Ferill 742. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1254  —  742. mál.




Beiðni um skýrslu


frá dómsmálaráðherra um viðbrögð við uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi.

Frá Karli Gauta Hjaltasyni, Ólafi Ísleifssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Bergþóri Ólasyni, Birgi Þórarinssyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Sigurði Páli Jónssyni og Þorsteini Sæmundssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að dómsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um aðgerðir sem hefur verið ráðist í og til stendur að ráðast í til að vinna gegn uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi eftir ábendingar í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra í september 2015, október 2017 og í maí 2019.
    Óskað er eftir því að skýrslan taki meðal annars til eftirfarandi þátta:
     a.      Hvort lögð hafi verið áhersla á að fjölga lögreglumönnum sem rannsaka skipulagða glæpi og styðja betur við störf þeirra og til hvaða aðgerða hafi verið gripið í þeim efnum.
     b.      Hvort aukin áhersla hafi verið lögð á farþegalistagreiningar við landamæraeftirlit.
     c.      Hvort rannsóknarúrræði lögreglu hafi verið rýmkuð eða þeim fjölgað eftir ábendingar í skýrslunum. Þá er óskað eftir samanburði á rannsóknarúrræðum lögreglu hér á landi við úrræði lögreglu annars staðar á Norðurlöndum.
     d.      Hvort til standi að auðvelda brottvísanir erlendra aðila sem verða uppvísir að afbrotum sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.
     e.      Hvernig og hvort frumkvæðislöggæsla lögreglu við afbrotavarnir hafi verið efld, m.a. með fjölgun almennra lögreglumanna sem henni sinna.
     f.      Hvort gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að þeir sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og kúgunum af ýmsum toga svo sem mansali, eða hvaða aðgerðir eru áformaðar til að vinna gegn slíku.
     g.      Hvort gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að glæpasamtök misnoti opinbera þjónustu og kerfi sem lið í skipulagðri starfsemi þeirra. Þar er átt við bótakerfi, vinnumiðlun, móttökukerfi vegna flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd og ýmsa félagslega aðstoð sem stendur þeim til boða.

Greinargerð.

    Greiningardeild ríkislögreglustjóra tók til starfa 1. janúar 2007 og er hlutverki og markmiðum deildarinnar lýst í reglugerð nr. 404/2007 en hún á meðal annars að leggja mat á hættu á skipulagðri glæpastarfsemi með skýrslugerð og stefnumiðaðri greiningu.
    Fyrsta skýrsla þessarar gerðar var unnin fyrir árið 2008. Í þeirri skýrslu og þeim sem síðar voru unnar var dregin heildarmynd af skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi.
    Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2015 um mat á skipulagðri brotastarfsemi kemur fram að lögreglan telur að henni sé ekki fært að halda uppi ásættanlegri frumkvæðislöggæslu vegna fjárskorts og manneklu. Lögreglan sé undirmönnuð og brýnt sé að fjölga lögreglumönnum. Þá er talið að verði lögreglunni áfram sniðinn svo þröngur stakkur sé sú hætta fyrir hendi að umfang skipulagðrar brotastarfsemi aukist án viðspyrnu samfélagsins. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um aukna hættu á tölvubrotum, peningaþvætti, mansali, og þá hættu að flóttafólk í bágri stöðu sæti kúgun og misneytingu af hálfu skipulagðra glæpasamtaka. 1
    Í sambærilegri skýrslu greiningardeildarinnar frá 2017 er meðal annars fjallað um að skipulögðum brotahópum hafi vaxið ásmegin og að lögreglan glími við manneklu, fjárskort og aukið álag. Einnig er fjallað um að vegna skorts á mannafla og ófullnægjandi tækjabúnaðar sé farþegalistagreiningum lítið sinnt en slík greining er þó eitt öflugasta tæki lögreglu við landamæraeftirlit. Þá kemur fram að störf lögreglu séu um flest erfiðari og margslungnari en áður var ekki síst vegna alþjóðavæðingar. Brýnt sé að styrkja lögregluna þannig að hún sé þess megnug að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda grundvallarhagsmuni ríkisins. 2
    Áhyggjur lögreglunnar af vexti skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi eru áfram tíundaðar í áhættumatsskýrslu greiningardeildarinnar frá 2019. Í skýrslunni er lagt fram líkan löggæsluáætlunar um fjögur áhættustig og er niðurstaða matsins að talið er að skipulögð glæpastarfsemi valdi „gífurlegri áhættu“ en það er alvarlegasta stigið. Greiningardeildin telur skipulagða glæpastarfsemi alvarlegustu ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi að náttúruhamförum frátöldum. Í skýrslunni er geta íslensku lögreglunnar til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi talin lítil. 3
    Af þessum skýrslum má ráða að lögreglan telur aukna ógn stafa af skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og telja skýrslubeiðendur að nauðsynlegt sé að kalla eftir upplýsingum um til hvaða aðgerða hafi verið gripið til þess að bregðast við þessum ábendingum greiningardeildar ríkislögreglustjóra í því skyni að styðja við lögregluna í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi.
1    Ríkislögreglustjóri. September 2015. Mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri brotastarfsemi. Greiningardeild ríkislögreglustjóra. Sótt af:
     www.logreglan.is/logreglan/rikislogreglustjori/skipurit-2/skyrslur-greiningardeildar/
2    Ríkislögreglustjóri. Október 2017. Skipulögð glæpastarfsemi 2017. Mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi. Sótt af:
     www.logreglan.is/logreglan/rikislogreglustjori/skipurit-2/skyrslur-greiningardeildar/
3    Ríkislögreglustjóri. Maí 2019. Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi. Áhættumatsskýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Sótt af:
     www.logreglan.is/logreglan/rikislogreglustjori/skipurit-2/skyrslur-greiningardeildar/