Ferill 452. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1380  —  452. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012 (móttaka einstaklinga með vernd, innflytjendaráð).

(Eftir 2. umræðu, 6. maí.)


1. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 3. gr. a og 3. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (3. gr. a.)

Samræmd móttaka einstaklinga með vernd.

    Fjölmenningarsetur skal veita móttökusveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna samræmdrar móttöku einstaklinga sem fengið hafa stöðu flóttamanna skv. 1. eða 2. mgr. 37. gr., einstaklinga sem fengið hafa dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann sem fengið hefur stöðu skv. 37. gr., einstaklinga sem fengið hafa synjun um hæli en fengið dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr., einstaklinga sem íslenska ríkið hefur boðið að setjast að hér á landi í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skv. 43. gr. og ríkisfangslausra einstaklinga skv. 2. mgr. 37. gr. og 39. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Fjölmenningarsetur, að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag, býður einstaklingum skv. 1. málsl. að setjast að í tilteknu móttökusveitarfélagi á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja.
    Fjölmenningarsetur veitir einstaklingum með vernd skv. 1. mgr., sem ákveða að þiggja ekki boð um búsetu í móttökusveitarfélagi, upplýsingar um almenna þjónustu sveitarfélaga.
    Fjölmenningarsetur skal hafa umsjón með og standa fyrir samráði milli þeirra aðila sem koma að móttöku einstaklinga með vernd skv. 1. mgr. hér á landi.

    b. (3. gr. b.)

Upplýsingaöflun.

    Að því marki sem Fjölmenningarsetur telur nauðsynlegt vegna verkefna samkvæmt lögum þessum skal stofnunin afla upplýsinga frá Útlendingastofnun, sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum eftir því sem við á hverju sinni. Hlutaðeigandi aðilum ber að veita Fjölmenningarsetri umbeðnar upplýsingar, búi þeir yfir þeim, án endurgjalds.
    Fjölmenningarsetri er heimilt að miðla viðeigandi upplýsingum og ráðgjöf til aðila skv. 1. mgr. þegar nauðsynlegt er að mati stofnunarinnar vegna málefna einstaklinga með vernd skv. 3. gr. a.

    Fjölmenningarsetri er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar og þjóðernislegan uppruna einstaklinga, í þeim tilgangi að sinna hlutverki sínu skv. 3. gr. a við samræmda móttöku einstaklinga með vernd skv. 1. mgr. 3. gr. a.
    Fjölmenningarsetri ber að upplýsa viðkomandi einstakling eða forráðamann hans um fyrirhugaða vinnslu og miðlun persónuupplýsinga í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „sex“ í 1. málsl. kemur: sjö.
     b.      Á eftir orðunum „þeim ráðherra sem fer með málefni útlendinga“ í 3. málsl. kemur: einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu frá þeim ráðherra sem fer með heilbrigðismál.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.