Ferill 727. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1386  —  727. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um hjálpartæki fyrir fatlað fólk.


     1.      Er von á tímasettum og fjármögnuðum aðgerðum frá ráðherra um fyrirkomulag hjálpartækja fatlaðs fólks, sbr. tillögur í skýrslu starfshóps um hjálpartæki sem skilað var í september 2019? Ef svo er, hver verður tímaáætlun úrbóta og hvaða aðgerðir liggja fyrir á árinu 2021?
    Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp 14. júní 2018 sem athuga skyldi fyrirkomulag varðandi hjálpartæki hér á landi. Hópnum var falið að skoða fyrirkomulagið í heild með tilliti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur var hér á landi árið 2016, möguleika til sjálfstæðs lífs, samfélags- og atvinnuþátttöku, verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, jafnræðis og tækniþróunar.
    Starfshópurinn skilaði skýrslu með tillögum til úrbóta. Tillögurnar miða allar að því að auka, bæta og einfalda aðgengi að hjálpartækjum sem einstaklingar þarfnast og að því að draga úr kostnaði notenda. Tillögurnar hafa verið rýndar í heilbrigðisráðuneytinu og gerð tillaga að forgangsröðun, en einnig er um að ræða tillögur sem heyra undir aðra en heilbrigðisráðuneyti, þ.e. önnur ráðuneyti eða sveitarfélög.
    Þær aðgerðir sem heyra undir heilbrigðisráðherra hafa verið tímasettar og fjármagnaðar að einhverju leyti. Á árinu 2021 hefur fjármögnun verið tryggð fyrir tillögu starfshópsins sem varðar börn sem eiga heimili á tveimur stöðum og gætu þarfnast hjálpartækja á báðum heimilum svo að bæði heimilin verði jafnsett til að mæta þörfum þeirra, þar sem ekki er alltaf hægt að flytja hjálpartæki milli staða. Veitt verður heimild til kaupa á hjálpartækjum á tveimur heimilum fatlaðra barna en um er að ræða heildaraðgerð fyrir 200 millj. kr. og á árinu 2021 munu 68 millj. kr. renna til verkefnisins. Að auki munu fastar styrkupphæðir sem tilgreindar eru í fylgiskjali með reglugerð um styrki vegna hjálpartækja, nr. 1155/2013, verða hækkaðar. Gert er ráð fyrir því að verja 107 millj. kr. til þessa í ár og einnig verður 107 millj. kr. varið til þessa á næsta ári, 2022.

     2.      Hyggst ráðherra láta endurskoða regluverk um hjálpartæki til samræmis við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, svo sem varðandi skilgreiningar á hugtökum?
    Ekki er alveg ljóst hvort ósamræmi ríkir í hugtakanotkun í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í 26. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, um hjálpartæki. Það kann þó að vera ákjósanlegt að endurskoða skilgreiningu á hugtakinu hjálpartæki í reglugerðum til þess að hún samræmist betur samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.