Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1330  —  479. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um innlenda eldsneytisframleiðslu.


     1.      Hvernig metur ráðherra hagkvæmni og umhverfisáhrif þess að framleiða innan lands vistvænt eldsneyti, t.d. metan, vetni, alkóhól (metanól og etanól) og lífdísil, á ökutæki og sjóför til að koma til móts við aukna eftirspurn?
    Í orkustefnu fyrir Ísland og aðgerðaáætlun hennar, sem lögð hefur verið fram á Alþingi, er að finna aðgerðir sem snúa að innlendri eldsneytisframleiðslu. Eru þær aðgerðir hluti af því markmiði að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050. Aukin eftirspurn er eftir vistvænu eldsneyti og ljóst er að til að ná markmiðum orkustefnu þarf á næstu árum að auka framleiðslu innan lands á vistvænu eldsneyti til að það geti leyst innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi.
    Framleiðsla á vistvænu eldsneyti er almennt dýrari en framleiðsla á jarðefnaeldsneyti og til að koma vistvænu eldsneyti inn á markaði er það því víða niðurgreitt og veittur stuðningur við framleiðslu þess. Hefur þetta áhrif á mat á hagkvæmni við framleiðslu vistvæns eldsneytis til að koma til móts við aukna eftirspurn. Næstu áfangar í orkuskiptum Íslands taka mið af þessu og gera ráð fyrir auknum stuðningi við vistvænt innlent eldsneyti, með það fyrir augum að það sé hagkvæmur og raunhæfur valkostur fyrir neytendur. Í aðgerðaáætlun orkustefnu er t.d. sérstaklega tilgreint að stutt verði við rannsóknir og uppbyggingu á vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu, með sérstakri áherslu á þungaflutninga og hafsækna starfsemi.
    Annar þáttur í mati á hagkvæmni við framleiðslu á innlendu vistvænu eldsneyti felst í því að margvíslegur ávinningur er falinn í slíkri framleiðslu, til viðbótar við umhverfislega jákvæð áhrif, m.a. uppbygging nýrrar umhverfisvænnar atvinnugreinar sem hefur í för með sér fjölgun starfa með tilheyrandi margfeldisáhrifum.
    Að því er varðar umhverfisáhrif í tengslum við framleiðslu á innlendu vistvænu eldsneyti er í orkustefnunni lögð áhersla á sjálfbæra framleiðslu endurnýjanlegs eldsneytis, bæði líf- og rafeldsneytis. Þannig kemur fram í orkustefnu að framleiðsla lífeldsneytis þurfi að vera sjálfbær þannig að ekki sé gengið á viðkvæm svæði eða svæði sem nota þarf fyrir matvælaframleiðslu, einnig að framleiðslan þurfi að uppfylla lágmarksviðmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við jarðefnaeldsneyti, þegar tekið er tillit til alls sem þarf til framleiðslunnar. Allt innflutt og innlent lífeldsneyti, sem og rafeldsneyti, þarf að uppfylla sjálfbærniviðmið lögum samkvæmt.
    Þessi áhersluatriði úr orkustefnu verða höfð til hliðsjónar í þeim aðgerðum sem eru í undirbúningi á sviði innlendrar eldsneytisframleiðslu og næstu áfanga í orkuskiptum.

     2.      Hvernig telur ráðherra að nýsköpun, orkuskipti og eftirspurn geti stuðlað að aukinni framleiðslu á innlendum orkugjöfum til viðbótar við raforku?
    Til að ná því markmiði að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti þarf innlenda endurnýjanlega orkugjafa í auknum mæli til að mæta vaxandi eftirspurn eftir vistvænum valkostum sem leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Á það jafnt við um raforku sem aðra innlenda orkugjafa og orkubera. Ásamt almennri eftirspurn mun nýsköpun keyra áfram þá þróun sem fram undan er í orkuskiptum. Er þar m.a. horft til tækniþróunar í notkun rafhlaðna og aukna notkun orkugjafa eins og vetnis, metans og rafeldsneytis.
    Um þessar mundir er mikil þróun og verulega aukin eftirspurn eftir „grænu vetni“ og rafeldsneyti víða í Evrópu. Með „grænu vetni“ er átt við vetni sem framleitt er með endurnýjanlegri raforku. Grænt vetni og annað hreint rafeldsneyti á eftir að gegna lykilhlutverki í næstu áföngum í orkuskiptum þjóða og við að ná loftslagsmarkmiðum þeirra. Veruleg nýsköpun á sér stað á því sviði og mun hún stuðla, ásamt almennu lögmáli framboðs og eftirspurnar, að aukinni framleiðslu á slíkum endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Ísland býr við þá sérstöðu að 99,9% raforkuframleiðslu á Íslandi er af endurnýjanlegum uppruna. Til að Ísland geti tekið þátt í framangreindri þróun og mætt vaxandi eftirspurn þarf aukna raforkuframleiðslu, samhliða aukinni framleiðslu á innlendum orkugjöfum. Mikill áhugi er sem stendur erlendis frá á útflutningi á grænu vetni frá Íslandi. Eitt af þeim verkefnum sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun orkustefnu er að kanna möguleika á sviði framleiðslu og útflutnings á grænu vetni til lengri tíma og tækifæri í alþjóðlegu samstarfi á því sviði.