Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1288  —  687. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um meðferð barna og unglinga sem upplifa kynmisræmi hjá transteymi barna- og unglingageðdeildar Landspítala.

     1.      Hversu mjög hefur færst í vöxt að börn og unglingar leiti til transteymis barna- og unglingageðdeildar Landspítala og hljóti meðferð vegna kynmisræmis? Óskað er eftir yfirliti yfir fjölda tilfella á ári undanfarin tíu ár og hlutfallslega heildaraukningu þann tíma.
    Frá 2011 hafa 83 börn fengið meðferð vegna kynmisræmis hjá göngudeild Barna- og unglinga geðdeildar (BUGL). Sundurliðun eftir árum má sjá í töflu hér á eftir.
    Það sem af er ári hafa 42 börn alls verið í virkri meðferð á BUGL.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hversu margir hafa skjólstæðingar sem eru líffræðilega kvenkyns verið á móti þeim sem eru líffræðilega karlkyns hvert ár undanfarin tíu ár?
    Fjölda skjólstæðinga á hverju ári undanfarin tíu ár sem eru líffræðilega kvenkyns samanborið við þá sem eru líffræðilega karlkyns má sjá í töflu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Líffræðilegt kyn við upphaf meðferðar alls hópsins er þannig að stúlkur eru 55 og drengir 28. Ekki er unnt að aðgreina tölur fyrir tímabilið 2011–2015 vegna persónuverndarsjónarmiða sökum fámennis.

     3.      Hversu margir þeirra sem leitað hafa til teymisins hafa einnig verið greindir með aðra geð- og taugaröskun?
    Af þessum 83 börnum voru 73 börn með einhverja aðra geð- og taugaröskunargreiningu skráða við komu á göngudeild BUGL.

     4.      Hver er meðalaldur barna og unglinga sem hefja inntöku á stopphormónum og hversu gömul eru yngstu börnin sem hljóta þessa meðferð?
    Flest börn sem fá meðferð til að stöðva samskipti milli heiladinguls og kynkirtla eru búin að ná eða eru að klára kynþroska. Ábending er þá t.d. um að stöðva tíðablæðingar hjá transdrengjum. Flest börn sem upplifa kynmisræmi koma í meðferð í og eftir kynþroska. Þau börn sem leita til transteymis BUGL fyrir kynþroska eru fá en þá er ábendingin að hindra önnur kyneinkenni líffræðilegs kyns, svo sem brjóst hjá trans-dreng. Í báðum tilfellum er slík meðferð einungis gefin eftir að BUGL hefur rannsakað börnin.

     5.      Hversu margir þeirra sem leita til teymisins hefja meðferð með stopphormónum? Hversu mörg börn og unglingar hafa hafið meðferð með stopphormónum árlega undanfarin tíu ár?
    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala er ekki til tölfræði yfir þá sem hafa hafið eða verið í þessari meðferð.

     6.      Hversu margir þeirra sem hefja inntöku stopphormóna hefja síðar meðferð með krosshormónum?
    Samkvæmt upplýsingum frá transteymi BUGL vill meiri hluti þeirra sem byrjar á stopphormónum síðan fá krosshormón. Fagaðilar í transteymi BUGL ákveða hvort skilyrðum er fullnægt.

     7.      Hversu margir þeirra sem leita til teymisins hefja meðferð með krosshormónum án þess að hafa áður verið á stopphormónum?
    Samkvæmt upplýsingum frá transteymi BUGL er það ekki meðferðarvenja í barnatransteymum að nota krosshormón beint, stopphormón og krosshormón eru þá notuð saman.

     8.      Hvaða upplýsingar koma fram í skjali um upplýst samþykki fyrir hormónameðferð?
    Slíkt skjal er í vinnslu hjá transteymum Landspítala, bæði barna og fullorðinna.

     9.      Hvaða önnur meðferð en hormónameðferð er veitt hjá teyminu?
    Meðferð hjá transteymi BUGL felst m.a. í því að tryggja geðrænan stöðugleika og betri líðan samhliða fræðslu og ráðgjöf vegna kynmisræmis hjá börnum og unglingum.
    Öll börn, sem vísað er til transteymis BUGL, fara í gegnum frumgreiningu og skimun í nærumhverfi og áframhaldandi greiningarferli á BUGL vegna geð- og þroskaraskana. Hvert mál er einstakt og því þarf að gera einstaklingsmiðaða meðferðaráætlun. Meðferð sem er veitt getur verið margvísleg og er háð því hvort geð- og þroskaraskanir eru til staðar. Sum börn þarfnast aðkomu ýmissa meðferðarúrræða, svo sem fjölskyldu-, hóp- og einstaklingsmeðferða. Flest börn fá jafnframt stuðningsviðtöl á BUGL eða annars staðar.

     10.      Hver sér um formlega skráningu aukaverkana er koma í ljós við hormónameðferð, í ljósi þess að slík meðferð er veitt án samþykktrar ábendingar?
    Löng reynsla vegna notkunar kynhormóna er til staðar, þegar markmiðið er að hefja kynþroska hjá börnum sem ekki geta gert það af sjálfsdáðum eða eru með seinkaðan kynþroska, sér í lagi drengir. Meðferðin er mjög örugg. Aukaverkanir eru þær sömu og við eðlilegan kynþroska.
    Blokk-(stopphormón)-meðferð hefur einnig verið notuð við snemmþroska hjá börnum í marga áratugi. Afar fátíðar aukaverkanir eru af henni, þyngdaraukning er þekkt en með góðri upplýsingagjöf og eftirfylgd hefur sú aukaverkun ekki reynst íþyngjandi.