Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1314  —  80. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum (kynjahlutföll).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson og Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur frá lagaskrifstofu Alþingis, Daníel E. Arnarsson frá Samtökunum '78, Jón Fannar Kolbeinsson frá Jafnréttisstofu og Tatjönu Latinovic og Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, Samtökunum '78 og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögum um þingsköp Alþingis verði breytt til samræmis við jafnréttislög þannig að kynjahlutföll í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum Alþingis verði sem jöfnust.

Vísiregla (1. og 2. gr.).
    Í 1. og 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú vísiregla að við kosningu í forsætisnefnd og við skipun fastanefnda þingsins skuli gætt að hlutfalli kynjanna þannig að það sé eins jafnt og niðurstöður alþingiskosninga og kynjahlutföll þingflokka bjóða.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að í ljósi sérstöðu forsætisnefndar ætti að mæla fyrir með fortakslausum hætti um jafnt kynjahlutfall og tryggja að hlutfall kvenna verði aldrei minna en 40%.
    Í þessu samhengi tekur meiri hlutinn fram að framkvæmd ákvæðanna takmarkast við hlutfall kynjanna á Alþingi á hverjum tíma, án þess að jafnvægi þingflokka verði raskað, og geyma ekki skyldur fyrir þingflokka. Þau sjónarmið liggja að baki kosningu forsætisnefndar og kosningu fastanefnda en jafnframt á samsetning þingsins að endurspegla styrkleika þingflokka sem eiga sæti á Alþingi. Þó hefur nú þegar verið framfylgt slíkri vísireglu um jafnt kynjahlutfall innan þingsins eftir því sem kostur hefur verið en að auki þarf að taka tillit til fleiri sjónarmiða en kynferðis, svo sem áhugasviðs þingmanns eða hvar styrkleikar hans eru.
Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að 2. gr. frumvarpsins tryggi að gætt verði að kynjahlutfalli við fyrstu nefndarkosningar að loknum alþingiskosningum en ekki ef um er að ræða breytingu á nefndarskipan á kjörtímabilinu. Að auki þarf að tryggja jöfn kynjahlutföll við skiptingu formannsembætta milli þingflokka sem og við kosningu formanna alþjóðanefnda. Enn fremur þarf að tryggja að formenn nefnda og varaformenn séu ekki af sama kyni.
    Meiri hlutinn bendir á að vísireglan er ekki takmörkuð við val í nefndir á fyrsta þingi eftir alþingiskosningar heldur þurfi að gæta að kynjahlutföllum í nefndir eftir því sem líður á kjörtímabil og breytingar verða á skipan nefnda. Þá þurfi að hafa í huga samspil ákvæða frumvarpsins og hlutfallskosninga með þeirri aðferð sem kennd er við d'Hondt, sbr. 82. gr. þingskapa, sem og styrks hvers þingflokks.
    Fyrir nefndinni var einnig bent á að í 1. og. 2. gr. frumvarpsins væri á engan hátt fjallað um fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn tekur fram að ljóst er að 1. og 2. gr. frumvarpsins miða að því að jafna þátttökumöguleika og áhrif þessara tveggja hópa, karlkyns og kvenkyns, í samfélaginu. Þrátt fyrir að ákvæði 1. og 2. gr. frumvarpsins geymi ekki fortakslausa reglu eins og er í 3. gr. frumvarpsins telur meiri hlutinn hins vegar rétt að 1. og 2. gr. frumvarpsins endurspegli þann veruleika að kynin eru sannarlega fleiri en tvö. Meiri hlutinn leggur þess vegna til breytingar þess efnis að gætt skuli að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.
    Meiri hlutinn telur réttast að gerðar verði sambærilegar breytingar á 2. mgr. 1. gr. þingskapa og kveðið er á um í 1. og 2. gr. frumvarpsins, þannig að þess sé gætt að hlutfall kvenna og karla í kjörbréfanefnd verði eins jafnt og niðurstöður alþingiskosninga og kynjahlutföll innan þingflokka bjóða. Þá skuli gæta að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Í þessu samhengi áréttar meiri hlutinn að um sérnefndir gilda sömu reglur og um fastanefndir eftir því sem við á, sbr. 32. gr. þingskapa. Þannig skuli gætt að hlutfalli kynja við kosningu í sérnefndir sem og að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns.

Nefndir, ráð og stjórnir á vegum Alþingis (3. gr.).
    Með 3. gr. frumvarpsins er lögð til sú fortakslausa regla að við kosningu nefnda, ráða og stjórna á vegum Alþingis og í önnur opinber ráð og stjórnir skuli þess gætt að hlutfall kvenna og karla sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Það kemur ekki í veg fyrir kosningu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Hlutfall kvenna skal þó aldrei vera minna en 40%.
    Við meðferð málsins var bent á mikilvægi þess að komið verði upp gagnsæju ferli til að tryggja jöfn kynjahlutföll. Meiri hlutinn tekur fram að í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að leitað verði leiða á vettvangi þingflokksformanna til að hlutfall kvenna og karla á listum sem kjósa skal um skv. 82. gr. þingskapa verði sem jafnast. Þar kemur fram að verkefnið er gerlegt þannig að hægt verði að samræma tilnefningar þingflokka í utanþingsnefndir fyrir kosningu þeirra. Meiri hlutinn telur því ekkert til fyrirstöðu að þingflokksformenn taki til skoðunar hvort tilefni er til að koma upp einhverju ferli með það að markmiði að tryggja jöfn kynjahlutföll. Í þessu samhengi bendir meiri hlutinn einnig á að á vef Alþingis er að finna hverjir eru kosnir af Alþingi í stjórnir, nefndir og ráð.
    Í 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 82. gr. þingskapa. Í 1. og 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 14. gr. þingskapa. Þá leggur meiri hlutinn til sambærilegar breytingar á 1. gr. laganna og er að finna í 1. og 2. gr. frumvarpsins. Í þessum ákvæðum er vísað til 82. gr. laganna. Ákvæði 1., 3. og 14. gr. þingskapa teljast sérreglur gagnvart almennu reglunni um hlutfallskosningu í 82. gr. laganna. Meiri hlutinn telur aftur á móti réttast að áréttað verði í 3. gr. frumvarpsins að hin fortakslausa regla um jafnt kynjahlutfall eigi ekki við um kosningu í forsætisnefnd, fastanefndir, alþjóðanefndir og kjörbréfanefnd og leggur til breytingar þess efnis.

Norðurlönd.
    Í þingsköpum norrænna þjóðþinga eru ekki ákvæði um kynjahlutföll í fastanefndum eða öðrum nefndum. Verði frumvarpið að lögum verður Alþingi fyrsta þjóðþingið á Norðurlöndum til að mæla fyrir um sjónarmið um kynjahlutföll í þingsköpum.
    Að öllu framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við bætist ný grein, 1. gr., svohljóðandi:
                      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þess skal gætt að hlutfall kvenna og karla sé eins jafnt og niðurstöður alþingiskosninga og kynjahlutföll innan þingflokka bjóða. Gætt skal að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.
     2.      Við 1. og 2. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gætt skal að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.
     3.      Við 1. efnismálsl. 3. gr. bætist: sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 14. gr.

Alþingi, 29. apríl 2021.

Páll Magnússon,
form., með fyrirvara.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Olga Margrét Cilia,
með fyrirvara.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.