Ferill 649. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1319  —  649. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um tófu og mink.


    Tófan, refurinn, melrakkinn, hvaða nafni sem við kjósum nefna þetta merka dýr, er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi og nam hér land löngu áður en menn settust hér að. Refurinn er því órjúfanlegur hluti íslenskrar náttúru og sérstakur vegna langvarandi einangrunar frá öðrum refastofnum. Melrakkinn er norðurheimskautsdýr og hefur honum fækkað verulega í öllum heimkynnum sínum. Refur nýtur almennra friðunarákvæða laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, en ráðherra hefur að hluta til aflétt þeirri friðun og heimilað veiðar í því skyni að draga úr og minnka hættuna á tjóni af hans völdum. Aldrei hefur þó verið lagt mat á tjón né hvort veiðar hafi þar einhver áhrif.
    Minkar eru ágeng framandi tegund í íslenskri náttúru. Þeir voru fyrst fluttir til landsins árið 1931 til feldiðnaðar og sluppu þeir fyrstu úr ræktun árið eftir. Það tók minkinn aðeins rúm 40 ár að nema öll þau svæði hér á landi sem á annað borð eru lífvænleg fyrir tegundina. Minkur nýtur ekki friðunar samkvæmt ákvæðum laga nr. 64/1994 og veiðar eru stundaðar á honum um allt land.
    Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun íslenska refastofnsins. Árið 2019 var undirritaður samningur af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við Náttúrustofu Vesturlands um rannsóknir og vöktun minkastofnsins til tveggja ára.

     1.      Hefur viðgangur tófu og minks verið rannsakaður undanfarin ár?
    Vöktun íslenska refastofnsins hefur staðið yfir frá árinu 1979. Fylgst er með viðkomu stofnsins en henni má deila í tvo þætti, annars vegar hlutfall kvendýra sem tímgast og hins vegar frjósemi þeirra kvendýra sem tímgast. Fyrrnefndi þátturinn er oft nefndur geldhlutfall og það er lykilþáttur þegar kemur að náttúrulegri stofnstærðarstjórnun refa á Íslandi. Þegar stofninn tók að vaxa eftir að hafa verið í lágmarki um og eftir 1980 stækkaði hann nærri því tífalt til ársins 2008. Í stuttu máli má segja að viðkoma hafi þá verið mun hærri en dánartíðni. Munaði þá mestu um að hærra hlutfall kynþroska læða tók þátt í tímgun, jafnvel þær allra yngstu. Fjöldi yrðlinga í hverju goti, þ.e. frjósemin, er aftur á móti óvenju reglubundinn hjá íslenskum refalæðum og sveiflast ekki í takt við stofnbreytingar.
    Frá stofnun embættis veiðistjóra árið 1958 hafa minkaveiðar á vegum ríkis og sveitarfélaga verið nokkuð vel skráðar og nýttar til rannsókna. Vegna þess að fyrirkomulag veiðanna hefur haldist nokkuð stöðugt hafa sveiflur í fjölda veiddra minka á milli ára verið taldar gefa vísbendingar um raunverulegar sveiflur í fjölda minka. Stærð íslenska minkastofnsins er óþekkt. Árin 2001, 2002 og 2006 mældi Náttúrustofa Vesturlands fjölda minka á Snæfellsnesi með merkingum og endurheimtum. Breytileiki á milli ára virðist samkvæmt þessu vera töluverður en þessi sveifla er í góðu samræmi við sveiflur í veiðitölum. Náttúrustofa Vesturlands hefur stundað rannsóknir á minkum undanfarna tvo áratugi. Gróflega má skipta þessum rannsóknum í tvennt. Annars vegar rannsóknir á einstökum minkum, atferli þeirra og landnotkun og hins vegar rannsóknir á íslenska minkastofninum, einkum með söfnun sýna úr afla veiðimanna víða um land. Báðar aðferðirnar eru mjög mikilvægar til að auka skilning á líffræði tegundarinnar við íslenskar aðstæður og þeim þáttum sem hafa áhrif á stærð og sveiflur í íslenska minkastofninum.

     2.      Hvaða áhrif hefur bann við veiðum á mink og tófu í þjóðgörðum á stofnstærð minks annars vegar og tófu hins vegar?
    Ekki er um fortakslaust bann við veiðum á tófu í þjóðgörðum að ræða. Til dæmis eru refaveiðar stundaðar innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli eru 25 þekkt greni og hafa þrjú til sex af þeim verið í ábúð undanfarin ár og þeim ekki fjölgað þrátt fyrir að refur sé ekki veiddur innan þjóðgarðsins.
    Friðlandið á Hornströndum er ekki þjóðgarður en rétt er að nefna það í þessu samhengi þar sem Hornstrandir eru líklega mikilvægasta griðland refa á Íslandi og hann verið friðaður þar gegn veiðum frá árinu 1995. Á Hornströndum eru um 170 greni þekkt og voru líklega um 45–50 þeirra í ábúð á árunum 1998–2014. Þó að ekki hafi verið lagt mat á stofnstærð fyrir og eftir friðun liggja fyrir tölur um grenjavinnslu frá 1958. Allt bendir til þess að stofnstærð refa á Hornströndum hafi verið í takt við landið í heild óháð því að veiðar á honum hafi ekki verið stundaðar á svæðinu frá árinu 1995.
    Minkur er veiddur um allt land, líka á friðlýstum svæðum, þar á meðal í þjóðgörðum, enda er minkur eins og áður sagði ágeng framandi tegund og ógn við annað dýralíf á þeim svæðum.

     3.      Hafa tófa og minkur áhrif á viðgang mófugla og bjargfugla?
    Bein áhrif minks á bráðarstofna hafa lítið verið rannsökuð á Íslandi. Landið hýsir gríðarlega stóra stofna mófugla og verður að telja frekar ólíklegt að minkur hafi haft umtalsverð áhrif á stærð stofna þeirra, þótt neikvæð áhrif geti komið fram staðbundið og/eða tímabundið. Sömuleiðis á minkur yfirleitt erfitt með að veiða bjargfugla vegna lífshátta fuglanna og staðsetningar hreiðra þeirra. Neikvæð áhrif minks á fugla eru því væntanlega fyrst og fremst á stofna votlendisfugla annars vegar, og hins vegar fugla sem verpa í þéttum byggðum á láglendi; sérstaklega þær tegundir sem verpa í holur, t.d. teistu og lunda. Minkurinn er þó talinn eiga sinn þátt í útrýmingu keldusvínsins, ásamt viðamiklum aðgerðum mannsins við framræslu votlendis í landbúnaði. Þá er þekkt að minkur getur valdið usla í æðarvörpum komist hann í þau, enda flinkur afræningi sem á sér ekki náttúrulega óvini hér á landi.
    Tófan var komin hingað á undan manninum og er órjúfanlegur hluti af íslenskum vistkerfum sem landnámsspendýr, vistkerfum sem bæði mófuglar og bjargfuglar búa í. Þessir dýrahópar hafa haft langan tíma til að aðlagast hverjir öðrum. Kannski má segja að viðgangur bjarg- og mófuglategunda sé að einhverju leyti stilltur inn á kerfi þar sem er afrán af völdum gangandi og fljúgandi rándýra og -fugla og varp bjargfugla er einmitt einkennandi fyrir slíka aðlögun. Ekki hefur þó með rannsóknum verið sýnt fram á neikvæð áhrif á viðgang eða stofnstærð mófugla eða bjargfugla af völdum refa hér á landi og mikilvægt er að gera á því frekari rannsóknir.

     4.      Hversu mikið af mink annars vegar og tófu hins vegar hefur verið veitt árlega undanfarin tíu ár?
    Umhverfisstofnun safnar upplýsingum um veiðar á villtum dýrum. Á tíu ára tímabili, 2008–2017, voru veiddir um 6.000–8.500 refir og 2.700–6.700 minkar árlega. Þess ber að geta að refir eru veiddir allt árið um kring og fengnum er skipt eftir því hvort um fullorðin dýr eða yrðlinga er að ræða. Útgefnar veiðitölur stofnunarinnar eru því heildartölur og íslenski refastofninn er talinn vera um 7.500 fullorðin dýr. Af veiðitölunum að dæma, sem eru 6.000–8.500 refir árlega, sést að veiðiálagið er mjög hátt miðað við heildarstærð stofnsins en samt hefur stofninn haldist nokkurn veginn stöðugur á undanförnum árum. Hlutfall yrðlinga í heildarveiðinni er allt að 35%.

Tafla. Veiðar á ref og mink á árunum 2008–2017 samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun ( ust.is/veidi/veiditolur/). Um heildartölur er að ræða, bæði fullorðin dýr og ungviði.
Ártal Tegund Suðurland Vesturland Vestfirðir Norðvesturland Norðausturland Austurland Samtals á ári
2017 Refur 1.145 1.404 1.500 1.075 836 1.085 7.045
2016 Refur 1.082 1.684 1.676 1.337 810 1.288 7.877
2015 Refur 981 1.325 812 964 937 913 5.932
2014 Refur 1.142 1.546 1.522 1.354 863 1.130 7.557
2013 Refur 1.130 1.669 1.624 1.326 787 1.205 7.741
2012 Refur 1.032 1.671 1.794 1.613 784 1.102 7.996
2011 Refur 1.179 2.072 1.736 1.353 795 1.352 8.487
2010 Refur 1.211 1.633 1.862 1.341 645 1.097 7.789
2009 Refur 1.250 1.612 1.626 1.355 778 1.132 7.753
2008 Refur 1.284 1.800 1.544 1.275 883 1.196 7.982
2017 Minkur 509 1.270 363 324 366 609 3.441
2016 Minkur 498 1.153 655 451 151 615 3.523
2015 Minkur 435 866 385 378 246 424 2.734
2014 Minkur 510 1.087 626 641 293 555 3.712
2013 Minkur 746 933 822 454 254 441 3.650
2012 Minkur 761 1.037 933 576 356 583 4.246
2011 Minkur 1.007 1.313 733 403 469 787 4.712
2010 Minkur 1.264 1.374 1.036 534 351 758 5.317
2009 Minkur 1.225 1.728 729 1.064 575 671 5.992
2008 Minkur 1.332 1.719 1.231 844 751 796 6.673