Ferill 747. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1281  —  747. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga (sóttvarnahús og för yfir landamæri).

Frá Ingu Sæland og Guðmundi Inga Kristinssyni.


    1. gr. orðist svo:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 13. tölul. 3. mgr. 1. gr. þurfa allir ferðamenn sem koma til landsins á tímabilinu 22. apríl til og með 30. júní 2021 að dvelja í sóttvarnahúsi eigi skemur en sjö daga frá komu. Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður fram á með fullnægjandi hætti að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum.
    Ferðamaður skal greiða fyrir dvöl í sóttvarnahúsi skv. 1. mgr.
    Umsókn um undanþágu skal hafa borist sóttvarnalækni a.m.k. tveimur sólarhringum fyrir komu til landsins. Ferðamaður sem fær undanþágu til að vera í sóttkví í húsnæði á eigin vegum skal vera undir sams konar eftirliti eins og um sóttvarnahús á vegum stjórnvalda væri að ræða og á eigin kostnað.
    Sóttvarnalækni er heimilt að fella niður kostnað skv. 2. og 3. mgr. ef greiðsla hans yrði verulega íþyngjandi fyrir einstakling vegna fjárhagsstöðu hans eða félagslegra aðstæðna.

Greinargerð.

    Líf og heilsa landsmanna verður að vera í fyrsta sæti og skal tryggja það með öllum tiltækum ráðum. Hér er lagt til að dvöl í sóttvarnahúsi undir eftirliti verði skylda sem allir ferðamenn þurfi að virða nema þá aðeins að þeir dvelji í sóttkví í húsnæði á eigin vegum undir eftirliti. Markmiðið er að koma í veg fyrir ónauðsynlegar ferðir fólks um landamærin.