Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1374  —  652. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um heimilisofbeldi.


     1.      Hversu margar tilkynningar um heimilisofbeldi hafa borist lögreglu á ári undanfarin tíu ár og það sem af er þessu ári?
    Á árinu 2015 tóku gildi uppfærðar verklagsreglur lögreglu um meðferð heimilisofbeldismála vegna aukinnar áherslu á málaflokkinn og voru gerðar talsverðar breytingar á skráningu slíkra mála í kjölfarið. Af þeim sökum er ekki unnt að kalla eftir samanburðarhæfum tölfræðiupplýsingum fyrir árin 2011–2014 og tekur meðfylgjandi tölfræði mið af því.
    Eftirfarandi eru upplýsingar um tilkynningar um heimilisofbeldi á árunum 2015–2021.

        2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021, til 18. apríl
782 792 872 869 902 1017 237

     2.      Hyggst ráðherra fara í átak um allt land gegn heimilisofbeldi og ef svo er, með hvaða hætti ?
    Ráðherra hefur að undanförnu markvisst stuðlað að aðgerðum í baráttunni gegn heimilisofbeldi.
    Í maí 2020 skipaði ráðherra ásamt félags- og barnamálaráðherra aðgerðateymi vegna markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum á tímum COVID-19.
    Helstu verkefni teymisins voru að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða er lúta einkum að almennri vitundarvakningu um ofbeldi gegn börnum og heimilisofbeldi, eflingu þjónustu og stuðningsúrræða við þolendur ofbeldis og stuðningi við þróun og framkvæmd annarra verkefna á þessu sviði.
    Þá var teyminu falið að fylgja eftir öðrum almennum aðgerðum er lúta að fræðslu, þjónustu og stuðningi vegna ofbeldis í samræmi við tillögur í áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árið 2019–2022, sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2019, en ráðuneytið er bæði ábyrgðaraðili og samstarfsaðili að flestum aðgerðanna.
    Ein af aðgerðum teymisins var vitundarvakning gegn ofbeldi í samfélaginu veturinn 2020–2021 en vitundarvakningin á sér stað í nýrri vefgátt 112 um ofbeldi.
    Teymið hefur hafið vinnu við að útbúa fræðsluefni um heimilisofbeldi og vinnustaði. Efnið verður nýtt í trúnaðarmannafræðslu Félagsmálaskólans, í fræðslu fyrir eftirlitsmenn og aðra starfsmenn Vinnueftirlitsins, það verður sent til aðildarfélaga ASÍ og BSRB og verður aðgengilegt almenningi á vefgátt 112 um ofbeldi.
    Með breytingu á almennum hegningarlögum árið 2016 var nýju ákvæði, 218. gr. b, bætt við lögin en með ákvæðinu var ofbeldi í nánum samböndum sérstaklega lýst refsivert. Var athyglinni beint að því ógnar- og óttaástandi sem getur skapast og jafnframt þeirri viðvarandi andlegu þjáningu, kúgun og vanmætti sem þolandi upplifir við ofbeldi í nánum samböndum.
              Árið 2018 voru verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála uppfærðar. Eru verklagsreglurnar ítarlegar og er þar gætt að nauðsynlegri aðstoð og þjónustu við brotaþola, svo sem í samráði við barnavernd og félagsþjónustuna.
    Fyrr á þessu ári samþykkti Alþingi frumvarp ráðherra til breytinga á almennum hegningarlögum um kynferðislega friðhelgi. Markmið breytinganna er að styrkja réttarvernd einstaklinga gegn brotum á kynferðislegri friðhelgi þeirra. Þannig er stefnt að því að vernda þá grundvallarhagsmuni sem eru persónulegt frelsi, mannhelgi og kynfrelsi einstaklinga. Eru lagabreytingarnar til þess fallnar að skýra réttarumhverfið og stuðla að betri meðferð mála innan réttarvörslukerfisins.
    Á þessu ári hefur Alþingi einnig samþykkt frumvarp ráðherra til breytinga á almennum hegningarlögum um umsáturseinelti. Meginefni lagabreytingarinnar lýtur að því að treysta enn frekar vernd þeirra sem verða fyrir umsátri, ekki síst kvenna og barna. Refsiákvæði af þessu tagi er í góðu samræmi við markmið Istanbúl-samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi og kemur til viðbótar ákvæðum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Í þessu sambandi má jafnframt nefna að árið 2019 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, sem höfðu það að markmiði að bæta meðferðina að því er varðar beitingu nálgunarbanns þannig að hún verði ekki eins þung í vöfum.
    Loks hefur ráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um meðferð sakamála, þar á meðal bætta réttarstöðu þolenda, annars vegar á meðan á rannsókn lögreglu stendur og hins vegar við meðferð máls fyrir dómi.
    Áfram verður unnið að því af hálfu ráðuneytisins, eins og hefur verið gert, að leita leiða við að bæta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis innan refsivörslukerfisins, hvort sem er við rannsókn mála hjá lögreglu eða meðferð þeirra fyrir dómstólum.