Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1352  —  204. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (kynrænt sjálfræði).

(Eftir 2. umræðu, 4. maí.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. a laganna:
     a.      Í stað 2. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Móður er skylt að feðra barn sitt þegar feðrunarreglur 2. gr. eiga ekki við, sbr. þó 2.–4. mgr. 6. gr. Sama á við eftir atvikum ef sá sem elur barn og/eða hitt foreldrið hefur breytt skráningu kyns og feðrunar- eða foreldrareglur 2. eða 3. mgr. 5. gr. eiga ekki við, sbr. þó 4. mgr. 6. gr. a.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Barn á rétt á tiltækum upplýsingum í þjóðskrá um skráningu á foreldrastöðu foreldra sinna svo og upplýsingum um breytingar á kynskráningu þeirra.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Kona sem elur barn er móðir þess.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Foreldrareglur um börn hjóna og foreldra í skráðri sambúð.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Um foreldri barns þegar annað foreldri eða bæði hafa breytt skráningu kyns gilda ákvæði 5. gr.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun gilda ákvæði 6. gr., sbr. og 6. gr. a.
     c.      Skammstöfunin „o.fl.“ í fyrirsögn greinarinnar fellur brott.

4. gr.

    5. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Foreldrar barns þegar annað foreldri eða bæði hafa breytt skráningu kyns.

    Karlmaður sem elur barn telst faðir þess. Sá sem elur barn og hefur hlutlausa kynskráningu telst foreldri þess.
    Sé faðir eða foreldri skv. 1. mgr. í hjúskap eða skráðri sambúð í þjóðskrá við fæðingu barns telst eiginmaður eða sambúðarmaður einnig faðir barnsins. Ákvæði 2. gr. gilda um þessar aðstæður eftir atvikum.
    Ef maki þess sem elur barn hefur breytt skráningu kyns þá telst maki móðir eða foreldri barnsins ef það er alið í hjúskap eða skráðri sambúð þeirra. Kona telst þá móðir barns og sá sem hefur hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns. Þetta á þó einungis við ef upphafleg kynskráning útilokar ekki líffræðileg tengsl makans við barnið. Ákvæði 2. gr. gilda um þessar aðstæður eftir atvikum.
    Ef ákvæði 2. og 3. mgr. eiga ekki við getur foreldrastaða ákvarðast á grundvelli faðernis- eða foreldraviðurkenningar skv. 5. eða 6. mgr., samþykkis skv. 6. gr. a eða dómsúrlausnar skv. II. kafla, sbr. 19. gr. a.
    Ef karlmaður, sem faðir eða foreldri skv. 1. mgr. kennir barn sitt, gengst við faðerni þess skv. 4. gr. þá telst hann faðir barnsins.
    Um foreldraviðurkenningu þess sem hefur breytt skráningu kyns gilda ákvæði 4. gr. eftir atvikum. Viðkomandi telst þá móðir eða foreldri barns eftir því hvernig breyttri kynskráningu er háttað, sbr. 3. mgr. Þetta á þó einungis við ef upphafleg kynskráning útilokar ekki líffræðileg tengsl viðkomandi við barnið.
    Það sem segir um móður í 1. gr. a, 3. mgr. 27. gr. og 58. gr., móður sem elur barn í 25. gr. og 2. mgr. 29. gr. og barnsmóður og konu í 26. gr. á einnig við um þann sem er faðir eða foreldri barns skv. 1. mgr. Ákvæði annarra laga sem fjalla um móður, þungaða konu, konu sem nýlega hefur alið barn eða konu með barn á brjósti gilda einnig um þann sem er faðir eða foreldri skv. 1. mgr.
    Það sem á við um föður og barnsföður í ákvæði 25.–27. gr. og 58. gr. gildir um þann sem telst móðir eða foreldri skv. 3. mgr. og þann sem gengst við foreldrastöðu skv. 6. mgr. Ákvæði annarra laga sem fjalla um föður eða barnsföður gilda einnig um þessa einstaklinga.
    Ákvæði þetta á einnig við, eftir því sem við getur átt, ef foreldri breytir skráningu kyns eftir fæðingu barns.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „foreldri“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: móðir.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Barn einhleyprar konu sem getið er við tæknifrjóvgun verður ekki feðrað.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 5. mgr.
     d.      Í stað orðanna „annarri konu“ í 6. mgr. kemur: öðrum einstaklingi.
     e.      Í stað tilvísunarinnar „6. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 7. mgr.
     f.      8. mgr. orðast svo:
                      Ákvæði 8. mgr. 5. gr. gildir um móður skv. 2. mgr. eftir því sem við á.
     g.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Foreldrar barns sem getið er við tæknifrjóvgun.

6. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Foreldrar barns sem getið er við tæknifrjóvgun þegar annað foreldri eða bæði hafa breytt skráningu kyns.

    Karlmaður sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun telst faðir þess. Sá sem hefur hlutlausa kynskráningu og elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun telst foreldri þess.
    Eiginmaður sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun fari fram á maka sínum sem er faðir eða foreldri skv. 1. mgr. telst faðir barns sem þannig er getið. Eiginkona í sömu sporum telst móðir barns. Sama á við um einstaklinga sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá.
    Ef sá sem breytt hefur skráningu kyns hefur samþykkt að tæknifrjóvgun samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni eða hjúskaparmaka sem er faðir eða foreldri skv. 1. mgr. telst viðkomandi móðir, faðir eða foreldri barnsins eftir því hvernig breyttri kynskráningu er háttað. Karlmaður telst þá faðir, kona telst móðir og sá sem hefur hlutlausa kynskráningu telst foreldri barns. Sama á við um einstaklinga sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá.
    Ef faðir eða foreldri skv. 1. mgr. er einhleypt þá verður ekki ákvarðað hvert hitt foreldri barnsins er.
    Ákvæði 7. og 8. mgr. 5. gr. gilda um foreldra barns sem getið er við tæknifrjóvgun eftir því sem við á.
    Ákvæði 5. og 6. mgr. 6. gr. gilda eftir atvikum um tæknifrjóvgun sem framkvæmd hefur verið erlendis.
    Ákvæði 7. og 8. mgr. 6. gr. gilda einnig eftir atvikum um sæðisgjafa sem breytt hefur skráningu kyns og 7. mgr. 6. gr. um maka, hvort sem maki hefur breytt skráningu kyns eða ekki.
    Ákvæði þetta á einnig við, eftir því sem við getur átt, ef kynskráningu foreldris er breytt eftir fæðingu barns.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      5. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Ákvæði 2.–4. mgr. gilda eftir atvikum um þá sem breytt hafa kynskráningu sinni.
                      Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um form og framkvæmd skráningar barns í þjóðskrá samkvæmt ákvæði þessu svo og 6. gr. og 6. gr. a, þ.m.t. um gögn til staðfestingar á fæðingu barns, tæknifrjóvgun hér á landi og erlendis og um foreldri barns og upplýsingagjöf skv. 2. mgr. 1. gr. a.

8. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 7. mgr.

9. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Dómsmál til að ákvarða foreldrastöðu þegar annað foreldri eða bæði hafa breytt skráningu kyns.

    Ákvæði þessa kafla gilda eftir atvikum um dómsmál til að ákvarða foreldrastöðu þess foreldris barns sem ekki ól það þegar annað foreldri eða bæði hafa breytt skráningu kyns. Ákvæði annarra laga sem fjalla um faðernismál gilda einnig um dómsmál samkvæmt þessari grein eftir atvikum.

10. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Dómsmál til feðrunar barns o.fl.

11. gr.

    2. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Hið sama á við, eftir atvikum, um kröfu um að viðurkennt verði að kona í hjúskap eða skráðri sambúð með móður teljist ekki móðir skv. 2. mgr. 6. gr. og kröfu um að viðurkennt verði að einstaklingur í hjúskap eða skráðri sambúð með foreldri sem ól barn teljist ekki móðir, faðir eða foreldri skv. 2. eða 3. mgr. 6. gr. a.

12. gr.

    Á eftir 24. gr. laganna kemur ný grein, 24. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Dómsmál til vefengingar á faðerni eða foreldrastöðu og dómsmál til ógildingar á faðernis- eða foreldraviðurkenningu þegar annað foreldri eða bæði hafa breytt skráningu kyns.

    Ákvæði þessa kafla gilda eftir atvikum um dómsmál til vefengingar á faðerni skv. 2. mgr. 5. gr. eða foreldrastöðu skv. 3. mgr. 5. gr. og um mál til ógildingar á faðernis- eða foreldraviðurkenningu skv. 5. og 6. mgr. 5. gr. Ákvæði annarra laga sem fjalla um dómsmál til vefengingar á faðerni barns eða ógildingu á faðernisviðurkenningu gilda eftir því sem við á.

13. gr.

    Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Dómsmál til vefengingar á faðerni barns eða ógildingar á faðernisviðurkenningu o.fl.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Sýslumaður getur úrskurðað föður barns eða móður skv. 2. mgr. 6. gr. til að greiða framfærslueyri með móðurinni sem gengur með og elur barnið samtals í þrjá mánuði fyrir og eftir fæðingu barns, að kröfu hennar, ef sérstaklega stendur á.
     b.      Í stað orðsins „foreldri“ í 2. mgr. kemur: móður.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Framlög til móður sem elur barn.

15. gr.

    Á eftir orðunum „fer móðir“ í 2. mgr. 29. gr. laganna kemur: sem ól barnið.

16. gr.

    Á eftir orðunum „um faðerni“ í 6. mgr. 57. gr. laganna kemur: eða foreldrastöðu.

17. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 6. mgr. 81. gr. laganna kemur: 2. mgr.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

19. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     a.      Lög um almannatryggingar, nr. 100/2007: Við 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Móðir: Kona sem elur barn.
     b.      Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000: Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Það sem í lögum þessum segir um móður á við móður sem elur barn.
     c.      Lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019: 4. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.