Ferill 770. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1342  —  770. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um viðurkenningu á þjóðarmorði á Armenum.


Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Birgir Þórarinsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Olga Margrét Cilia, Smári McCarthy, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að það viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–1917 og virði minningu fórnarlamba þessa glæps gegn mannkyni.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var fyrst flutt á 140. löggjafarþingi (730. mál) af Margréti Tryggvadóttur og fleirum. Síðan hefur tillaga sama efnis verið lögð fram á 141., 144., 145., 149. og 150. löggjafarþingi.
    Þjóðarmorð telst til alþjóðaglæpa og er kerfisbundin útrýming þjóðar eða þjóðarbrots. Það er skilgreint sem refsiverður verknaður, framinn í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúarflokki, með því að drepa einstaklinga úr viðkomandi hópi, skaða þá líkamlega eða andlega, þröngva viðkomandi hópi af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að eyðingu hópsins eða hluta hans, beita þvingunaraðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum eða flytja börn með valdi úr hópnum. Árið 1948 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að fordæma skyldi þjóðarmorð og refsa þeim sem það fremja.
    Undir lok 19. aldar stóð hið fyrrum glæsta Ottómanaveldi höllum fæti. Armenar innan þess höfðu lengi þráð sjálfsstjórn og margir töldu að þeir gætu sóst eftir sjálfstæði eftir því sem veldi Ottómana veiktist frekar. Árið 1894 gerðu Armenar uppreisn gegn Tyrkjum sem barin var niður af mikilli hörku og í kjölfarið varð útskúfun hinna kristnu Armena að meðvitaðri pólitískri stefnu. Á árunum 1894–1897 voru tugþúsundir Armena teknar af lífi vegna þjóðernis síns og trúarskoðana. Tölum ber ekki saman; hinar tyrknesku segja að um 20–30 þúsund manns hafi látist en hinar armensku að nær 300 þúsund manns hafi týnt lífi. Þetta var þó aðeins forleikurinn.
    Ungtyrkir náðu völdum árið 1908 með stuðningi Armena enda börðust þeir gegn Tyrkjasoldáni og fyrir breyttum stjórnarháttum. Fljótlega klofnaði hópurinn þó og sá hluti sem vildi að Ottómanaveldið yrði aðeins fyrir Tyrki og múslima, CUP, náði völdum. Útrýma skyldi minnihlutahópum sem stæðu í vegi fyrir altyrknesku ríki. Í fyrri heimsstyrjöldinni gafst færi til aðgerða sem miðuðu að því að fækka þeim í ríkinu.
    Opinberlega byggðust aðgerðirnar á brottflutningi hinna óæskilegu til arabahéraðanna, ekki síst Armena sem ekki voru tilbúnir að snúa baki við trú sinni og menningu, en hið raunverulega markmið var að drepa sem flesta. Aðgerðirnar fólu m.a. í sér pyntingar og aftökur, auk þess sem fólkið var rekið fótgangandi langar vegalengdir, jafnvel um þúsund kílómetra, með þeim afleiðingum að margir létust eða hlutu örkuml. Algengt var að aldraðir og veikir væru drepnir á leiðinni því að þeir hægðu á hópunum og líkin lágu meðfram vegum Anatólíu mánuðum saman. Þeim sem lifðu af var komið fyrir í stórum útrýmingarbúðum og sluppu fáir þaðan lifandi. Fólk var einnig skilið eftir án matar og drykkjar í eyðimörkinni. Ekki er vitað með vissu hve margir týndu lífi en talið er að tala þeirra liggi á bilinu 600.000–1.500.000 manna.
    Þrátt fyrir að þessir atburðir uppfylli skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 á þjóðarmorði og hafi verið kallaðir fyrsta þjóðarmorð 20. aldar hefur það reynst Armenum erfitt að öðlast viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á þeim sem slíkum. Vegur þar þyngst að Tyrkir hafa ekki viðurkennt atburðina sem þjóðarmorð, enn er viðvarandi ágreiningur milli Tyrkja og Armena og auk þess hafa margar þjóðir ekki viljað styggja Tyrki. Þá hafa atburðirnir fallið í skuggann af þjóðarmorði nasista á gyðingum. Eigi að síður hafa rúmlega 30 ríki samþykkt ályktanir þar sem viðurkennt er að þjóðarmorðið á Armenum hafi átt sér stað, og sama gildir um 48 af 50 ríkjum Bandaríkjanna, Evrópuþingið og um Evrópuráðið. Þá hefur atburðunum verið lýst sem þjóðarmorði í skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Nýverið varð Joe Biden fyrsti forseti Bandaríkjanna til að viðurkenna þjóðarmorð Tyrkja á Armenum.
    Hinn 22. ágúst 1939 hélt Adolf Hitler ræðu fyrir herforingja sína áður en hann réðst inn í Pólland. Þar gaf hann í skyn að þeir sem frömdu þjóðarmorðið á Armenum hefðu ekki verið dregnir til ábyrgðar því að alþjóðasamfélagið hefði látið það óátalið. Þar með gat hann réttlætt þann hrylling sem hann hugðist hrinda í framkvæmd á næstu árum.
    Ákaflega mikilvægt er að heimsbyggðin viðurkenni þau voðaverk sem framin voru á armensku þjóðinni sem þjóðarmorð. Þótt langt sé um liðið var þetta glæpur gegn mannkyni og þar með gegn okkur öllum. Þau voðaverk sem framin verða við allt hernaðarbrölt heimsins í nútíð og framtíð byggjast á því sem áður hefur verið gert. Löngu tímabært er að íslensk stjórnvöld viðurkenni þjóðarmorð á Armenum árin 1915–1917 og virði minningu fórnarlamba þessa glæps gegn mannkyni.