Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1324  —  429. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni um hreindýraveiðar árið 2021.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Verður þeirri stefnu fylgt við hreindýraveiðar árið 2021 að mylkar hreinkýr verði ekki felldar?
     2.      Ef svo er, hvenær hefjast veiðar á hreinkúm árið 2021?


    Eitt af markmiðum með stjórnun hreindýraveiða er að þéttleiki hreindýra verði hvergi þannig að verulegra neikvæðra áhrifa gæti af ágangi þeirra, hvorki á villtan gróður, ræktað land né mannvirki (girðingar o.fl.). Að ákveða slík mörk er erfitt enda síbreytileg og fara þau eftir ýmsu, svo sem árferði, annarri beit eða landnotkun. Til að lágmarka líkur á að þessi mörk séu yfirstigin er reynt að hafa lítinn þéttleika alls staðar og kvóta úthlutað árlega, skipt eftir níu veiðisvæðum, sem byggist á talningum á hreindýrum.
    Þéttleiki hefur verið miðaður við að fjöldi dýra fari ekki yfir eitt dýr á ferkílómetra hreindýrabeitilands samkvæmt landflokkun CORINE. Nú er í fyrsta sinn miðað við ástandsflokkun sem kennd er við GróLind, þ.e. að fjöldi dýra fari ekki yfir eitt dýr á ferkílómetra miðað við land í ástandsflokkum 3–5 að vetri. Á veiðisvæðum 1, 8 og 9 er eftirsóknarvert að þéttleikinn sé jafnvel lægri en á öðrum veiðisvæðum, m.a. vegna þess að þar eru ákeyrslur algengar (veiðisvæði 8) eða við mörk útbreiðslusvæðis þar sem hemja á frekari útbreiðslu (veiðisvæði 1 og 9).
    Íslenski hreindýrastofninn hefur verið nokkuð stöðugur, um 6.000 dýr að sumri síðastliðin tíu ár en hafði farið stækkandi fram til ársins 2010 frá því að lög nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, tóku gildi. Árið 1994 var sumarstofninn talinn um 3.000–3.500 dýr. Frá þeim tíma hefur útbreiðslusvæði hreindýra stækkað umtalsvert, aðallega til norðurs á Austurlandi.
    Þrátt fyrir að veiðikvótar væru settir til að halda hreindýrastofninum nokkurn veginn stöðugum þá rúmlega tvöfaldaðist stofninn að umfangi frá árinu 2000 til ársins 2009. Reiknað var út að kvóti og um leið nýliðun væri um 25% af vetrarstofni ár hvert (m.v. talningar í upphafi vetrar) en árið 2017 var þetta hlutfall hækkað í 27% til að leiðrétta fyrir aukningu sem enn virtist eiga sér stað milli ára.
    Áætlaður vetrarstofn hreindýra veturinn 2020–2021 er um 4.910 dýr alls. Síðustu ár virðist nýliðun hafa dalað nokkuð og var því á ný miðað við 25% fjölgun frá vetrarstofni fram á sumar. Við upphaf veiðitíma árið 2021 er stofninn áætlaður um 6.138 dýr. Ef gert er ráð fyrir lágu kálfahlutfalli vegna hægrar nýliðunar en fremur háu tarfahlutfalli eins og verið hefur síðustu ár má gróft áætla að samsetning sumarstofnsins verði um 45% kýr, 20% kálfar og 35% tarfar. Það gerir 2.762 kýr og 1.228 kálfa.
    Ráðherra gaf út auglýsingu um hreindýraveiðar árið 2021, 8. febrúar sl., að fengnum tillögum frá Umhverfisstofnun eins og lög gera ráð fyrir. Veiðitímabil kúa er frá 1. ágúst til 20. september en fyrstu tvær vikur veiðitímabilsins er veiðimönnum gert að forðast í lengstu lög að fella mylkar kýr svo draga megi eftir megni úr áhrifum veiðanna á kálfa. Þá eru veiðimenn eindregið hvattir til þess að veiða eingöngu geldar kýr á þessu tveggja vikna tímabili. Síðastliðin fjögur ár hefur hlutfall geldra kúa í veiði farið hækkandi og hefur breyst úr 22% af kúaveiðinni árið 2017 upp í 36% árið 2020.
    Yrði tekin upp sú stefna í stjórnun veiða á hreindýrum að mylkar hreinkýr verði ekki veiddar er vandséð hvernig mögulegt væri að halda vexti stofnsins í skefjum og í samræmi við markmið með veiðum að koma í veg fyrir aukinn ágang og neikvæð áhrif á bithaga, búsvæði og vistgerðir. Frjósemi hreindýra hefur verið nokkuð há hér á landi og var um 86% vorið 2020. Áætluð afföll kálfa veturinn 2019–2020 voru um 12% en að meðaltali 20% á árunum 2000–2018. Veiðimenn og leiðsögumenn með hreindýraveiðum hafa frá árinu 2018 eindregið verið hvattir til þess að hlífa mylkum kúm fyrstu tvær vikur veiðitímans.