Ferill 648. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1244  —  648. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um hjúkrunarheimili og meðferðarstofnanir.


     1.      Hyggst ráðherra bregðast við tekjutapi hjúkrunarheimila og meðferðarstofnana sem hafa þurft að fækka rýmum vegna kórónuveirufaraldursins? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Hvorki hjúkrunarheimili né meðferðarstofnanir hafa þurft að fækka rýmum vegna kórónuveirufaraldursins. Í einhverjum tilfellum voru rými á hjúkrunarheimilum vannýtt sem rekja mátti til faraldursins og var hjúkrunarheimilum bætt sú vannýting.

     2.      Hyggst ráðherra auka framlag ríkisins til reksturs þessara stofnana með því að hækka daggjöld og vega þannig upp á móti raunlækkun sem orðið hefur á daggjöldum til hjúkrunarheimila, eins og samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa kallað eftir?
    Daggjöld til hjúkrunarheimila taka breytingum og verðuppfærslu á hverju ári í samræmi við forsendur fjárlaga. Framlag til hjúkrunarrýma tekur einnig mið af hjúkrunarþyngd, þ.e. RUG-stuðli sem endurspeglar raunbreytingu í hjúkrunarþyngd. Landsmeðaltal RUG-stuðulsins var óbreytt frá árinu 2020 en það hækkaði á hverju ári sl. þrjú ár þar á undan. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) er samningsaðili við hjúkrunarheimilin og bæði ráðuneytið og SÍ eru bundin af fjárlögum hvers árs. Núgildandi samningar milli SÍ og hjúkrunarheimila gilda til ársloka og ætla má að fyrir þann tíma verði lögð drög að nýjum samningum milli SÍ og rekstraraðila.

     3.      Hefur ráðherra áform um að breyta núverandi fyrirkomulagi við rekstur hjúkrunarheimila sem eru sjálfseignarstofnanir með þjónustusamning við ríkið?
    Ekki eru áform af hálfu ráðherra um breytingu á núverandi fyrirkomulagi við rekstur hjúkrunarheimila.

     4.      Hefur ráðherra íhugað að formfesta og setja skýrari reglur um fyrirkomulag við öldrunarþjónustu?
    Í gildi eru lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Unnið er að stefnu um heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030. Stefnumótun á þessu sviði verður umfjöllunarefni heilbrigðisþings ársins 2021 sem heilbrigðisráðherra efnir til hinn 20. ágúst næstkomandi.