Ferill 611. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1287  —  611. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Söru Elísu Þórðardóttur um mat á árangri af sóttvarnaaðgerðum.


     1.      Er metinn árangur af mismunandi sóttvarnaaðgerðum, þ.e. af því að hefta útbreiðslu kórónuveiru annars vegar og að minnka skaðsemi hennar hins vegar, og ef svo er, hvernig fer það mat fram?
    Já. Mat á útbreiðslu fer fram með greiningu á COVID-19 á landsvísu. Mat á skaðsemi fer fram með mælingum á fjölda innlagna á sjúkrahús, fjölda innlagna á gjörgæsludeild, fjölda sem þarf á öndunarvél að halda og fjölda dauðsfalla. Auk þess standa yfir rannsóknir til að kanna heilsufarslegar langtímaafleiðingar þeirra sem smitast hafa af COVID-19.

     2.      Hvaða ályktanir má draga af fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum um árangur einstakra aðgerða?
    Þar sem margar aðgerðir standa yfir samtímis á hverjum tíma er erfitt að meta árangur einstakra aðgerða. Hins vegar er hægt að segja að þegar aðgerðum var beitt gegn þriðju bylgjunni virkuðu vægar samfélagslegar aðgerðir ekki, né heldur markvissar aðgerðir sem beitt var á höfuðborgarsvæðinu. Það var ekki fyrr en hörðum almennum samfélagslegum aðgerðum var beitt að árangur sást. Auk þess hefur alltaf verið lögð áhersla á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

     3.      Hvaða áhrif hafa upplýsingar um árangur einstakra sóttvarnaaðgerða haft á ákvarðanir um frekari aðgerðir? Að hve miklu leyti er horft til fenginnar reynslu þegar teknar eru ákvarðanir um nýjar aðgerðir?
    Aðgerðir sem beitt hefur verið byggjast á fyrri reynslu svo fremi að reynslan sé fyrir hendi. Reynslan af aðgerðum í þriðju bylgju faraldursins var notuð vegna hópsýkinga og byrjandi bylgju á undangengnum vikum.

     4.      Að hve miklu leyti byggjast ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir á gögnum frá erlendum stofnunum á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Sóttvarnastofnun Evrópu annars vegar og á reynslu af aðgerðum innan lands hins vegar?
    Litið er til tilmæla og leiðbeininga frá alþjóðlegum stofnunum, t.d. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Sóttvarnastofnun Evrópu, en aðstæður eru oft ólíkar milli landa. Lítil alþjóðleg reynsla var fyrir hendi við upphaf faraldursins um það hvernig bregðast ætti við heimsfaraldri en sú reynsla og þekking hefur byggst upp jafnt og þétt.

     5.      Skortir mannafla og/eða fjármagn til að stunda innlenda gagnaöflun og rannsóknir á gagnsemi sóttvarnaaðgerða?
    Lítil reynsla var fyrir hendi við upphaf faraldursins um það hvernig bregðast ætti við heimsfaraldri og hvaða aðgerðir væru líklegar til að skila mestum árangri. Sjá má fyrir sér að næstu ár verði áhersla lögð á gagnaöflun og rannsóknir á gagnsemi sóttvarnaaðgerða, bæði innan lands og á alþjóðavísu, til að vera betur búin undir áskoranir í framtíðinni. Gera má ráð fyrir því að vísindasamfélagið, háskólasamfélagið og alþjóðastofnanir á sviði heilsu og sóttvarna verði leiðandi í þessu hlutverki.