Ferill 595. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1227  —  595. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Kötlu Hólm Þórhildardóttur um mansal.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er staðan á aðgerðum sem boðaðar eru í skjalinu Áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu, sem dómsmálaráðuneytið gaf út í mars 2019, þ.e. aðgerðum 4, 5 og 6 í II. kafla, um að byggð verði sérstök samhæfingarmiðstöð ekki síðar en á árinu 2020, að skilgreint verði formlegt ferli við að samræma verklagsreglur yfirvalda til að bera kennsl á þolendur mansals og að aðgengi þolenda mansals að nauðsynlegri þjónustu verði tryggt?


Aðgerð 4 – Stofnun samhæfingarmiðstöðvar.
    Árið 2020 fól félagsmálaráðuneytið Bjarkarhlíð í tilraunaskyni til eins árs að hafa umsjón með framkvæmdateymi um mansalsmál, sem undanfarin ár hefur verið leitt af félagsmálaráðuneytinu. Teymið er kallað saman þegar upp koma mansalsmál, eða þegar grunur er um slíkt, í þeim tilgangi að samhæfa störf og viðbrögð þeirra aðila sem koma að málum frá upphafi bæði í velferðarþjónustu og hjá lögreglu. Með því er þolanda veitt nauðsynleg aðstoð frá fyrstu stigum og málinu komið í viðeigandi farveg. Bjarkarhlíð fer því með hluta þeirra verkefna sem saman ganga undir nafninu Samhæfingarmiðstöð. Um leið og þörfin fyrir þjónustu er metin er áfram unnið að því að setja á fót formlega samhæfingarmiðstöð fyrir þolendur mansals.

Aðgerð 5 – Skilgreint verði formlegt ferli við að bera kennsl á þolendur.
    Í framhaldi af kynningu á áherslum stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali var skipaður samráðshópur fagaðila þeirra stofnana og félagasamtaka sem koma að málum einstaklinga sem geta verið þolendur mansals. Innan hópsins voru stofnaðir þrír undirhópar um málaflokkana Prevention (Forvarnir), Protection (Aðstoð, stuðningur og vernd), Prosecution (Rannsókn og saksókn). Protection-hópurinn hefur tiltekið áhættuþætti sem hjálpa til við að bera kennsl á þolendur mansals og nýttir verða við að skilgreina formlegt ferli við að bera kennsl á þolendur. Þá hefur hópurinn það hlutverk að samræma þær verklagsreglur sem eru til staðar innan kerfisins til að bera kennsl á þolendur.
    Ríkislögreglustjóri gaf árið 2020 út upplýsingar og leiðbeiningar um framkvæmd fyrir lögreglu um mansal. Þar er ítarlega farið yfir atriði sem gefa til kynna að viðkomandi geti verið þolandi mansals. Ítarlegir verkferlar hafa verið útbúnir hjá Útlendingastofnun um mansal.
    Vinnu er að ljúka í samstarfi við 112 við að útbúa verkferla fyrir neyðarverði fyrir samskipti við einstakling sem segist vera þolandi mansals eða talið er að sé þolandi mansals. Þá munu upplýsingar um mansal, einkenni þess, viðbrögð og þjónustu sem í boði er fyrir þolendur verða aðgengilegar á www.112.is innan skamms.
    Rauði krossinn hefur haldið þrjú námskeið um helstu merki og viðbrögð við mansali fyrir breiðan hóp fólks, bæði innan hins opinbera, hjá sveitarfélögum og hjá einkaaðilum. Rauði krossinn mun einnig halda sérstaka fræðslu fyrir starfsmenn sína, þar á meðal sjálfboðaliða hjá 1717.
    Þá veittu dómsmálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti nýverið styrk til Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins og Félagsmálaskóla alþýðu til að útbúa myndband um mansal sem verður nýtt í trúnaðarmannafræðslu og til að efla þekkingu vinnustaðaeftirlitsfulltrúa í að greina mögulegt mansal og aðra misnotkun. Í handbók um mansal á vinnumarkaði fyrir starfsfólk stéttarfélaga sem gefin er út af Starfsgreinasambandi Íslands er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um einkenni mansals og lista yfir spurningar sem starfsfólk stéttarfélags getur stuðst við ef upp kemur grunur um mansal.

Aðgerð 6 – Aðgengi þolenda mansals að nauðsynlegri þjónustu verði tryggt.
    Með samningi félagsmálaráðuneytisins við Bjarkarhlíð (sjá aðgerð 4), hefur verið tryggt að brugðist sé skjótt við tilkynningum um möguleg mansalsmál og þeim komið í viðeigandi farveg og þolendum veitt viðeigandi þjónusta. Nú þegar hafa u.þ.b. 10 mál komið inn á borð framkvæmdateymis Bjarkarhlíðar um mansal þar sem viðkomandi einstaklingum hefur staðið til boða aðstoð og þjónusta sem þeir hafa þegið eftir þörfum. Hefur þetta borið góðan árangur.
    Félagsmálaráðuneytið hefur gert samning við Samtök um kvennaathvarf um neyðarskjól og þjónustu við kvenkyns þolendur og meinta þolendur mansals á meðan unnið er að rannsókn máls
    Neyðarlínan 112 verður opinbert númer fyrir mansalstilkynningar og upplýsingar, fræðsla og annað efni er við kemur mansali verður gert aðgengilegt inn á www.112.is.