Ferill 739. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1245  —  739. mál.
Greinargerð.




Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um yfirtöku á SpKef sparisjóði.

Frá Birgi Þórarinssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Bergþóri Ólasyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Karli Gauta Hjaltasyni, Ólafi Ísleifssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Sigurði Páli Jónssyni og Þorsteini Sæmundssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um forsendur og afleiðingar af samningi ríkisins um yfirtöku Landsbankans á rekstri, eignum og skuldbindingum SpKef sparisjóðs með ríkisábyrgð.
    Í skýrslunni komi m.a. fram:
     1.      Gögn sem sýna hver raunveruleg eiginfjárstaða Sparisjóðsins í Keflavík var á árunum 2005 og til þess dags er Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 22. apríl 2010 um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef sparisjóðs. Óskað er gagna er lúta að umfjöllun stjórnar sparisjóðsins um lausafjárvanda hans, tillögur um aðgerðir til þess að sporna við slíkum vanda, bókanir á stjórnarfundum, minnisblöð stjórnenda og/eða annarra starfsmanna til stjórnar eða annarra aðila innan sjóðsins þar sem fjallað var um slík málefni. Auk þess er óskað allra skýrslna til Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um stöðu lausafjár sparisjóðsins.
     2.      Afrit af lista yfir lán til þeirra fyrirtækja sem voru í útlánabók SpKef og voru yfirtekin af Landsbankanum.
     3.      Upplýsingar um bókfært virði einstakra lána til fyrirtækja í útlánabók SpKef við stofnun SpKef, við yfirtöku Landsbankans og samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar frá 7. júní 2012.
     4.      Upplýsingar um það raunverulega tjón sem Landsbankinn varð fyrir vegna yfirtöku á SpKef án ríkisábyrgðar. Með því er átt við hvert var hið raunverulega virði yfirtekinna útlána.
     5.      Hvort ríkissjóður hafi áskilið sér eftirlit með hvernig yfirteknum eignum (lánum) var ráðstafað innan Landsbankans og hvort höfuðstóll ríkisskuldabréfs hafi tekið breytingum ef endurheimt lána hafi verið hærri en áætlað var í niðurstöðu úrskurðarnefndar frá 7. júní 2012.

Greinargerð.

    Hinn 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík til SpKef sparisjóðs. Var þetta gert í þeirri viðleitni að forða innlánseigendum frá því að tapa fé við gjaldþrot sparisjóðsins. Íslenska ríkið stofnaði svo sparisjóðinn SpKef og ríkissjóður lagði til um 900 millj. kr. stofnfjárframlag. Í kjölfarið kom í ljós að staða SpKef var verri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Nánar tiltekið gaf bráðabirgðaniðurstaða eignamats til kynna að eigið fé SpKef sparisjóðs væri neikvætt um 11,2 milljarða kr. miðað við árslok 2010. Í mars 2011 tók Landsbankinn yfir rekstur, eignir og skuldbindingar SpKef sparisjóðs með þeim hætti að SpKef var sameinaður Landsbankanum. Í janúar 2012 var kynnt niðurstaða um að yfirteknar eignir hefðu verið 17,2 milljörðum kr. lægri en yfirteknar skuldir. Gert var samkomulag á milli ríkisins og Landsbankans um að ríkissjóður mundi leggja Landsbankanum til fjárframlag til að mæta neikvæðri eignastöðu SpKef. Í júní 2012 var kynnt bindandi niðurstaða úrskurðarnefndar um að neikvæð staða sparisjóðsins væri 19,2 milljarðar kr. og féll sá kostnaður á ríkissjóð. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar 1 nam kostnaður ríkisins, að teknu tilliti til vaxta, samtals 25 milljörðum kr. vegna SpKef. Var greiðslan innt af hendi til Landsbankans með ríkisskuldabréfi sem var með lokagjalddaga 2018. Ríkið skuldbatt sig því til að greiða (ábyrgjast) Landsbankanum þann mun sem var á verðmæti yfirtekinna eigna og skulda (innlána). Í ljósi alls þessa þá skiptir það ríkissjóð og skattgreiðendur miklu að fá upplýsingar um hvert var tjón Landsbankans, m.a. hvert var hið raunverulega tjón Landsbankans og hvernig var eignaumsýslu Landsbankans háttað, þ.e. hvert var yfirteknum eignum vegna SpKef ráðstafað og á hvaða verði. Jafnframt skiptir miklu máli að fyrir liggi hvaða upplýsingar voru þegar til staðar um eiginfjárstöðu og lausafjárvanda Sparisjóðs Keflavíkur þegar svo afdrifaríkar ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði voru teknar.
    Alþingi fer með eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu. Eftirlit með þeim skuldbindingum sem Alþingi samþykkir að ábyrgjast fellur eðlilega þar undir. Ekki er verið að óska eftir persónuupplýsingum, þ.e. upplýsingum um einstaklinga sem lántaka. Aðeins er óskað eftir upplýsingum um lán SpKef til fyrirtækja, verðmat þeirra og verðmæti, sem og verklag Landsbankans við ráðstöfun eigna og eftirlit ríkissjóðs, sem ábyrgðaraðila. Skýrslubeiðendur telja því ekki vera forsendur til að hafna gagnabeiðninni á þeim grundvelli að um persónuupplýsingar sé að ræða.
    Fyrir liggur að Alþingi kom á fót rannsóknarnefnd sem ætlað var að rannsaka aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna. Nefndin var skipuð í ágúst 2011 og skilaði skýrslu í apríl 2014. Verkefni rannsóknarnefndarinnar var að rannsaka aðdraganda og orsök erfiðleika og falls sparisjóðanna en henni var ekki falið að rannsaka hvernig úrvinnslu eigna sparisjóðsins var háttað. Þá tók rannsóknarnefndin ekki á því hvert endanlegt tjón ríkissjóðs var af ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðsins í Keflavík og SpKef sparisjóðs eða eignaumsýslu Landsbankans.

1    Skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis, júní 2012: Fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.