Ferill 743. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1257  —  743. mál.
Leiðréttur texti.
Frumvarp til laga


um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (sóttvarnahús).

Flm.: Logi Einarsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, María Hjálmarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir.


1. gr.

    13. tölul. 3. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Sóttvarnahús: Staður á vegum hins opinbera þar sem einstaklingur getur verið í sóttkví eða einangrun.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Dvelji í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi á vegum stjórnvalda.
     b.      Á eftir orðinu „einangrun“ í 4. mgr. kemur: dvöl í sóttvarnahúsi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Heimsfaraldur kórónuveiru hefur opnað augu heimsbyggðarinnar fyrir mikilvægi þess að yfirvöld geti brugðist hratt við með sóttvarnaaðgerðum þegar heilsu er ógnað. Gildandi sóttvarnalög eru frá árinu 1997 og var þeim síðast breytt í febrúar sl. Við þá breytingu var rætt um mikilvægi þess að lögin sættu heildarendurskoðun, en þó ekki fyrr en að yfirstandandi heimsfaraldri loknum. Í lok mars birti heilbrigðisráðherra reglugerð sem kvað á um skyldu ferðamanna frá skilgreindum áhættusvæðum til dvalar í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Nokkuð bar á ábendingum um að lagastoð skorti fyrir slíku ákvæði í reglugerð og fór svo að í sjö tilvikum var látið reyna á heimildina fyrir dómi. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að lagastoð skorti fyrir umræddri skyldu og var reglugerð ráðherra í kjölfarið felld úr gildi.
    Flutningsmenn frumvarpsins telja mikilvægt að sóttvarnayfirvöldum verði veitt heimild í lögum til að gefa út reglugerð er skyldar ferðamenn til sóttkvíar eða einangrunar í sóttvarnahúsi á vegum stjórnvalda ef vísbendingar eru um að lýðheilsa sé í yfirvofandi hættu. Telja flutningsmenn að komið hafi í ljós að bregðast þurfi hratt við í hættuástandi og þar sem sú lagaskylda hvílir á stjórnvöldum að gæta meðalhófs við ákvarðanatöku þykir flutningsmönnum einsýnt að ekki komi til þess að ákvæðinu verði beitt án ríkrar ástæðu.