Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1399  —  633. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um birtingu úrskurða kærunefndar útlendingamála.


     1.      Hversu marga úrskurði hefur kærunefnd útlendingamála kveðið upp frá því að hún hóf störf? Óskað er sundurgreiningar eftir árum og því hvort útdráttur var birtur eða úrskurður í heild sinni.
    Samkvæmt upplýsingum frá kærunefnd útlendingamála hefur nefndin kveðið upp 3.193 úrskurði frá því að hún hóf störf, 208 úrskurði árið 2015, 568 úrskurði árið 2016, 615 úrskurði árið 2017, 575 úrskurði árið 2018, 611 úrskurði árið 2019, 439 úrskurði árið 2020 og 177 úrskurði það sem af er árinu 2021. Samkvæmt upplýsingum af vefsíðunni urskurdir.is hefur kærunefnd útlendingamála birt 1.714 úrskurði frá því að hún hóf störf. Lög um útlendinga gera ekki ráð fyrir því að kærunefnd birti úrskurði sem ekki fela í sér efnislega niðurstöðu. Tölfræði kærunefndarinnar greinir ekki á milli þess hvort um slíka úrskurði er að ræða eða ekki og því hefur nefndin ekki upplýsingar í sínum fórum um hversu margir úrskurðir eru undanskildir birtingu vegna þess að þeir feli ekki í sér efnisniðurstöðu. Þá þarf að hafa í huga að tölfræði nefndarinnar telur einstaklinga en ekki úrskurði og þegar um er að ræða fjölskyldur eru mál þeirra oft tekin saman í einum úrskurði. Að mati kærunefndarinnar má gróflega áætla að um 75% úrskurða kærunefndar teljist fela í sér efnislega niðurstöðu, eða um 2.400 úrskurðir. Kærunefndin hefur ekki birt útdrætti úr úrskurðum heldur aðeins úrskurði í heild sinni.

     2.      Hve marga úrskurði kærunefndarinnar hefur verið fallið frá því að birta, þ.e. úrskurði í heild eða útdrátt, frá því að hún hóf störf? Hvaða ástæður voru helst fyrir því að birta ekki úrskurði?
    Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um hversu marga úrskurði kærunefnd hefur fallið frá að birta, sbr. svar 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Þá liggja ekki fyrir tölur um hversu marga úrskurði nefndin hefur ákveðið að birta ekki strax en hafa síðan verið birtir síðar. Samkvæmt kærunefnd útlendingamála er ástæða þess að úrskurður hafi ekki verið birtur venjulega sú að talið er að úrskurður sé persónugreinanlegur þó svo að nöfn og slík auðkenni séu tekin út og að þar sem úrskurður innihaldi persónulegar upplýsingar sem rétt þyki að fari leynt sé úrskurður ekki birtur.

     3.      Hvað er miðað við að langur tími líði frá úrskurði til birtingar á vef kærunefndar?
    Kærunefndin hefur sett sér verklagsreglur þar sem miðað er við að úrskurður sé ekki birtur fyrr en a.m.k. tveir mánuðir séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um niðurstöðu. Dómsmálaráðuneytið telur rétt að hugað sé að því hvort umræddar reglur þarfnist endurskoðunar

     4.      Hver hefur verið meðaltími frá úrskurði til birtingar úrskurða frá því að kærunefndin hóf störf? Hver var stysti tími frá úrskurði til birtingar annars vegar og lengsti tími hins vegar hvert ár? Óskað er sundurgreiningar eftir árum og því hvort útdráttur var birtur eða úrskurður í heild sinni.
    Samkvæmt upplýsingum frá kærunefndinni liggja þessar upplýsingar ekki fyrir.

     5.      Hversu marga úrskurði á enn eftir að birta og frá hvaða árum? Hvaða ástæður eru helst fyrir því að tefst að birta úrskurði?
    Samkvæmt upplýsingum frá kærunefndinni hafa um 80 úrskurðir frá árinu 2020 enn ekki verið birtir. Verið er að meta hvort einhverjir af þeim verði birtir á næstunni. Uppkvaðning úrskurða hefur að sögn nefndarinnar forgang umfram vinnu við að gera úrskurði tilbúna fyrir birtingu og taka ákvörðun um slíka birtingu. Þessi forgangsröðun og annir við vinnslu mála eru að sögn nefndarinnar ein helsta ástæða tafa við birtingu. Einhverjir úrskurðir frá fyrri árum hafa ekki heldur verið birtir en upplýsingar um fjölda þeirra liggja ekki fyrir.

     6.      Hversu oft hefur kærunefndin frestað eða fallið frá birtingu úrskurða á grundvelli 8. og 9. gr. verklagsreglna um birtingu úrskurða á netinu, frá 1. júní 2020, eða sambærilegra ákvæða eldri reglna? Óskað er sundurgreiningar eftir árum og því hvort ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli fjölmiðlaumfjöllunar, sbr. 8. gr. reglnanna, eða heimaríkis kæranda, sbr. 9. gr. þeirra.
    Samkvæmt gögnum kærunefndar hefur verið tekin ákvörðun um að birta ekki fimm úrskurði frá því að núgildandi verklagsreglur tóku gildi, en fjallað var um þessi mál í fjölmiðlum. Nokkur mál til viðbótar bíði enn ákvörðunar um hvort birta eigi úrskurð. Allar þessar ákvarðanir kunni að verða endurskoðaðar síðar. Samkvæmt upplýsingum frá kærunefndinni hefur verið fallið frá birtingu úrskurða á grundvelli eldri verklagsreglna en fjöldi þeirra liggur ekki fyrir.

     7.      Hvernig er háttað mati á því hvort úrskurður sem annars er ekki persónugreinanlegur verði persónugreinanlegur vegna fjölmiðlaumfjöllunar í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar? Á hvaða lagagrundvelli hvílir þessi heimild 8. gr. reglna um birtingu úrskurða kærunefndar útlendinga á netinu?
    Samkvæmt upplýsingum frá kærunefnd útlendingamála er ákvörðun um hvort úrskurður geti verið persónugreinanlegur vegna fjölmiðlaumfjöllunar tekin af yfirlögfræðingi í samráði við formann. Að mati kærunefndar útlendingamála eru umræddar verklagsreglur um birtingu á netinu nánari útfærsla á ákvæði 7. mgr. 6. gr. laga um útlendinga. Rétt er að taka fram að ráðuneytið hefur nú til skoðunar ýmis atriði er varða birtingu úrskurða og fyrirkomulag þar að lútandi.