Ferill 642. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1310  —  642. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (innleiðing evrópskra gerða og endurbótaáætlanir).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnlaug Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Umsögn barst frá Byggðastofnun.
    Frumvarpið er liður í innleiðingu tilskipunar 2013/36/ESB um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærniseftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum, CRD IV, og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, CRR. Í greinargerð frumvarpsins segir að fjármála- og efnahagsráðherra hafi í október 2020 skipað starfshóp til að ljúka innleiðingu CRD IV með síðari breytingum. Ekki náist að leggja frumvarpið fyrir Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi. Eru því lagðar til afmarkaðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem brýnt er að taki gildi fyrir haustið 2021.
    Lagðar eru til breytingar á lögunum til að gera ráðherra og Seðlabanka Íslands kleift að innleiða reglugerð (ESB) 2019/630, sem oft er nefnd NPE (e. Non-Performing Exposures), og reglugerð (ESB) 2019/876, sem oft er nefnd CRR II, og fáeinar undirgerðir sem breyta CRR-reglugerðinni.
    Þá er lagt til að Byggðastofnun og Lánasjóður sveitarfélaga ohf. verði undanþegin skyldu til að vinna endurbótaáætlanir.
    Í umsögn Byggðastofnunar segir að stofnunin telji mikilvægt að gætt sé að sérstöðu hennar innan fjármálageirans og að íþyngjandi kröfur sem gerðar eru til kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja og banka séu ekki lagðar á stofnunina að óþörfu.
    Nefndin leggur til að efnisgreining í heiti frumvarpsins verði stytt auk þess sem lagðar eru til nokkrar breytingar tæknilegs eðlis sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „markaðsvirðis“ í m-lið 2. tölul. 3. gr. komi: markaðsvirði.
     2.      Við 6. gr. bætist nýr töluliður, 1. tölul., svohljóðandi: Orðið „og“ í lok c-liðar 2. mgr. og g-liðar 3. mgr. falli brott.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (innleiðing, endurbótaáætlanir).


    Smári McCarthy og Oddný G. Harðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Þórarinn Ingi Pétursson.