Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1323  —  403. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni um refaveiðar.


     1.      Hver er stofnstærð íslenska refsins?
    Vöktun íslenska refastofnsins er langtímaverkefni sem hófst árið 1979 á vegum Páls Hersteinssonar, síðar veiðistjóra og prófessors hjá Háskóla Íslands. Eftir andlát Páls árið 2011 tók Melrakkasetur Íslands við keflinu en frá 2013 hefur vöktun refastofnsins verið í umsjón og á ábyrgð Náttúrufræðistofnunar Íslands. Samstarfsaðilar eru refaveiðimenn um land allt, Umhverfisstofnun, Náttúrustofa Vestfjarða og Náttúrustofa Austurlands.
    Íslenski refastofninn var síðast metinn um 8.700 dýr haustið 2018. Stærð íslenska refastofnsins er metin á nokkurra ára fresti og byggist að miklu leyti á gögnum sem safnað er í góðu samstarfi við veiðimenn um allt land. Við stofnmatið er notuð reikniaðferð sem felst í samlagningu á bakreiknaðri lágmarksstærð hvers árgangs veiðinnar sem hefur verið á lífi á hverju ári. Leiðréttingarstuðlar eru fengnir með uppreiknuðum líftöflum aftur í tímann sem gera kleift að áætla hlutfall dýra í hverjum árgangi sem enn eru á lífi. Vegna eðlis aðferðarinnar er ekki hægt að áætla stofnstærð allra síðustu ára með öruggum hætti, heldur verður að fara 3–5 ár aftur í tímann við útreikningana þegar búið er að aldursgreina úrtak veiðinnar. Sýni til aldursgreininga eru tekin fyrir lok nóvember ár hvert úr tönnum af innsendum hræjum og liggja niðurstöður yfirleitt fyrir í apríl. Þá er hægt að setja upp líftöflur og reikna úr þeim gögn í gagnagrunn vöktunarinnar.
    Stofnmat fyrir árin 1979–2007 var unnið af Páli Hersteinssyni og hafði íslenski refastofninn þá verið í samfelldum vexti í meira en 30 ár. Haustið 2014 var birt stofnmat sem náði fram til ársins 2010 og samkvæmt því fækkaði refum um 30% á árunum 2008–2010. Í janúar 2018 var síðan birt nýtt mat á stærð refastofnsins sem þá náði fram til ársins 2015 og staðfesti fyrri niðurstöður en gaf jafnframt til kynna að stofninn hafi haldið áfram að minnka og náð lágmarki árið 2012 en verið stöðugur upp frá því.
    Nú er unnið að því að meta stærð íslenska refastofnsins og eru til gögn til að meta stofninn með nægjanlegri vissu til ársins 2018. Samkvæmt niðurstöðum bráðabirgðamats var refastofninn 8.668 (öryggismörk: +/- 2.051,8) dýr að lágmarki haustið 2018 (mynd 1). Miðað er við stærð stofnsins að haustlagi en þá er nýliðun ársins lokið og öll veidd dýr skráð sem fullorðin.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Áætluð lágmarksstærð íslenska refastofnsins að haustlagi 1979–2018, með fyrirvara um breytingar. Lóðréttu línurnar sýna 95% öryggismörk en þau eru víðari eftir því hversu stór hluti árgangs er óþekktur eða ef mikill breytileiki er í gögnunum. Stofnmat til ársins 2007 var unnið af Páli Hersteinssyni.

    Í þessu bráðabirgðamati er bakreiknað aftur til ársins 1995 og er gott samræmi við eldra mat allt til ársins 2006 en ekki eftir það (sjá tilvísanir í neðanmáli). Svo virðist sem áður birt stofnstærð fyrir árin 2007 og 2008 hafi verið ofmat sem grundvallast á því að ekki voru næg gögn til að styðja við forsendur á öruggi mati á þeim tíma. Svo virðist sem yfirleitt sé það þannig að síðasta árið sé alltaf verulega ofmetið þegar þessari aðferð er beitt. Eftir sem áður bendir allt til þess að íslenski refastofninn hafi vaxið samfellt úr 1.200 dýrum árið 1979 í tæplega 9.000 dýr árið 2007. Eftir það fækkaði í stofninum og var lágmarkið árið 2011 alls 5.200 dýr. Síðan rétti refastofninn aftur úr kútnum og mældist aftur tæplega 9.000 dýr árið 2018 sem gæti þó vel verið ofmat samkvæmt fyrri reynslu.

     2.      Hver hefur árleg veiði á refum og yrðlingum verið undanfarin 10 ár?
    Síðasta stofnmat er byggt á aldursgreiningum 5.696 fullorðinna dýra sem veidd voru á tímabilinu 2000–2019 og er hver árgangur áætlaður í tólf ár, sem samsvarar hæsta skráða lífaldri refs á Íslandi. Alls voru veidd og skráð 75.143 fullorðin dýr og 38.420 yrðlingar á þessum 20 árum samkvæmt veiðitölum frá Umhverfisstofnun
    Árlega hafa að meðaltali veiðst 5.647 refir síðustu tíu árin. Á árunum 2011–2015 var árleg veiði á bilinu 4.000–5.132 refir en eftir 2015 hefur veiðin aukist hægt og bítandi í um 6.600 refi að meðaltali árlega og náði hámarki árið 2020 þegar 7.227 refir veiddust. Aukning í veiði á þessum tíma hefur verið nokkuð í samræmi við breytingu á stærð refastofnsins.
    Líkt og sjá má í meðfylgjandi töflu hafa alls 56.472 refir verið veiddir undanfarin tíu ár. Þar af eru 14.716 grendýr, 23.580 hlaupadýr og 18.176 yrðlingar. Árleg veiði grendýra er nokkuð breytileg frá tæpum eitt þúsund dýrum 2011 og 2012 en fer svo vaxandi með aukinni stofnstærð og hefur verið um 1.500–2.000 dýr síðust fjögur ár. Árleg veiði yrðlinga hefur verið á bilinu 1.200–2.250, innan við 2.000 dýr fram til 2016 en eftir það hefur veiðin vaxið og verið rúmlega 2.000 dýr á ári. Árleg veiði hlaupadýra er að jafnaði milli 2.000 og 3.000 dýr.

Árleg refaveiði 2011–2020 og kostnaður hins opinbera vegna hennar.

Ár Grendýr Yrðlingar Hlaupadýr Árleg veiði samtals Raunkostnaður sveitarfélaga Endurgreiðsla ríkis
2011 977 1.709 2.267 4.953 67.000.000
2012 980 1.478 1.544 4.002 61.000.000
2013 1.267 1.692 1.886 4.845 79.000.000
2014 1.535 1.492 2.105 5.132 89.746.981 21.674.628
2015 1.014 1.240 2.223 4.477 101.944.035 25.692.299
2016 1.466 1.940 2.970 6.376 100.841.449 27.997.877
2017 1.684 2.243 2.352 6.279 116.853.314 26.070.303
2018 2.148 1.892 2.428 6.468 108.432.006 24.579.491
2019 1.498 2.245 2.970 6.713 124.111.542 27.676.969
2020 2.147 2.245 2.835 7.227 133.583.510 27.677.495
Samtals 14.716 18.176 23.580 56.472 982.512.837 181.369.062

     3.      Hver er kostnaður hins opinbera vegna slíkra veiða?
    Undanfarin tíu ár hefur árlegur raunkostnaður sveitarfélaga vegna refaveiða vaxið úr um 60 millj. kr. í um 130 millj. kr., sbr. meðfylgjandi töflu. Á þessum tíu árum hefur heildarkostnaður verið 982.512.837 kr. Undanfarin sjö ár hefur ríkið endurgreitt sveitarfélögum hluta kostnaðar við refaveiðar, samtals 181.369.062 kr. Á árunum frá og með 2011 til 2013 voru engar fjárveitingar á fjárlögum til endurgreiðslu til sveitarfélaga vegna refaveiða. Árleg endurgreiðslufjárhæð síðan 2014 hefur verið á bilinu 21–28 millj. kr. á ári sem samsvarar um það bil 20–25% af árlegum kostnaði sveitarfélaga.
    Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, ákveður ráðherra árlega viðmiðunartaxta launa til skotmanna og aðrar greiðslur fyrir unna refi sem veiddir eru skv. 2. og 3. mgr. 12. gr. laganna. Viðkomandi sveitarstjórnir skila árlegum skýrslum um refaveiðar og kostnað við þær til Umhverfisstofnunar og endurgreiðir ríkissjóður hluta kostnaðar við veiðarnar, m.a. með tilliti til fjárhagslegrar getu hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.

     4.      Hver er afstaða ráðherra til refaveiða? Kemur til greina að takmarka þær með einhverjum hætti?
    Refurinn er sérstakur að því leyti að hann er eina náttúrulega og upprunalega landspendýrið á Íslandi og nýtur því ákveðinnar sérstöðu í lífríki landsins með tilliti til líffræðilegrar fjölbreytni. Refaveiðar eru nú þegar takmarkaðar að nokkru leyti því óheimilt er að veiða ref á tilteknum svæðum á landinu. Það er full ástæða til þess að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi refaveiða að mati ráðherra og koma tillögur þess efnis fram í frumvarpi til laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (þingskjal 460 – 368. mál), sem nú er til meðferðar á Alþingi. Er meðal annars lagt til að allar veiðar og nýting villtra fugla og villtra spendýra séu sjálfbærar og byggist á því að gerð hafi verið stjórnunar- og verndaráætlun fyrir viðkomandi tegund eða stofn. Samkvæmt frumvarpinu liggur því fyrir að unnin verði stjórnunar- og verndaráætlun fyrir refinn þar sem gerð verði grein fyrir stofnstærð, stofnþróun, verndarstöðu, útbreiðslu og viðkomu íslenska refastofnsins og stöðu hans í lífríki og líffræðilegri fjölbreytni landsins. Þá er lagt til að gera skuli grein fyrir því tjóni sem refir kunna að valda, hvernig best sé að bregðast við hættu á því og meta hvort aflétta skuli friðun refa á tilteknum svæðum landsins til að takmarka tjón af hans völdum, auk þess sem lagt skal til hvernig haga skuli veiðum á ref í þessum tilgangi. Í stuttu máli sagt er lagt til að veiðar byggi á vísindalegum upplýsingum.
    Nú eru litlar fyrirliggjandi upplýsingar um fjárhagslegt tjón af völdum refa. Umhverfisstofnun hefur bent á að endurskoða þurfi fyrirkomulag og forsendur refaveiða. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum sé það tilgangur refaveiða að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum. Stofnunin hefur kallað eftir upplýsingum um tjón af völdum refa frá bændum og sveitarfélögum undanfarin 6–7 ár en nær engar upplýsingar hafa borist, ef frá eru taldar nokkrar tilkynningar um tjón í æðarvarpi. Miðað við skort á skráningum á tjóni er mat Umhverfisstofnunar að forsendur séu í raun brostnar fyrir áframhaldandi veiðum með því fyrirkomulagi sem er nú í gildi. Umhverfisstofnun telur því ljóst að þörf sé á gagngerri endurskoðun á fyrirkomulaginu og hugsanlega breyttum áherslum þannig að forsendur refaveiða verði sérstakir verndarhagsmunir, svo sem æðarvarp eða fuglaverndarsvæði.
    Ráðherra hefur lagt fram fyrrgreint frumvarp sem tekur m.a. mið af ábendingum Umhverfisstofnunar. Ráðherra telur að ákvarðanir um verndun og veiðar á ref eigi að byggjast á vísindalegum upplýsingum og aðferðafræði, líkt og uppleggið er með frumvarpinu.