Ferill 685. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1387  —  685. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um myglu í húsnæði Landspítalans.


     1.      Í hve mörgum og þá hverjum bygginga Landspítalans hefur orðið vart við myglu?
    Starfsemi Landspítala er í um 100 byggingum á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Flestar byggingar spítalans eru komnar til ára sinna og ástand þeirra hefur verið breytilegt milli ára og rakavandi komið upp í mörgum þeirra undanfarin tíu ár.
    Frá árinu 2016 hafa eftirfarandi byggingar komið til skoðunar eða umræðu:
     a.      Hringbraut: Aðalbygging, A-, B-, C-, E-, G- og W-álmur, Kringlan, eldhúsbygging, kvennadeild, Barnaspítali Hringsins, rannsóknarhús 6 og 7, hús 14 og geðdeildarbygging.
     b.      Eiríksgata 37/Þorfinnsgata.
     c.      Eiríksgata 19, 21 og 29.
     d.      Eirberg.
     e.      Fossvogur: Aðalbygging, A-, B- og E-álmur, turnbygging, Birkiborg, Greniborg.
     f.      Landakot: K- og L-álmur, kjallari.
     g.      Kópavogur: Rjóður, líknardeild, miðstöð um sjúkraskrárritun.
     h.      Dalbraut: BUGL, eldra og yngra hús.
     i.      Ármúli 1a: Rannsóknarstofur.
     j.      Hvítabandið að Skólavörðustíg.
     k.      Grensás: Aðalbygging og sundlaugarbygging.
     l.      Kleppur: Aðalbygging og skrifstofubygging.
     m.      Vífilsstaðir.
     n.      Tunguháls: Þvottahús og birgðastöð.
     o.      Reynimelur 55.
     p.      Laugarásvegur 71.

     2.      Í hve mörgum tilfellum árlega sl. þrjú ár hefur starfsfólk Landspítalans kvartað yfir einkennum sem rekja má til myglu?
    Á Landspítala hafa undanfarin ár starfað að meðaltali 5.880 starfsmenn á ári og margir þeirra starfað í byggingum þar sem upp hafa komið rakavandamál.
    Til trúnaðarlæknis Landspítala leita að meðaltali um 20 starfsmenn á ári vegna einkenna sem þeir telja að geti stafað af rakavanda/myglu í starfsumhverfi þeirra. Í þessu samhengi er þó mikilvægt að ekki er unnt að meta kostnað vegna langtímaáhrifa á heilsu þar sem komur vegna myglu í atvinnuhúsnæði hafa ekki verið skilgreindar sem atvinnusjúkdómur. Því er ekki unnt að halda utan um þessi mál í kerfum spítalans.
    Göngudeild lyflækninga í Fossvogi hefur tekið á móti 424 einstaklingum frá árinu 2013 vegna heilsufarsvanda sem þeir telja að geti tengst rakavanda/myglu á vinnustað. Á mynd A má sjá komur eftir árum og tegund greiningar. Áætlað er að um helmingur þessara 424 einstaklinga séu starfsmenn Landspítala en inni í þessum tölum eru einnig starfsmenn frá öðrum fyrirtækjum/stofnunum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd A.

    Á Landspítala er starfandi þverfaglegt teymi sem tekur til umfjöllunar mál þar sem grunur er um að heilsufarsvandi starfsmanna tengist rakavanda í starfseiningum/byggingum spítalans.

     3.      Hve marga veikindadaga starfsfólks má rekja árlega sl. þrjú ár til myglu og hvað má gera ráð fyrir að margir hafi hætt störfum vegna afleiðinga myglu?
    Heilsufarsvandi vegna rakavanda í atvinnuhúsnæði hefur ekki verið skilgreindur sem atvinnusjúkdómur. Því er ekki unnt að halda utan um þessi mál í kerfum spítalans og ríkisins.

     4.      Hvernig hefur gengið að uppræta myglu þar sem hún hefur komið upp? Hefur það tekist að fullu í öllum tilfellum?
    Ráðist hefur verið í ýmsar lagfæringar vegna rakavanda í byggingum spítalans. Þær hafa verið bæði stórar og smáar eftir því sem tilefni hefur verið til. Fyrstu lagfæringar eru ávallt að koma í veg fyrir rakasöfnun og síðan er fjarlægt skemmt byggingarefni og byggingarhlutar. Stundum getur það verið erfiðleikum bundið að fjarlægja alla byggingarhluta þannig að engar leifar af myglu geti verið eftir. Það er einkum erfitt í spítalabyggingum þar sem mjög þröngt er um starfsemina og oft erfitt að færa til sérhæfða starfsemi.

     5.      Hver má gera ráð fyrir að sé árlegur kostnaður Landspítalans sl. þrjú ár við að uppræta myglu?
    Undanfarin þrjú ár hefur árlegur meðalkostnaður Landspítala vegna viðhalds rakaskemmda verið að meðaltali tæpar 900 millj. kr. Á mynd B er sýndur árlegur kostnaður Landspítala vegna mygluviðgerða árin 2015 til 2020. Í fylgiskjali má sjá hvernig viðgerðarkostnaður hvers árs skiptist eftir byggingum spítalans.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd B. Árlegur kostnaður vegna sérstaks viðhalds vegna rakaskemmda 2015–2020 á verðlagi hvers árs.

     6.      Hefur Landspítalinn greitt starfsfólki bætur vegna afleiðinga myglu og ef svo er, um hvaða fjárhæðir er að ræða?
    Nei.

     7.      Hafa þær aðstæður komið upp að ekki borgi sig að gera við húsnæði spítalans vegna afleiðinga myglu?
    Upp hafa komið aðstæður þar sem viðgerðir eru ekki réttlætanlegar. Í þeim tilfellum er um að ræða minna og almennt húsnæði, svo sem bráðabirgðaskrifstofuhúsnæði og gamalt íbúðarhúsnæði á Kleppi og Vífilsstöðum. Í sérhæfðara húsnæði hefur verið ráðist í viðgerðir og endurbyggingu.


Fylgiskjal.


Viðgerðarkostnaður hvers árs eftir byggingum.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s1387-f_I.pdf