Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1315  —  365. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, lögum um dómstóla, lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði (eftirlit með lögreglu, lögregluráð o.fl.).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Ólafsson, Valgerði Maríu Sigurðardóttur og Dagmar Sigurðardóttur frá dómsmálaráðuneyti, Árna Múla Jónasson frá Íslandsdeild Transparency International, Ólaf Þór Hauksson frá héraðssaksóknara, Skúla Þór Gunnsteinsson, Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur og Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur frá nefnd um eftirlit með lögreglu og Þórð Sveinsson og Gyðu Ragnheiði Bergsdóttur frá Persónuvernd.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á meðferð mála hjá nefnd um eftirlit með lögreglu og kveðið á um samvinnu lögreglu annars vegar við innlend stjórnvöld, félagasamtök og einkaaðila og hins vegar við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir. Þá er lagt til að starfsemi lögregluráðs verði lögfest og hæfnisnefnd lögreglu lögð niður sem og lagðar til minni háttar breytingar á hæfisskilyrðum lögreglustjóra, sýslumanna og héraðsdómara.

Umfjöllun nefndarinnar.
Samvinna lögreglu við önnur stjórnvöld og stofnanir og aðra aðila (5. gr.).
    Með 5. gr. frumvarpsins er ætlunin að lögfesta enn skýrar heimild lögreglu til að skiptast á upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum, við þau stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og einkaaðila sem hún er í samstarfi við á grundvelli lögbundins hlutverks síns. Ákvæðinu er ætlað að vera til fyllingar hinu almennara ákvæði 41. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019, ætti að fela í sér fullnægjandi heimildir í þessu sambandi en þar væri kveðið á um heimild lögreglu til að miðla persónuupplýsingum til annarra opinberra aðila og einkaaðila í löggæslutilgangi þegar brýna nauðsyn beri til og miðlunin varði hagsmuni sem bersýnilega séu ríkari en réttur hins skráða til verndar.
    Í þessu samhengi bendir meiri hlutinn á að heimild skv. 2. mgr. 8. gr. laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi er mun þrengri en sú heimild sem lögð er til í 5. gr. frumvarpsins. Ástæða þess er sú að heimild skv. 2 mgr. 8. gr. laganna tekur til mun fleiri stofnana og stjórnvalda en lögreglu og undir heimildina eiga aðeins tilvik sem kveðið er sérstaklega á um í reglugerð og önnur tilvik þar sem afar brýnt er að miðla upplýsingum. Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimildir lögreglu til að eiga samstarf við önnur stjórnvöld og einkaaðila, þar á meðal heimild til að skiptast á upplýsingum, og því eiga önnur sjónarmið við heldur en í þeim tilvikum sem 2. mgr. 8. gr. laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi tekur til. Lögregla hefur löngum átt samstarf við þessa aðila og þurft að skiptast á upplýsingum, m.a. persónuupplýsingum, og með 5. gr. frumvarpsins á að festa þá heimild með skýrum hætti. Hér er því um að ræða eðlisólíkar miðlunarheimildir sem taka ekki til sömu aðila. Meiri hlutinn telur því ekki 2. mgr. 8. gr. laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi fela í sér fullnægjandi heimildir í þessum efnum.

Hlutverk eftirlitsnefndar (8. gr.).
    Nokkuð var rætt um skyldu ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjóra, þ.m.t. ríkislögreglustjóra, til að afhenda nefnd um eftirlit með störfum lögreglu þær upplýsingar sem hún þarf til að sinna starfsskyldum sínum, sbr. 5. mgr. 35. gr. a lögreglulaga, nr. 90/1996, og 6. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Fram komu sjónarmið um að svo virðist sem að embættin átti sig ekki á afhendingarskyldunni sem á þeim hvílir samkvæmt lögunum og þá fari mikill tími í gagnaöflun frá lögregluembættunum. Því þyrfti að kveða skýrt á um þá skyldu og undantekningar þar á ef einhverjar væru.
    Meiri hlutinn bendir á að skv. 6. mgr. 8. gr. frumvarpsins yrði texti 5. mgr. 35. gr. lögreglulaga óbreyttur frá því sem nú er og telur ákvæðið vera skýrt um afhendingarskyldu embættanna. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að nefndin geti sinnt starfsskyldum sínum og fái þær upplýsingar sem hún þarf. Í þessu samhengi telur meiri hlutinn mikilvægt að embættin sem í hlut eiga séu meðvituð um hlutverk nefndarinnar.

Tilmæli og skuldbindingar á alþjóðavettvangi.
    Á fundum nefndarinnar var bent á mikilvægi þess að farið væri eftir tilmælum Samtaka ríkja gegn spillingu á vegum Evrópuráðsins (GRECO) sem og að íslenska ríkið framfylgi með fullnægjandi hætti þeim alþjóðlegum skuldbindingum sem það hefur gengist undir, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
    Meiri hlutinn bendir á að ýmis vinna er í gangi til að bregðast við þeim tilmælum sem hafa komið fram í úttektum. Frumvarp þetta er liður í því að bregðast við tilmælum er varða skipulag lögreglunnar sem og að skýra og efla hlutverk lögreglu í alþjóðlegu samstarfi.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Samvinna lögreglu við önnur stjórnvöld og stofnanir og aðra aðila (5. gr.).
    Meiri hlutinn leggur til að sameina málsgreinar 5. gr. frumvarpsins í eina þar sem meiri hlutinn telur betur fara á því að fjallað sé um samvinnu lögreglu við önnur stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og einkaaðila í einni málsgrein. Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á fyrirsögn 11. gr. laganna til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðinu.

Samstarf við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir (6. gr.).
    Í 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um samstarf við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir. Skv. 1. mgr. ákvæðisins er ríkislögreglustjóra, öðrum lögreglustjórum og héraðssaksóknara, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að taka á móti erlendum lögreglumönnum. Í sama tilgangi sé ríkislögreglustjóra og öðrum lögreglustjórum, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að senda lögreglumenn tímabundið til starfa erlendis. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um samkvæmt framangreindu væri héraðssaksóknara heimilt að taka á móti erlendum lögreglumönnum en ekki heimilt að senda íslenska lögreglumenn með sama hætti til starfa erlendis. Til að gæta samræmis leggur meiri hlutinn til að héraðssaksóknara verði einnig veitt slík heimild, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra.
    Skv. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins verður lögreglu sérstaklega heimilað að miðla upplýsingum úr ökutækjaskrá og upplýsingum um erfðaefni og fingraför til erlendra lögregluyfirvalda í löggæslutilgangi. Jafnframt verður lögreglu heimilt að miðla öðrum persónuupplýsingum sem tengjast þessum upplýsingum beint, eftir atvikum í samræmi við ákvæði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að veita nauðsynlega lagastoð fyrir því að unnt verði að innleiða efni samnings um þátttöku Íslands við að efla evrópskt lögreglusamstarf yfir landamæri, einkum í baráttunni gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi yfir landamæri, svonefnt Prüm-samkomulag, auk samnings um aðgang íslenskra löggæsluyfirvalda að evrópska fingrafaragrunninum (Eurodac). Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að mæla ætti fyrir um að umrædd vinnsla sé einungis heimil að því marki sem nauðsynlegt væri til að ná áætluðum tilgangi. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið og leggur til breytingar þess efnis.

Meðferð kæru á hendur starfsmanni lögreglu (9. gr.).
    Í 9. gr. frumvarpsins er kveðið á um rannsókn brota þar sem starfsmaður lögreglu er grunaðar um refsiverða háttsemi við framkvæmd starfa hans og utan starfs. Einnig um rannsókn á atvikum þegar maður lætur lífið, hann verður fyrir stórfelldu líkamstjóni eða lífi manns er hætta búin, í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að lögreglustjórum beri að vekja athygli héraðssaksóknara á ætluðum brotum starfsmanna sinna eða framangreindum atvikum. Nefndinni var bent á að kveða þyrfti á með skýrum hætti um slíka tilkynningarskyldu. Meiri hlutinn leggur til breytingar þess efnis á 9. gr. frumvarpsins.

Gildistaka o.fl. (12. gr.).
    Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2021. Í ljósi þess að það tímamark er liðið leggur meiri hlutinn til breytingar þess efnis að lögin öðlist þegar gildi. Auk þess leggur meiri hlutinn til breytingar sem eru tæknilegs eðlis sem og minni háttar orðalagsbreytingar og er þeim ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins.
    Að öllu framangreindu virtur leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 3. gr.
                  a.      1. málsl. 1. mgr. falli brott.
                  b.      Í stað orðsins „ráðinu“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: lögregluráði.
     2.      5. gr. orðist svo:
             Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
              a.      2. mgr. orðast svo:
                     2. Lögregla skal, eftir því sem þörf er á, hafa gagnkvæmt samstarf við önnur stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og einkaaðila við lögreglurannsóknir, framkvæmd löggæslu og önnur verkefni. Er lögreglu og samstarfsaðilum heimilt að skiptast á upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum, að því marki sem nauðsynlegt er, til að lögregla eða samstarfsaðili geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Sérstaklega skal lögregla vinna með félagsmála-, heilbrigðis- og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra.
              b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samvinna lögreglu við önnur stjórnvöld og stofnanir og aðra aðila.
     3.      Við 6. gr.
                  a.      5. málsl. 1. mgr. orðist svo: Í sama tilgangi er ríkislögreglustjóra, öðrum lögreglustjórum og héraðssaksóknara, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að senda lögreglumenn tímabundið til starfa erlendis.
                  b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að miðla framangreindum upplýsingum að því marki sem nauðsynlegt er til að ná áætluðum tilgangi.
     4.      Á eftir b-lið 7. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað tilvísunarinnar „a–e-liða 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: b–e-liða 2. mgr.
     5.      Við 9. gr.
                  a.      Í stað orðanna „brot varði við“ í 2. mgr. komi: varði brot gegn.
                  b.      Í stað orðsins „sbr.“ í 5. mgr. komi: skv.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     6. Lögreglustjórum ber að vekja athygli héraðssaksóknara á ætluðum brotum starfsmanna sinna skv. 1. málsl. 1. mgr. eða á atvikum skv. 2. málsl. 1. mgr.
     6.      12. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast þegar gildi.

Alþingi, 29. apríl 2021.

Páll Magnússon,
form.
Birgir Ármannsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.