Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1247  —  275. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (uppbygging innviða og íbúðarhúsnæðis).

(Eftir 2. umræðu, 19. apríl.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við bætast þrír nýir töluliðir, í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
                  1.      Flutningskerfi raforku: Raflínur og mannvirki þeim tengd sem eru nauðsynleg til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna, sbr. og nánari skilgreiningu á flutningskerfi í raforkulögum.
                  2.      Raflínunefnd: Stjórnsýslunefnd skipuð af ráðherra skv. 9. gr. a til að annast gerð raflínuskipulags, veita framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku sem byggjast á samþykktri kerfisáætlun og hafa eftirlit með þeim framkvæmdum og framkvæmd raflínuskipulagsins.
                  3.      Raflínuskipulag: Sérstök skipulagsáætlun fyrir flutningskerfi raforku, sem nær til tveggja eða fleiri sveitarfélaga og er unnin og samþykkt af raflínunefnd, sbr. 9. gr. a.
     b.      Við 19. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Raflínuskipulag er skipulagsáætlun sem unnin er og samþykkt af raflínunefnd, sbr. 9. gr. a.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Raflínunefndir, sbr. 9. gr. a, annast gerð raflínuskipulags fyrir framkvæmdir í flutningskerfi raforku sem byggjast á samþykktri kerfisáætlun. Þær fjalla um leyfisumsóknir vegna framkvæmda sem byggjast á skipulaginu, veita framkvæmdaleyfi vegna þeirra og hafa eftirlit með framkvæmd raflínuskipulagsins og þeim framkvæmdum sem nefndirnar veita leyfi fyrir.

3. gr.

    Við 4. gr. laganna bætast tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
     k.      að vera raflínunefndum til ráðgjafar og annast gerð raflínuskipulags í umboði þeirra,
     l.      að starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt, sbr. 4. mgr. 46. gr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Skipulagsfulltrúi annast, í umboði raflínunefndar, eftirlit með framkvæmdum í flutningskerfi raforku í sveitarfélaginu sem nefndin hefur veitt framkvæmdaleyfi fyrir. Kveðið skal á um hlutverk skipulagsfulltrúa, greiðslu kostnaðar og nánara fyrirkomulag eftirlits með framkvæmdum í flutningskerfi raforku í samstarfssamningi raflínunefndar og viðkomandi sveitarstjórnar. Kostnaður við slíkt eftirlit skal greiddur af leyfishafa sem hluti framkvæmdaleyfisgjalds, sbr. 20. gr.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „9. mgr. 45. gr.“ í 8. mgr. kemur: 10. mgr. 45. gr.

5. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Raflínunefnd.

    Ráðherra er heimilt, að beiðni aðila sem ber ábyrgð á framkvæmd í flutningskerfi raforku, að skipa sérstaka raflínunefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa, kynna og samþykkja raflínuskipulag fyrir framkvæmd í flutningskerfi raforku sem nær til tveggja eða fleiri sveitarfélaga og veita framkvæmdaleyfi fyrir henni.
    Beiðni framkvæmdaraðila um skipun raflínunefndar skv. 1. mgr. skal sett fram á undirbúningsstigi framkvæmdar og áður en ferli samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er hafið. Í beiðninni skal koma fram greinargóð lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd og upplýsingar um innan hvaða sveitarfélaga framkvæmdin er áformuð.
    Í raflínunefnd skulu eiga sæti einn fulltrúi hvers sveitarfélags sem viðkomandi framkvæmd á að ná til auk eins fulltrúa Skipulagsstofnunar sem skal vera formaður nefndarinnar. Samþykki meiri hluta nefndar þarf til að afgreiða einstök mál, að því undanskildu að einróma samþykki þarf vegna tillögu að raflínuskipulagi, sbr. 3. mgr. 11. gr. d. Falli atkvæði jafnt skal slíkum ágreiningi vísað til ráðherra, sbr. 4. mgr. 11. gr. d. Skipan nefndarinnar skal gilda þar til framkvæmd er lokið. Sveitarstjórnum er heimilt að afloknum sveitarstjórnarkosningum að tilnefna nýjan fulltrúa sinn í nefndina.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Sveitarfélög“ í 1. málsl. kemur: og raflínunefndir.
     b.      Á eftir orðunum „Telji sveitarstjórn“ í 2. málsl. kemur: eða raflínunefnd.

7. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 11. gr. a – 11. gr. d, svohljóðandi:

    a. (11. gr. a.)

Raflínuskipulag.

    Raflínuskipulag er skipulagsáætlun sem nær til tveggja eða fleiri sveitarfélaga og markar stefnu fyrir tiltekna framkvæmd í flutningskerfi raforku sem byggist á samþykktri kerfisáætlun.
    Raflínuskipulag skal sett fram í skipulagsgreinargerð og á skipulagsuppdrætti. Í greinargerð raflínuskipulags er forsendum þess lýst og samræmi þess við aðra stefnumótun stjórnvalda sem nær til viðkomandi framkvæmdar. Um gerð og framsetningu raflínuskipulags gilda að öðru leyti 12. gr. og ákvæði skipulagsreglugerðar.
    Við gerð raflínuskipulags skal taka mið af landsskipulagsstefnu. Við gerð skipulagsins skal einnig taka mið af ákvæðum raforkulaga, gildandi stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku og samþykktri kerfisáætlun.
    Um breytingu á raflínuskipulagi fer eins og um nýtt raflínuskipulag væri að ræða. Ekki er þó skylt að taka saman lýsingu skv. 2. mgr. 11. gr. c og ákvæði 1. mgr. 11. gr. c eiga einungis við ef breytingin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

    b. (11. gr. b.)

Ábyrgð á gerð og afgreiðslu raflínuskipulags.

    Raflínunefnd ber ábyrgð á undirbúningi, kynningu og afgreiðslu raflínuskipulags vegna tiltekinna framkvæmda í flutningskerfi raforku, í samræmi við skipunarbréf ráðherra.
    Skipulagsstofnun veitir raflínunefnd ráðgjöf og annast gerð raflínuskipulags í umboði hennar og þá málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum þessum. Skipulagsstofnun leggur nefndinni til aðstöðu og annast rekstur vefs fyrir kynningu skipulagsins og umhverfismats.
    Raflínunefnd samþykkir raflínuskipulag að fenginni afstöðu hlutaðeigandi sveitarstjórna eða að lokinni málsmeðferð skv. 4. mgr. 11. gr. d og sendir það ráðherra til staðfestingar.

    c. (11. gr. c.)

Gerð raflínuskipulags, kynning og samráð.

    Raflínuskipulag og umhverfismat þess skal unnið og kynnt samhliða mati á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi framkvæmdar, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga þessara og 17. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og skal samþætta skýrslugerð um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og skýrslugerð um umhverfismat skipulagstillögunnar samkvæmt lögum þessum og lögum um umhverfismat áætlana. Ráðherra skal kveða nánar á um slíka sameiginlega skýrslugerð, kynningu og málsmeðferð í reglugerð.
    Þegar vinna við gerð tillögu að raflínuskipulagi hefst tekur raflínunefnd saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur verði lagðar við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur, valkosti, fyrirliggjandi stefnu stjórnvalda og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart stjórnvöldum, almenningi og öðrum hagsmunaaðilum, og hvernig staðið verði að umhverfismati framkvæmdar og skipulagsáætlunar. Lýsingin skal þá hljóta samþykki raflínunefndar áður en hún er send til umsagnar og kynnt. Leita skal umsagnar um lýsinguna hjá hlutaðeigandi sveitarfélögum og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi.
    Tillaga að raflínuskipulagi skal kynnt með þeim valkostum sem gerð er grein fyrir í umhverfismati framkvæmdarinnar.
    Raflínunefnd auglýsir tillögu að raflínuskipulagi og fer um auglýsinguna skv. 31. gr. Þá skal tillagan send til umsagnar hjá hlutaðeigandi sveitarfélögum og umsagnaraðilum.

    d. (11. gr. d.)

Afgreiðsla og gildistaka raflínuskipulags.

    Þegar frestur til athugasemda er liðinn skal raflínunefnd fjalla um tillögu að raflínuskipulagi á nýjan leik og á grundvelli niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum taka afstöðu til þess hvaða valkostur skuli valinn ef leyfi verður veitt og að hvaða skilyrðum uppfylltum. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Ákveði nefndin að breyta tillögunni í grundvallaratriðum skal hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 4. mgr. 11. gr. c og 31. gr.
    Endanleg tillaga nefndarinnar ásamt athugasemdum og umsögn nefndarinnar um þær skal send hlutaðeigandi sveitarstjórnum til afgreiðslu. Afstaða sveitarstjórnar til tillögunnar skal send raflínunefnd innan fjögurra vikna frá því að sveitarstjórn barst tillagan. Fallist sveitarstjórn ekki á tillöguna skal sú niðurstaða rökstudd.
    Tillaga að raflínuskipulagi skal tekin aftur til umfjöllunar í raflínunefnd þegar afstaða þeirra sveitarfélaga sem hún nær til liggur fyrir. Komist nefndin að sameiginlegri niðurstöðu skal tillagan send ráðherra til staðfestingar, ásamt athugasemdum sem bárust á kynningartíma, umsögnum hlutaðeigandi sveitarstjórna og afstöðu nefndarinnar til þeirra, innan átta vikna frá því að umsögn sveitarstjórna lá fyrir. Jafnframt skal senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu afgreiðslu og umsögn nefndarinnar um athugasemdir og auglýsa niðurstöðu nefndarinnar.
    Komist raflínunefnd ekki að sameiginlegri niðurstöðu um samþykkt tillögunnar innan átta vikna frá því að afstaða sveitarfélaganna lá fyrir skal auglýstri tillögu vísað til ráðherra sem tekur ákvörðun um val á valkosti og hvaða skilyrðum framkvæmdin skuli háð í skilmálum skipulagsins. Ráðherra skal við töku ákvörðunarinnar taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu og niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Stefna stjórnvalda um flutningskerfi raforku skal einnig höfð til hliðsjónar. Þegar niðurstaða ráðherra liggur fyrir skal nefndin samræma skipulagstillöguna ákvörðun ráðherra og senda hana ráðherra til staðfestingar innan fjögurra vikna frá því að niðurstaða ráðherra lá fyrir. Náist ekki samkomulag um einstakar afgreiðslur nefndarinnar skal slíkum ágreiningi einnig vísað til ráðherra, sbr. 3. mgr. 9. gr. a.
    Ráðherra hafnar raflínuskipulagi eða staðfestir það skv. 3. og 4. mgr. Við yfirferð tillögunnar metur hann hvort á henni séu form- eða efnisgallar. Ef ráðherra telur að á tillögunni sé form- eða efnisgalli skal hann gefa raflínunefnd færi á að koma að athugasemdum áður en hann tekur ákvörðun um afgreiðslu tillögunnar. Staðfest raflínuskipulag skal auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Slíkt skipulag tekur gildi þegar það hefur hlotið staðfestingu ráðherra og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.
    Stefna samkvæmt raflínuskipulagi er bindandi við gerð svæðisskipulags, aðalskipulags, deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. mgr. 12. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: sbr. þó 4. málsl.
     b.      Á eftir 2. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Raflínuskipulag er rétthærra en svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag fyrir þá framkvæmd sem það tekur til. Þegar raflínuskipulag hefur verið samþykkt skal hver sveitarstjórn sjá til þess að framkvæmdin sé tekin upp í aðalskipulag sveitarfélagsins við næstu endurskoðun þess, þó eigi síðar en fjórum árum frá samþykkt raflínuskipulagsins í samræmi við ákvæði þess.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Afla skal framkvæmdaleyfis raflínunefndar vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku þegar slík nefnd hefur verið skipuð vegna viðkomandi framkvæmdar, sbr. 9. gr. a.
     b.      Á eftir orðinu „sveitarstjórnar“ í 3. mgr. kemur: eða raflínunefndar, þar sem við á.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn eða raflínunefnd, þar sem við á, fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir. Hafi verið skipuð raflínunefnd skv. 9. gr. a skal framkvæmdaleyfi vegna viðkomandi framkvæmdar í flutningskerfi raforku vera í samræmi við raflínuskipulag sem í gildi er vegna framkvæmdarinnar. Ekki er skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis raflínunefndar að aðlögun skipulagsáætlana sveitarfélaga við ákvæði raflínuskipulags sé lokið, sbr. 7. mgr. 12. gr. Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal leyfisveitandi ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða sem við eiga. Heimilt er að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir.
     d.      Í stað orðanna „sveitarstjórn gefur“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: gefið er.
     e.      Í stað orðsins „Sveitarstjórn“ í 2. málsl. 7. mgr. kemur: Leyfisveitanda.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „sveitarstjórn“ í 1., 2. og 3. málsl. 2. mgr. kemur: leyfisveitandi.
     b.      Í stað orðsins „Sveitarstjórn“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Leyfisveitandi.
     c.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Jafnframt er leyfisveitanda heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins eða raflínuskipulag.
     d.      Í stað orðanna „Ákvörðun sveitarstjórnar“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: Ákvarðanir.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Sveitarstjórn, annar aðili sem hún hefur falið það vald, sbr. 6. gr., eða raflínunefnd, hefur samþykkt veitingu framkvæmdaleyfis.
     b.      Á eftir orðinu „sveitarstjórnar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eða raflínunefndar.
     c.      Í stað orðsins „sveitarstjórn“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: leyfisveitandi.
     d.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þetta gildir þó ekki um framkvæmdir sem raflínunefnd gefur út framkvæmdaleyfi fyrir.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Raflínunefnd hefur eftirlit með að framkvæmdir sem hún hefur veitt leyfi fyrir séu í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi. Skipulagsfulltrúi í hverju sveitarfélagi annast daglega framkvæmd eftirlitsins í umboði nefndarinnar samkvæmt sérstökum samstarfssamningi sem gerður skal milli nefndarinnar og hverrar sveitarstjórnar.
     b.      Á eftir orðunum „að mati sveitarstjórnar“ í 2. mgr. kemur: eða raflínunefndar.

13. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Kostnaður við gerð raflínuskipulags skal greiddur af framkvæmdaraðila, sbr. 2. og 4. mgr. 20. gr.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „er heimilt að innheimta“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og raflínunefnd innheimta.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Raflínunefnd greiðir fyrir vinnu skipulagsfulltrúa við eftirlit af innheimtu framkvæmdaleyfisgjaldi.
     c.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Raflínunefnd innheimtir kostnað vegna skipulagsvinnu nefndarinnar af framkvæmdaraðila.
     d.      Í stað orðanna „Sveitarstjórn skal“ í 3. mgr. kemur: Sveitarstjórn og raflínunefnd skulu.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra setur, að fenginni tillögu Skipulagsstofnunar, gjaldskrá vegna kostnaðar við gerð raflínuskipulags.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: og skal tillagan vera aðgengileg á netinu.
     b.      2. málsl. fellur brott.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 31. gr. laganna:
     a.      Við 2. málsl. bætist: og vera aðgengileg á netinu.
     b.      3. málsl. fellur brott.

17. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 41. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

    Við 43. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
    Varði fyrirhuguð breyting á deiliskipulagi einvörðungu íbúðarhúsnæði sem ekki er háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum getur sveitarstjórn ákveðið að frestur til athugasemda verði að lágmarki fjórar vikur þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 31. gr. Skilyrði þess er að sveitarstjórn hafi auglýst með áberandi hætti að breyting á deiliskipulagi sé í vinnslu eigi síðar en tveimur vikum áður en tillagan er birt til umsagnar.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Í skipulagsreglugerð skal kveða nánar á um skipun raflínunefndar, starfshætti og málsmeðferð.
     b.      Á eftir orðinu „starfshætti“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: raflínunefnda.
     c.      Við 13. mgr. bætist: auk ákvæða um notkun landfræðilegrar gagna- og samráðsgáttar, þ.m.t. birtingu upplýsinga og gagna og samráð, sbr. 4. mgr. 46. gr.

20. gr.

    Við 46. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Skipulagsstofnun skal starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt um gerð landsskipulagsstefnu og skipulagsáætlana, skipulagsáætlanir, þ.m.t. skipulag haf- og strandsvæða, umhverfismat og framkvæmdaleyfi. Nota skal gáttina við skipulagsgerð og útgáfu framkvæmdaleyfa og skulu allar umsagnir berast í gáttina. Aðgangur að gáttinni skal vera öllum opinn og án endurgjalds.

21. gr.

    Á eftir orðunum „lögum þessum“ í 1. mgr. 49. gr. laganna kemur: annarra en raflínuskipulags.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 53. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: eða raflínunefndar, þar sem það á við, sbr. 3. mgr. 7. gr.
     b.      Á eftir orðinu „sveitarstjórn“ í 2. mgr. kemur: eða raflínunefnd, þar sem það á við.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Sveitarstjórn“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og raflínunefnd.
     b.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sinni aðili ekki fyrirmælum sveitarstjórnar eða raflínunefndar innan þess frests sem hún setur getur sveitarstjórn eða raflínunefnd, þar sem það á við, ákveðið dagsektir þar til úr verður bætt.
     c.      Við 4. málsl. 1. mgr. bætist: en ríkissjóð ef raflínunefnd tekur ákvörðun um álagningu þeirra.
     d.      Á eftir orðinu „Sveitarstjórn“ í 2. mgr. kemur: eða raflínunefnd.

24. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 20. gr. kemur til framkvæmda 1. desember 2022.

25. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013:
                  a.      Á eftir orðinu „deiliskipulag“ í 3. málsl. 3. mgr. 37. gr. og lokamálslið 3. mgr. 61. gr. laganna kemur: eða eftir atvikum staðfest raflínuskipulag.
                  b.      Á eftir „svæðis-“ í 1. mgr. 68. gr. laganna kemur: raflínu-.
     2.      Lög um menningarminjar, nr. 80/2012: Í stað orðanna „eða deiliskipulagi“ í 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: deiliskipulagi eða raflínuskipulagi.
     3.      Lög um mannvirki, nr. 160/2010: Við 18. tölul. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Raflínuskipulag er skipulagsáætlun sem unnin er og samþykkt af raflínunefnd, sbr. 9. gr. a skipulagslaga, nr. 123/2010.
     4.      Lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018: Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 12. gr. laganna:
                  a.      Við 2. málsl. bætist: og vera aðgengileg á vef.
                  b.      3. málsl. fellur brott.