Ferill 665. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1389  —  665. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um tollasamning við Evrópusambandið.

    
     1.      Hvað líður endurskoðun tollasamnings við Evrópusambandið?
    Hinn 16. desember sl. óskaði ráðherra eftir viðræðum við ESB um framkvæmd tvíhliða samnings um viðskipti með landbúnaðarvörur, með það að markmiði að auka jafnvægi milli skuldbindinga samningsaðila. Erindinu var vel tekið af hálfu ESB og þegar hafa verið haldnir tveir fundir með fulltrúum landbúnaðarskrifstofu sambandsins. Undirbúningur fyrir næstu skref stendur nú yfir.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að við endurskoðun verði tekið tillit til stærðarmunar á mörkuðum þar sem örríki semur við ógnarstórt ríkjabandalag?
    Markmið stjórnvalda með því að ræða við Evrópusambandið er að auka jafnvægi í viðskiptum aðila á grundvelli samningsins. Viðræðurnar fara fram á jafningjagrundvelli þar sem báðir aðilar gæta hagsmuna sinna og niðurstaða slíkra viðræðna verður einungis sú sem viðsemjendur verða ásáttir um. Íslensk stjórnvöld munu hér eftir sem hingað til gæta að hagsmunum allra innlendra aðila, framleiðenda, verslunar- og þjónustugreina, sem og neytenda.

    Alls fóru 2 klukkustundir í að taka þetta svar saman.