Ferill 698. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1367  —  698. mál.
Undirritun, með fyrirvara.

2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (greiðsludreifing staðgreiðslu og tryggingagjalds, úttekt séreignarsparnaðar).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Eddu Símonardóttur frá Skattinum, Baldur Sigmundsson og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda.
    Umsagnir bárust frá Félagi atvinnurekenda, Landssamtökum lífeyrissjóða, Samtökum ferðaþjónustunnar og Skattinum.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri verði heimilt að dreifa greiðslum staðgreiðslu og tryggingagjalds sem frestað var á árinu 2020 samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VI og 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og ákvæði til bráðabirgða X og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XI í lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.
    Þá er lagt til að heimild til úttektar á séreignarsparnaði taki gildi að nýju. Lagt er til að sömu viðmið gildi um umsóknartímabil og úttektarfjárhæð og giltu á árinu 2020.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Í umsögn Félags atvinnurekenda kemur fram það sjónarmið að skynsamlegt kunni að vera að framlengja önnur úrræði til þess að auðvelda fyrirtækjum að standa skil á opinberum gjöldum og bæta fjárstreymi sitt.
    Félag atvinnurekenda hvetur til þess að heimild Skattsins til þess að fella niður álag skv. 27. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, tímabundið eða ótímabundið, enda hamli utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt greiðslu virðisaukaskatts, verði framlengd og að endurvakin verði heimild til tvískiptingar gjalddaga aðflutningsgjalda, sbr. ákvæði til bráðabirgða XVII í tollalögum, nr. 88/2005, og ákvæði til bráðabirgða XXXV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
    Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu þar sem fram kæmi afstaða þess til framangreindra tillagna.
    Í minnisblaði ráðuneytisins er bent á að aðstæður nú séu aðrar en þegar ákvæðin voru lögfest, vorið 2020. Heimild til niðurfellingar álags á virðisaukaskatti hefði verið talin gagnleg þá vegna þess skyndilega uppnáms og óvissu sem upphaf faraldursins olli, en fyrirsjáanleiki sé nú meiri. Framlenging úrræða ætti að vera markviss og beinast þangað sem þörfin væri, aðstæður til slíkrar nálgunar væru betri nú en í upphafi faraldurs. Þá hefðu ýmsar aðrar efnahagslegar aðgerðir verið lögfestar auk þeirra sem kveðið er á um í frumvarpinu.
    Hvað síðari tillöguna varðar bendir ráðuneytið á að ekki hafi verið um skiptingu á gjalddögum að ræða heldur frestun gjalddaga til hagræðis fyrir innflytjendur. Úrræðið hefði haft nokkur áhrif á tekjustreymi og beinan kostnað ríkissjóðs, en ekki væri ljóst að fyrirkomulagið hefði bætt skil á aðflutningsgjöldum svo neinu hafi numið. Telur ráðuneytið því ekki ástæðu til að framlengja úrræðið en bendir á að til standi að hefja vinnu við heildarendurskoðun á lögum um virðisaukaskatt á árinu, þar sem ráðrúm muni gefast til að horfa til hugsanlegra breytinga á skilum á virðisaukaskatti og gjalddögum.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu liggur ekki fyrir hversu stór hluti þess hóps sem nýtti sér heimild til úttektar á séreignarsparnaði var á sama tíma atvinnulaus. Meiri hlutinn leggur áherslu á að upplýsingum um úrræðið verði safnað og áhrif þess á kaupmátt þeirra sem nýta það metin.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Skilyrði fyrir greiðsludreifingu (3. mgr. 1. gr.).
    Skilyrði fyrir greiðsludreifingu skv. 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er að aðili sé á umsóknardegi í skilum með önnur opinber gjöld, skatta og skattsektir en greinir í 1. mgr. sem komin voru á eindaga 31. desember 2020. Í umsögn Skattsins er bent á að betur fari á því að skilyrðið verði í samræmi við efnislega sambærileg skilyrði fyrir frestun staðgreiðslu og tryggingagjalds samkvæmt lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020. Meiri hlutinn tekur undir þessa ábendingu og leggur til að miðað verði við að aðili sé á umsóknardegi í skilum með önnur opinber gjöld, skatta og skattsektir en greinir í 1. mgr. sem komin voru á eindaga 31. desember 2019.

Niðurfelling greiðsludreifingar (8. mgr. 1. gr.).

    Í 8. mgr. 1. gr. er kveðið á um hvernig fari með greiðsludreifingu verði bú aðila sem nýtur heimildar til hennar tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila slitið á tímabili greiðsludreifingar. Í ákvæðinu er lagt til að greiðsludreifing falli niður við úrskurð um gjaldþrotaskipti og falli í gjalddaga, sbr. 6. mgr. Af því leiðir að úrskurður um gjaldþrotaskipti í upphafi mánaðar yrði til þess að kröfur í greiðsludreifingu féllu í gjalddaga fyrsta dag næsta mánaðar og eindagi væri 14 dögum síðar.
    Nefndinni barst ábending frá ráðuneytinu þess efnis að þessi tilhögun gæti valdið vandkvæðum enda væri frestur til að lýsa kröfum í þrotabú tveir mánuðir frá úrskurðardegi um gjaldþrotaskipti skv. 2. mgr. 85. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Örðugt gæti reynst að halda utan um að lýsa kröfum á svo stuttu tímabili. Þá væri ákvæðið að auki ekki í samræmi við 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem kveður á um að allar kröfur á hendur þrotabúi falli sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kann áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti.
    Í samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að verði bú aðila sem nýtur heimildar til greiðsludreifingar tekið til gjaldþrotaskipta eða aðila slitið á tímabili greiðsludreifingar falli kröfur í gjalddaga á úrskurðardegi um gjaldþrotaskipti eða við afskráningu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Í stað ártalsins „2020“ í 1. málsl. 3. efnismgr. komi: 2019.
     b.      Í stað „sbr. 6. mgr.“ í 8. efnismgr. komi: á úrskurðardegi um gjaldþrotaskipti eða við afskráningu.

    Rósa Björk Brynjólfsdóttir skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar undir nefndarálitið með eftirfarandi fyrirvara: Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hafa þingmenn Miðflokksins stutt öll þau mál sem miða að því að bregðast við efnahagsþrengingum sem af faraldrinum leiðir, óháð því hvort aðgerðirnar samræmist þeim aðferðum sem þingmenn Miðflokksins hefðu talið best til þess fallnar. Þótt fullreynt sé að stjórnarmeirihlutinn fallist á tillögur stjórnarandstöðuflokka gildir sú stefna enn. Með undirritun undir nefndarálitið felst ekki yfirlýsing um að útfærslan sé eins og best yrði á kosið.

Alþingi, 4. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir,
með fyrirvara.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
með fyrirvara.
Hjálmar Bogi Hafliðason.