir alla aðila, þ.m.t. ríki, sveitarfélög, atvinnulíf og almenning. Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun þrói og reki stafræna gagna- og upplýsingagátt en þegar er gert ráð fyrir kostnaði í tengslum við hana í frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010, sem liggur fyrir Alþingi á 151. löggjafarþingi (275. mál).

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er fjallað um markmið laganna. Frumvarpinu er m.a. ætlað að sameina í eina heildarlöggjöf lög um mat á umhverfisáhrifum og lög um umhverfismat áætlana, sbr. lög nr. 106/2000 og lög nr. 105/2006. Tilskipun 2001/42/EB um umhverfismat áætlana inniheldur sérstakt markmiðsákvæði en tilskipun 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB gerir það ekki en markmið hennar verða dregin af aðfaraorðum hennar. Markmiðsákvæði frumvarpsins er dregið af markmiðum fyrrgreindra tilskipana. Grundvallarmarkmið þeirra eru umhverfisvernd og sjálfbær þróun og mæla tilskipanirnar fyrir um hvernig unnið skuli að því markmiði með umhverfismati tiltekinna framkvæmda og áætlana. Tilgangur umhverfismats er að tryggja upplýsta ákvarðanatöku út frá umhverfissjónarmiðum. Báðar leggja tilskipanirnar áherslu á að umhverfissjónarmið séu felld inn í undirbúning framkvæmda eða áætlana snemma í ferlinu þannig að ákvarðanataka geti tekið mið af þeim. Í stórum dráttum má segja að tilgangur mats á umhverfisáhrifum sé þríþættur. Í fyrsta lagi er tilgangurinn að tryggja upplýsta ákvarðanatöku, þ.e. að upplýsingar um umhverfisáhrif liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um framkvæmd eða áætlun. Grundvallaratriði er að mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin og að matið sé grundvöllur þeirrar ákvarðanatöku. Í öðru lagi er tilgangurinn að tryggja tiltekna yfirsýn, samræmingu og samvinnu en mat á umhverfisáhrifum tryggir ákveðna samræmingu og upplýsingaflæði og í þriðja lagi að tryggja aðkomu almennings að ákvarðanatöku með opinni og gagnsærri umfjöllun.
    Í a-lið kemur fram að markmið frumvarpsins sé sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem skal náð með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Í tilskipun 2001/42/ESB er sett fram markmið um að veita víðtæka umhverfisvernd í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun með því að tryggja, í samræmi við tilskipunina, að umhverfismat fari fram á tilteknum skipulags- og framkvæmdaáætlunum sem líklegt er að hafi veruleg áhrif á umhverfið áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd eða ákvörðun tekin um afgreiðslu áætlunar. Tilskipunum 2011/92/ESB og 2001/42/EB er ætlað að stuðla að háu verndarstigi fyrir umhverfið og heilbrigði manna. Báðar mæla tilskipanirnar fyrir um að markmiðum þeirra skuli náð með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Líta ber á umhverfismat sem mikilvægt tæki stjórnvalda til að ná fram markmiðum í umhverfismálum og stuðla að sjálfbærri þróun. Er því mikilvægt að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir til að hægt sé að taka ákvörðun um tiltekið verkefni með fulla vitneskju um hvaða líkur eru á því að verkefnið hafi veruleg áhrif á umhverfið þannig að umhverfissjónarmið séu felld inn í undirbúning og samþykkt á framkvæmdum og áætlunum sem undir lögin falla. Ákvæði frumvarpsins gera framkvæmdaraðila eða þeim sem ber ábyrgð á áætlanagerð að tryggja að framkvæmd eða áætlun sé metin með tilliti til umhverfisáhrifa.
    Í b-lið segir að markmið frumvarpsins sé skilvirkni við umhverfismat framkvæmda og áætlana. Eins og fram er komið er meginmarkmið heildarendurskoðunar laganna að auka skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum og tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu þannig að hún samræmist sem best ákvæðum Árósasamningsins. Aukin skilvirkni fæst með forsamráði þar sem ferli umhverfismats og leyfisveitinga og annað sem framkvæmdinni tengist er teiknað upp. Þá er fallið frá því tvöfalda samráði sem gildandi lög um mat á umhverfisáhrifum fela í sér auk þess sem framkvæmdaraðili skilar einni umhverfismatsskýrslu í stað frummatsskýrslu og síðan matsskýrslu. Með landfræðilegri gagna- og samráðsgátt er einnig stuðlað að skilvirkni sem og að þátttaka almennings og annarra hagsmunaaðila í ferlinu er styrkt.
    Í c-lið kemur fram markmið um aðkomu almennings að umhverfismati framkvæmda og áætlana og samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana. Eins og áður segir er eitt af markmiðum umhverfismats að tryggja aðkomu almennings að ákvarðanatöku með opinni og gagnsærri umfjöllun. Markmið þetta byggist á Árósasamningnum sem Evrópusambandið og Ísland eru aðilar að. Samningurinn byggist á því að með því að tryggja almenningi ákveðin réttindi, þ.e. upplýsingarétt um umhverfismál, rétt til að taka þátt í undirbúningi tiltekinna ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið og rétt til þess að fá ákvarðanir endurskoðaðar, geti almenningur haft bein áhrif á lífsskilyrði í nútíð og framtíð. Skv. 1. gr. samningsins skal sérhver samningsaðili, í því skyni að stuðla að verndun réttar hvers einstaklings af núverandi og komandi kynslóðum til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu hans og velferð, ábyrgjast rétt til aðgangs að upplýsingum, til þátttöku almennings í ákvarðanatöku og til aðgangs að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum í samræmi við ákvæði samningsins.

Um 2. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um gildissvið frumvarpsins Tilskipun 2001/42/EB um umhverfismat áætlana fjallar um hvaða áætlanir skuli háðar umhverfismati, hvaða sjónarmið skuli hafa til viðmiðunar við ákvörðun um umhverfismat áætlunar og um málsmeðferð og inntak umhverfismats. Málsmeðferð samkvæmt tilskipuninni felur í sér gerð umhverfismatsskýrslu, kynningu og álitsumleitan meðal stjórnvalda og almennings og afgreiðslu áætlunar þar sem höfð er hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum stofnana og almennings, svo og kynningu á endanlegri áætlun. Tilskipunin tekur til áætlana sem fjalla um landbúnað, skógrækt, fiskeldi, orkumál, iðnað, samgöngur, meðhöndlun úrgangs, vatnsnýtingu, fjarskipti, ferðaþjónustu eða skipulag byggðaþróunar og landnotkunar. Jafnframt skulu áætlanirnar marka stefnu fyrir leyfisveitingar um framkvæmdir sem falla undir tilskipun um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Tilskipunin tekur til áætlana stjórnvalda sem eru undirbúnar eða samþykktar af stjórnvöldum og unnar í samræmi við lög eða ákvörðun ráðherra. Ákvæði þessa frumvarps eiga við um alla áætlanagerð sem er háð umhverfismati. Þannig ber að umhverfismeta skipulagsáætlanir, þ.e. deiliskipulags-, aðalskipulags- og svæðisskipulagstillögur sveitarfélaga sem og strandsvæðaskipulag og ýmsar aðrar áætlanir opinberra aðila sem varða landnotkun, svo sem samgönguáætlun og skógræktar- og landgræðsluáætlanir.
    Gildissvið tilskipunar 2011/92/ESB nær til framkvæmda sem kunna að hafa veruleg áhrif á umhverfið. Greina ber á milli framkvæmda sem líklegar eru til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og framkvæmda sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif eru tilgreindar í viðauka sem framkvæmdir í flokki B. Ber framkvæmdaraðila slíkra framkvæmda að bera undir Skipulagsstofnun hvort umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Nefnast þær framkvæmdir tilkynningarskyldar framkvæmdir í frumvarpinu. Skipulagsstofnun tekur um það ákvörðun byggða á viðmiðum sem tilgreind eru í III. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB en efni hans er sett fram í 2. viðauka í þessu frumvarpi.
    Í a-lið kemur fram að skipulagsáætlanir og breytingar á þeim samkvæmt skipulagslöggjöfinni falli undir lögin. Löggjöfin gerir ráð fyrir að skipulagsáætlanir og breytingar á þeim skuli umhverfismetnar en nokkur óvissa ríkti hvort um það færi ávallt samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana. Með lögum nr. 96/2019, um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, var gerð breyting á 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, þar sem mælt var fyrir um að um umhverfismat skipulagsáætlana færi samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana. Þannig er gert ráð fyrir að frumvarpið taki til umhverfismats allra skipulagsáætlana og breytinga á þeim samkvæmt skipulagslögum.
    Í b-lið segir að lögin muni taka til annarra áætlana og breytinga á þeim sem marki stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda skv. 1. viðauka í frumvarpinu og séu undirbúnar og/eða afgreiddar af stjórnvöldum og unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra. Í lögum um umhverfismat áætlana er vísað til áætlana samkvæmt lögunum sem skipulagsáætlana eða framkvæmdaáætlana sem er þýðing á hugtökunum „plans“ og „programmes“. Hugtakið framkvæmdaáætlun kann að vera túlkað með takmarkaðri hætti en ætlunin er og er því í frumvarpinu stuðst við hugtakið áætlun. Áætlanir samkvæmt tilskipuninni þurfa að uppfylla tvö grunnskilyrði til að falla undir gildissvið hennar. Annars vegar að marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í tilskipun um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Hugtakið „marka stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda“ er ekki skilgreint í tilskipun 2001/42/EB en samkvæmt leiðbeiningum sem Evrópusambandið hefur gefið út um túlkun tilskipunarinnar frá 2003 vísar það til áætlana sem setja viðmið eða skilyrði sem eru leiðbeinandi eða sem leggja skal til grundvallar við leyfisveitingar til framkvæmda. Það getur varðað viðmið eða skilyrði sem setja takmarkanir á hvers konar starfsemi eða að framkvæmdir séu heimilar á tilteknu svæði, sem umsækjandi um leyfi þarf að uppfylla til að leyfi sé veitt, eða sem eru sett í þeim tilgangi að viðhalda tilteknum einkennum á viðkomandi svæði. Hins vegar þarf viðkomandi áætlun að vera háð undirbúningi og/eða samþykki stjórnvalda og unnin samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra. Sem dæmi um áætlanir í þessum skilningi eru:
     a.      Landgræðsluáætlun, sbr. 6. gr. laga um landgræðslu, nr. 155/2018. Samkvæmt greininni skal ráðherra eigi sjaldnar en á fimm ára fresti gefa út landgræðsluáætlun til tíu ára í senn. Í landgræðsluáætlun skal kveðið á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu með hliðsjón af markmiðum laga um landgræðslu. Áætlunin skal stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd. Í áætluninni skal gera grein fyrir markmiðum stjórnvalda um hvernig nýting lands styður best við atvinnu og byggðir í landinu, hvernig gæði lands eru best varðveitt og hvernig efla megi og endurheimta vistkerfi sem skert hafa verið og koma með tillögur um breytingar á nýtingu lands, t.d. friðun fyrir tiltekinni nýtingu þar sem það á við.
     b.      Landáætlun og landshlutaáætlanir í skógrækt skv. 4. og 5. gr. laga nr. 33/2019, um skóga og skórækt. Skv. 1. mgr. 4. gr. laganna gefur ráðherra út eigi sjaldnar en á fimm ára fresti landsáætlun í skógrækt til tíu ára í senn. Landsáætlunin skal kveða á um stefnu stjórnvalda þar sem fjallað er um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt. Drög að landsáætlun skulu kynnt ásamt umhverfismati áætlunar skv. 5. mgr. 4. gr. Landshlutaáætlanir útfæra nánar ákvæði landsáætlunar í skógrækt innan hvers landshluta.
     c.      Samgönguáætlun, sbr. 2. og 4. gr. laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Markmið laga um samgönguáætlun er að samræma áætlanagerð við framkvæmdir og rekstur í samgöngumálum. Það skal gert með samgönguáætlun til fimmtán ára og fimm ára aðgerðaáætlun sem er hluti af og innan ramma samgönguáætlunar. Á grundvelli framangreindra laga var samþykkt á Alþingi 29. júní 2020 þingsályktun um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Ráðherra leggur tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir Alþingi. Í samgönguáætlun skal m.a. skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera skal grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Ráðherra leggur einnig fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fimm ára áætlun samgönguáætlunar sem tekur til nánari sundurliðunar hennar og er hún hluti af fimmtán ára áætluninni.
     d.      Þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun, sbr. 3. gr. laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015. Þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 var lögð fram á Alþingi og samþykkt 11. júní 2018. Ráðherra leggur tillögu til þingsályktunar um áætlunina fyrir Alþingi. Hún skal lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera.
     e.      Kerfisáætlun, sbr. 9. gr. a raforkulaga, nr. 65/2003, þar sem mælt er fyrir um að flutningsfyrirtæki skv. 8. gr. laganna leggi árlega fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í kerfisáætlun skal felast langtímaáætlun kerfisáætlunar sem sýnir þá þætti í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum og tímaáætlun þeirra og framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar sem sýnir ákvarðanir um fjárfestingar í flutningskerfinu sem hafa þegar verið teknar og fjárfestingar sem þarf að ráðast í á næstu þremur árum og tímaáætlun þeirra. Í framkvæmdaáætlun skal greining valkosta útskýrð og rökstuddur sá kostur sem valinn er.
     f.      Í c-lið 1. mgr. eru afmarkaðar þær framkvæmdir sem falla undir lögin, en það eru framkvæmdir sem tilteknar eru í 1. viðauka. Leggja ber mat á hvort framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif skuli háðar umhverfismati en er þar átt við framkvæmdir í flokki B sem einnig nefnast tilkynningarskyldar framkvæmdir. Framkvæmdir sem líklegar eru til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, þ.e. framkvæmdir í flokki A, skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum.
    Í 2. mgr. er landfræðilegt gildissvið laganna afmarkað. Ákvæðið er sambærilegt 2. gr. gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, en áréttað er að lögin taki einnig til framkvæmda og áætlana í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins sem kunna að hafa áhrif hér á landi eins og fram kemur í 5. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. segir að lögin gildi ekki um áætlanir sem gerðar eru í þeim eina tilgangi að þjóna öryggi eða vörnum ríkisins eða almannavarnarviðbrögðum. Er hér um að ræða þrönga undantekningu í samræmi við tilskipunina. Orðalagið er lítillega breytt frá núgildandi lögum til að afmarka nánar þröngt gildissvið undantekningarinnar. Sem dæmi um áætlanir sem þjóna öryggi eða vörnum ríkisins eða almannaviðbrögðum má nefna viðbragðsáætlanir ríkis og sveitarfélaga sem þeim ber að gera, sbr. 15. og 16. gr. laga nr. 82/2008, um almannavarnir. Þá gilda lögin ekki um fjárhags- og fjárlagaáætlanir, svo sem fjárlög ríkisins, fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og aðra slíka áætlanagerð. Slíkar áætlanir mæla þó gjarnan fyrir um fjármögnun áætlana sem heyra undir lögin.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að óverulegar breytingar á áætlunum séu ekki háðar umhverfismati. Óverulegar breytingar eru breytingar sem ekki eru taldar líklegar til að hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfið. Í 10. gr. laga um umhverfismat áætlana eru sett fram viðmið um hvort líklegt sé að umhverfisáhrif áætlunar verði veruleg en um er að ræða viðmið skv. II. viðauka við tilskipun 2001/42/EB. Lagt er til að í málsgreininni verði mælt fyrir um meginsjónarmið við mat á því hvort breytingar á áætlun teljist verulegar en að í reglugerð verði sett ítarlegri fyrirmæli á grunni II. viðauka við tilskipunina. Mat á því hvort breyting á áætlun sé óveruleg er á ábyrgð þess sem ber ábyrgð á viðkomandi áætlun en leiki á því vafi er rétt að leita leiðbeininga Skipulagsstofnunar, en hlutverk stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu er m.a. að veita upplýsingar og leiðbeiningar um umhverfismat áætlana, sbr. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í greininni er að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem koma fram í frumvarpinu.
    Áætlun er skilgreind sem áætlun sem markar stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda samkvæmt þessum lögum og er undirbúin og/eða samþykkt af stjórnvöldum og unnin samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra. Eins og fram hefur komið er horfið frá notkun hugtaksins „skipulags- og framkvæmdaáætlanir“.
    Samkvæmt núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum er leyfi til framkvæmda skilgreint sem framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Í framkvæmd hefur hugtakið verið talið taka til allra leyfa sem afla þarf í tengslum við umrædda framkvæmd en þau leyfi tengjast ekki endilega umhverfismati. Þannig úrskurðaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til að mynda í málum 3 og 4/2019 að nýtingarleyfi Orkustofnunar til nýtingar á grunnvatni fæli í sér leyfi til framkvæmda samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Lagt er til að afmarka skilgreininguna nánar þannig að um sé að ræða leyfi sem veitir heimild til að hefja þá framkvæmd og/eða starfsemi sem fellur undir lögin. Gildandi lög um mat á umhverfisáhrifum og frumvarp þetta gera tilteknar kröfur til leyfisveitenda sem bera ábyrgð á útgáfu leyfa til framkvæmda. Þannig ber þeim að leggja til grundvallar útgáfu leyfis umhverfismat viðkomandi framkvæmdar, gera grein fyrir samræmi niðurstöðu Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leyfisútgáfunni, setja skilyrði um mótvægisaðgerðir, kynna leyfi opinberlega með vísan í kæruheimildir og hafa eftirlit með framkvæmdinni. Auk þeirra meginleyfa sem framkvæmdir sem falla undir lögin og starfsemi sem þeim fylgir er háð geta framkvæmdir kallað á ýmis önnur leyfi og heimildir en mikilvægt er að skilið sé á milli þeirra leyfa til framkvæmda sem uppfylla þurfa skilyrði þessara laga og varða meginþætti framkvæmda og umhverfisáhrif þeirra og annarra leyfa og heimilda sem kann að þurfa að afla vegna þeirra framkvæmda sem falla undir lögin. Dæmi um leyfisveitingar sem teldust vera „leyfi til framkvæmda“ samkvæmt þessu frumvarpi eru:
     a.      Framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010.
     b.      Byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki, nr. 160/2010.
     c.      Starfsleyfi Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
     d.      Rekstrarleyfi Matvælastofnunar samkvæmt lögum um fiskeldi, nr. 71/2008.
     e.      Virkjunarleyfi Orkustofnunar samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003.
     f.      Starfsleyfi heilbrigðiseftirlits samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, ef leyfið varðar meginþætti framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir.
    Dæmi um leyfisveitingar sem ekki teldust til leyfis til framkvæmda samkvæmt frumvarpinu eru:
     a.      Heimildir Minjastofnunar til að raska friðuðum húsum og mannvirkjum samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012.
     b.      Leyfi Fiskistofu til mannvirkjagerðar í veiðivötnum samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006.
     c.      Starfsleyfi heilbrigðiseftirlits samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, fyrir afmörkuðum og óverulegum þáttum framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir sem varða umhverfisáhrif hennar óverulega, t.d. vinnubúðir á byggingartíma.
     d.      Byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki, nr. 160/2010, fyrir afmörkuðum og óverulegum þáttum framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir sem varða umhverfisáhrif hennar óverulega, svo sem vinnubúðir á byggingartíma.
     e.      Rekstrarleyfi sýslumanns fyrir veitinga- og gististaði.
     f.      Heimildir landeigenda til framkvæmda á landi í þeirra eigu.
     g.      Heimildir Skógræktarinnar til að fella skóg samkvæmt lögum um skóga og skógrækt, nr. 33/2019.
    Í frumvarpinu er lagt til að notast verði við hugtakið umhverfismatsskýrsla fyrir skýrslu um mat á umhverfisáhrifum hvort sem um er að ræða framkvæmd eða áætlun.
    Í núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum eru umtalsverð umhverfisáhrif skilgreind sem „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Þessi skilgreining er hins vegar ekki í fullu samræmi við hugtakið „significant environmental effect“ samkvæmt tilskipun 2011/92/ESB. Með hugtakinu „significant environmental effect“ er átt við öll merkjanleg áhrif sem geta hvort heldur sem er verið jákvæð eða neikvæð. Í hugtakinu felast öll áhrif sem talin verða það veigamikil að þau gefi tilefni til umhverfismats. Í leiðbeiningariti framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að hugtakið „significant environmental effect“ sé ekki sérstaklega skilgreint enda geti það verið breytilegt eftir eðli framkvæmdar. Í löggjöf Norðurlandanna og Skotlands er ekki að finna sérstaka skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum. Skilgreining gildandi laga hefur valdið vandkvæðum við framkvæmd núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum enda ber að greina öll umtalsverð umhverfisáhrif, ekki aðeins veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Er því lagt til að horfið verði frá sérstakri skilgreiningu hugtaksins. Þá er bent á að ákvæði 4. gr. frumvarpsins lýsir efni umhverfismats, en umtalsverð áhrif á þá þætti sem þar eru taldir upp fela í sér umtalsverð umhverfisáhrif. Hvort áhrifin sem slík verða talin umtalsverð byggist á heildstæðu mati eftir aðstæðum hverju sinni.
    Hugtakið umsagnaraðilar er skilgreint þannig að það eigi ekki aðeins við opinberar stofnanir og stjórnvöld heldur einnig aðra lögaðila sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir ákvæði frumvarpsins eða umhverfisáhrif þeirra. Ljóst er að ekki verður tilgreint með tæmandi hætti hvaða aðilar teljast til umsagnaraðila hverju sinni.
    Hugtakið vöktun hefur ekki áður verið skilgreint í lögum um mat á umhverfisáhrifum eða lögum um umhverfismat áætlana. Rétt þykir að skilgreina hugtakið enda mikilvægur liður við framkvæmd umhverfismats og eftirfylgni.

Um 4. gr.

    Ákvæðið er í óbreyttri mynd frá núgildandi 4. gr. b laga um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæðið tekur til umhverfismats framkvæmda jafnt sem áætlana.
    Með greininni er tekið upp ákvæði 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Betur þykir fara á að viðfangsefni umhverfismats sé sett fram sem sérákvæði eins gert er í 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar enda er ákvæðið talið vera eitt af grundvallarákvæðum tilskipunarinnar.
    Í a-lið segir að í umhverfismati skuli greina, lýsa og meta, með tilliti til viðkomandi framkvæmdar eða áætlunar, bein og óbein umtalsverð áhrif á íbúa og heilbrigði manna. Í b-lið segir að mat á umhverfisáhrifum feli í sér mat á áhrifum á líffræðilega fjölbreytni, með sérstaka áherslu á tegundir og búsvæði sem njóta verndar. Tilskipun 2011/92/ESB mælir fyrir um að í umhverfismati skuli greina, lýsa og meta, með tilliti til viðkomandi framkvæmdar, bein og óbein umtalsverð áhrif m.a. á líffræðilega fjölbreytni, með sérstaka áherslu á tegundir og búsvæði sem njóta verndar tilskipunar 92/43/EBE (tilskipun ráðsins um vernd náttúrulegra vistgerða/búsvæða) og tilskipunar 2009/147/EB (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um vernd villtra plöntu- og dýrategunda). Ísland hefur ekki innleitt framangreindar tilskipanir þar sem hvorug þeirra er hluti af EES-samningnum. Ísland er hins vegar aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) sem fjallar um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Ísland er einnig aðili að Bernarsamningnum um villtar plöntur og dýr og Ramsarsamningnum um votlendi sem gegna báðir mikilvægu hlutverki er varðar líffræðilega fjölbreytni. Ísland hefur því undirgengist skyldur er varða varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni á grundvelli framangreindra samninga.
    Í c-lið kemur fram að meta skuli áhrif á land, landslag, víðerni, jarðmyndanir, jarðveg, vatn, loft og loftslag. Með breytingu á tilskipun 2011/92/ESB með tilskipun 2014/52/ESB er land og loftslag nú tilgreint meðal þeirra þátta sem horfa ber til við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Jarðmyndanir eru ekki tilgreindar í tilskipuninni en þær hafa hins vegar verið tilgreindar í íslenskri löggjöf frá upphafi sem endurspeglar sérstöðu jarðfræði og jarðmyndana hér á landi. Í ljósi þess er hér lagt til að þær verði áfram hluti af efni mats á umhverfisáhrifum. Víðerni eru ekki heldur tilgreind í tilskipuninni en rétt þykir hins vegar að tiltaka víðerni í upptalningu í þessari grein þar sem víðerni er eitt af verndarmarkmiðum 3. gr. náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, þar sem segir að stefnt skuli að því að standa vörð um óbyggð víðerni landsins.
    Í d-lið kemur fram að meta skuli áhrif á efnisleg verðmæti og menningarminjar í samræmi við 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2011/92/ESB þar sem vísað er til menningarafleiðar.
    Í e-lið er vísað til næmis framkvæmdarinnar fyrir hættu á stórslysum og náttúruhamförum. Í 15. gr. aðfaraorða tilskipunar 2014/52/ESB kemur fram að til þess að tryggja vernd umhverfisins þurfi að gera varúðarráðstafanir vegna þeirra framkvæmda sem eru líklegar til að hafa mikil umhverfisáhrif vegna næmis þeirra fyrir stórslysum og náttúruhamförum eins og flóðum, hækkun sjávarborðs eða jarðskjálftum. Einnig þarf að meta hver sé áhættan af því að stórslys og náttúruhamfarir eigi sér stað og hverjar séu líkurnar á að umhverfið verði fyrir neikvæðum áhrifum. Einnig segir að til þess að forðast tvítekningu þá eigi að vera mögulegt að nýta sér tiltækar upplýsingar í áhættumati sem hafi farið fram á grundvelli tilskipunar 2012/18/ESB um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna. Framangreind tilskipun hefur verið innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1050/2017 um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna.
    Í f-lið er vísað til samspils þeirra þátta sem nú þegar hafa verið taldir upp í a–e-lið.

Um 5. gr.

    Ákvæðið byggist á 7. gr. tilskipunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og 7. gr. tilskipunar um umhverfismat framkvæmda. Þau ákvæði taka til matsskyldra framkvæmda eða áætlana í einu aðildarríki sem líklegar eru til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í öðru aðildarríki. Mæla ákvæðin fyrir um samráð á milli aðildarríkja og innan hvers aðildarríkis. Fjallað er um mat yfir landamæri í 8. gr. gildandi laga um umhverfismat áætlana og 19. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum þar sem nokkuð ítarlega er mælt fyrir um málsmeðferð slíks samráðs. Lagt er til að 5. gr. taki til umhverfismats framkvæmda og áætlana yfir landamæri og að nánar verði fjallað um málsmeðferðina í reglugerð.

Um II. kafla.

    Í kaflanum eru sett fram ákvæði um stjórnsýslu, gagna- og samráðsgátt Skipulagsstofnunar, forsamráð og sameiningu skýrslugerðar og samþættingu samráðs. Ákvæðum um samráðsgátt, forsamráð og sameiningu skýrslugerðar og samþættingu samráðs er ætla að stuðla að skilvirkri málsmeðferð en eins og fram er komið er aukin skilvirkni við umhverfismat eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Greinin fjallar um þau stjórnvöld sem fara með stjórn og framkvæmd mála samkvæmt lögunum. Eins og í gildandi lögum fer ráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til og er Skipulagsstofnun ráðherra til aðstoðar. Hlutverk Skipulagsstofnunar er afmarkað í a–g-lið. A–f-liður eru efnislega í samræmi við ákvæði 4. gr. núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum sem og 4. gr. laga um umhverfismat áætlana. G-liður er nýmæli en þar er mælt fyrir um hlutverk Skipulagsstofnunar við starfrækslu gagna- og samráðsgáttar um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. einnig 7. gr.

Um 7. gr.

    Gert er ráð fyrir að í landfræðilegri gagna- og samráðsgátt Skipulagsstofnunar verði færðar inn allar upplýsingar og gögn um skipulagsáætlanir, umhverfismatsskýrslur og leyfi til framkvæmda. Einnig er gert ráð fyrir að allt samráð við almenning og hagsmunaaðila eigi sé stað á þeim vettvangi. Þannig er gert ráð fyrir að t.d. gögn tengd kynningarfundum séu aðgengileg í gáttinni. Greinin mælir fyrir um skyldubundna notkun gáttarinnar. Þannig skulu almenningur og umsagnaraðilar koma sínum sjónarmiðum á framfæri í gáttinni. Auk þess að vera samráðsvettvangur er einnig gert ráð fyrir að gáttin sé upplýsingaveita fyrir hvern þann sem þarf að fá upplýsingar um gildandi skipulagsáætlanir, umhverfismat framkvæmda og áætlana eða leyfi til framkvæmda.

Um 8. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og er ætlað að stuðla að skilvirku ferli mats á umhverfisáhrifum. Í forsamráði felst samráð stjórnvalda og framkvæmdaraðila um hvernig best sé að haga framkvæmd mats á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun leiðir saman framkvæmdaraðila og leyfisveitanda í þeim tilgangi að undirbúa ferli verkefnisins og skipuleggja framhald vinnunnar. Fyrirmynd ákvæðisins er ákvæði 8. gr. finnskra laga um mat á umhverfisáhrifum (f. Lag om förfarandet vid miljökonsekvensbedömning).
    Með greininni er lagt til að Skipulagsstofnun bjóði upp á vettvang og haldi utan um forsamráð um fyrirhugaða framkvæmd. Markmið forsamráðs er m.a. að skipuleggja og auðvelda málsmeðferð vegna umhverfismats, skipulags og leyfis í heild sem og upplýsingagjöf milli framkvæmdaraðila og stjórnvalda. Með forsamráði fæst yfirsýn yfir ferli verkefnisins og þær upplýsingar sem afla þarf. Ef vel tekst til í forsamráði má forðast tafir á síðari stigum verkefnis. Í ákvæðinu kemur fram að markmið forsamráðs sé að stuðla að skilvirku ferli umhverfismats, skipulags og leyfisveitinga sem framkvæmdin kallar á og að greiða fyrir veitingu upplýsinga á milli framkvæmdaraðila og stjórnvalda auk þess að stuðla að auknum gæðum rannsókna og gagna. Forsamráði er ekki ætlað að vera viðbótarskref í gerð umhverfismats heldur er um að ræða fyrirmæli um vinnubrögð sem eru til þess fallin að auka fyrirsjáanleika í því ferli sem fram undan er og koma í veg fyrir ágreining sem kann að verða á síðari stigum málsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að við forsamráð skuli taka afstöðu til þess hvort málsmeðferð vegna framkvæmdar og skipulagsgerðar sé sameinuð. Það er í samræmi við markmið forsamráðs að stuðla að aukinni skilvirkni og straumlínulögun ferlisins.
    Í 3. mgr. er lagt til að forsamráð skuli fara fram eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og unnt er.

Um 9.–11. gr.

    Ákvæði 9.–11. gr. frumvarpsins eru efnislega í samræmi við ákvæði 17. gr. gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Lagt er til að efnisatriði 17. gr. núgildandi laga séu sett fram í þremur stökum greinum til að auka skýrleika.
    Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um heimild til að sameina skýrslugerð um umhverfismat framkvæmdar og skýrslugerð um umhverfismat skipulagstillögu samkvæmt skipulagslögum. Þá er heimilt að sameina kynningar í lögunum fyrir almenningi og umsagnaraðilum. Sameiginleg málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum á grundvelli ákvæða frumvarpsins og skipulagslaga getur átt við þegar framkvæmd sem er tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu eða matsskyld framkvæmd er meginefni þeirrar skipulagstillögu sem í hlut á. Þar getur verið um að ræða nýtt deiliskipulag eða breytingu á svæðisskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi. Vert er að taka fram að heimild til slíkrar sameiningar skýrslugerðar og samræmingar málsmeðferðar var lögfest með lögum nr. 96/2019, um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Með þessu frumvarpi er jafnframt lögð til breyting á samsvarandi heimild skipulagslaga til samþættingar þar sem sveitarfélag getur falið framkvæmdaraðila gerð tillagna að skipulagi. Þá er með frumvarpi þessu innleitt forsamráð en gert er ráð fyrir að þar verði tekin afstaða til þess hvort málsmeðferðin verði sameinuð. Með skýrslugerð er átt við matsáætlun og umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila varðandi umhverfismatið og lýsingu, umhverfismatsskýrslu og greinargerð sveitarfélags varðandi skipulagsgerðina. Þannig kallar sameining skýrslugerðar á aðkomu framkvæmdaraðila og sveitarfélags sem einnig afgreiðir umsóknir um framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulagslögum og reglugerð um framkvæmdaleyfi.
    Augljós ávinningur er af sameiningu og samþættingu málsmeðferðar. Mörg dæmi eru um að ferli nauðsynlegra skipulagsbreytinga hefjist ekki fyrr en að loknu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar og lengist stjórnsýslulegur undirbúningur framkvæmdar sem nemur þeim tíma sem nauðsynleg skipulagsbreyting tekur.
    Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að mælt verði fyrir um sameiningu skýrslugerðar og umhverfismats samkvæmt öðrum lögum. Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 17. gr. gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæði 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 2011/92/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB er ætlað að mæla fyrir um samræmda og sameiginlega málsmeðferð. Þetta hefur verið kallað straumlínulögun (e. streamlining). Ákvæði 3. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar um samræmda og sameiginlega málsmeðferð á einungis við um það þegar skyldu til að meta umhverfisáhrif framkvæmdar leiðir af tilskipuninni og jafnframt annarri löggjöf ESB. Innleiðingu viðkomandi ESB löggjafar í íslenskan rétt er þannig háttað að um umhverfismat framkvæmda eða áætlana er vísað til laga um mat á umhverfisáhrifum eða lög um umhverfismat áætlana. Í ljósi þess verður vart séð að þau tilvik muni koma upp þar sem taka þarf afstöðu til þess hvort samræma þurfi umhverfismat á grundvelli framangreindrar löggjafar ESB eins og hún er innleidd í íslenskan rétt. Hins vegar má benda á að í annarri löggjöf getur verið að finna ákvæði sem varða mat á áhrifum sem hentugt yrði að samræma umhverfismati samkvæmt þessu frumvarpi. Þar má nefna sem dæmi öflun sérfræðiálits um möguleg eða veruleg áhrif framkvæmdar á tiltekin vistkerfi eða jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar eða minjar sem skráðar eru á C-hluta í náttúruminjaskrá, sbr. 7. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Ef framkvæmd er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og fellur jafnframt undir framangreint ákvæði 7. mgr. 13. gr. skipulagslaga mun Skipulagsstofnun, að höfðu samráði við viðkomandi leyfisveitendur, taka afstöðu til þess hvort unnt sé að samræma framangreint mat.
    Ákvæði 11. gr. byggist að mestu leyti 3. mgr. 17. gr. núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Lagt er til að heimildin eigi við um öll starfs- og rekstrarleyfi, ekki aðeins samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, og að forsenda samþættingar starfsleyfisumsóknar og umhverfismats sé samþykki leyfisveitanda.

Um III. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um umhverfismat áætlana. Utan 12. gr. kallast ákvæði kaflans á við ákvæði núgildandi laga um umhverfismat áætlana. Lögð eru til heldur styttri ákvæði en í gildandi lögum þar sem horft er til þess að lögin setji fram skýran meginramma sem verður útfærður nánar í reglugerð, sbr. það sem fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 12. gr.

    Greinin felur í sér nýmæli. Lagt er til að ferli umhverfismats áætlunar sé lýst í sérstöku ákvæði í samræmi við sambærilegt ákvæði um umhverfismat framkvæmda.

Um 13. gr.

    Ákvæði 13. gr. frumvarpsins samsvarar 5. gr. gildandi laga um umhverfismat áætlana og felur ekki í sér efnislega breytingu. Í greininni er fjallað um hver beri ábyrgð á gerð umhverfismats áætlana og hvenær í vinnsluferli áætlunar unnið skal að umhverfismati. Sá sem ber ábyrgð á viðkomandi áætlanagerð sem fellur undir frumvarpið ber jafnframt ábyrgð á umhverfismati hennar, þ.e. að umhverfismat áætlunarinnar falli inn í og sé hluti af vinnsluferli viðkomandi áætlunar. Þannig ber t.d. ráðherra samgöngumála, og eftir atvikum undirstofnanir ráðuneytis hans, ábyrgð á umhverfismati samgönguáætlunar.
    Í 2. mgr. kemur fram skilyrði um tímasetningu umhverfismats en það skal liggja fyrir áður en áætlunin er endanlega samþykkt af viðkomandi stjórnvaldi eða áður en hún er lögð fram á Alþingi. Skilyrði um tímasetningu matsins felur jafnframt í sér að unnt eigi að vera að taka tillit til niðurstaðna umhverfismats í endanlegri áætlun.

Um 14. gr.

    Greinin samsvarar 6. gr. gildandi laga um umhverfismat áætlana og mælir fyrir um þær upplýsingar sem skulu koma fram í umhverfismatsskýrslu, sbr. I. viðauka tilskipunar 2001/42/EB. Ákvæðið eins og það er lagt til í þessu frumvarpi er nokkuð umorðað frá gildandi 6. gr. til einföldunar án þess að í því felist efnisleg breyting. Gert er ráð fyrir ítarlegri fyrirmælum um efni umhverfismatsskýrslu áætlunar í reglugerð. Fram kemur að samráð skuli haft við Skipulagsstofnun um umfang og nákvæmni umhverfismatsins en samkvæmt tilskipuninni skulu aðildarríki tilgreina yfirvöld sem samráð skal haft við þegar tekin er ákvörðun um umfang og nákvæmni upplýsinganna sem eiga að koma fram í umhverfismatsskýrslu.

Um 15. gr.

    Ákvæðið samsvarar 7. gr. núgildandi laga um umhverfismat áætlana og fjallar um kynningu áætlunar og umhverfismatsskýrslu. Kynningartíminn er sex vikur og skal áætlun kynnt áður en hún er endanlega afgreidd eða lögð fyrir Alþingi. 1. og 3. mgr. gildandi 7. gr. er steypt saman en því er ekki ætlað að hafa efnislega breytingu í för með sér. Í 4. mgr. 7. gr. gildandi laga um umhverfismat áætlana er mælt fyrir um að auglýst skuli að lágmarki í Lögbirtingablaðinu og einu dagblaði sem gefið er út á landsvísu og jafnframt skal kynna hana á netinu. Í samræmi við áherslu á rafræna stjórnsýslu er lagt til að 4. mgr. 7. gr. núgildandi laga verði ekki tekin upp í frumvarpið en að í 1. mgr. komi fram að tillaga að áætluninni ásamt umhverfismatsskýrslu skuli auglýst með áberandi hætti og vera aðgengileg á netinu. Þá skal sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunarinnar leita umsagnar viðeigandi umsagnaraðila.
    Ákvæði 2. mgr. leggur áherslu á að ákvæði annarra laga um kynningartíma vegna áætlunar og umhverfismatsskýrslu gilda framar ákvæðum laga þessara ef þar er kveðið á um annan kynningartíma en í frumvarpinu.

Um 16. gr.

    Greinin samsvarar 9. gr. núgildandi laga um umhverfismat áætlana og fjallar um afgreiðslu þeirra áætlana sem eru háðar umhverfismati. Greinin leggur þá skyldu á ábyrgðaraðila viðkomandi áætlunar að hafa hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum sem hafa borist við hana, eftir atvikum frá öðrum ríkjum, við afgreiðslu áætlunarinnar. Í þeim tilvikum þegar áætlun er afgreidd af Alþingi sem frumvarp eða þingsályktunartillaga ber ábyrgðaraðili tillögunnar ábyrgð á kynningu hennar áður en hún er lögð fyrir Alþingi. Í 3. mgr. er lagt til að gögnin skuli kynnt umsagnaraðilum og vera aðgengileg á netinu.

Um IV. kafla.

    Kaflinn fjallar um umhverfismat framkvæmda. Í kaflanum er mælt fyrir um ferli umhverfismats framkvæmda allt frá ákvörðun um matsskyldu fram að útgáfu leyfis til framkvæmda.

Um 17. gr.

    Greinin svarar til 4. gr. a núgildandi laga og g-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni var breytt með 1. gr. breytingatilskipunar 2014/52/ESB. Greinin endurspeglar ferlið eins og það er sett fram í þessu frumvarpi. Tilgangur ákvæðisins er að setja fram með skýrum hætti hvað felst í ferli mats á umhverfisáhrifum. Til að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar þurfa lög um mat á umhverfisáhrifum annaðhvort að innihalda tiltekið ákvæði sem tilgreinir allt ferli mats á umhverfisáhrifum eða ferlið þarf að koma með öðrum hætti skýrt fram í lögunum. Meðal þess sem fram kemur í samanburðarskýrslu um umhverfismatslöggjöf Norðurlandanna og Skotlands er að það leiki vafi á því hvort heimildir Skipulagsstofnunar til að krefjast viðbótargagna séu nógu traustar í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Er því lagt til að í d-lið komi fram að Skipulagsstofnun geti farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn enda sé framlagning þeirra gagna nauðsynleg til að komast megi að niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum. Í c-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar segir að ef nauðsyn krefji skuli lögbæra stjórnvaldið óska eftir viðbótarupplýsingum frá framkvæmdaraðilanum í samræmi við IV. viðauka sem skipta beinu máli fyrir það að komast megi að rökstuddri niðurstöðu um umtalsverð áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið. Síðasta skrefið í undirbúningsferli matsskyldar framkvæmdar er ákvörðun leyfisveitanda um útgáfu leyfis. Við leyfisútgáfu ber leyfisveitanda að leggja til grundvallar álit Skipulagsstofnunar. Tilskipun 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB gerir ráð fyrir að skilyrði sem sett eru fram í rökstuddri niðurstöðu um umhverfisáhrif framkvæmdar séu bindandi fyrir leyfisveitanda.

Um 18. gr.

    Í 18. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði fram ábyrgð framkvæmdaraðila á umhverfismati framkvæmdar og kostnaði af gerð þess, sbr. 1. mgr. 16. gr. gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Í því felst einnig kostnaður af málsmeðferð Skipulagsstofnunar samkvæmt gjaldskrá. Í 2. mgr. er mælt fyrir um ábyrgð framkvæmdaraðila tilkynningarskyldar framkvæmdar (þ.e. framkvæmdar í flokki B skv. 1. viðauka) á að tilkynna framkvæmdina til Skipulagsstofnunar.

Um 19. gr.

    Í 19. gr. er lagt til að mælt verði fyrir um málsmeðferð matsskylduákvörðunar vegna tilkynningarskyldra framkvæmda. Um matsskylduákvörðun er fjallað í 6. gr. núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati felur í sér mat á því hvort hún sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Í II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB eru tilgreindar framkvæmdir sem aðildarríkjum ber að ákveða hvort háðar skuli umhverfismati. Ákvæði 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB gefur aðildarríkjunum val um það hvernig ákvörðun er tekin um matsskyldu. Hægt er að ákveða matsskyldu með rannsókn á hverju tilviki fyrir sig (case by case) eða byggja á fyrir fram ákveðnum mörkum eða viðmiðum (threshold criteria). Aðildarríkin geta einnig beitt báðum aðferðunum. Í 1. mgr. greinarinnar segir að framkvæmdir í flokki B í 1. viðauka skuli háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Það eigi einnig við um framkvæmdir sem eru undir þeim viðmiðunarmörkum sem fram koma í 1. viðauka séu þær fyrirhugaðar á verndarsvæði. sbr. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.
    Í 2. mgr. kemur fram að framkvæmdaraðili skuli tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd skv. 1. mgr. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Hann skal, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Um er að ræða sambærilegar kröfur til tilkynningar framkvæmdaraðila við kröfur sem kveðið er á um í gildandi 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.
    Í 3. mgr. kemur fram að telji framkvæmdaraðili með hliðsjón af viðmiðum 2. viðauka að tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð umhverfismati skuli hann tilkynna það Skipulagsstofnun og rökstyðja. Fari þá um málsmeðferð framkvæmdarinnar skv. 21.–24. gr. Ákvæðið er sambærilegt við 6. mgr. 6. gr. gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum en ekki er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun þurfi sérstaklega að fallast á afstöðu framkvæmdaraðila, aðeins að framkvæmdaraðili rökstyðji afstöðu sína.

Um 20. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að Skipulagsstofnun skuli innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati. Skipulagsstofnun skal byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila sem fram koma í tilkynningu hans um framkvæmdina en einnig getur stofnunin byggt á öðrum upplýsingum. Skv. 6. gr. núgildanda laga um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun fjórar vikur frá því að fullnægjandi gögn berast til að taka ákvörðun um matsskyldu. Reynslan sýnir að þessi tímafrestur er ekki raunhæfur. Í 6. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB kemur fram að stjórnvöld skuli komast að niðurstöðu um matsskyldu eins fljótt og hægt er og ekki síðar en 90 dögum frá því að framkvæmdaraðili skilar fullnægjandi upplýsingum. Er því lagt til að Skipulagsstofnun hafi sjö vikur frá því að fullnægjandi gögn berast til að taka ákvörðun um matsskyldu. Talið er að óraunhæfir tímarammar hafi lítil áhrif og að raunhæf tímamörk séu trúverðugri þar sem þau er unnt að uppfylla. Skipulagsstofnun skal leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda. Er hér um að ræða lögbundna álitsumleitan en Skipulagsstofnun er þó veittur sveigjanleiki til að meta til hvaða aðila viðeigandi er að leita hverju sinni, eftir því sem við á eðli málsins samkvæmt. Umsagnaraðilar skulu veita umsögn sína innan fjögurra vikna frá því að umsagnarbeiðni berst. Í greininni er það nýmæli að umsagnaraðilum er í lögunum veittur tiltekinn frestur til að veita umsögn og að ef umsögn berst ekki innan þess tíma geti Skipulagsstofnun tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Álitsumleitan er almennt veigamikill þáttur í undirbúningi ákvörðunar og almennt talið að vanræksla á því að leita lögbundinnar umsagnar eða álits sé verulegur annmarki sem almennt leiði til ógildingar ákvörðunar. Á hinn bóginn er óviðunandi að álitsgjafi geti með athafnaleysi sínu komið í veg fyrir að stjórnvald afgreiði mál. Stjórnvald getur við slíkar aðstæður lokið máli, að því skilyrði uppfylltu að það hafi sannarlega gripið til allra þeirra ráðstafana, sem eðlilegar geta talist á viðkomandi sviði stjórnsýslunnar, til þess að fá hina lögbundnu umsögn.
    Í 2. mgr. kemur fram að sé framkvæmd ekki talin matsskyld geti Skipulagsstofnun sett fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif, byggðar á þeim upplýsingum sem fram hafa komið við umfjöllun um tilkynningu framkvæmdaraðila. Í b-lið 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar kemur fram að þegar niðurstaða matsskylduákvörðunar er að mats sé ekki krafist skuli það rökstutt með vísan í viðmið í III. viðauka við tilskipunina og, hafi framkvæmdaraðili lagt slíkt til, tilgreina þætti framkvæmdarinnar og/eða fyrirhugaðar ráðstafanir til að komast megi hjá eða koma í veg fyrir það sem annars hefði getað orðið umtalsverð skaðleg áhrif á umhverfið.

Um 21. gr.

    Í gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum er fjallað um matsáætlun í 8. gr. Ákvæði 21. gr. frumvarpsins er nokkuð frábrugðið 8. gr. gildandi laga. Með ákvæðinu er lagt til að fallið verði frá tvöfaldri kynningu matsáætlunar eins og kveðið er á um í gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem framkvæmdaraðili kynnir almenningi tillögu að matsáætlun áður en hann leggur tillöguna fyrir Skipulagsstofnun sem síðan aflar umsagnar leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila. Skipulagsstofnun ber einnig samkvæmt gildandi lögum að kynna leyfisveitendum og umsagnaraðilum tillögu að matsáætlun þegar hún hefur fallist á hana og hefur hana aðgengilega á vefnum. Lögin veita Skipulagsstofnun fjögurra vikna frest frá því að fullnægjandi tillaga berst til að taka ákvörðun um matsáætlun og er ákvörðun skipulagsstofnunar kæranleg af framkvæmdaraðila. Með þessu frumvarpi er lagt til að Skipulagsstofnun veiti álit um matsáætlun innan sjö vikna og er umsagnaraðilum og almenningi veittur fjögurra vikna frestur til að skila umsögnum sínum um málið. Ekki er gert ráð fyrir að álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun sé kæranlegt og er það í samræmi við löggjöf Norðurlandanna og Skotlands. Í 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar er fjallað um álit lögbærs stjórnvalds um matsáætlun. Stjórnvaldið skal gefa út álit með tilliti til upplýsinganna sem framkvæmdaraðili leggur fram, einkum um sérstaka eiginleika framkvæmdarinnar, þ.m.t. staðsetningu hennar og tæknilegt umfang og líkleg áhrif hennar á umhverfið.
    Í 3. mgr. er fjallað um álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun. Álit Skipulagsstofnunar er bindandi fyrir framkvæmdaraðila sem ber að leggja það til grundvallar umhverfismatsskýrslu. Skv. 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar skal matsskýrsla framkvæmdaraðila byggjast á áliti stjórnvalds um afmörkun efnis matsskýrslu ef það hefur verið gefið út. Tilskipunin segir ekki nánar til um hvað skuli koma fram í álitinu en því er ætlað að tilgreina umfang og nákvæmni þeirra upplýsinga sem þurfa að koma fram í matsskýrslunni. Í leiðbeiningariti framkvæmdastjórnar ESB segir að þegar stjórnvaldið undirbúi álitið ætti það að hafa í huga kröfur tilskipunarinnar um efni matsskýrslu.
    Matsáætlun er ætlað að vera grunnur að umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila. Með vandaðri matsáætlun er sem best komið í veg fyrir að upplýsingar skorti í umhverfismatsskýrslu sem kynni að tefja matsferlið á síðari stigum. Skipulagsstofnun getur þó gert kröfu um framlagningu frekari gagna á síðari stigum málsins enda séu upplýsingarnar nauðsynlegar til að komast megi að niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 2. mgr. 23. gr. frumvarpsins. Í tilskipuninni er fjallað um afmörkun efnis matsskýrslu í 2. mgr. 5. gr. þar sem fram kemur að aðildarríkin geti krafist þess að lögbær stjórnvöld gefi út álit um umfang og sundurliðunarstig þeirra upplýsinga sem sanngjarnt má teljast að krafist sé til að ná megi rökstuddri niðurstöðu um umtalsverð áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið, með tilliti til fyrirliggjandi vitneskju og matsaðferða. Þegar slíkt álit um afmörkun efnis matsskýrslu er gefið út skal skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum byggjast á því áliti og í henni skulu vera þær upplýsingar sem sanngjarnt má teljast að krafist sé til að ná megi rökstuddri niðurstöðu um umtalsverð áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið, með tilliti til fyrirliggjandi vitneskju og matsaðferða.

Um 22. gr.

    Í greininni er fjallað um umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila. Eins og fram er komið hefur núgildandi löggjöf sérstöðu gagnvart Norðurlandaþjóðum og Skotum að því leyti að framkvæmdaraðili leggur tvisvar fram skýrslu um umhverfismat framkvæmdar, fyrst frummatsskýrslu og síðan endanlega matsskýrslu, sbr. 9. og 10. gr. gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Hér er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi í lögum.
    Umhverfismatsskýrsla er sá grundvöllur sem umhverfismat viðkomandi framkvæmdar byggist á. Í henni þurfa því að koma fram allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að stjórnvaldið geti gefið rökstutt álit um umhverfismat framkvæmdarinnar. Skýrslan á að grundvallast á áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun, sbr. 2. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í greininni eru talin upp þau atriði sem framkvæmdaraðili þarf að lágmarki að fjalla um í umhverfismatsskýrslu, sbr. 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar, en kröfur um viðbótarupplýsingar er svo að finna í IV. viðauka við tilskipunina. Gert er ráð fyrir að um þær viðbótarupplýsingar verði fjallað í reglugerð til samræmis við IV. viðauka tilskipunarinnar. Í IV. viðauka eru taldar upp upplýsingar í tíu liðum um þætti sem fjalla á um í umhverfismatsskýrslunni. Eitt af meginmarkmiðum breytingatilskipunarinnar 2014/52/ESB var að stuðla að auknum gæðum umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila. Í 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar eru ákvæði sem eiga að stuðla að auknum gæðum umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila og er þar fjallað um skyldu framkvæmdaraðila til að sjá til þess að skýrslan sé útbúin af til þess hæfum sérfræðingum. Jafnframt er kveðið á um skyldu stjórnvalda til að tryggja næga sérfræðiþekkingu þeirra sem fara yfir umhverfismatsskýrsluna. Þá er einnig mælt fyrir um skyldu stjórnvalds til að óska eftir viðbótarupplýsingum frá framkvæmdaraðilanum ef þörf er á svo að hægt sé að komast að rökstuddri niðurstöðu um umhverfisáhrifin.

Um 23. gr.

    Lagt er til að um kynningu og samráð um umhverfismatsskýrslu verði fjallað í sérstöku ákvæði en í núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum er fjallað um samráðið og matsskýrsluna í 10. gr. Í tilskipuninni er meginákvæði um samráð að finna í 6. gr. og hefur greinin náin tengsl við ákvæði 6. gr. Árósasamningsins. Hafa þarf í huga að ákvæði 6. gr. tilskipunarinnar tekur til samráðs almennt, þ.e. á ólíkum stigum málsmeðferðarinnar. Þannig tekur ákvæðið einnig til samráðs um matsáætlun. Ákvæðið segir til um við hverja hafa skal samráð í matsferlinu og hvaða upplýsingar þarf að láta samráðsaðilum í té. 1. og 2. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar fjalla um samráð við almenning og önnur stjórnvöld. Stjórnvöld sem fyrirhuguð framkvæmd varðar skulu fá tækifæri til að láta í ljós álit á umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila og upplýsa ber almenning um umhverfismatsskýrsluna og aðgengi almennings að upplýsingum og gögnum vegna umhverfismatsins. Skv. 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar skal almenningur snemma fá tækifæri til skilvirkrar þátttöku í umhverfismatsferlinu og skal hann í því skyni eiga rétt á að leggja fram athugasemdir og álit meðan allir valkostir standa lögbæru stjórnvaldi eða stjórnvöldum til boða áður en ákvörðun um leyfisumsókn er tekin. Aðildarríkjum er í sjálfsvald sett hvernig þau haga upplýsingagjöf og skipuleggja þátttöku almennings, sbr. 5. mgr. 6. gr., en þó er lögð áhersla á að upplýsingum sé miðlað rafrænt. Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun sjái um kynningu og samráð vegna umhverfismatsskýrslunnar, eftir atvikum í samráði við framkvæmdaraðila. Áður en Skipulagsstofnun kynnir umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila opinberlega skal stofnunin ganga úr skugga um að skýrslan uppfylli kröfur sem gerðar eru til hennar, sbr. 3. mgr.
    Í 2. mgr. er lagt til að skýrt verði mælt fyrir um heimild Skipulagsstofnunar til að fara fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn. Í gildandi 4. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum segir að ef sérstakar ástæður mæli með geti Skipulagsstofnun farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn enda rökstyðji stofnunin það sérstaklega. Orðalag ákvæðisins virðist fela í sér full þrönga heimild í ljósi ákvæða tilskipunarinnar. Í c-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar eftir breytingu með tilskipun 2014/52/ESB segir að ef nauðsyn krefur skuli lögbæra stjórnvaldið óska eftir viðbótarupplýsingum frá framkvæmdaraðilanum í samræmi við IV. viðauka sem skipta beinu máli fyrir það að komast megi að rökstuddri niðurstöðu um umtalsverð áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið.
    Í 3. mgr. er lagt til að Skipulagsstofnun sé heimilt að hafna því að taka umhverfismatsskýrslu til kynningar og athugunar þegar hún uppfyllir ekki skilyrði 20. gr. og skuli Skipulagsstofnun þá leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu hennar. Heimildin er í samræmi við 1. mgr. 10. gr. gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum

Um 24. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar. Um er að ræða þrep skv. d-lið 17. gr. frumvarpsins, sbr. iii. lið g-liðar 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, þ.e. athugun Skipulagsstofnunar á umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila og viðbótarupplýsingum skv. 2. mgr. 23. gr. þar sem þess er þörf, ásamt umsögnum hagsmunaaðila og almennings og álit stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdarinnar. Í dómi Evrópudómstólsins í máli C-50/09, framkvæmdastjórnin gegn Írlandi, fjallaði dómstóllinn um hvað felst í „rannsókn“ lögbæra stjórnvaldsins samkvæmt framangreindu ákvæði tilskipunarinnar. Vísaði dómstóllinn í því sambandi til orðalags 3. gr. tilskipunarinnar þar sem segir að í umhverfismati skuli í hverju einstöku tilviki greina, lýsa og meta á viðeigandi hátt bein og óbein umtalsverð áhrif á tiltekna þætti. Stjórnvaldi beri að kanna þær upplýsingar sem lagðar séu fram og yfirvega hvort ástæða sé til að afla frekari gagna. Þá kann að verða byggt á gögnum sem varpa ljósi á umhverfismat framkvæmdarinnar þó að þau hafi ekki beint verið sett fram vegna þeirrar tilteknu framkvæmdar sem til skoðunar er. Í ákvæðinu kemur fram að í álitinu skuli fjalla um forsendur, aðferðir og ályktanir um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila. Þá skuli þar koma fram rökstudd niðurstaða stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdarinnar og, eftir því sem við á, skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun sem beint sé til leyfisveitenda. Í leiðbeiningum framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að þegar niðurstaða um umhverfisáhrif framkvæmdar er fengin með sjálfstæðri málsmeðferð sem aðskilin er frá leyfisveitingarferlinu séu skilyrði sem sett eru fram í rökstuddu niðurstöðunni bindandi fyrir leyfisveitanda. Þannig gerir tilskipunin ráð fyrir að skilyrði sem sett eru fram í áliti um umhverfismat framkvæmda, t.d. um vöktun eða mótvægisaðgerðir, séu bindandi fyrir leyfisveitanda.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um kynningu álits Skipulagsstofnunar. Fallið er frá skyldu til auglýsingar í dagblaði en mælt fyrir um að álitið skuli kynnt framkvæmdaraðila og þeim sem veittu umsögn um umhverfismatsskýrsluna og vera aðgengilegt almenningi á netinu og kynnt á áberandi hátt.

Um V. kafla.

    Í gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum er fjallað um kröfur vegna leyfisveitinga í 13. gr. Í þessu frumvarpi er lagt til að sú umfjöllun verði í sérstökum kafla með þremur stökum greinum, 25.–27. gr.

Um 25. gr.

    Greinin felur í sér efnislega óbreytt ákvæði frá 1 málsl. 1. mgr. 13. gr. gildandi laga. Lagt til að skýrt komi fram í sérstakri grein að forsenda leyfis til framkvæmda sem fellur undir lögin sé að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar liggi fyrir eða ákvörðun um að viðkomandi framkvæmd skuli ekki háð umhverfismati.

Um 26. gr.

    Í gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum er fjallað um leyfi til tilkynningarskyldra framkvæmda í 5. mgr. 13. gr. Í 1. mgr. 26. gr. eru þau nýmæli að framkvæmdaraðili skuli með umsókn um framkvæmdaleyfi gera grein fyrir hvort forsendur matsskylduákvörðunar hafi breyst verulega frá því að ákvörðun um matsskyldu var tekin. Tilgangurinn er að tryggja að forsendur matsskylduákvörðunar eigi enn við.
    Í 2. mgr. 26. gr. er mælt fyrir um skyldu leyfisveitanda til að kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd og í 3. mgr. að leyfisveitandi skuli kynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess með vísan í kæruheimildir og kærufrest. Leyfið sjálft skal aðgengilegt almenningi á netinu. Með ákvæðinu er kveðið skýrt á um skyldur leyfisveitanda varðandi tilkynningarskyldar framkvæmdir sem ekki eru háðar matsskyldu, sbr. 5. mgr. 13. gr. núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Talið er eðlilegt að skyldur leyfisveitanda til að kynna sér upplýsingar og gögn að baki matsskylduákvörðun séu sambærilegar við skyldur leyfisveitanda vegna matsskyldra framkvæmda til að leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar til grundvallar leyfisveitingu. Mikilvægt er að leyfisveitandi gangi úr skugga um að sú framkvæmd sem hann er að veita leyfi fyrir sé eins og hún var tilkynnt til Skipulagsstofnunar eða leyfisveitanda. Í því geta falist útfærslur og frávik sem orðið hafa við endanlega hönnun framkvæmdar sem víkja þó ekki í meginatriðum frá þeirri framkvæmdalýsingu sem matsskylduákvörðun byggðist á. Þá eru einnig oft í ákvörðunum um matsskyldu framkvæmdar tilgreindar mótvægisaðgerðir eða ábendingar um verklag sem mikilvægt er að leyfisveitandi kynni sér áður en leyfi er gefið út.

Um 27. gr.

    Í greininni er lagt til að fjallað verði um afgreiðslu leyfis til matsskyldra framkvæmda. Síðasta skref í ferli umhverfismats, sbr. g-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar um umhverfismat framkvæmda er að rökstudd niðurstaða um umhverfisáhrif er lögð til grundvallar við ákvörðun um veitingu leyfis. Eru skyldur leyfisveitanda þar ríkar í ljósi rannsóknarreglunnar. Í 1. mgr. er lagt til að með umsókn um leyfi til framkvæmda fylgi greining framkvæmdaraðila á því hvort forsendur umhverfismats hafi breyst verulega frá umhverfismatsskýrslu og áliti um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Um er að ræða nýmæli sem ætlað er að tryggja að umhverfismat framkvæmdarinnar sé enn í fullu gildi. Í 6. mgr. 8. gr. a tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB kemur fram að leyfisveitandi skuli, þegar hann tekur ákvörðun um að veita leyfi fyrir framkvæmdum, fullvissa sig um að rökstudd niðurstaða hins lögbæra stjórnvalds um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar sé enn í fullu gildi. Í 2. og 3. mgr. 27. gr. frumvarpsins er fjallað um skyldur leyfisveitanda til að leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar til grundvallar ákvörðun um veitingu leyfis. Mikilvægt er jafnframt að leyfisveitandi gangi úr skugga um að sú framkvæmd sem hann er að veita leyfi fyrir sé í samræmi við þá framkvæmd sem fjallað er um í umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila og áliti Skipulagsstofnunar. Í því geta falist útfærslur og frávik sem orðið hafa við endanlega hönnun framkvæmdar, sem víkja þó ekki í meginatriðum frá þeirri framkvæmdalýsingu sem fram kemur í umhverfismatsskýrslu og álit Skipulagsstofnunar byggðist á. Með leyfinu fylgi greinargerð þar sem gerð sé rökstudd grein fyrir samræmi þess við álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat. Þannig gerir leyfisveitandi grein fyrir því hvernig hann tengir saman álitið og leyfisveitinguna. Þá skal í álitinu koma fram skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun hafi slíkt komið fram í áliti Skipulagsstofnunar. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar felur í sér að aðildarríki geti fellt umhverfismat framkvæmdar inn í gildandi málsmeðferðarreglur aðildarríkjanna um leyfi til framkvæmda eða fellt það inn í aðrar málsmeðferðarreglur. Óháð þeirri leið sem farin er skal ákvörðun um leyfisveitingu skv. 8. gr. a tilskipunarinnar innihalda rökstudda niðurstöðu lögbærs stjórnvalds um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og öll umhverfisverndarskilyrði sem geta falist í mótvægisaðgerðum og/eða vöktun Ákvæðið, eins og það hefur verið túlkað af framkvæmdastjórn ESB, felur í sér að skilyrði í áliti lögbærs stjórnvalds um umhverfismat skuli vera bindandi fyrir leyfisveitanda.

Um VI. kafla.

    Í kaflanum er að finna ákvæði um endurskoðun umhverfismats, heimild til undanþágu frá ákvæðum laganna og málskot. Ákvæði kaflans fela í sér breytingar frá gildandi lögum þar sem mælt er fyrir um heimild til endurskoðunar umhverfismats óháð þeim tíma sem liðinn er frá áliti Skipulagsstofnunar. Þá er lagt til að tekin verði upp ákvæði 3. mgr. 1. gr. og 4. mgr. 2. gr. tilskipunar 2011/92/ESB um heimildir til undanþágu. Einnig er ákvæði um málskot einfaldað.

Um 28. gr.

    Með tilskipun 2014/52/ESB var tekið upp nýtt ákvæði, 8. gr. a, í tilskipun 2011/92/ESB sem fjallar um leyfi til framkvæmda. Í 6. mgr. ákvæðisins er að finna nýmæli sem skyldar stjórnvöld til að tryggja að umhverfismat framkvæmdar eigi enn við (e. up to date) áður en veitt er leyfi fyrir framkvæmd. Í því felst að skýrt þarf að liggja fyrir að umhverfismat framkvæmdarinnar eigi enn við og þarfnist ekki endurskoðunar þegar ákvörðun um leyfi til framkvæmdar er samþykkt. Í ákvæðinu kemur einnig fram að aðildarríkjum sé heimilt að ákveða að umhverfismatið skuli teljast gilt í ákveðinn tíma. Ekki kemur þó fram í tilskipuninni við hvaða tímamörk skuli miða en í leiðbeiningariti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er tekið fram að lögbæra stjórnvaldið ætti í öllum tilvikum að fullvissa sig um að rökstudda niðurstaðan sé í fullu gildi, óháð því hvort tímafrestir séu liðnir.
    Í núgildandi ákvæði 12. gr. laganna er kveðið á um að viðkomandi leyfisveitandi skuli óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Á undanförnum árum hafa Skipulagsstofnun borist beiðnir um endurskoðun umhverfismats framkvæmda þar sem ekki hafa verið liðin tíu ár frá því að álit um mat á umhverfisáhrifum var gefið út. Þar sem 12. gr. laganna heimilar ekki endurskoðun umhverfismats áður en tíu ár eru liðin, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 13. nóvember 2017, í máli nr. 77/2017, sem varðar vegagerð um Hornafjarðarfljót, hefur Skipulagsstofnunar tekið til skoðunar hvort unnt sé að taka upp umhverfismat á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga um endurupptöku máls eða óskráðra reglna stjórnsýsluréttar um endurupptöku mála. Dómstólar og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafa í nokkrum málum komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi legið fyrir fullnægjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar við leyfisveitingu þótt ekki væru liðin tíu ár frá áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í einhverjum tilfella hefur verið lögð sú skylda á leyfisveitanda að bæta úr þeim annmörkum sem taldir eru vera á umhverfismati framkvæmdarinnar áður en leyfi er veitt en einnig eru dæmi um að fram hafi komið að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram að nýju. Í þessu sambandi má benda á dóma Hæstaréttar Íslands frá 12. maí 2016 í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015 þar sem heimild til eignarnáms vegna lagningar hluta Suðvesturlína var felld úr gildi. Einnig má benda á dóm Hæstaréttar frá 13. október 2016 í máli nr. 796/2015 um leyfisveitingu Orkustofnunar til handa Landsneti fyrir hluta Suðvesturlína þar sem leyfið var fellt úr gildi af því að leyfisveitandi og framkvæmdaraðili voru ekki taldir hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni. Þá má benda á úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum er varða raflínur að Bakka við Húsavík, þ.e. mál nr. 46/2016, þar sem fellt var úr gildi framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps fyrir Kröflulínu 4, og mál nr. 95/2016, þar sem fellt var út gildi framkvæmdaleyfi Þingeyjarsveitar fyrir Þeistareykjalínu 1. Álit um mat á umhverfisáhrifum framangreindra framkvæmda voru í tilfelli Suðvesturlína frá árinu 2009 og í tilfelli raflína að Bakka frá árinu 2010. Aðra niðurstöðu var hins vegar að finna í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 575/2016, þar sem framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir Suðurnesjalínu 2 var fellt úr gildi. Þar taldi dómstóllinn að matsskýrsla Landsnets hf. um framkvæmdina og álit Skipulagsstofnunar um skýrsluna gætu ekki verið lögmætur grundvöllur undir ákvörðun sveitarfélagsins um veitingu framkvæmdaleyfisins sem samkvæmt því væri reist á röngum lagagrundvelli. Í því máli var talið að úr galla á umhverfismatinu hefði ekki verið bætt með tilteknum skýrslum Landsnets.
    Eins og áður segir er meginreglan sú að stjórnvöld þurfa að vera þess fullviss að umhverfismat framkvæmdar eigi enn við og þarfnist ekki endurskoðunar áður en leyfi er veitt til framkvæmda. Tilgreint er í tilskipuninni að ríki geti sett tímamörk í því sambandi. Reynslan hér á landi hefur sýnt að langur gildistími umhverfismats (tíu ár) getur leitt til þess að útgefið sé leyfi fyrir framkvæmd þar sem umhverfismat á ekki lengur við.
    Með 28. gr. frumvarpsins er lagt til að bæði framkvæmdaraðili og leyfisveitandi geti óskað eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort umhverfismat framkvæmdar eigi við ef þeir telja forsendur hafa breyst verulega frá því að álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Þannig er horfið frá þeirri fortakslausu tíu ára reglu sem nú gildir. Framkvæmdaraðila og leyfisveitanda yrði heimilt að leita álits Skipulagsstofnunar um endurskoðun umhverfismats innan tíu ára en gert er ráð fyrir að þegar tíu árin eru liðin sé slík álitsumleitan skylda. Dæmi um forsendur sem gætu hafa breyst verulega getur verið aukin þekking en að því er vikið í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 10, 11 og 15/2016 þar sem segir að skortur á grunnþekkingu við mat á umhverfisáhrifum geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að frekara mat á umhverfisáhrifum fari ekki fram komi fram vísbendingar um að þess þurfi. Annað væri í andstöðu við grunnhugsunina að baki varúðarreglunni. Annað dæmi sem nefna mætti um breyttar forsendur væri áhrif af mikilli fjölgun ferðamanna en vikið er að því í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 122/2014.
    Í 3. mgr. kemur fram að verði niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að endurskoða skuli umhverfismat að hluta eða í heild skuli fara með málið skv. 21.–24. gr. eftir því sem við á. Endurskoðun skv. 2. mgr. getur þannig náð til málsmeðferðar skv. 22.–24. gr., þ.e. umhverfismatsskýrslu og samráðs um hana og eftir atvikum til matsáætlunar skv. 21. gr. ef þörf er á. Þá getur endurskoðun tekið til tiltekinna þátta umhverfismats framkvæmdarinnar sem þarfnast endurskoðunar eða heildstæðs umhverfismats sbr. 4. og 22. gr.
    Í 4. mgr. kemur fram að álit Skipulagsstofnunar um endurskoðun umhverfismats skuli auglýst með áberandi hætti og vera kynnt framkvæmdaraðila og leyfisveitendum auk þess að vera aðgengilegt almenningi á netinu.

Um 29. gr.

    Í greininni er lagt til að mælt verði fyrir um undanþágur frá umhverfismati. Í 3. mgr. 5. gr. gildandi laga hefur verið að finna heimild fyrir ráðherra til að ákveða að tiltekin framkvæmd eða hluti hennar sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Hins vegar er þar aðeins um að ræða eina af þremur undanþáguheimildum tilskipunar 2011/92/ESB eftir breytingu á henni með tilskipun 2014/52/ ESB.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að ráðherra sé heimilt, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, að ákveða að tiltekin framkvæmd eða hluti hennar, þegar eini tilgangur hennar er varnir landsins eða viðbrögð við neyðartilvikum er varða almannavarnir, sé ekki háð lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana ef slíkt mundi hafa skaðleg áhrif á tilgang framkvæmdarinnar. Byggist ákvæðið á 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni er breytt með tilskipun 2014/52/ESB. Um sams konar ákvæði er að ræða og er að finna í 3. mgr. 5. gr. gildandi laga. Í 19. og 20. gr. aðfaraorða tilskipunar 2014/52/ESB er fjallað um beitingu undanþágunnar. Þar segir að reynslan sýni að þegar um sé að ræða framkvæmd eða hluta af framkvæmd sem hafi varnir ríkis að markmiði geti tilskipunin leitt til þess að birtar séu trúnaðarupplýsingar sem mundu grafa undan vörnum ríkisins og því sé gert ráð fyrir að aðildarríkin geti beitt undanþáguheimildinni í þannig tilvikum. Sams konar sjónarmið eru talin eiga við um neyðartilvik er varða almannavarnir, þ.e. reynslan sýni að það geti haft skaðleg áhrif, m.a. á umhverfið, að fara að tilskipuninni ef um er að ræða framkvæmd sem hefur þann eina tilgang að bregðast við neyðartilviki er varðar almannavarnir.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra verði heimilt í sérstökum undantekningartilvikum og þegar markmiðum laganna er náð að undanskilja tiltekna framkvæmd, eða hluta hennar, ákvæðum laganna þegar beiting þeirra mundi hafa skaðleg áhrif á tilgang framkvæmdarinnar. Í slíkum tilvikum skal ráðherra kveða á um hvaða gögnum skuli safnað um umhverfisáhrif hennar og aðgang almennings að þeim og kynna framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og almenningi ástæður fyrir undanþágunni. Ráðherra ber, áður en undanþága er veitt, að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um undanþáguna. Byggist ákvæðið á 4. mgr. 2. gr. tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni er breytt með tilskipun 2014/52/ESB. Með tilskipun 2014/52/ESB er gerð breyting á orðalagi ákvæðisins þannig að það verði skýrara um hvenær er heimilt að beita undanþágunni. Aðeins er heimilt að beita undanþágunni þegar beiting tilskipunarinnar mundi hafa skaðleg áhrif á tilgang framkvæmdarinnar en jafnframt má veiting undanþágu ekki ganga gegn markmiðum tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er gerður fyrirvari um 5. gr. sem fjallar um umhverfismat yfir landamæri. Ef um er að ræða framkvæmd sem líklegt er að hafi áhrif yfir landamæri þarf ákvörðun um undanþágu að vera tekin í samráði við viðkomandi ríki.

Um 30. gr.

    Með 30. gr. er lagt til að ákvæði um málskot verði fært nær því sem þekkist hjá öðrum Norðurlandaþjóðum og Skotum en hjá þeim eru það fyrst og fremst ákvarðanir um leyfi sem heimilt er að kæra og er kæruheimildir oftast að finna í þeim lögum sem ákvörðun um leyfi byggist á eða í stjórnsýslulögum. Eins og rakið er í kafla 3.6 í almennum athugasemdum við frumvarpið hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gefið út rökstutt álit um að löggjöf aðildarríkja verði að mæla skýrlega fyrir um að almenningur geti leitað endurskoðunar á athafnaleysi stjórnvalda í tengslum við þátttökuréttindi almennings. Í ljósi 2. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar er í frumvarpinu lögð til breyting á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem sérstaklega er tekið fram að kæra vegna matsskylduákvörðunar eða ákvörðun um veitingu leyfis geti komið til vegna ætlaðra brota á þátttökuréttindum almennings í málsmeðferð sem kveðið er á um í frumvarpi þessu. Þannig er hægt að koma þeirri málsástæðu að í kærumálum á stigum matsskylduákvörðunar og leyfisveitingar að þátttökuréttindin hafi ekki verið virt enda varðar slíkt lögmæti ákvörðunar um leyfisveitingu eða matskylduákvörðunar. Lagt er til að ákvarðanir um matsskyldu og ákvarðanir um veitingu leyfa til framkvæmda verði áfram kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en að ekki sé heimilt að kæra sérstaklega önnur álit eða niðurstöður í ferlinu, þar með ætlað brot á þátttökuréttindum almennings.

Um VII. kafla.

    Í kaflanum er kveðið á um eftirlit stjórnvalda með framkvæmdum og heimildir Skipulagsstofnunar til álagningar stjórnvaldssekta.

Um 31. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá 18. gr. gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum og kveður á um eftirlit með framkvæmdum. Leyfisveitendur skulu hafa eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum leyfisins um mótvægisaðgerðir og vöktun framkvæmda. Skal eftirlitið og hversu lengi það varir vera í hlutfalli við eðli, staðsetningu og stærð framkvæmdarinnar og áhrif hennar á umhverfið. Að öðru leyti fer um eftirlitið samkvæmt viðeigandi lögum.
    Mikilvægt er að skýrt komi fram að eftirlit skuli haft með framfylgd mótvægisaðgerða og vöktun framkvæmda. Ákvæðið byggist á fyrirmælum 4. mgr. 8. gr. a tilskipunar um mat á umhverfisáhrifum þar sem sett er fram skylda á aðildarríkin að sjá til þess að framkvæmdaraðilinn hrindi í framkvæmd þeim þáttum framkvæmdarinnar og/eða fyrirhuguðum ráðstöfunum til að komast megi hjá, koma í veg fyrir eða draga úr og, ef mögulegt er, vega upp á móti umtalsverðum neikvæðum áhrifum á umhverfið.

Um 32. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 18. gr. a núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 96/2019.
    Ákvæði 10. gr. a tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni er breytt með tilskipun 2014/52/ESB kveður á um skyldu ríkja til að setja viðurlög við brotum á löggjöf er fjallar um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt ákvæði tilskipunarinnar skal gætt meðalhófs við beitingu viðurlaga en jafnframt þurfa viðurlög við brotum á löggjöf um mat á umhverfisáhrifum að vera áhrifarík og hafa varnaðaráhrif. Að öðru leyti er ríkjum heimilt að útfæra viðurlög við brotum á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæði 30. gr. frumvarpsins felur í sér heimild til beita stjórnvaldssektum við brotum á lögum um mat á umhverfisáhrifum en í því felst skylda til að greiða ákveðna fjárhæð til hins opinbera vegna brota á framangreindum ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Talið er að beiting stjórnvaldssekta sé skilvirkari leið en að dæmd sé refsing hjá dómstólum. Um nánari skýringu ákvæðisins er vísað til skýringa við 13. gr. laga nr. 96/2019. Um nánari skýringu ákvæðisins er vísað til athugasemda við 16. gr. í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr, 106/2000, sem varð að lögum nr. 96/2019 (149. löggjafarþing 2018–2019, 775. mál, þskj. 1235).

Um VIII. kafla.

    Í kaflanum eru ákvæði um reglugerð og leiðbeiningar um umhverfismat framkvæmda og áætlana, undanþágur frá frestum, takmarkanir á upplýsingagjöf og innleiðingu EES-gerða.

Um 33. gr.

    Lagt er til að mælt verði nokkuð ítarlega fyrir um atriði sem taka skal til í reglugerð um framkvæmd laganna. Ákvæðið byggist á 20. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og 11. gr. laga um umhverfismat áætlana. Þá er lagt til að í ákvæðinu verði heimild til setningar gjaldskrár vegna kostnaðar Skipulagsstofnunar við umhverfismat framkvæmda sem er að finna í 2. mgr. 16. gr. gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Um 34. gr.

    Ákvæðið er samhljóða ákvæði 21. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og fjallar um undanþágu frá frestum. Þeir frestir sem um ræðir varða matsskylduákvörðun, álit um matsáætlun og álit um umhverfismat framkvæmdar. Heimildin á við um sérstaklega umfangsmikil mál. Skipulagsstofnun skal, í samráði við framkvæmdaraðila, tilkynna honum skriflega um ástæðu framlengingar fresta ásamt því að upplýsa hann um hvenær fyrirhugað sé að ljúka afgreiðslu málsins. Einnig er skv. 2. mgr. heimilt, í samráði við framkvæmdaraðila, að lengja kynningartíma matsáætlunar og umhverfismatsskýrslu í undantekningartilvikum, þ.e. í viðamiklum málum.
    Í 6. mgr. 4. gr. tilskipunar 2011/92/ESB eins og þeim er breytt með tilskipun 2014/52/ESB er kveðið á um að ákvörðun um matsskyldu skuli liggja fyrir eins fljótt og unnt er, en innan 90 daga frá því að framkvæmdaraðili hefur lagt fram öll gögn. Heimilt er í umfangsmiklum málum að framlengja þann frest en það ákvæði er valkvætt fyrir ríki að innleiða.

Um 35. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá 21. gr. a laga um mat á umhverfisáhrifum utan þess að vísað er til upplýsingalaga í stað laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Með lögum nr. 72/2019 voru ákvæði um upplýsingarétt um umhverfismál felld brott og ákvæðum um aðgang að upplýsingum um umhverfismál bætt við upplýsingalög, nr. 140/2012, VII. kafla. Kveðið er á um að með fyrirvara um ákvæði laga um upplýsingarétt um umhverfismál skuli ákvæði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana ekki hafa áhrif á skyldu til að virða takmarkanir sem landslög og stjórnsýslufyrirmæli og viðteknar lagavenjur setja um iðnaðar- og viðskiptaleynd, þ.m.t. hugverkarétt, eða til að tryggja almannaheill. Byggist framangreind breyting á ákvæði 10. gr. tilskipunar 2011/92/ESB eins og henni er breytt með tilskipun 2014/52/ESB. Í tilskipun 2011/92/ESB, áður en henni var breytt með tilskipun 2014/52/ESB, var að finna í 10. gr. sams konar ákvæði og er breytingin sem gerð er með tilskipun 2014/52/ESB sú að bætt er við tilvísun til tilskipunar 2003/4/EB um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Sú tilskipun var fyrst innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, en eins og fram er komið voru þau lög felld brott með lögum nr. 72/2019 og ákvæðum um aðgang að upplýsingum um umhverfismál bætt við upplýsingalög, nr. 140/2012, VII. kafla. Með ákvæðinu er aðeins áréttað það sem nú þegar er í gildi, þ.e. að með fyrirvara um ákvæði upplýsingalaga er lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana ekki ætlað að hafa áhrif á takmarkanir sem byggjast á landslögum og stjórnsýslufyrirmælum er varða iðnaðar- og viðskiptaleynd.

Um 36. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 37. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um gildistöku laganna. Lagt er til að lögin taki þegar gildi og jafnframt falli úr gildi lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Gert er hins vegar ráð fyrir að landfræðileg gagna- og samráðsgátt geti komið til framkvæmda eigi síðar en 1. desember 2022. Innleiðing rafrænnar og stafrænnar stjórnsýslu er áherslumál ríkisstjórnarinnar og því verður lögð áhersla á að gáttin verði tilbúin til notkunar 1. desember 2022. Fram að þeim tíma þegar 6. gr. kemur til framkvæmda er lagt til að ákvæði núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum og umhverfismati áætlana um kynningu og samráð skuli gilda.

Um 38. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, í þeim tilgangi að skjóta styrkari stoðum undir sameiningu skýrslugerðar og samþættingu samráðs sem fjallað er um í 9. gr. frumvarpsins.
    Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, í samræmi við 30. gr. frumvarpsins þar sem fallið er frá sérstökum kæruheimildum vegna þátttökuréttinda almennings. Í ljósi 2. mgr. 11. gr. tilskipunar 2011/92/ESB er lagt til að sérstaklega verði tekið fram að kæra vegna matsskylduákvörðunar eða ákvörðunar um veitingu leyfis geti komið til vegna ætlaðra brota á þátttökuréttindum almennings eða annars ágalla á málsmeðferðinni að mati kæranda. Þannig er skýrt tekið fram í samræmi við framkvæmdina að hægt sé að koma þeirri málsástæðu að í kærumálum á stigum matsskylduákvörðunar og ákvörðunar um veitingu leyfis að þátttökuréttindin hafi ekki verið virt í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda. Þannig er t.d. ljóst að kæra á ákvörðun um leyfisveitingu getur byggst á þeirri málsástæðu að álit um umhverfisáhrif framkvæmdar sé haldið ágöllum vegna brota á þátttökuréttindum almennings.
    Í greininni er einnig lagt til að endurskoðað bókhald verði ekki fortakslaus krafa fyrir aðild umhverfisverndarsamtaka í lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi þau samþykkta ársreikninga. Breyting sem lögð er til á lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd, er tilkomin vegna breytinga á hugtakanotkun í frumvarpinu miðað við gildandi lög.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæði til bráðabirgða er mælt fyrir um málsmeðferð sem hafin er samkvæmt eldri lögum við gildistöku laga þessara. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 1. viðauka.

    Eins og fjallað er um í almennum athugasemdum við frumvarpið eru með því lagðir til endurskoðaðir framkvæmdaflokkar og brottfall C-flokks. Tillögurnar grundvallast á greiningarvinnu á vegum Skipulagsstofnunar sem unnin var fyrir starfshóp um heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. Tillögurnar byggjast á yfirferð yfir viðauka I og II í tilskipun ESB um umhverfismat framkvæmda og löggjöf valinna nágrannalanda (Norðurlanda og Skotlands), auk leiðbeiningarita framkvæmdastjórnar ESB um túlkun framkvæmdaflokka í tilskipuninni og um túlkun Evrópudómstólsins á framkvæmdaflokkum tilskipunarinnar. Þá er byggt á reynslu Skipulagsstofnunar af framfylgd núgildandi framkvæmdaflokka, sem og á ábendingum og tillögum sem borist hafa frá ýmsum aðilum við umfjöllun um frumvörp og lagabreytingaáform undanfarin ár. Framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum flokks B skulu ávallt tilkynntar séu þær staðsettar á verndarsvæðum. sbr. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.
    1. kafli. Landbúnaður, skógrækt og fiskeldi.
    Í lið 1.01 er lagt til stærðarviðmið sem miði við 20 ha svæði og er það í samræmi við ákvæði í tölul. 1.01 í 1. viðauka laga nr. 106/2000. Jafnframt er lagt til staðsetningarviðmiðið verndarsvæði, en sambærilegt staðsetningarviðmið er í skosku reglugerðinni um umhverfismat framkvæmda. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í a-lið 1. tölul. II. viðauka í tilskipun 2011/92/ESB.
    Í lið 1.02 er lagt til stærðarviðmið sem miði við 5 ha. Sama stærðarviðmið er í norsku reglugerðinni um umhverfismat um þennan framkvæmdaflokk. Jafnframt er lagt til staðsetningarviðmiðið verndarsvæði, en sambærilegt staðsetningarviðmið er í skosku reglugerðinni um umhverfismat framkvæmda. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Að öðru leyti vísast til skýringa um lið 1.03 í athugasemdum frumvarps sem varð að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í b-lið 1. tölul. II. viðauka í tilskipun 2011/92/ESB.
    Í lið 1.03 er lagt til stærðarviðmið sem miði við 2 ha, en í gildandi lögum nr. 106/2000 er miðað við 3 ha. Lögð er til breyting í 2 ha vegna ákvæða í 61. gr. náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, um sérstaka vernd votlendis sem er 2 ha eða stærra. Stærðarviðmið gildandi laga, nr. 106/2000, tóku mið af 37. gr. eldri náttúruverndarlaga, nr. 44/1999. Þá er, eins og í gildandi lögum, lagt til að framkvæmdir á verndarsvæðum falli undir ákvæðið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Framkvæmdaflokkur á sér samsvörun í c-lið 1. tölul. II. viðauka í tilskipun 2011/92/ESB.
    Í lið 1.04 er lagt til stærðarviðmið fyrir nýræktun skóga sem miði við 50 ha. Reynsla af framfylgd laga nr. 106/2000 sýnir að þröskuldsgildi sem miðar við 200 ha nær almennt ekki til skógræktarverkefna hér á landi og er því í reynd ekki virkt. Til samanburðar er í norsku reglugerðinni um umhverfismat miðað við 50 ha. Nýræktun skóga felur í sér breytta landnýtingu og getur haft í för með sér miklar breytingar á vistkerfi og landslagi. Skógrækt er ólík hefðbundinni ræktun í landbúnaði að því leyti að almennt verður að líta á hana sem langtímaráðstöfun á landi auk þess að hafa almennt mun meiri áhrif á landslag. Í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, er skýr áhersla á landslagsvernd. Jafnframt hefur Ísland staðfest landslagssamning Evrópu sem hefur m.a. að markmiði að mörkuð sé stefna um landslagsvernd og mat á landslagi. Að öðru leyti vísast til skýringa um lið 1.06 í athugasemdum frumvarps sem varð að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000. Þá vísast til laga um skóga og skógrækt, nr. 33/2019, varðandi skilgreiningu á hugtakinu skógur. Auk framangreinds stærðarviðmiðs er lagt til að nýræktun skóga á verndarsvæðum, óháð umfangi, sé ávallt tilkynningarskyld, líkt og gildir samkvæmt lögum nr. 106/2000. Lagt er til stærðarviðmið fyrir skógareyðingu sem miði við 0,5 ha. Fyrirmynd þess er að finna í skosku reglugerðinni um umhverfismat framkvæmda. Einnig er höfð hliðsjón af skilgreiningu á hugtökunum skógur og varanleg eyðing skógar í lögum nr. 33/2019, um skóga og skógrækt. Að öðru leyti vísast til skýringa um lið 1.06 í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við framangreind stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í d-lið 1. tölul. II. viðauka í tilskipun 2011/92/ESB sem tekur til nýræktunar skóga sem breytir fyrri landnotkun og varanlegrar skógareyðingar sem breytir fyrri landnotkun. Ekki þykir þörf á að tilgreina hugtakið „sem breytir fyrri landnotkun“ í ákvæðinu þar sem ljóst þykir að nýskógrækt felur í sér að með því verður breyting á nýtingu viðkomandi svæðis.
    Í lið 1.05 er lagt til að uppgræðsla lands á verndarsvæðum verði tilkynningarskyld. Framkvæmdaflokkurinn á sér ekki samsvörun í II. viðauka í tilskipun 2011/92/ESB, en lagt er til að hann verði óbreyttur frá tölul. 1.08 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Með uppgræðslu lands er átt við landgræðslu eins og hún er skilgreind í lögum um landgræðslu, nr. 155/2018.
    Í lið 1.06 er lagt til ákvæði efnislega samhljóða tölul. 1.09 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, og miðað er við sömu stærðarmörk og tilgreind eru í 17. tölul. I. viðauka í tilskipun 2011/92/ESB. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í 17. tölul. I. viðauka í tilskipun 2011/92/ESB.
    Í lið 1.07 er lagt til ákvæði efnislega samhljóða tölul. 1.10 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Varðandi skilgreiningu á hugtakinu þauleldi vísast til leiðbeiningarits framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skilgreiningar á tilteknum framkvæmdaflokkum í viðauka I og II í tilskipun um umhverfismat framkvæmda. Þar er þauleldi búfjár skýrt á sama hátt og þauleldi á fiski. Það má útleggja sem eldi búfjár í miklum þéttleika þar sem beitt er tilteknum aðferðum til að auka framleiðslu umfram náttúrulega getu umhverfisins og þar sem almennt er þörf á aðfluttu fóðri til að vega upp á móti takmarkaðri getu svæðisins þar sem eldið fer fram til að standa undir eldi af því umfangi og þéttleika sem um er að ræða. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í e-lið 1. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB.
    Í lið 1.08 er lagt til að sjókvíaeldi af tilteknu umfangi verði ávallt háð umhverfismati. Undanfarin ár hafa verið kynnt umfangsmikil áform um fiskeldi í sjókvíum hér við land og fiskeldi aukist hratt. Reynslan sýnir að sjókvíaeldi getur haft margvísleg umhverfisáhrif og að margir láta sig sjókvíaeldi og umhverfisáhrif þess varða. Bæði er um að ræða möguleg áhrif fiskeldis á umhverfi og náttúrufar og einnig á aðra nýtingu og starfsemi. Lagt er til að matsskylda sjókvíaeldis verði miðuð við 3.000 tonna hámarkslífmassa. Þannig verði áform um umfangsmikið sjókvíaeldi ávallt háð umhverfismati. Þessi stærðarmörk samsvara einni eldisþyrpingu eða einu eldissvæði í umfangsmiklu eldi. Til samanburðar er algengt að í Noregi sé leyfilegur hámarkslífmassi á eldissvæðum á bilinu 2.340 til 4.680 tonn. Í Skotlandi var þangað til fyrir skömmu miðað við að hámarkslífmassi á hverju eldissvæði færi ekki yfir 2.500 tonn. Rétt þykir að miða við lífmassa frekar en framleiðslu á fiski til samræmis við viðmið í lögum um fiskeldi. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í f-lið 1. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB.
    Í lið 1.09 er lagður til framkvæmdaflokkur sem tekur til annars fiskeldis en fellur undir framkvæmdaflokkinn í lið 1.08. Lagt er til að miða við sambærileg stærðarmörk og er að finna í tölul. 1.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, en þó þykir rétt að miða við lífmassa frekar en framleiðslu á fiski til samræmis við viðmið í lögum um fiskeldi. Þá er lagt til að framkvæmdir, óháð umfangi, á verndarsvæðum falli undir ákvæðið, hvort sem fiskeldisstöðin sjálf og/eða útrás frárennslis hennar er innan verndarsvæðis. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Um skilgreiningu á þauleldi er fjallað í skýringum við samsvarandi framkvæmdaflokk í leiðbeiningariti framkvæmdastjórnar ESB um framkvæmdir í viðaukum við tilskipun um umhverfismat framkvæmda.
    Í lið 1.10 er lagður til framkvæmdaflokkurinn endurheimt lands frá hafi. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í g-lið 1. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 1.13 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    2. kafli. Vinnsla auðlinda í jörðu.
    Kaflinn samsvarar 2. kafla í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB sem ber yfirskriftina Extractive industry. Í gildandi lögum nr. 106/2000 ber samsvarandi kafli yfirskriftina Námuiðnaður. Réttara þykir að kalla hann Vinnsla auðlinda í jörðu. Er þar vísað til hugtakanotkunar í lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.
    Í 2.01 er lagt er til að matsskylda efnistöku miði við 25 ha lands eða 500.000 m3. Fyrrnefndu stærðarmörkin eru í samræmi við stærðarmörk í 19. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/EB. Í lögum nr. 106/2000 miðar matsskylda efnistöku hins vegar við 5 ha lands. Lagt er til að efnismagn miði við 500.000 m3 í stað 150.000 m3 samkvæmt lögum nr. 106/2000r. Mikil reynsla er af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar ákvæði þeirra um efnistöku og sýnir hún að nægilegt er að efnistaka undir þessum mörkum sé tilkynningarskyld. Þessi framkvæmdaflokkur á sér samsvörun í tölul. 19 í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB. Hann tekur í tilskipuninni til náma sem ná yfir meira en 25 ha lands og móttöku á svæði sem er stærri en 150 ha. Ákvæðið tekur til efnistöku á landi, úr ám og á hafsbotni. Í lögum nr. 106/2000 nær efnistökuákvæðið einnig til haugsetningar, en sambærileg ákvæði tilskipunar ESB fjallar ekki um haugsetningu. Hér er lagt til að horfið verði frá því, enda er haugsetning efnis gjarnan hluti annarra framkvæmda sem geta verið matsskyldar eða tilkynningarskyldar, og er þá fjallað um umhverfisáhrif haugsetningar sem hluta þeirra framkvæmda.
    Í lið 2.02 er lagt til að stærðar- og staðsetningarmörk séu þau sömu og gilda samkvæmt tölul. 2.02 og 2.03 í lögum nr. 106/2000, en að ákvæðið eigi eingöngu við efnistöku en ekki haugsetningu, sbr. skýringar að framan. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Ákvæðið tekur til efnistöku á landi, úr ám og á hafsbotni. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í a- og c-lið 2. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB.
    Samkvæmt lið 2.03 eru neðanjarðarnámur tilkynningarskyldar. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í b-lið 2. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 2.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Liður 2.04 samsvarar lið 2.06 í gildandi lögum. Ákvæðið sem hér er lagt til er óbreytt frá lögum nr. 106/2000 að því frátöldu að lagt er til breytt stærðarviðmið um borun eftir vatni til samræmis við 14. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og að borun eftir vatni undir þeim viðmiðum verði eingöngu tilkynningarskyld ef hún er á verndarsvæði. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Þessi framkvæmdaflokkur á sér samsvörun í d-lið 2. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB sem fjallar um „deep drillings“ af tilteknum tegundum að frátöldum iv. lið, en hann kom inn í lög um mat á umhverfisáhrifum með 22. gr. laga nr. 166/2008, um breytingu á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi. Í skýringum við ákvæðið í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 166/2008 kemur fram að vegna þeirra hættu og áhrifa sem verið geta samfara starfsemi eins og rannsóknum og borunum á landgrunninu þyki rétt að gera slíkar framkvæmdir tilkynningarskyldar enda ávallt viðbúið að rask verði af starfsemi sem þessari. Að öðru leyti vísast til skýringa við tölul. 2.06 í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000, en auk þess sem þar er tilgreint er litið svo á að niðurdælingarholur falli undir i. lið ákvæðisins einnig, sbr. leiðbeiningarit framkvæmdastjórnar ESB um túlkun einstakra framkvæmdaflokka í tilskipun ESB. Talið er rétt að nota hér áfram hugtakið djúpborun til samræmis við hugtakanotkun í samsvarandi lið tilskipunarinnar.
    Í lið 2.05 eru tiltekin sem tilkynningarskyld iðjuver ofan jarðar til að nema kol, jarðolíu, jarðgas og málmgrýti, svo og jarðbiksleir. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í e-lið 2. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 2.07 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    3. kafli. Orkuiðnaður.
    Í kaflanum er fjallað um framkvæmdir í orkuiðnaði.
    Í lið 3.01 er lagður til framkvæmdaflokkur samhljóða tölul. 3.01 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í 1. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB.
    Í lið 3.02 er lagt til ákvæði efnislega óbreytt frá tölul. 3.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000, en lagt er til að orðalagi sé breytt til að taka af vafa um að það nái annars vegar til allra tegunda virkjana sem framleiða rafmagn, 10 MW og stærri, en hins vegar til orkuvera sem framleiða varmaafl 50 MW og meira. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í a-lið 2. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB, sbr. einnig a-lið 3. tölul. í viðauka II í tilskipuninni.
    Í lið 3.03 er lagt til ákvæði efnislega óbreytt frá tölul. 3.03 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Framkvæmdaflokkurinn á sér samsvörun í b-lið 2. tölul. viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB.
    Í lið 3.04 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a- og b-lið 3. tölul. viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 3.04 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 3.05 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í g-lið 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 3.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 3.06 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 14. tölul. viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 3.06 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 3.07 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í fyrri hluta b-liðar 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.09 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Eins og kemur fram í skýringum við samsvarandi ákvæði í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000, er með flutningskerfi fyrir heitt vatn ekki átt við dreifikerfi, þ.e. stofnæðar, götuæðar og heimæðar til neytenda.
    Í lið 3.08 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 16. tölul. viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.10 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar, þar sem talað er um „transport of gas, oil, chemicals“, er hér lagt til að í stað þess að tala um „flutning á gasi og vökvum“ eins og gert er í samsvarandi ákvæði í lögum nr. 106/2000, segi „flutningi á gasi, olíu eða annars konar efnum/efnasamböndum“. Í tilskipuninni er miðað við leiðslur sem eru 40 km langar og 80 cm í þvermál, en í samsvarandi ákvæði laga nr. 106/2000 er miðað við 1 km lengd og 50 cm þvermál. Í ljósi reynslu af framkvæmd laganna þykja vera forsendur til að hafa þessi viðmið rýmri en verið hefur. Er því hér lagt til að miða sé við 10 km. Er þá horft til lengdarviðmiðs í tölul. 10.21 í 1. viðauka laga nr. 106/2000. Lagt er til að viðmið um þvermál leiðslna verði óbreytt, 50 cm. Ekki þykja forsendur til að ganga lengra varðandi rýmkun þessara viðmiða. Er þá horft til þess að framangreind viðmið tilskipunar um lengd og þvermál er lágmarksákvæði. Einstök ríki þurfa að taka afstöðu til þess við innleiðingu tilskipunarinnar hvort staðbundnar aðstæður kalla á þrengri viðmið. Í ljósi aðstæðna hér með tilliti til landslags og jarðmyndana eru ekki taldar forsendur til að ganga lengra í átt til rýmri marka en hér er lagt til. Að öðru leyti vísast til skýringa við samsvarandi ákvæði í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000.
    Í lið 3.09 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í b-lið 16. tölul. viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í tilskipuninni er miðað við leiðslur sem eru 40 km langar og 80 cm í þvermál, en í samsvarandi ákvæði laga nr. 106/2000 er miðað við 1 km lengd og 50 cm þvermál. Í ljósi reynslu af framkvæmd laganna þykja vera forsendur til að hafa þessi viðmið rýmri en verið hefur. Er því hér lagt til að miða við 10 km. Er þá horft til lengdarviðmiðs í tölul. 10.21 í 1. viðauka laga nr. 106/2000. Lagt er til að viðmið um þvermál leiðslna verði óbreytt, 50 cm. Sjá einnig skýringar við lið 3.08 að framan.
    Í lið 3.10 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í i. lið 10. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.12 og 3.13 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lagt er til að fella út vísun til verndarsvæða sem er að finna í samsvarandi ákvæðum í lögum nr. 106/2000 og að framkvæmdirnar séu tilkynningarskyldar í B-flokki óháð staðsetningu.
    Í lið 3.11 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í c-lið 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.15 og 3.16 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lagt er til að fella út vísun til verndarsvæða sem er að finna í samsvarandi ákvæðum í lögum nr. 106/2000 og að framkvæmdirnar séu tilkynningarskyldar í B-flokki óháð staðsetningu.
    Í lið 3.12 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í d-lið 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.17 og 3.18 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lagt er til að fella út vísun til verndarsvæða sem er að finna í samsvarandi ákvæðum í lögum nr. 106/2000 og að framkvæmdirnar séu tilkynningarskyldar í B-flokki óháð staðsetningu.
    Í lið 3.13 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í e-lið 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.19 og 3.20 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lagt er til að fella út vísun til verndarsvæða sem er að finna í samsvarandi ákvæðum í lögum nr. 106/2000 og að framkvæmdirnar séu tilkynningarskyldar í B-flokki óháð staðsetningu. Undir ákvæðið falla t.d. tankar þar sem jarðefnaeldsneyti er geymt áður en það fer til frekari dreifingar til smásöluaðila og sambærilegar geymslustöðvar.
    Í lið 3.14 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í f-lið 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.21 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 3.15 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í h-lið 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.22 og 3.23 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Ákvæðið sem hér er lagt til er efnislega óbreytt frá lögum nr. 106/2000 að því frátöldu að lagt er til að vatnsorkuver undir 200 kW verði eingöngu tilkynningarskyld ef þau eru staðsett á verndarsvæði. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 3.16 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í i. lið 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.24 og 3.25 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Skv. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, eru öll raforkuver háð virkjanaleyfi Orkustofnunar ef afl þeirra er 1 MW eða meira. Með hliðsjón af því er lagt til að í stað viðmiðs um 2 MW í lögum nr. 106/2000 komi 1 MW. Hæð vindmylla ræður mestu um sýnileika þeirra, en áhrif á landslag og ásýnd lands eru meðal þýðingarmestu umhverfisáhrifa vindorkuvera. Með hliðsjón af því og aðstæðum hér á landi er lagt til að auk viðmiða um uppsett rafafl sé einnig sett viðmið um heildarhæð vindmylla. Í danskri löggjöf um umhverfismat er til samanburðar miðað við 25 m heildarhæð vindmylla. Í Skotlandi er miðað við 15 m. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 3.17 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.07 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lagt er til að notað verði hugtakið uppsett afl fremur en hráafl. Uppsett afl varmavera skal reikna út frá framrásarhitastigi sem sent er frá varmaverinu og bakrásarhitastigi sem notendur varmans skila frá sér.
    Í lið 3.18 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 22. tölul. viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.26 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í samræmi við ákvæði tilskipunar 2009/31/ESB sem vísað er til í viðkomandi ákvæði tilskipunar 2011/92/ESB tekur liður 3.18 ekki til niðurdælingarsvæða fyrir CO2 í jörðu ef um er að ræða verkefni til rannsóknar, þróunar eða prófunar á nýrri vöru eða aðferðum þar sem heildargeymsla er minni en 100 kílótonn.
    Í lið 3.19 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 23. tölul. viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.27 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 3.20 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í j-lið 3. tölul. viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.28 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lagt er til að ákvæðið nái einnig til föngunar CO2 úr andrúmslofti þar sem mannvirki sem fanga CO2 beint úr andrúmslofti geta verið af mjög svipuðum meiði og mannvirki sem fanga CO2 frá verksmiðjum eða iðjuverum.
    4. kafli. Framleiðsla og vinnsla málma.
    Í lið 4.01 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 4. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 4.01 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Að öðru leyti vísast til skýringar við samsvarandi ákvæði í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000.
    Í lið 4.02 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.02 og 4.03 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 4.03 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í b-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.04 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 4.04 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í c-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 4.05 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í d-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.06 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 4.06 er lagður til framkvæmdarflokkur sem á sér samsvörun í e-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.07 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 4.07 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í f-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.08 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 4.08 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í g-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.09 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Hér undir fellur ekki starfsemi sem almennt má gera ráð fyrir í flugskýlum.
    Í lið 4.09 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í h-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.10 og 4.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 4.10 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í i-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.12 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 4.11 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í j-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.13 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að miða hér við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 4.12 er lagður til framkvæmdaflokkur sem sér samsvörun í k-lið 4. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 4.14 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    5. kafli. Steinefnaiðnaður.
    Í lið 5.01 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 5. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 5.01 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 5.02 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í b-lið 5. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 5.02 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 5.03 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í d-lið 5. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 5.03 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 5.04 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í e-lið 5. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 5.04 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 5.05 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í f-lið 5. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 5.05 og 5.06 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    6. kafli. Efnaiðnaður.
    Í lið 6.01 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 6. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 6.01 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í stað hugtaksins plöntuvarnarefni í iv. lið er notað hugtakið plöntuverndarvara til samræmis við breytta hugtakanotkun efnalaga, nr. 61/2013. Í leiðbeiningum framkvæmdastjórnar ESB er að finna nánari leiðbeiningar um þá starfsemi sem heyrir undir þennan lið.
    Í lið 6.02 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 6. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 6.02 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 6.03 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í b-lið 6. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 6.03 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Hugtökin sæfivörur og plöntuverndarvörur eru notuð í stað hugtaksins varnarefni í samræmi við breytta hugtakanotkun í efnalögum, nr. 61/2013.
    Í lið 6.04 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 21. tölul. viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og samhljóða tölul. 3.14 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í 21. tölul. 1. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB er miðað 200.000 tonna geymslugetu. Í athugasemdum við lið 3.14 í greinargerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000, kemur fram að 1 m3 samsvari 1 tonni.
    Í lið 6.05 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í c-lið 6. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 6.04 og 6.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við að mannvirki taki yfir 500 m2 eða geymslurými sé meira en 200 tonn, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    7. kafli. Matvælaiðnaður.
    Í lið 7.01 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 7.01 og 7.02 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 7.02 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í b-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 7.03 og 7.04 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 7.03 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í c-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 7.05 og 7.06 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 7.04 er lagður til framkvæmdarflokkur sem á sér samsvörun í d-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 7.07 og 7.08 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 7.05 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í e-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 7.09 og 7.10 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 7.06 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í f-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 7.11 og 7.12 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 7.07 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í g-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 7.13 og 7.14 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 7.08 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í h-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 7.15 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 7.09 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í h-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 7.16 og 7.17 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lagt er til að miðað sé við sömu viðmið varðandi stærð og staðsetningu og gildir um tölul. 7.16 í lögum nr. 106/2000, auk þess sem framkvæmdir á verndarsvæðum verði tilkynningarskyldar. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 7.10 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í i-lið 7. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 7.18 og 7.19 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    8. kafli. Textíl-, leður-, timbur- og pappírsiðnaður.
    Í lið 8.01 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 18. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og samhljóða tölul. 8.01 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 8.02 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 8. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 8.02 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 8.03 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í b-lið 8. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 8.03 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 8.04 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í c-lið 8. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 8.04 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 8.05 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í d-lið 8. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 8.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    9. kafli. Gúmmíiðnaður.
    Í lið 9.01 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 9. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 9.01 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 1.000 m2 gólfflöt bygginga, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    10. kafli. Grunnvirki.
    Í lið 10.01 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 10.01 og 10.02 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Samsvarandi framkvæmdaflokkur í tilskipun ESB tekur til „industrial estate development projects“. Lögð er til breyting á orðalagi þessa ákvæðis frá gildandi lögum með hliðsjón af skýringum við a-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB í leiðbeiningariti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 2015 um túlkun framkvæmdaflokka í tilskipuninni. Lagt er til stærðarviðmið, 20.000 m2, sem tekur fyrst og fremst til umsvifamikillar uppbyggingar og rekstrar. Stærðarmörkin vísa til lóðar/framkvæmdasvæðis viðkomandi framkvæmdar eða gólfflatar bygginga. Jafnframt er gert ráð fyrir að framkvæmdir verði tilkynningarskyldar óháð stærð á verndarsvæðum. Um skýringar vísast að öðru leyti til leiðbeiningarits framkvæmdastjórnar ESB frá 2015 um túlkun framkvæmdaflokka í tilskipun 2011/92/ESB. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 10.02 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í b-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 10.03 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Samsvarandi framkvæmdaflokkur í tilskipun ESB tekur til „urban development projects, including the construction of shopping centres and car parks, sport stadiums, leisure centres and multiplex cinemas“. Lögð er til breyting á orðalagi þessa ákvæðis frá gildandi lögum með hliðsjón af skýringum við b-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB í leiðbeiningariti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 2015 um túlkun framkvæmdaflokka í tilskipuninni. Lagt er til stærðarviðmið, 20.000 m2, sem tekur fyrst og fremst til umsvifamikillar uppbyggingar og rekstrar. Stærðarmörkin vísa til lóðar/framkvæmdasvæðis viðkomandi framkvæmdar eða gólfflatar bygginga. Jafnframt er gert ráð fyrir að framkvæmdir verði tilkynningarskyldar óháð stærð á verndarsvæðum. Um skýringar vísast að öðru leyti til leiðbeiningarits framkvæmdastjórnar ESB frá 2015 um túlkun framkvæmdaflokka í tilskipun 2011/92/ESB. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 10.03 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í c-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 10.04 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lögð er til breyting til einföldunar á orðalagi þessa ákvæðis. Í skoskri reglugerð um umhverfismat framkvæmda er sett stærðarviðmið fyrir þennan framkvæmdaflokk sem miðar við 5.000 m2 framkvæmdasvæði, auk staðsetningarviðmiðs um staðsetningu á verndarsvæði. Lagt er til að hér verði miðað við sambærileg stærðar- og staðsetningarviðmið. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 10.04 er lagður til framkvæmdarflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 7. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og er efnislega samhljóða tölul. 10.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 10.05 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í d-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og er efnislega samhljóða tölul. 10.06 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 10.06 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í b-lið 7. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 10.07 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Samsvarandi framkvæmdaflokkur í tilskipun ESB tekur til „construction of motorways and express roads“. Lögð er til breyting frá gildandi lögum þannig að ákvæðið endurspegli beint samsvarandi ákvæði í tilskipun ESB og taki til lagningar hraðbrauta og sambærilegra vega. Þar er átt við „motorways“ og „express roads“ eins og þau hugtök eru skilgreind í tilskipun ESB og skýrð í leiðbeiningariti framkvæmdastjórnar ESB frá 2015 um túlkun framkvæmdaflokka í tilskipuninni. Í leiðbeiningariti framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að skilgreining á „express road“ feli í sér vegi sem eru eingöngu fyrir bílaumferð sem eru aðeins aðgengilegir um vegamót og þar sem óheimilt að stöðva eða leggja bifreið á/við akbraut. „Expressroads“ eru aðgreindir frá hraðbrautum („motorways“) m.a. út frá því að þeir síðarnefndu hafi eingöngu mislægar þveranir. Hér falla því undir vegir sem eru 2+1, 2+2 eða fleiri akreinar sem hannaðir eru með aðskildum akstursstefnum og mislægum vegamótum eða vegamótum í plani með löngu millibili og hliðarvegum. Í leiðbeiningariti ESB er einnig vísað til dóms Evrópudómstólsins um það að framkvæmdir við breytingar á vegi geti jafngilt lagningu nýs vegar, út frá umfangi og hvernig staðið er að framkvæmdinni.
    Í lið 10.07 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í c-lið 7. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og er efnislega samhljóða tölul. 10.08 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lögð er til breyting til einföldunar á orðalagi þessa ákvæðis.
    Í lið 10.08 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í e-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 10.09 og 10.10 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lögð er til breyting frá lögum nr. 106/2000 í þá veru að tilkynningarskylda takmarkist við vegi utan þéttbýlis sem eru 5 km eða lengri og óháð lengd á verndarsvæðum. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 10.09 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 8. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 10.11 og 10.12 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lögð er til breyting til einföldunar á orðalagi og framsetningu þessa ákvæðis. Gengið er út frá því að viðhaldsdýpkanir hafna falli undir almennan rekstur hafna sem gera þarf grein fyrir og, eftir atvikum, meta áhrif af þegar hafnarframkvæmdir undirgangast málsmeðferð á grundvelli laga þessara. Lagt er til að viðhaldsdýpkanir hafna án frekari framkvæmda falli ekki undir breytingar og viðbætur, sbr. tölul. 13.01 og 13.02.
    Í lið 10.10 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í e- og f-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 10.13, 10.14 og 10.15 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lögð er til breyting til einföldunar á orðalagi og framsetningu þessa ákvæðis, en það er efnislega óbreytt frá lögum nr. 106/2000. Stærðarviðmiðið er að fyrirmynd skoskrar reglugerðar um umhverfismat framkvæmda.
    Í lið 10.11 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 15. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 10.16 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 10.12 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í g-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 10.17 og 10.18 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Stærðarviðmið framkvæmdaflokksins eru að skoskri fyrirmynd og miða við 1 ha framkvæmdasvæði eða óháð stærð á verndarsvæðum. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 10.13 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í a-lið 7. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 10.19 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 10.14 er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í c- og h-lið 10. tölul. í viðauka II í tilskipun 2011/92/ESB og er samhljóða tölul. 10.20 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000.
    Í lið 10.15. er lagður til framkvæmdaflokkur sem á sér samsvörun í 20. tölul. í viðauka I í tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 3.08 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Lagt er til, í því ljósi, að miðað verði við 132 kV spennu á loftlínum í stað 66 kV í lögum nr. 106/2000, þótt tilskipunin geri ekki kröfu um mat neðan 220 kV. Tillagan er byggð á reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum og að norskri fyrirmynd. Þá er lagt til að áfram verði gert ráð fyrir að loftlínur séu matsskyldar óháð lengd. Lagt er til að sæstrengir flytjist í B-flokk, sbr. lið 10.16.
    Í lið 10.16 eru lagðir til einfaldaðir og sameinaðir framkvæmdaflokkar sem taka til jarðstrengja og sæstrengja. Túlka ber ákvæðið með hliðsjón af öðrum töluliðum sem varða lagnir í jörðu. Að öðru leyti vísast til skýringa um lið 10.21 í athugasemdum frumvarps sem varð að lögum nr. 138/2014, um breytingu á lögum nr. 106/2000. Varðandi jarðstrengi er átt við niðurgrafna strengi, en ekki plægða strengi, en hvort heldur sem er niðurgrafna eða plægða sæstrengi og strengi sem lagðir eru í vatni. Vísast um það til skýringa í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 138/2014. Ekki er gert ráð fyrir að strenglögn sé tilkynningarskyld á grundvelli þess að hún liggi um verndarsvæði ef eingöngu er um að ræða að óverulegur hluti strengs liggi innan verndarsvæðis.
    Í lið 10.17 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar tölul. 10.21 í 1. viðauka gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum og j-lið 10. tölul. II. viðauka við tilskipun ESB 2011/92/ESB. Ákvæðið er efnislega óbreytt en orðalag endurskoðað.
    Túlka ber ákvæðið með hliðsjón af öðrum töluliðum sem varða lagnir í jörðu.
    Í lið 10.18 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar tölul.um 10.22 og 10.23 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum og k-lið 10. tölul. II. viðauka við tilskipun ESB 2011/92/ESB. Lagt er til að tilkynningarskylda miðist við 5 ha landfyllingar en óháð stærð á verndarsvæðum. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 10.19 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar 11. tölul. I. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB og tölul. 10.24 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Um skilgreiningu á grunnvatni vísast til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og skýringa í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 138/2014.
    Í lið 10.20 er lagður til framkvæmdaflokkur samsvarandi l-lið 10. tölul. II. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB og tölul. 10.25 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Lagt er til að undanskilja minni háttar vinnslu, allt að 70 l/sek. Fyrirmynd um þau mörk er sótt til 14. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þar er kveðið á um að landeiganda sé heimilt án leyfis að hagnýta grunnvatn í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa, þ.m.t. til fiskeldis, iðnaðar og iðju. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 10.21 er lagður til framkvæmdaflokkur samsvarandi 12. tölul. II. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB og tölul. 10.26 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Tillagan er óbreytt frá gildandi lögum og vísast til skýringa í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 138/2014.
    Í lið 10.22 er lagður til framkvæmdaflokkur samsvarandi m-lið 10. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og lið 10.27 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum.
    11. kafli. Aðrar framkvæmdir.
    Í lið 11.01 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar a-lið 11. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 11.02 í 1. viðauka við núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæðið er efnislega óbreytt þótt orðalag sé einfaldað og fært nær orðalagi tilskipunarinnar. Það þykir betur eiga við að tala um varanlegar brautir en vísa í skipulag þar sem ganga verður út frá að skipulag sé ávallt lagt til grundvallar.
    Í lið 11.02 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar 9. lið I. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 11.02 í 1. viðauka við núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Tillagan er óbreytt.
    Í lið 11.03 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar 11. lið b í II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 11.03 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Í lið 11.04 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar 13. lið I. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og lið 11.04 í 1. viðauka við núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Í ljósi reynslunnar er lagt til að miðað verði við 150.000 persónueiningar en viðmið núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum miðast við 50.000 persónueiningar. Jafnframt er í ljósi reynslu af framkvæmd núgildandi laga lagt til að í stað iðnaðar komi atvinnustarfsemi.
    Í lið 11.05 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar 11. lið c í II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 11.05 og 11.06 í 1. viðauka við núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Tilkynningarskylda utan verndarsvæða er miðuð við 2.000 persónueiningar sem er í samræmi við reglugerð um fráveitur og skólp. Á verndarsvæðum miði tilkynningarskylda við 100 pe. Í ljósi reynslu af framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að framkvæmdir sem falla utan við þessi stærðar- og staðsetningarviðmið séu ekki líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
    Í lið 11.06 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar d-lið 11. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og liðum 11.07 og 11.08 í 1. viðauka við gildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Förgunarstöðvar fyrir seyru utan verndarsvæða falla samkvæmt gildandi lögum í flokk C en lagt er til að slíkar framkvæmdir verði tilkynningarskyldar samkvæmt flokki B.
    Í lið 11.07 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar e-lið 11. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og liðum 11.09 og 11.10 í 1. viðauka við gildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Geymsla brotajárns, allt að 1.500 tonnum á ári, fellur í flokk C í gildandi lögum en lagt er til að slíkar framkvæmdir verði tilkynningarskyldar samkvæmt flokki B.
    Í lið 11.08 er lagður til framkvæmdaflokkur samsvarandi f-lið 11. tölul. I. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 11.11 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Í lið 11.09 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar g-lið 11. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 11.12 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Í lið 11.10 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar h-lið 11. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul.11.13 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Í lið 11.11 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar i-lið 11. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 11.14 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Í lið 11.12 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar tölul. 11.15 í 1. viðauka gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Undir ákvæðið fellur öll endurnýting úrgangs. Um nánari skýringar vísast til skýringa í greinargerð með frumvarpi til laga sem varð að lögum nr. 138/2014.
    Í lið 11.13 er lagður til framkvæmdaflokkur sem er samhljóða tölul. 11.16 1. viðauka gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Skv. 1. gr. laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, eru ofanflóð samheiti fyrir snjóflóð og skriðuföll. Æskilegt er talið að skýrt sé að varnargarðar vegna hvors tveggja heyri undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Lagt er til að framkvæmd þessi falli í flokk B.
    12. kafli. Ferðaþjónusta og afþreying.
    Í lið 12.01 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar a-lið 12. tölul. II. viðauka tilskipunarinnar og tölul. 12.01 og 12.02 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Lagt er til að miða við 15 ha skíðasvæði og/eða 15 metra há mannvirki.
    Í lið 12.02 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar b-lið 12. tölul. II. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB og tölul. 12.03 og 12.04 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Talið er viðeigandi að miða við 100 bátalægi sem tekur til stærstu smábátahafna hérlendis, auk framkvæmda á verndarsvæði.
    Í liðum 12.03 og 12.04 eru lagðir til tveir aðskildir flokkar sem samsvara báðir c-lið 12. tölul. II. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB og tölul. 12.05 í 1. viðauka við núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Með þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn í lið 12.03 er átt við umfangsmikla þjónustustarfsemi þar sem boðið er upp á fjölþætta þjónustu fyrir ferðamenn, svo sem fræðslu og upplýsingar, afþreyingu, veitingasölu, verslun, salernisþjónustu eða gistingu. Stefna um þjónustumiðstöðvar á miðhálendinu er sett fram í landsskipulagsstefnu. Þar kemur fram hvaða þjónustuþáttum er gert ráð fyrir á hálendismiðstöðvum og skálasvæðum. Gert er ráð fyrir að uppbygging hálendismiðstöðva og skálasvæða á miðhálendinu sé tilkynningarskyld samkvæmt þessum lið. Með hugtakinu hótel í lið 12.04 er átt við gististaði óháð því hvaða tegund gististaða þeir tilheyra samkvæmt reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í reglugerð Skota um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda er miðað við 5.000 m2 framkvæmdasvæði fyrir „holiday villages & hotel complexes“. Reynslan hér á landi bendir hins vegar til þess að gistirúm eða byggingarmagn sé hentugra viðmið. Út frá mati á umfangi einstakra verkefna hér landi á undanförnum árum er lagt til að miða við að heildarbyggingarmagn sé a.m.k. 5.000 m2 eða gestafjöldi (gistirúm) a.m.k. 200, sem og óháð stærð á verndarsvæðum.
    Í lið 12.05 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar d-lið 12. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 12.06 og 12.07 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Varanleg tjaldsvæði og hjólhýsasvæði allt að 10 ha falla í flokk C samkvæmt gildandi lögum. Hér er lagt til að hjólhýsasvæði undir 10 ha verði tilkynningarskyld samkvæmt flokki B ef þau eru fyrirhuguð á verndarsvæðum, en það eigi hins vegar ekki við um tjaldsvæði.
    Í lið 12.06 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samsvarar e-lið 12. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 12.08 og 12.09 í 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt lið 12.09 í 1. viðauka núgildandi laga eru skemmtigarðar sem ná yfir allt að 2 ha svæði tilkynningarskyldir samkvæmt flokki C. Samkvæmt lið 12.06 yrðu slíkir skemmtigarðar tilkynningarskyldir samkvæmt flokki B séu þeir staðsettir á verndarsvæðum, sbr. 1. mgr. 19. gr. lagafrumvarpsins. Um umfjöllun um skemmtigarða vísast að öðru leyti til leiðbeiningarits framkvæmdastjórnar ESB um túlkun á framkvæmdaflokkum tilskipunarinnar.
    Í lið 12.07 er lagður til framkvæmdaflokkur sem einnig samsvarar e-lið 12. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB. Flokkurinn á sér einnig samsvörun í lið 12.10 í 1. viðauka við núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Í leiðbeiningaefni framkvæmdastjórnar ESB kemur fram að golfvellir geti fallið undir e-lið 12. tölul. II. viðauka tilskipunarinnar. Hér er lagt til að miðað verði við a.m.k. 18 holu velli en minni golfvellir væru þó tilkynningarskyldir ef þeir væru staðsettir á verndarsvæðum, sbr. 1. mgr. 19. gr. frumvarpsins. Viðmið um 18 holur nær til stærri golfvalla sem hafa mögulega umhverfisáhrif á borð við áhrif á gróðurfar, aðgengi, ásýnd o.fl.
    13. kafli. Breytingar og viðbætur við aðrar framkvæmdir.
    Í lið 13.01 er gerð tillaga um framkvæmdaflokk sem samsvarar 24. tölul. I. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 13.01 1. viðauka núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Flokkurinn er óbreyttur frá núgildandi lögum.
    Í lið 13.02 er lagður til framkvæmdaflokkur í sem samsvarar a-lið 13. tölul. II. viðauka tilskipunar 2011/92/ESB um mat á umhverfisáhrifum og tölul. 13.02 og 13.03 í 1. viðauka við núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Vegna brottfalls C-flokks falla flokkar 13.02 og 13.03 núgildandi laga í einn flokk samkvæmt þessu frumvarpi.
    Í tölul. 13.03 er lagður til framkvæmdaflokkur sem samræmist b-lið 13. tölul. II. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB og tölul. 13.04 1. viðauka núgildandi laga. Flokkurinn er óbreyttur frá núgildandi lögum.

Um 2. viðauka.

    Ákvæði 2. viðauka byggjast á III. viðauka við tilskipun 2011/92/ESB, ásamt breytingum með tilskipun 2014/52/ESB. Í viðaukanum eru tilgreind viðmið sem fara ber eftir við töku ákvörðunar um hvort framkvæmd í flokki B skuli háð umhverfismati. Taka þarf mið af eðli og staðsetningu framkvæmdar og gerð og eiginleikum hugsanlegra áhrifa af viðkomandi framkvæmd.