Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1364  —  280. mál.
3. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (umframlosunargjald og einföldun regluverks).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju að lokinni 2. umræðu.
    Við meðferð málsins komu fram athugasemdir frá Samgöngustofu um að 2.–5. mgr. og 9. mgr. 63. gr. umferðarlaga hefðu reynst nær óframkvæmanlegar. Umrædd ákvæði fjalla um trúnaðarlækni á vegum stofnunarinnar en í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á þeim.
Að höfðu samráði við ráðuneytið telur meiri hlutinn rétt að leggja til breytingu á frumvarpinu til þess að bregðast við þessum athugasemdum. Meiri hlutinn leggur til að felld verði brott aðkoma trúnaðarlæknis Samgöngustofu að afturköllun ökuréttinda og þess í stað verði kveðið á um aðkomu læknis. Þá eru jafnframt lagðar til breytingar á 1. og 2. mgr. 63. gr. svo að ljóst sé að tímabundin afturköllun ökuréttinda til þriggja mánaða eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar lögregla hefur sérstaka ástæðu við umferðareftirlit til að ætla að ökumaður uppfylli ekki lengur heilbrigðisskilyrði til að fá útgefið ökuskírteini. Í öðrum tilvikum ber lögreglu að hefja hefðbundið stjórnsýslumál til afturköllunar ökuréttinda. Loks er lagt til að gjaldtökuheimild vegna kostnaðar sem hlýst af starfi trúnaðarlæknis Samgöngustofu falli brott en í stað þess verði kveðið á um að ökumaður beri sjálfur kostnað af læknisfræðilegu mati, námskeiðum og prófi í aksturshæfni.
    Meiri hlutinn telur brýnt að umrætt ákvæði verði tekið til heildstæðrar skoðunar í ráðuneytinu í samráði við hagsmunaaðila og kannað hvort leita þurfi leiða til að tryggja til framtíðar vandaða og samræmda málsmeðferð þessara mála.
    Nefndinni barst ábending frá ráðuneytinu um að nauðsynlegt væri að lagfæra rithátt á skammstöfun í umferðarlögum til samræmis við SI-einingakerfið og alþjóðastaðla, þannig verði skammstöfunin cm notuð í stað sm fyrir sentimetra. Leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Í stað skammstöfunarinnar „sm“ í 8. tölul. og a-lið 28. tölul. 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 40. gr. og 2. og 3. mgr. 77. gr. laganna kemur: cm.
     2.      5. gr. orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
                  a.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvörðun um afturköllun ökuréttinda þess sem ekki uppfyllir lengur skilyrði b-liðar 2. mgr. 58. gr. skal byggð á læknisfræðilegu mati á aksturshæfni. Við ákvörðun um afturköllun ökuréttinda skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga.
                  b.      2. mgr. orðast svo:
                      Þegar afskipti eru höfð af ökumanni við umferðareftirlit sem lögregla hefur sérstaka ástæðu til að ætla að fullnægi ekki skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr. er lögreglu heimilt að afturkalla ökuréttindin tafarlaust til bráðabirgða í þrjá mánuði þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. Þau verða ekki gild að nýju fyrr en ökumaður hefur undirgengist læknisfræðilegt mat á aksturshæfni.
                  c.      3. mgr. orðast svo:
                      Læknir getur ákveðið að handhafi ökuréttinda fari í próf í aksturshæfni að loknu læknisfræðilegu mati skv. 1. eða 2. mgr.
                  d.      Í stað orðanna „Nú fullnægir handhafi ökuréttinda ekki skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr. að mati trúnaðarlæknis Samgöngustofu“ í 4. mgr. kemur: Nú fullnægir handhafi ökuréttinda að mati læknis ekki skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr., að undangenginni læknisrannsókn skv. 1. eða 2. mgr.
                  e.      Orðin „skipun og hæfi trúnaðarlæknis Samgöngustofu“ í 5. mgr. falla brott.
                  f.      9. mgr. orðast svo:
                      Ökumaður ber sjálfur kostnað af læknisfræðilegu mati, námskeiðum og prófi í aksturshæfni eftir því sem við á samkvæmt þessari grein.

    Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins og skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Hanna Katrín Friðriksson skrifar undir álitið með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu. Guðjón S. Brjánsson skrifar undir álitið með fyrirvara um a-lið 1. gr. frumvarpsins.

Alþingi, 4. maí 2021.

Bergþór Ólason,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson,
með fyrirvara.
Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Jón Gunnarsson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Líneik Anna Sævarsdóttir.