Ferill 728. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1368  —  728. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um offituaðgerðir.


    Upplýsinga var aflað hjá þeim aðilum sem nú framkvæma offituaðgerðir hérlendis. Í gegnum tíðina hafa fleiri aðilar í einkarekstri boðið upp á þessa þjónustu hérlendis en ekki reyndist unnt að afla gagna frá þeim.

     1.      Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að gangast undir offituaðgerð?
    Í byrjun árs 2020 gaf embætti landlæknis út klínískar leiðbeiningar um meðferð fullorðinna einstaklinga með offitu og er hægt að finna þær á vef embættisins. Þar kemur fram: „Skurðaðgerð ætti að íhuga fyrir einstaklinga á aldrinum 18–65 ára með LÞS ≥40,0 eða þá sem eru með LÞS ≥35,0 og fylgisjúkdóma sem tengjast offitu (sykursýki 2 og aðra efnaskiptasjúkdóma, hjarta- og öndunarfærasjúkdóma, kæfisvefn, alvarlega liðsjúkdóma). Fyrir aðgerð á Landspítala fara sjúklingar í sérhæfða atferlismeðferð á Reykjalund eða á sambærilega stofnun til undirbúnings offituaðgerð.

     2.      Hversu margar offituaðgerðir hafa verið framkvæmdar árlega sl. tíu ár, sundurliðað eftir kyni, aldri og því hvort aðgerðin hafi verið framkvæmd á Landspítala, hjá einkaaðilum eða erlendis?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda offituaðgerða sem hafa verið framkvæmdar á Landspítala sl. ár:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Sá einkaaðili sem framkvæmir offituaðgerðir hér á landi er Klíníkin í Ármúla. Samkvæmt upplýsingum frá Klíníkinni eru konur 78% þeirra sem hafa gengist undir þessar aðgerðir og karlar 22%. Meðalaldur er 44,4 ár en 90% sjúklinganna eru á aldursbilinu 27–62 ára. Meðfylgjandi tafla sýnir fjölda aðgerða sl. 5 ár.

Offituaðgerðir 2021 2020 2019 2018 2017
Klíníkin Stefnir í 1.000 500 237 130 62

    Meðfylgjandi er yfirlit yfir offituaðgerðir sem hafa verið afgreiddar og greiddar hjá Sjúkratryggingum Íslands á grundvelli biðtímareglugerðar nr. 442/2012. Árið 2018 var fyrst byrjað að greiða fyrir þessar aðgerðir sem framkvæmdar voru erlendis. Það skal tekið fram að fáar aðgerðir hafa verið greiddar vegna umsókna árið 2020 sem skýrist af COVID-faraldrinum, en nýjustu upplýsingar gefa til kynna að aftur verði tekið við sjúklingum til aðgerða erlendis í lok sumars.

Fjöldi umsókna um offituaðgerð 2020 2019 2018
20–24 ára 2 5
25–39 ára 17 42
40–54 ára 43 48
55+ ára 12 16
Samtals 74 111 5
Kona/Karl 59/16 93/18 4/1
Fjöldi greiddra aðgerða 10 93 4

     3.      Hversu oft sl. tíu ár hafa komið fram alvarlegir fylgikvillar í kjölfar offituaðgerða og í hversu mörgum tilfellum hafa slíkar aðgerðir leitt til dauðsfalla, sundurliðað eftir árum, kyni, aldri og því hvort aðgerð hafi verið framkvæmd á Landspítala, hjá einkaaðilum eða erlendis?
    Offituaðgerðir geta verið magaermi, magahjáveituaðgerð eða minni hjáveituaðgerð. Í grein um árangur magahjáveituaðgerða á Íslandi sem birtist í Læknablaðinu, 10. tbl. 102. árg. frá 2016 má sjá meðfylgjandi töflu um tíðni snemmkominna fylgikvilla (<30 dögum eftir aðgerð) hjá 772 einstaklingum sem gengust undir magahjáveituaðgerð á tímabilinu 2011–2015. Af úrtakinu fengu 4,8% sjúklinga snemmkomna fylgikvilla innan 30 daga frá aðgerð. Samkvæmt rannsókninni þurftu 20 sjúklingar (2,6%) að undirgangast bráðaaðgerð vegna þeirra.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Reikna má með því að um 20% fái síðkomna fylgikvilla (>30 dögum eftir aðgerð), svo sem garnaklemmu, þrengingu á magastúf eða magasár sem þarfnast úrlausnar, annaðhvort í formi lyfjameðferðar eða aðgerðar.
    Samkvæmt fyrrnefndri grein má sjá að tíðni fylgikvilla er ekki há og ávinningur af aðgerð fyrir heilsufar er mikill (sjá textabrot úr sömu grein fyrir neðan töflu). Nýrri rannsóknir um árangur offituaðgerða hér á landi hafa ekki verið gerðar.
        „Magahjáveituaðgerð hefur í för með sér mikið og varanlegt þyngdartap hjá meirihluta sjúklinga. Aðgerðin veldur umtalsverðum bata á flestum fylgisjúkdómum offitu og eru áhrifin á sykursýki af tegund tvö, háþrýsting og blóðfituraskanir veruleg. Þegar sjúklingar með sjúklega offitu fá slíka sjúkdóma ber að íhuga aðgerð sem meðferðarúrræði. Sjúkleg offita er sjúkdómur sem flestir sjúklinganna losna við eftir aðgerð en hluti sjúklinga fær fylgikvilla sem getur þurft að leysa með nýrri aðgerð. Að gangast undir magahjáveituaðgerð er mikil skuldbinding sem krefst góðrar meðferðarheldni og ævilangt eftirlit er nauðsynlegt til að hindra næringarvandamál síðar.“
    Ekki er vitað um andlát á Landspítala í kjölfar offituaðgerða á tímabilinu 2010–2020.
    Samkvæmt upplýsingum frá Klíníkinni kemur fram að fylgikvillar eftir aðgerð eru jafnan mældir 30 dögum eða einu ári eftir aðgerð. 0,8% (10 einstaklingar) hafa þurft á enduraðgerð að halda fyrstu 30 daga eftir aðgerð, og ekkert dauðsfall hefur orðið á því tímabili. Einn sjúklingur lést innan árs frá aðgerð og höfðu undirliggjandi áhættuþættir þar umtalsverð áhrif.
    Sjúkratryggingar Íslands hafa engar upplýsingar um alvarlega fylgikvilla sem komið hafa upp í kjölfar aðgerða sem framkvæmdar hafa verið erlendis.

     4.      Aukast lífslíkur þeirra sem gangast undir offituaðgerð?
    Endurteknar rannsóknir hafa sýnt að það að léttast minnkar líkur á fylgikvillum offitu, sérstaklega efnaskiptasjúkdómum. Að léttast um 5–10% af mestu þyngd og viðhalda því þyngdartapi er nægilegt til að bæta heilsu. Við magahjáveituaðgerð verður yfirleitt mikið þyngdartap, 25–35%, og við það ganga til baka ýmsir efnaskiptafylgikvillar og því er aðgerðin stundum kölluð efnaskiptaskurðaðgerð. Þessar aðgerðir minnka líkur á sykursýki 2 og þeir sem þegar eru komnir með sjúkdóminn geta fengið sjúkdómshlé til margra ára. Sama gildir með æðasjúkdóma, líkur á háþrýstingi og hjartasjúkdómum sem ganga til baka hjá þeim sem þegar eru komnir með slíka sjúkdóma. Kæfisvefn hættir og blóðfituröskun verður ekki lengur til staðar. Rannsókn sem vitnað er í hér að framan og gerð var á einstaklingum sem gengust undir efnaskiptaskurðaðgerð á Landspítala 2000–2014 sýnir þennan árangur vel.