Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1350  —  16. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, með síðari breytingum (lögbann við birtingu efnis).

(Eftir 2. umræðu, 4. maí.)


1. gr.

    Við 3. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef beiðni lýtur að lögbanni við birtingu efnis skal lögð fram trygging til bráðabirgða eftir reglu 3. mgr. 8. gr.

2. gr.

    Við 1. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skulu veittir frestir þegar beiðni lýtur að lögbanni við birtingu efnis ef gerðarþoli andmælir framgangi lögbannsgerðar á þeim grunni að hún stríði gegn réttindum sem varin eru af 73. gr. stjórnarskrárinnar, nema þegar sérstaklega stendur á.

3. gr.

    Við 2. mgr. 36. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar lögbann hefur verið lagt við birtingu efnis og gerðarþoli hefur andmælt framgangi lögbannsgerðar á þeim grunni að hún stríði gegn réttindum sem varin eru af 73. gr. stjórnarskrárinnar fer um málið eftir ákvæðum XIX. kafla laga um meðferð einkamála, eftir því sem við á, og er þá ekki þörf á samþykki forstöðumanns dómstóls fyrir því að málið sæti flýtimeðferð.

4. gr.

    Við 1. mgr. 42. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig er heimilt að dæma skaðabætur eftir álitum ef lögbann hefur verið lagt við birtingu efnis og gerðarþoli andmælti framgangi lögbannsgerðar á þeim grunni að hún stríddi gegn réttindum sem varin eru af 73. gr. stjórnarskrárinnar.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.