Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1377  —  9. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um íslensk landshöfuðlén.

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


     1.      Í stað orðanna „Þá gilda lög þessi“ í 2. mgr. 2. gr. komi: Lög þessi gilda.
     2.      Í stað orðanna „samkvæmt almennri málnotkun“ í 2. tölul. 4. gr. komi: í almennu máli.
     3.      Við 8. gr.
                  a.      Í stað orðsins „máta“ í 1. mgr. komi: hátt.
                  b.      Á eftir orðinu „og“ í a-lið 2. mgr. komi: geyma eða taka saman.
                  c.      Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: starfrækja úrskurðarnefnd, eins til þriggja manna eftir eðli máls, sem sker úr deilum um lén á grundvelli reglna skráningarstofunnar.
     4.      Í stað orðanna „unnið skal út frá“ í 2. mgr. 9. gr. komi: fylgt skal.
     5.      Í stað orðsins „léna“ í 1. málsl. 3. mgr. 10. gr. komi: skráningarstofu.
     6.      Við 11. gr.
                  a.      Í stað orðsins „tveimur“ í b-lið 1. mgr. komi: sex.
                  b.      2. mgr. orðist svo:
                      Lögregla getur, að undangengnum dómsúrskurði, haldlagt lén sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni, tekið yfir forræði þess og rekið það tímabundið í tengslum við rannsókn opinbers máls og öflun sönnunargagna.
     7.      3. mgr. 12. gr. orðist svo:
                      Rétthafi ber ábyrgð á að notkun á léni samrýmist réttmætum og lögvernduðum hagsmunum hans og skerði ekki lögvarin réttindi annarra, svo sem hugverkaréttindi.
     8.      Við 2. mgr. 13. gr.
                  a.      Orðin „einu sinni“ falli brott.
                  b.      Í stað orðsins „skilafrestur“ komi: frestur.
     9.      Ákvæði til bráðabirgða I orðist svo:
                      Ríkissjóður á forkaupsrétt að öllum hlutum í félaginu Internet á Íslandi hf., ISNIC, kt. 660595-2449, og hlutabréfum þeirra lögaðila sem eiga bréf í Internet á Íslandi hf., ISNIC.
                      Eigandi Internet á Íslandi hf., ISNIC, skal tilkynna til ríkisskattstjóra og Póst- og fjarskiptastofnunar um beint og óbeint eignarhald í Internet á Íslandi hf., ISNIC, kt. 660595-2449, í samræmi við lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.
                      Berist kauptilboð í félagið eða hlutabréf þeirra aðila sem eiga bréf í félaginu skal tilkynna það til Póst- og fjarskiptastofnunar án tafar, eigi síðar en innan 48 klukkustunda frá því að kauptilboðið kom til vitundar seljanda.
                      Þegar kominn er á samningur skal Póst- og fjarskiptastofnun bera samninginn undir ráðherra sem fer með málefni fjarskipta, fyrir hönd forkaupsréttarhafa, til samþykktar. Frestur ríkissjóðs til að svara forkaupsréttartilboði skal vera 60 dagar frá því að tilboðið barst ráðherra.
                      Kaup á hlutum, sem forkaupsréttur gildir um, koma ekki til framkvæmda á meðan frestur forkaupsréttarhafa er að líða, matsgerð samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II er enn ólokið eða rekið er dómsmál um forkaupsréttarverð.
     10.      Á eftir ákvæði til bráðabirgða I komi nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Ef kaupverð hluta, sem forkaupsréttur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I gildir um, er bersýnilega ósanngjarnt getur forkaupsréttarhafi krafist þess að það verði metið af dómkvöddum matsmönnum eða yfirmatsmönnum og gildir það þá sem söluverð. Forkaupsréttarhafi skal taka ákvörðun um að krefjast mats innan 15 daga frá því að forkaupsréttartilboð barst honum og fellur þá 60 daga frestur 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I úr gildi.
                      Forkaupsréttarhafi skal innan viku frá því að matsgerð skv. 1. mgr. barst honum ákveða hvort hann neytir forkaupsréttar samkvæmt matsgerðinni. Matsgerð skal lokið eins fljótt og auðið er.
                      Matsmenn skulu dómkvaddir fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Matsmenn ákveða matskostnað og hvernig hann greiðist.
                      Ágreiningur vegna forkaupsréttar skal rekinn fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Komi upp ágreiningur um forkaupsréttarverð að loknu mati er unnt að bera málið undir dómstóla og skal það sæta flýtimeðferð í samræmi við ákvæði XIX. kafla laga um meðferð einkamála.