Ferill 715. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1194  —  715. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmála (öflun sakavottorðs).

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um leikskóla, nr. 90/2008.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Starfsfólk leikskóla má ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda fyrir leikskólastjóra eða þann sem fer með ráðningarvald til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Til að tryggja að starfsmenn leikskóla eða aðrir sem ákvæðið nær til uppfylli skilyrði til að gegna starfi er heimilt fyrir leikskólastjóra eða þann sem fer með ráðningarvald að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Leikskólastjóra eða þeim sem fer með ráðningarvald er þó heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

II. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Starfsfólk grunnskóla má ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda fyrir skólastjóra eða þann sem fer með ráðningarvald til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Til að tryggja að starfsmenn grunnskóla eða aðrir sem ákvæðið nær til uppfylli skilyrði til að gegna starfi er skólastjóra eða þeim sem fer með ráðningarvald heimilt að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Skólastjóra eða þeim sem fer með ráðningarvald er þó heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

III. KAFLI
Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                  Starfsfólk framhaldsskóla má ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda fyrir skólameistara til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Til að tryggja að starfsmenn framhaldsskóla eða aðrir sem ákvæðið nær til uppfylli skilyrði til að gegna starfi er skólameistara heimilt að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Skólameistara er þó heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

IV. KAFLI
Breyting á íþróttalögum, nr. 64/1998.
4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað 3. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Ákvæði þetta nær einnig til verktaka, undirverktaka og þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Yfirmenn þeirra aðila sem falla undir lög þessi og sinna íþróttastarfi eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá. Til að tryggja að þeir sem lögin taka til uppfylli skilyrði til að gegna starfi er heimilt að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Þó er heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

V. KAFLI
Breyting á æskulýðslögum, nr. 70/2007.
5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað 3. málsl. 3. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Ákvæði þetta nær einnig til verktaka, undirverktaka og þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Yfirmenn skóla, leikskóla, sumardvalarheimila, íþrótta- og tómstundamiðstöðva og annarra slíkra stofnana eða staða þar sem börn og ungmenni koma saman eða dveljast um lengri eða skemmri tíma, og 2. gr. tekur til, eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá. Til að tryggja að þeir sem lögin taka til uppfylli skilyrði til að gegna starfi er heimilt að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Þó er heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um lýðskóla, nr. 65/2019.
6. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Starfsfólk lýðskóla má ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda fyrir skólastjóra eða þann sem fer með ráðningarvald til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum.
    Til að tryggja að starfsmenn lýðskóla eða aðrir sem ákvæðið nær til uppfylli skilyrði til að gegna starfi er skólastjóra eða þeim sem fer með ráðningarvald heimilt að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Skólastjóra eða þeim sem fer með ráðningarvald er þó heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla má ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda fyrir leikskólastjóra, skólastjóra eða skólameistara eða eftir atvikum þann sem fer með ráðningarvald til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Til að tryggja að starfsmenn leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eða aðrir sem ákvæðið nær til uppfylli skilyrði til að gegna starfi er leikskólastjóra, skólastjóra grunnskóla eða skólameistara eða eftir atvikum þeim sem fer með ráðningarvald heimilt að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Leikskólastjóra, skólastjóra grunnskóla eða skólameistara eða eftir atvikum þeim sem fer með ráðningarvald er þó heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985.
8. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
    Starfsfólk tónlistarskóla má ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda fyrir skólastjóra eða þann sem fer með ráðningarvald til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum.
    Til að tryggja að starfsmenn tónlistarskóla eða aðrir sem ákvæðið nær til uppfylli skilyrði til að gegna starfi er skólastjóra eða þeim sem fer með ráðningarvald heimilt að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Skólastjóra eða þeim sem fer með ráðningarvald er þó heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um náms- og starfsráðgjafa, nr. 35/2009.
9. gr.

    Á eftir 6. gr. kemur ný grein, 6. gr. a, með fyrirsögn, svohljóðandi:

Ráðning.

    Óheimilt er að ráða náms- og starfsráðgjafa til starfa sem fela í sér vinnu með börnum eða ungmennum hafi þeir hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum.
    Til að tryggja að náms- og starfsráðgjafi uppfylli skilyrði til að gegna starfi er þeim sem ber ábyrgð á ráðningu heimilt að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Þó er heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

X. KAFLI
Breyting á lögum um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010.

10. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
    Starfsfólk fræðsluaðila má ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda fyrir forstöðumann eða framkvæmdarstjóra fræðsluaðila eða eftir atvikum þann sem fer með ráðningarvald til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögum þessum.
    Til að tryggja að starfsmenn fræðsluaðila eða aðrir sem ákvæðið nær til uppfylli skilyrði til að gegna starfi er forstöðumanni eða framkvæmdarstjóra fræðsluaðila eða eftir atvikum þeim sem fer með ráðningarvald heimilt að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Forstöðumanni eða framkvæmdarstjóra fræðsluaðila eða eftir atvikum þeim sem fer með ráðningarvald er þó heimilt að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er liður í að auka öryggi viðkvæmra hópa í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi, þá helst barna og ungmenna svo þau fái notið þeirra réttinda sem lög tryggja þeim í öruggu umhverfi. Mikilvægt er að ákvæði um ráðningar starfsfólks séu þannig úr garði gerð að einstaklingar sem eiga ekki erindi með börnum og ungmennum rati ekki í það starfsumhverfi. Jafnframt er ávinningur af því að ákvæði í málaflokkum ráðuneytisins séu samræmd sem og að það sé samræmi við ákvæði annarra laga sem fjalla um ráðningu starfsfólks sem vinnur með börnum, ungmennum og einstaklingum í viðkvæmri stöðu.
    Í grunninn byggist frumvarpið á ábendingu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en við vinnslu þess var litið til ákvæða annarra laga og þeirrar þróunar sem hefur orðið á ákvæðum um ráðningarbann. Höfð var hliðsjón af vinnu starfshóps um upplýsingagjöf úr sakaskrá sem var falið að greina núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka sem starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá og meta þörf á mögulegum úrbótum. Starfshópurinn var skipaður af dómsmálaráðherra og átti þar sæti fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis ásamt fulltrúum dómsmálaráðuneytis, ríkissaksóknara, Persónuverndar, Barnaverndarstofu og Ríkislögreglustjóra. Starfshópurinn gerði samantekt á ákvæðum sem krefjast upplýsinga úr sakaskrá og kom í ljós að í öllum ákvæðum er lagt fortakslaust bann við því að ráða þá til starfa sem hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot, en allur gangur var á hvort ákvæðin tækju til annarra brota. Í niðurstöðum starfshóps vakti það einnig eftirtekt að bæði í æskulýðslögum og íþróttalögum er gerð sú krafa að einstaklingur hafi ekki hlotið dóm fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni á síðastliðnum fimm árum. Þá var sérstaklega fjallað um að ekki væri girt fyrir það að einstaklingur sem hefur hlotið dóm fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, væri ráðinn til starfa en það ákvæði tekur til stórfelldra fíkniefnabrota sem felast í dreifingu, sölu, framleiðslu eða innflutningi á fíkniefnum á meðan ýmis brot með þrengri refsiramma kæmu í veg fyrir að heimilt væri að ráða einstakling til starfa. Getur brot gegn 173. gr. a varðað allt að 12 ára fangelsi meðan brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, geta varðað sektum eða fangelsi allt að 6 árum.
    Við samningu frumvarpsins var hafður í huga ungur aldur nemenda og iðkenda og er brýnt vegna aldurs þeirra og viðkvæmrar stöðu að þær upplýsingar, sem eiga að tryggja að þeir sem starfa með börnum og ungmennum uppfylli skilyrði laga, endurspegli veruleikann hverju sinni. Frumvarpið er samið með hliðsjón af skuldbindingu Íslands til að gera ráðstafanir til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, sbr. 2. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem var lögfestur hér á landi með lögum nr. 19/2013. Með ungmennum er átt við fólk fram til 25 ára aldurs til samræmis við 1. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007.
    Börn og ungmenni eiga rétt á að sinna námi sínu, frístunda- og tómstundastarfi, íþróttum og æskulýðsstarfi í öruggu umhverfi. Í öllum þeim lögum sem lagðar eru til breytingar á er að finna ákvæði sem kveður á um að óheimilt sé að ráða til starfa einstaklinga sem eiga að baki refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, að undanskildum lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, og lögum um náms- og starfsráðgjafa, nr. 35/2009. Lagt er til að slíku ákvæði verði bætt við löggjöfina þar sem skortur er á þessum ákvæðum.
    Verði þetta frumvarp að lögum verða öll ákvæði um ráðningarbann í sérlögum á sviði mennta- og menningarmálaráðuneytis samræmd, að undanskildum ákvæðum í löggjöf um háskóla.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Samband íslenskra sveitarfélaga beindi erindi til ráðuneytisins þar sem það taldi meinbugi vera á ákvæðum um öflun sakavottorða þar sem þau ná aðeins til þess tímamarks þegar til ráðningarsambands er stofnað. Sambandið greindi frá að það teldi fulla þörf á að bæta við heimild fyrir þá sem standa að ráðningum til að endurnýja sakavottorð reglulega. Ábending sambandsins náði til leik- og grunnskóla en það var mat ráðuneytisins að rétt væri að fara í sambærilegar breytingar á öllum þeim lagabálkum er varða börn og ungmenni. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er markmið þessa frumvarps að auka öryggi barna og ungmenna í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi með því að fá þeim sem standa að ráðningum þá heimild sem frumvarpið mælir fyrir um. Gildandi ákvæði eiga það öll sammerkt að mæla fyrir um skilyrði sem þarf að uppfylla til að hljóta ráðningu og heimild fyrir þann sem stendur að ráðningu til að kalla eftir upplýsingum þegar til ráðningar er stofnað sem og á síðari tímamörkum.
    Með frumvarpinu stendur til að skerpa á ákvæðum um öflun sakavottorða sem fyrir eru í lögum sem varða leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, íþróttir, æskulýðsmál, lýðskóla og menntun og ráðningu kennara og bæta inn sambærilegum ákvæði í þau lög þar sem slík ákvæði skortir sem varða tónlistarskóla, náms- og starfsráðgjöf og framhaldsfræðslu. Frumvarpið kann að einhverju marki að varða starfsréttindi einstaklinga, svo sem þeirra sem hafa leyfisbréf sem kennarar. Þurfa þeir að sæta því að fá ekki notið réttinda sinna þar sem þeir uppfylla ekki kröfur í þágu öryggis á þeim vinnustað þar sem þeir þurfa að starfa vilji þeir nota umrædd réttindi sín. Þá er um að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem farið skal með samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2019 og því mikilvægt að skýr heimild sé í lögum. Með vísan til þess sem að framan er rakið er mat ráðuneytisins að aukinni heimild þeirra sem standa að ráðningum verði ekki komið við með öðrum hætti en með lagasetningu og að réttlægri réttarheimildir séu ekki fullgildar til að útfæra þau efnislegu atriði sem frumvarp þetta fjallar um.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagðar eru til breytingar á eftirfarandi lagabálkum:
     1.      Lög um leikskóla, nr. 90/2008.
     2.      Lög um grunnskóla, nr. 91/2008.
     3.      Lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008.
     4.      Íþróttalög, nr. 64/1998.
     5.      Æskulýðslög, nr. 70/2007.
     6.      Lög um um lýðskóla, nr. 65/2019.
     7.      Lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019.
     8.      Lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985.
     9.      Lög um náms- og starfsráðgjafa, nr. 35/2009.
     10.      Lög um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010.
    Ákvæði frumvarpsins eru þannig byggð upp að fyrst er kveðið á um bann við ráðningu starfsfólks sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Til að framfylgja því banni skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda til að afla upplýsinga úr sakaskrá við ráðningu. Þá er kveðið á til samræmis við barnaverndarlög og önnur lög sem falla undir félagsmálaráðuneyti að hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot en falla undir XXII. kafla almennra hegningarlaga skuli meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, meðal annars að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Þá er mælt fyrir um að bannið taki einnig til verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum á grundvelli laganna. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur undir höndum hefur framkvæmdin víða verið þannig að sá sem stendur að ráðningu hefur sent inn erindi og spurst fyrir um hvort umsækjandi hafi tiltekinn sakaferil að baki og fengið svör. Þessi þjónusta hefur verið gjaldfrjáls, sbr. umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem vísað er til í 5. kafla. Ráðuneytið telur að frumvarpið muni ekki breyta þeirri framkvæmd. Beiðnin kann þó að ná til fleiri atvika, en það fer eftir eðli starfs þess starfsmanns sem stendur til að ráða.
    Þá er kveðið á um heimild til að kalla eftir upplýsingum að nýju til að tryggja að starfsmenn uppfylli skilyrði fyrir starfi. Til að gæta meðalhófs er mælt fyrir um að slíkt skuli ekki gert oftar en einu sinni á ári. Sá starfsmaður sem í hlut á mun alltaf vita af því fyrir fram, þar sem sá sem stendur að ráðningu þarf að óska eftir að viðkomandi leggi fram sakavottorð á ný eða óska eftir heimild viðkomandi til að kalla eftir endurnýjun á sakavottorði. Því var ekki talin þörf á að kveða sérstaklega á um að viðkomandi yrði upplýstur fyrir fram. Undantekning frá því að aðeins sé heimilt að kalla eftir slíkum upplýsingum einu sinni á ári er þegar fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til að kalla eftir þeim að nýju.
    Þess skal getið að íþróttalög og æskulýðslög ganga í dag lengra en önnur lög hvað varðar bann við ráðningum og er mat ráðuneytisins að ekki sé tilefni til að draga úr þeim kröfum sem gerðar eru á grundvelli þeirra laga. Þau lög mæla fyrir um að ráðningarbannið nái einnig til sjálfboðaliða sem og til þeirra sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Þær auknu kröfur sem gerðar eru í umræddum lögum munu halda sér þrátt fyrir frumvarp þetta en að öðru leyti verða ákvæði á málefnasviðum ráðuneytisins samræmd.
    Áfram er lagt til bann við ráðningu þeirra sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en þau nýmæli er að finna í frumvarpi þessu að meta skuli áhrif annarra brota á þann sem sækir um starf til að sinna því, meðal annars með hliðsjón af eðli starfs og alvarleika brota. Til að framfylgja ráðningarbanninu er lagt til að sá sem stendur að ráðningu kalli eftir sakavottorði eða fái heimild til að afla upplýsinga úr sakaskrá einu sinni á ári en oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess. Slík heimild hefur aðeins verið til staðar fram að þessu á þeim tímapunkti þegar til ráðningarsambands er stofnað.
    Stefnt er að því að einstaklingar geti ekki brotið af sér eftir að til ráðningarsambands hefur verið stofnað án þess að vinnuveitandi geti fengið upplýsingar um það. Með breytingunni er talið að ákvæði um bann við að ráða til starfa einstaklinga með tiltekinn brotaferil nái betur tilgangi sínum en áður.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið snýr að ákveðnu marki að þeim sem hafa starfsréttindi, t.d. kennurum. Þeir munu þurfa að sæta því að fá ekki notið réttinda sinna vegna þess að þeir uppfylla ekki kröfur í þágu öryggis á þeim vinnustað þar sem þeir þurfa að starfa ef þeir vilja nota umrædd réttindi sín. Með frumvarpi þessu er þó ekki verið að víkka út takmörkun á atvinnufrelsi frá því sem nú er.
    Með vísan til þess getur reynt á 75. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, að því leyti að þá reynir á vernd atvinnuréttinda og atvinnufrelsis. Samkvæmt ákvæðinu má setja þessu frelsi skorður með lögum enda krefjist almannahagsmunir þess. Slíkt hefur nú þegar verið gert með þeim ákvæðum sem eru í þeim lögum sem um ræðir en með frumvarpi þessu er lagt til að bæta slíkum ákvæðum við löggjöf þar sem þau er ekki að finna nú þegar.

5. Samráð.
    Frumvarpið byggist á tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Áform um lagafrumvarpið og mat á áhrifum var til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is dagana 1.–16. febrúar 2021 (mál nr. S-31/2021). Tvær umsagnir bárust, frá Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Höfð var hliðsjón af þeim við vinnslu frumvarpsins og leiddu þær til ýmissa breytinga á því.
    Frumvarpið var til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda 23. febrúar – 9. mars 2021 (mál nr. S-55/2021). Þrjár umsagnir bárust, frá Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ).
    Samtök atvinnulífsins telja að með frumvarpinu sé gengið of langt í skerðingu atvinnufrelsis án rökstuðnings og vísa til þess að framhaldsfræðslu sé ætlað að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og sé ekki skipulögð á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla og segja því skjólstæðinga hennar ekki vera börn. Þá er vísað til þess að framhaldsfræðsla sé ekki hluti af almennum vinnumarkaði og lúti ekki ákvæðum stjórnsýslulaga þegar kemur að starfsmannamálum. Segja samtökin það eiga að vera alfarið í höndum viðkomandi fræðsluaðila að ákveða hvort og þá hvaða takmarkanir eru settar gagnvart umsækjendum um starf á þeirra vegum. Í þessu samhengi er vísað til þess að frumvarpinu er ætlað að vernda börn og aðra sem eru í viðkvæmri stöðu en skv. e-lið 1. mgr. 2. gr. laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, er markmið laganna að veita einstaklingum sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku framhaldsfræðslu þar sem tekið er mið af ójafnri stöðu þeirra og hæfni. Með vísan til þessa er talið að sama efnisregla eigi að gilda um starfsmenn þeirra sem starfa á grundvelli laga um framhaldsfræðslu eins og annarra sem starfa samkvæmt lögum á málefnasviði ráðuneytisins.
    Samband íslenskra sveitarfélaga segir útfært á mismunandi hátt hjá sveitarfélögum hver fari með ráðningarvald og telur því ekki rétt að kveða á um að leikskólastjóra eða grunnskólastjóra verði heimilt að kalla eftir slíkum upplýsingum heldur telur eðlilegra að kveðið yrði á um að sá sem færi með ráðningarvald hefði þessa heimild. Frumvarpið tók breytingum vegna athugasemdarinnar og var gerð breyting í þessa veru á fleiri ákvæðum frumvarpsins. Þá fjallar sambandið um hvernig gjaldtöku hefur verið háttað til þessa og telur brýnt að sú framkvæmd verði áfram að ekki verði tekið gjald fyrir þessa þjónustu.
    UMFÍ greinir frá hvernig staðið hefur verið að öflun sakavottorða fram að þessu og benti á hvað betur mætti fara.

6. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verða veittar ítarlegri heimildir, ekki skylda, aðila til að óska eftir sakavottorði oftar en við ráðningu en ekki eru lagðar til breytingar á verklagi frá því sem verið hefur. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hugsanlega aukningu á útgáfu sakavottorða vegna þessa, né hvernig sú aukning gæti skiptist á milli ríkisstofnana, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Ekki er gert ráð fyrir að efni frumvarpsins hafi mikil fjárhagsleg áhrif á fyrrgreinda aðila. Hvert sakavottorð kostar 2.500 kr. og því gætu tekjur ríkissjóðs aukist eitthvað en gert ráð fyrir að það verði óverulegt.
    Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa sveitarfélög hingað til ekki þurft að greiða fyrir eiginleg sakavottorð í þeim tilvikum sem þau hafa þurft upplýsingar úr sakaskrá heldur er gefin út staðfesting á því að sakaferill sé ekki til staðar og er sú upplýsingagjöf gjaldfrjáls. Mikilvægt er að ekki verði breytingar á þeirri framkvæmd og tryggt verði að sveitarfélög geti áfram fengið umræddar upplýsingar úr sakaskrá án þess að til gjaldtöku komi.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ákvæðið nær til allra starfsmanna leikskóla, óháð því hver rekstraraðili leikskóla er.
    Kveðið er á um, líkt og áður, að starfsfólk leikskóla megi ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda fyrir leikskólastjóra eða þann sem fer með ráðningarvald til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Af þessu leiðir að umsækjandi sjálfur þarf ávallt að leggja vottorðið fram sjálfur eða veita þeim sem stendur að ráðningu heimild til að afla þeirra upplýsinga sem um ræðir. Þá er að finna nýmæli um að ef umsækjandi hefur verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skal meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, meðal annars að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins, en ákvæði þetta er til samræmis við ákvæði í barnaverndarlögum. Í þessu samhengi má nefna að refsidómur fyrir dreifingu fíkniefna eða ofbeldisbrot getur til að mynda haft áhrif þegar verið er að ráða starfsmann sem á að starfa með ungmennum. Þá er lagt til að ákvæðið nái einnig til verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum samkvæmt lögunum.
    Lagt er til að við ákvæðið bætist ný málsgrein þar sem þeim sem stendur að ráðningum er fengin heimild til að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild frá starfsmanni eða þeim einstaklingi sem um ræðir til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Sú takmörkun er sett fram til þess að gætt verði meðalhófs í upplýsingaöflun. Þó er gerð sú undantekning að heimilt verði að afla þessara upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess. Þegar þessi heimild er nýtt mun starfsmaður alltaf vita af því fyrir fram enda þarf viðkomandi að leggja sjálfur fram sakavottorð eða veita vinnuveitanda heimild til að afla þess.
    Sé vafi til staðar vegna einstaklings sem fyrirhugað er að ráða eða ráðningarsamband er til staðar við er mikilvægt að horfa fyrst og fremst til hagsmuna barna og vafinn sé þeim í hag. Er þetta í samræmi við 3. gr. barnasáttmálans en samkvæmt ákvæðinu ber öllum þeim sem vinna með börnum að setja hagsmuni þeirra í forgang og veita börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Um 2. gr.

    Ákvæðið nær til allra starfsmanna grunnskóla og óháð því hver rekstraraðili grunnskóla er. Þá nær ákvæðið einnig til verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum á grundvelli laganna.
    Að öðru leyti vísast til skýringa við 1. gr.

Um 3. gr.

    Ákvæðið nær til allra starfsmanna framhaldsskóla og óháð því hver rekstraraðili framhaldsskóla er. Þá nær ákvæðið einnig til verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum á grundvelli laganna. Að öðru leyti vísast til skýringa við 1. gr.

Um 4. gr.

    Ákvæði 10. gr. íþróttalaga eiga rætur sínar að rekja til starfshóps sem var skipaður í kjölfar yfirlýsinga íþróttakvenna undir myllumerkinu #églíka (#metoo) ásamt frásögnum þeirra. Ákvæðið er ítarlegra en sambærileg ákvæði sem eru á sviði mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þar er mælt fyrir um að bannað sé að ráða til starfa eða þiggja framlag sjálfboðaliða sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga eða refsidóm gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðustu fimm árum. Þannig nær ákvæðið til fleiri brota og nær bæði til þeirra sem ráðnir eru til starfa og sjálfboðaliða.
    Verði frumvarpið að lögum munu efnisreglur ákvæðisins halda sér, þ.e. að óheimilt verður að ráða þá til starfa sem hafa hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga og gegn lögum um ávana- og fíkniefni á síðastliðnum fimm árum. Til samræmis við önnur ákvæði þessa frumvarps er lagt til að hafi umsækjandi verið dæmdur til refsingar fyrir önnur brot skuli meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, meðal annars að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins og vísast til skýringar við önnur ákvæði frumvarpsins hvað þetta skilyrði varðar. Lagt er til að ákvæðið muni framvegis einnig ná til verktaka og undirverktaka.
    Lögð er til heimild til að endurnýja upplýsingar eftir að ráðningarsamband hefst og vísast í því samhengi til skýringa við 1. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Í æskulýðslögum, nr. 70/2007, er kveðið á um að óheimilt sé að ráða til starfa hjá aðilum, sem 2. gr. tekur til og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi, aðila sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæði þetta nær einnig til þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs. Ákvæði þetta hefur orðið fyrirmynd annarra sambærilegra ákvæða, svo sem í leik-, grunn- og framhaldsskólalöggjöfinni.
    Hvað varðar breytingar sem gerðar eru með frumvarpi þessu vísast til skýringa við 1. og 4. gr.

Um 6. gr.

    Ákvæðið nær til allra starfsmanna lýðskóla. Þá nær ákvæðið einnig til verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum á grundvelli laganna. Að öðru leyti vísast til skýringa við 1. gr.

Um 7. gr.

    Ákvæðið nær til allra starfsmanna leik-, grunn- og framhaldsskóla og óháð því hver rekstraraðili skóla er. Þá nær ákvæðið einnig til verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum á grundvelli laganna. Að öðru leyti vísast til skýringa við 1. gr.

Um 8. gr.

    Ákvæðið nær til allra starfsmanna tónlistarskóla. Þá nær ákvæðið einnig til verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum á grundvelli laganna.
    Hér er um nýmæli að ræða. Í lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla er ekki að finna sambærilegt ákvæði og í lögum um aðra menntun er leggur bann við ráðningu þeirra sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Með frumvarpi þessu er lagt til að slíku ákvæði verði bætt inn í löggjöfina.
    Með ákvæðinu er stefnt að því markmiði að tryggja eins og kostur er örugg námsskilyrði. Heimildin tekur til ráðningar í öll störf hjá viðkomandi tónlistarskóla.
    Að öðru leyti er vísað til skýringa við 1. gr.

Um 9. gr.

    Hér er um nýmæli að ræða. Ákvæðið nær til allra náms- og starfsráðgjafa, einnig þeirra sem eru verktakar eða undirverktakar. Í lögum um náms- og starfsráðgjafa er ekki að finna sambærilegt ákvæði. Með frumvarpi þessu er lagt til að slíku ákvæði verði bætt inn í löggjöfina.
    Með ákvæðinu er stefnt að því markmiði að tryggja eins og kostur er örugg námsskilyrði fyrir börn og ungmenni. Heimildin tekur til allra starfa náms- og starfsráðgjafa sem felur í sér starf með börnum og ungmennum.
    Að öðru leyti er vísað til skýringa við 1. gr.

Um 10. gr.

    Ákvæðið nær til allra starfsmanna fræðsluaðila og kveður á um breytingu á lögum um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010. Þá nær ákvæðið einnig til verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum á grundvelli laganna.
    Vísað er til skýringa við 1. gr.

Um 11. gr.

    Ekki er talin þörf á aðlögun áður er lögin taka gildi og er því lagt til að þau taki þegar gildi.