Ferill 720. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1199  —  720. mál.
Flutningsmenn, leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunar


um nýja velferðarstefnu fyrir aldraða.


Flm.: Guðjón S. Brjánsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Oddný G. Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra að vinna að mörkun nýrrar velferðarstefnu fyrir aldraða. Með henni verði markvisst horfið frá einhliða hugmyndafræði um stofnanaþjónustu.

Greinargerð.

    Með tillögunni er markmiðið að leggja höfuðáhersla á virk búsetuúrræði og að ný sýn stjórnvalda auðveldi eldra fólki umskipti í húsnæði við hæfi með virkum, þekktum og raunhæfum leiðum.
          Sjálfstæð búseta á eigin heimili til æviloka verði höfuðmarkmið með aukinni fyrirgreiðslu og fjölbreyttum valkostum.
          Heilbrigðis- og velferðartækni verði nýtt og þróunarverkefni sett á laggirnar.
          Samhliða þessu verði fagfólk þjálfað til verkefna samkvæmt áherslum stjórnvalda um einstaklingsbundna þjónustu á eigin heimili.
          Liður í umbreytingarferlinu verði endurskoðun á fjárhagslegri umgjörð málaflokksins, þ.m.t. fjármögnun stofnanavistunar og greiðsluþátttöku einstaklinga.
          Skýrt verði kveðið á um fjárhagslegt sjálfræði og sjálfstæði einstaklinga.
          Hluti af verkefninu verði þróun á reiknilíkani sem geri sveitarfélögum kleift að veita viðeigandi, markvissa en breytilega þjónustu eftir því sem við á hverju sinni.
          Með því að undirstrika viðhorfs- og stefnubreytingu verði lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, felld úr gildi.
          Stefnt verði að tímasettum áföngum í þeirri umbreytingu sem áformuð er og faglegur og fjárhagslegur ávinningur metinn jafnhliða.

Um tillöguna.

    Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram á grundvelli samþykktar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Stefnumótun um heilbrigða öldrun, aðgerðaáætlun til ársins 2030 sem samþykkt var í desember sl. 1 Þá er í tillögu þessari stuðst við umfjöllun tveggja dósenta við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, þeirra Halldórs S. Guðmundssonar og Sigurveigar H. Sigurðardóttur, á grunni langrar starfsreynslu í öldrunarþjónustu, rannsóknir og fræðilega nálgun í ræðu og riti.
    Fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða er reglulega til umfjöllunar í fjölmiðlum og í stjórnmálaumræðunni. Rök eru iðulega færð fyrir frekari byggingu hjúkrunarrýma með tilvísun í fjölgun eldra fólks og fjölda þeirra sem dvelja á Landspítala og geta af einhverjum ástæðum ekki útskrifast til síns heima.
    Íslendingum á lífeyrisaldri fjölgar hratt og á eftir að fjölga enn frekar á næstu áratugum. Með því er ekki sjálfgefið að fjölgun eldra fólks leiði af sér þörf fyrir fleiri hjúkrunarrými, a.m.k. ekki fyrr en eftir tólf ár eða upp úr árinu 2030. Ástæðan er einfaldlega sú að aldurshópurinn 80 ára og eldri fer ekki stækkandi fyrr en upp úr 2025 og það er sá hópur sem ætla má að þurfi helst á þjónustu í hjúkrunarrýmum að halda.
    Í rúma þrjá áratugi hefur verið lögfest sú stefna að efla og samþætta eigi félagslega og heilbrigðislega þjónustu við aldraða. Sú meginlína er í lögum um málefni aldraðra síðan 1982. En hvað hefur í raun og veru gerst? Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands var hlutfall heimila aldraðra sem fengu heimaþjónustu sveitarfélaga um 19,2% árið 2000, hækkaði í 21,4 árið 2003 en hefur farið lækkandi síðan, er um 19,5% árið 2019. Hlutfall þeirra sem dvelja á stofnun fyrir aldraða hefur á sama tíma farið lækkandi, sérstaklega í aldurshópnum 70–85 ára. Þessar tölur og norrænar samanburðartölur sem og rannsóknir í málaflokknum benda í þá átt að heimaþjónustan hafi ekki aukist eins og ætla mátti heldur aðeins tæplega haldið í við fjölgun íbúa í aldurshópnum.
    Fjölgun eldra fólks hefur ekki leitt til hlutfallslegrar fjölgunar inni á stofnunum, heldur frekar dregið úr. Upplýsingar um fjölda notenda, heimsóknartíðni og tíma eru ekki aðgengilegar en vísbendingar eru um að þjónustan geri ekki nema að halda í við fjölgun í aldurshópnum. Líklegt er því að félagslegar, menningarlegar og heilsufarslegar aðstæður eldra fólks hafi breyst töluvert á síðustu áratugum og að fleiri aldraðir einstaklingar séu betur á sig komnir, hafi það betra og búi við betri heilbrigðisþjónustu en fólk á sama aldri fyrir nokkrum áratugum. Þá liggur fyrir að aðstoð fjölskyldunnar við eldri fjölskyldumeðlimi er umfangsmikil.
    Í tillögum að stefnumótun í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða til ársins 2035, sem birt var á heimasíðu velferðarráðuneytis 17. mars 2017, er lögð til grundvallar sú framtíðarsýn að 85% þeirra sem eru 80 ára og eldri geti búið heima. Þessi tillaga er í takti við fyrri stefnumið og áherslur og reynslu annars staðar á Norðurlöndum um að eldra fólk búi að jafnaði við það góða heilsu að það geti búið heima með viðeigandi stuðningi.
    Samkvæmt þessu stefnumiði og fyrrgreindum breytingum á félagslegri og heilsufarslegri stöðu eldra fólks er ljóst að ekki er þörf á fjölgun hjúkrunarrýma á næstu árum. Nú eru um 2.700 hjúkrunarrými á landinu og árið 2035 þurfa þau, sé miðað við mannfjöldaspá, að vera um 3.400. Fram til 2030 nægir núverandi fjöldi rýma, en svo þarf að fjölga þeim um 130 á ári á tímabilinu 2030–2035 til að standa við stefnumið sem taka mið af því að 85% þeirra sem eru 80 ára og eldri búi heima með aðstoð og að 15% þurfi mögulega dvöl á hjúkrunarheimili.
    Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru langir biðlistar eftir dvöl á hjúkrunarheimilum. Með þessari þingsályktunartillögu eru stjórnvöld hvött til þess að snúa við blaðinu og horfa til þeirra viðhorfa sem nú ríkja hjá eldri aldurshópum og skoða fjölþætta möguleika sem bjóðast í nútímasamfélagi og þær breytingar á samfélagsgerðinni sem eru handan við hornið, staldra við og meta að nýju og huga að heildarstefnu í málaflokkunum frekar en að viðhalda steinrunninni stefnu, að reisa frekari byggingar.
    Ekki má vanmeta ótta og kvíða hjá öldruðum við breyttar heilsufarsaðstæður. Í mörgum tilvikum treystir aldrað fólk sér ekki til að vera heima vegna hræðslu við að fá ekki viðeigandi þjónustu þegar hennar gerist þörf og skortir yfirsýn yfir hvert á að leita og hver gerir hvað ef þörf kviknar. Aðstandendur gegna mikilvægu stuðningshlutverki í mörgum tilvikum en hætta er á að þeir endist síður við að styðja aldraða til að búa heima ef upplýsingar og traust til samþættrar og þarfagreindrar þjónustu vantar.
    Það sem er brýnast að gera við svo búið er að undirbúa án tafar og stórefla heimaþjónustu, heimahjúkrun og dagdvalir fyrir eldra fólk. Það þarf að gera markvisst fram til ársins 2030 og um leið leggja áherslu á notendamiðaða aðstoð sem byggist á samhæfingu heilsteyptra þjónustukerfa og trausti en ekki á steinsteyptri umgjörð sem skírskotar til fortíðar og samfélags sem heyrir sögunni til.
1     www.who.int/initiatives/decade-of-healthy-ageing