Ferill 617. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1333  —  617. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um dóma Landsréttar í ofbeldismálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver var fjöldi dóma Landsréttar í ofbeldismálum (líkamsárásir og manndráp) árin 2018-2020, sundurliðað eftir því hvort:
     a.      fyrri dómur var staðfestur,
     b.      fyrri dómi var breytt, og þá hvort það var til þyngri eða vægari refsingar,
     c.      fyrri dómi var snúið, og þá hvort sakfellingu var snúið í sýknu eða sýknu snúið í sakfellingu,
     d.      um ómerkingu, frávísun eða niðurfellingu var að ræða?
    Svör óskast einnig sundurliðuð eftir árum og þeim lagagreinum sem brot varðar í dómunum.


    Til að svara fyrirspurninni var leitað til Landsréttar. Í Landsrétti er ekki haldin tölfræði sem flokkar mál á grundvelli lagagreina eins og fyrirspurnin hljóðar. Svarið byggist á úrvinnslu upplýsinga úr málaskrá Landsréttar. Tekin voru saman mál þar sem ákært var fyrir líkamsmeiðingar eða manndráp samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en ekki mál þar sem önnur refsiákvæði tæma sök gagnvart ákvæðum kaflans og heldur ekki mál þar sem sakargiftir voru aðrar en líkamsmeiðingar eða manndráp og ákæruatriði voru þó að hluta heimfærð undir ákvæði kaflans. Þá er áréttað að niðurstöður mála þarf að rýna með hliðsjón af forsendum þeirra dóma sem þar búa að baki.
    Á árunum 2018, 2019 og 2020 gekk 81 dómur hjá Landsrétti þar sem ákært var með framangreindum hætti og þá lauk einu slíku máli með því að Landsréttur ómerkti héraðsdóm með úrskurði. Að auki voru sex mál þar sem ákært var fyrir brot af því tagi felld niður á þessum árum þar sem áfrýjunarstefnur málanna voru afturkallaðar.
     a.      Af framangreindum málum var dómur héraðsdóms að öllu leyti staðfestur um mat á sekt/sýknu og refsingu í 45 dómum Landsréttar.
                  1.      Á árinu 2018 var það gert í 14 tilvikum.
                  2.      Á árinu 2019 voru þau skipti 15 talsins.
                  3.      Á árinu 2020 var það gert í 16 tilvikum. Þar af er meðtalið eitt skipti sem fellur ekki fyllilega að þessari flokkun en þar var mat héraðsdóms á sekt/sýknu og refsingu annars af tveimur dómfelldu staðfest en Landsréttur þyngdi refsingu hins dómfellda (sbr. einnig niðurlag liðar 3. tölul. b-liðar hér á eftir).
     b.      Af framangreindum málum var dómi héraðsdóms breytt um mat á refsingu dómfellda/u í 30 dómum Landsréttar.
                  1.      Á árinu 2018 þyngdi Landsréttur refsingu í þremur tilvikum en mildaði refsingu í átta skipti. Að auki gekk einn dómur það ár þar sem refsing annars ákærða af tveimur var milduð en refsing hins dómfellda var þyngd.
                  2.      Á árinu 2019 þyngdi Landsréttur refsingu í sjö tilvikum en mildaði refsingu í fimm skipti.
                  3.      Á árinu 2020 þyngdi Landsréttur refsingu í tveimur tilvikum en mildaði refsingu í tvö skipti. Að auki gekk sama ár einn dómur þar sem refsing annars dómfellda af tveimur var milduð en hinn dómfelldi, sem sakfelldur hafði verið í héraði, var sýknaður með dómi Landsréttar (sbr. einnig niðurlag 3. tölul. c-liðar hér á eftir). Þá er áður getið dóms (í niðurlagi liðar 3. tölul. a-liðar hér að framan) þar sem refsing annars ákærða af tveimur var þyngd en dómur héraðsdóms var staðfestur um þátt hins dómfellda.
     c.      Af framangreindum málum var dómi héraðsdóms snúið í eftirfarandi átta tilvikum.
                  1.      Enginn dómur af því tagi gekk árið 2018.
                  2.      Árið 2019 sýknaði Landsréttur í einu tilviki þegar héraðsdómur hafði áður sakfellt og í eitt skipti sakfelldi Landsréttur þegar héraðsdómur hafði áður sýknað. Sama ár gekk einn dómur sem fellur illa að flokkuninni samkvæmt samantektinni en með þeim dómi sýknaði Landsréttur af ákæru fyrir líkamsárás en dæmd refsing var af öðrum ástæðum sú sama og í héraði.
                  3.      Árið 2020 sýknaði Landsréttur í fjórum tilvikum þegar héraðsdómur hafði áður sakfellt en auk þess er áður getið dóms (sbr. einnig 3. tölul. b-liðar hér að framan) þar sem refsing annars dómfellda af tveimur var milduð en hinn dómfelldi, sem sakfelldur hafði verið í héraði, var sýknaður með dómi Landsréttar.
     d.      Sem fyrr segir var einn dómur héraðsdóms þar sem ákært var með fyrrgreindum hætti ómerktur af hálfu Landsréttar á árunum 2018, 2019 eða 2020 en það var gert með úrskurði réttarins árið 2019. Landsréttur vísaði engum málum af þessu tagi frá dómi á hinum tilgreindu árum. Þá er þess getið að sex mál þar sem ákært var með fyrrgreindum hætti voru felld niður þessi ár þar sem áfrýjunarstefnur málanna voru afturkallaðar af hálfu embættis ríkissaksóknara. Hið síðastgreinda gerðist einu sinni árið 2018, þrívegis árið 2019 og tvisvar árið 2020.