Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1394  —  641. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Rannveigu Júníusdóttur og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Seðlabanka Íslands.
    Umsögn barst frá Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIPs-reglugerðin) verði innleidd í íslenskan rétt.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Gildissvið laganna (ný 2. mgr. 1. gr.).
    Í umsögn sinni leggur Seðlabanki Íslands til að kveðið verði á um gildissvið laganna í sérstöku ákvæði. Með því móti verði tekinn af vafi um það til hvaða aðila og fjárfestingarafurða frumvarpið nái til. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið og leggur til að við bætist nýtt ákvæði sem afmarki gildissvið laganna í samræmi við tillögu Seðlabankans.

Lögbært yfirvald (3. gr.).
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir að Fjármálaeftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA annist eftirlit samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Í greinargerð segir um 3. gr. að Fjármálaeftirlitinu sé samkvæmt ákvæðinu falið það hlutverk að vera lögbært yfirvald skv. 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. PRIIPs-reglugerðarinnar.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands kemur fram það sjónarmið að tilgreina ætti að Seðlabankinn sé lögbært yfirvald í skilningi reglugerðarinnar. Í því sambandi er bent á að Fjármálaeftirlitið sé hluti af Seðlabanka Íslands og að bankinn fari með þau verkefni sem Fjármálaeftirlitinu eru falin í lögum. Því sé Fjármálaeftirlitið ekki stofnun, öllu heldur sé tilvísun til þess í lögum vísun til eftirlitsstarfsemi Seðlabankans.
    Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu þar sem fram kæmi afstaða til þessara ábendinga Seðlabanka Íslands. Í minnisblaðinu er aðdragandi sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins rakinn og bent á að enn sé gert ráð fyrir því að verkefni Fjármálaeftirlitsins verði afmörkuð í lögum, þá sé gert ráð fyrir því að heitinu „Fjármálaeftirlitið“ verði viðhaldið í löggjöf sem fjallar um verkefni Seðlabankans sem fela í sér eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Meiri hlutinn tekur undir það sem fram kemur í minnisblaði ráðuneytisins að rétt sé að viðhalda gagnsæi um hvaða verkefni Seðlabankans feli í sér eftirlit með fjármálastarfsemi. Eigi að síður telur meiri hlutinn að gera verði greinarmun á lagaákvæðum sem mæla fyrir um verkefni sem Fjármálaeftirlitinu, sem hluta af starfsemi Seðlabankans, er falið að sinna og ákvæðum sem fjalla um stöðu stofnunarinnar samkvæmt lögunum, þótt þau verkefni sem leiðir af þeirri stöðu heyri að öllu leyti undir Fjármálaeftirlitið.
    Leggur meiri hlutinn því til að við 3. gr. bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að Seðlabanki Íslands sé lögbært yfirvald í skilningi reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014.

Upplýsingaskylda útgefenda verðbréfa og flöggunarskylda (lög nr. 20/2021).
    Lög um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021, öðluðust gildi 1. maí 2021 og fela í sér innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/ EB (gagnsæistilskipunarinnar) með síðari breytingum. Nefndinni barst ábending frá ráðuneytinu þess efnis að í 1. og 2. mgr. 10. gr. væri kveðið á um skyldu til að birta ársreikninga og árshlutareikninga á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði. Skyldan til birtingar á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði ætti skv. 7. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar eingöngu að eiga við um ársreikninga, 10. gr. laganna gengi því lengra en leiða mætti af ákvæðum tilskipunarinnar.
    Meiri hlutinn leggur í samráði við ráðuneytið til breytingu á 6. og 10. gr. laganna þess efnis að skylda til birtingar árshlutareikninga á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði falli brott.

    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Lög þessi gilda um framleiðendur pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta og aðila sem veita ráðgjöf um eða selja slíkar afurðir. Jafnframt gilda lögin um þá aðila sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd skv. II. kafla laga nr. 129/1997, sbr. 3.–5. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
                  b.      Fyrirsögn greinarinnar verði: Markmið og gildissvið.
     2.      Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Seðlabanki Íslands er lögbært yfirvald í skilningi reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014.
     3.      19. gr. orðist svo:
                  Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
              1.      Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997: Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
                     Aðilar skv. 3.–5. mgr. 8. gr. sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd skv. II. kafla skulu útbúa lykilupplýsingaskjal í samræmi við II. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014, sbr. lög um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.
              2.      Lög um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021.
                          a.      Við 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ársreikninga skal birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.
                          b.      Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
                          1.      Orðin „og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði“ í 1. og 2. mgr. falla brott.
                          2.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Efni ársreiknings og árshlutareiknings.

    Smári McCarthy ritar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 7. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Smári McCarthy,
með fyrirvara.
Hjálmar Bogi Hafliðason.