Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
2. uppprentun.

Þingskjal 1370  —  367. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Hjálmar Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands, Tjörva Bjarnason frá Bændasamtökum Íslands, Gunnar Gunnarsson frá Útgáfufélagi Austurlands ehf., Magnús Magnússon frá Skessuhorni, Heiðar Guðjónsson, Þórhall Gunnarsson og Pál Ásgrímsson frá Sýn hf., Þórð Snæ Júlíusson og Eyrúnu Magnúsdóttur frá Kjarnanum, Orra Hauksson, Eirík Hauksson og Magnús Ragnarsson frá Símanum hf., Pál Gunnar Pálsson og Magnús Þór Kristjánsson frá Samkeppniseftirlitinu, Olgu Björt Þórðardóttur frá Hafnfirðingi, Auðun Georg Ólafsson frá Kópavogsblaðinu, Öglu Eiri Vilhjálmsdóttur og Svanhildi Hólm Valsdóttur frá Viðskiptaráði Íslands, Arnþrúði Karlsdóttur frá Útvarpi Sögu, og Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur og Elfu Ýri Gylfadóttur frá fjölmiðlanefnd.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Blaðamannafélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, fjölmiðlanefnd, Hafnfirðingi og Kópavogsblaðinu, Kjarnanum – miðlum ehf., Samkeppniseftirlitinu, Símanum hf., Skessuhorni ehf., Sýn hf., Útgáfufélagi Austurlands ehf., Útvarpi Sögu og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót stuðningskerfi fyrir einkarekna fjölmiðla hér á landi vegna kostnaðar sem fellur til við miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllunar um samfélagsleg málefni. Lagt er til að einkareknum fjölmiðlum verði veittur stuðningur í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni.

Umfjöllun nefndar.
Erlendar efnisveitur.
    Á fundum nefndarinnar var talsvert fjallað um erlendar efnis- og streymisveitur, sérstaklega hvað varðar stöðu þeirra á auglýsingamarkaði og skattumhverfi þeirra. Meiri hlutinn áréttar nauðsyn þess að bæta þurfi stöðu einkarekinna fjölmiðla enda gegna þeir mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi. Enn fremur telur meiri hlutinn nauðsynlegt að jafna stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla. Í þeim efnum tekur meiri hlutinn fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa til skoðunar skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna eða ígildi skattlagningar rafrænna viðskipta við erlendu miðlana. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að þeirri vinnu verði hraðað sem kostur er enda streymir þó nokkurt hlutfall af auglýsingatekjum úr landi og ekki eru greiddir sömu skattar og skyldur af þeim tekjum líkt og ef auglýst er innan lands.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Skilyrði fyrir rekstrarstuðningi (d-liður 2. gr.).
    Fyrir nefndinni var nokkuð fjallað um skilyrði fyrir rekstrarstuðningi sem eru talin upp í d-lið 2. gr. frumvarpsins og um þær breytingar sem gerðar hafa verið á þeim frá því að frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis o.fl.) var lagt fram á 150. löggjafarþingi (458. mál), einkum hvað varðar brottfall skilyrðis um útgáfutíðni.
    Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt frumvarpinu eiga skilyrðin að vera til þess fallin að styrkja þá miðla sem beinlínis efla lýðræðið í landinu með fréttaflutningi og upplýstri umræðu. Í ljósi þess markmiðs telur meiri hlutinn æskilegt að sett sé skilyrði um lágmarksútgáfutíðni og að miðað verði við að prentmiðlar komi út a.m.k. 20 sinnum á ári en netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skuli miðla nýjum fréttum, fréttatengdu efni eða umfjöllun um samfélagsleg málefni á virkum dögum í 20 vikur á ári.
    Þá komu fram sjónarmið um að ekki væri nógu skýrt hvað væri styrkhæft. Í því samhengi bendir meiri hlutinn á að samkvæmt a-lið 2. gr. frumvarpsins skal styðja við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni með því að veita einkareknum fjölmiðlum rekstrarstuðning vegna hluta kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni.
    Enn fremur leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á 2. málsl. 2. tölul. d-liðar 2. gr. frumvarpsins þannig að fjölmiðill skuli hafa starfað með skráningu frá fjölmiðlanefnd óslitið í 12 mánuði eða lengur. Í ákvæðinu voru aðeins tilgreindir fjölmiðlar sem höfðu starfað á grundvelli leyfis en ekki eru allir fjölmiðlar leyfisskyldir skv. 17. gr. laga um fjölmiðla en eru skráningarskyldir skv. 14. gr. sömu laga.

Stuðningshæfur rekstrarkostnaður (e-liður 2. gr.).
    Samkvæmt a-lið e-liðar 2. gr. frumvarpsins fellur beinn launakostnaður einkarekinna fjölmiðla vegna öflunar og miðlunar á efni undir stuðningshæfan kostnað. Hugtakið launakostnaður tekur bæði til launa og launatengdra gjalda og er um að ræða heildarlaun til nánar tilgreindra starfsmanna á ritstjórnum. Við meðferð málsins komu fram athugasemdir um að launakostnaður umbrotsfólks falli ekki undir endurgreiðsluhæfan kostnað. Meiri hlutinn telur rök hníga að því að launakostnaður umbrotsfólks falli einnig hér undir og leggur til breytingar þess efnis.
    Þá leggur meiri hlutinn til að samræma orðalag ákvæðisins og orðalag a-liðar 2. gr. frumvarpsins þannig að beinn launakostnaður falli til við að afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.

Umsóknarfrestur og gildistaka.
    Samkvæmt c-lið 2. gr. frumvarpsins skal umsókn um rekstrarstuðning, ásamt fylgigögnum, berast eigi síðar en 31. mars ár hvert. Þá er í 3. gr. lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2021. Í ljósi þess að bæði þessi tímamörk eru liðin leggur meiri hlutinn til breytingar þess efnis að annars vegar verði umsóknarfrestur til 1. ágúst og hins vegar að lögin öðlist þegar gildi svo að unnt sé að hefja undirbúningsvinnu, svo sem með skipun úthlutunarnefndar, og að auglýsa eftir umsóknum um rekstrarstuðning. Í ljósi þess að meiri hlutinn leggur til að umsóknarfrestur verði til 1. ágúst telur meiri hlutinn æskilegt að lögin komi til framkvæmda sama dag. Þannig gefst ákveðið svigrúm frá gildistöku laganna til að skipuleggja vinnu úthlutunarnefndarinnar og framkvæmd úthlutunarinnar.

Gildistími stuðningskerfis.
    Við meðferð málsins hafa komið fram sjónarmið um að skýra þurfi aðferðafræði við útreikning stuðningskerfisins betur og tryggja að fyrirkomulagið verði til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði. Sömuleiðis þurfi að huga að stöðu smærri fjölmiðla í þessu samhengi. Þá var bent á hversu miklu máli þjónusta og verðlagning póstþjónustu skiptir í rekstri staðbundinna miðla. Taka mætti til skoðunar hvort setja ætti á fót samkeppnissjóð til að jafna rekstrar- og samkeppnisstöðu fjölmiðla. Meiri hlutinn telur æskilegast að fyrirkomulag stuðningskerfisins sem kveðið er á um í frumvarpi þessu verði tekið til nánari skoðunar, m.a. með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum, en verði jafnframt tekið til skoðunar samhliða þeirri endurskoðun sem á sér stað á skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna. Í ljósi þessa telur meiri hlutinn að svo stöddu ástæðu til að um verði að ræða tímabundið stuðningskerfi sem gildi til 31. desember 2022 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni árin 2020 og 2021. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til breytingar þess efnis. Meiri hlutinn gerir sér grein fyrir því að sum ákvæðin eru þess eðlis að þeim er ætlað að verða varanleg. Meiri hlutinn leggur hins vegar til að ákvæðin haldist óbreytt ef ákveðið verður að framlengja gildistíma þeirra.

Aðrar breytingar.
    Meiri hlutinn leggur til að fella brott 5. mgr. og 1. málsl. f-liðar 2. gr. þar sem um er að ræða endurtekningu 3. mgr. c-liðar 2. gr. frumvarpsins. Þá leggur meiri hlutinn til að fella brott 1. málsl. 1. mgr. f-liðar 2. gr. til að gæta samræmis við c-, d- og e-liði 2. gr. frumvarpsins. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að fella brott lokamálslið 7. tölul. d-liðar 2. gr. þar sem ákvæðið á við um styrki sem koma til vegna heimsfaraldursins og er því óþarft. Auk þess leggur meiri hlutinn til minni háttar orðalagsbreytingar til lagfæringar sem er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „sbr. 14. tölul.“ í 1. tölul. 1. gr. falli brott.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað dagsetningarinnar „31. mars“ í 1. mgr. c-liðar og 3. mgr. f-liðar komi: 1. ágúst.
                  b.      Á eftir orðunum „með leyfi“ í 2. tölul. d-liðar komi: eða skráningu.
                  c.      Á eftir 3. tölul. d-liðar komi nýr töluliður, svohljóðandi: Prentmiðlar skulu koma út að lágmarki 20 sinnum á ári. Netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu miðla nýju efni á virkum dögum í 20 vikur á ári.
                  d.      Í stað orðanna „ársins á undan“ í 5. og 7. tölul. d-liðar komi: næsta árs á undan.
                  e.      Í stað orðsins „síðastliðin“ í 5. tölul. d-liðar komi: næstliðin.
                  f.      2. málsl. 7. tölul. d-liðar falli brott.
                  g.      Á eftir orðinu „ljósmyndara“ í a-lið e-liðar komi: umbrotsmanna.
                  h.      Í stað orðanna „vegna öflunar og miðlunar á efni“ í a- og b-lið e-liðar komi: sem fellur til við að afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.
                  i.      1. málsl. 1. mgr. f-liðar falli brott.
                  j.      5. mgr. f-liðar falli brott.
                  k.      1. málsl. 6. mgr. f-liðar falli brott.
                  l.      3. málsl. 7. mgr. f-liðar orðist svo: Leiði endurákvörðun til lækkunar á stuðningsfjárhæð skal annaðhvort umsækjandi endurgreiða ríkissjóði mismuninn innan tíu daga frá því að tilkynnt er um ákvörðunina eða fjárhæðin dregin frá rekstrarstuðningi sem ákveðinn hefur verið á grundvelli umsóknar næsta árs.
     3.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við 64. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ákvæði X. kafla B falla úr gildi 1. janúar 2023.
     4.      3. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. ágúst 2021.

Alþingi, 4. maí 2021.

Páll Magnússon,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.
Birgir Ármannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir,
með fyrirvara.