Ferill 677. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1400  —  677. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lagalega ráðgjöf.


     1.      Hvaða viðmið eru viðhöfð þegar ráðuneytið leitar eftir ráðgjöf til stofnana eða starfsmanna, þ.m.t. félaga í eigu starfsmanna lagadeilda Háskólans á Akureyri (HA), Háskóla Íslands (HÍ), Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskólans á Bifröst (Bifröst) sem gegna stöðu nýdoktora, háskólakennara, lektora, dósenta eða prófessora í fullu starfi og hlutastarfi, þ.m.t. starfsmanna í gesta- og rannsóknarstöðum?
    Leitað er eftir utanaðkomandi sérþekkingu þegar nauðsyn ber til. Ávallt ber að gæta jafnræðis, hlutlægni, hagkvæmni og samkeppnissjónarmiða þegar leitað er utanaðkomandi sérfræðiráðgjafar, í samræmi við meginreglur sem fram koma í lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, og í lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016.
    Ráðuneytið hefur ekki sett sér sérstök viðmið varðandi umleitan til stofnana eða starfsmanna er varðar ráðgjöf. Leitast hefur verið eftir ráðgjöf frá starfsmönnum lagadeilda vegna verkefna sem eru sérlega umfangsmikil eða ef verkefnastaða sérfræðinga ráðuneytisins er slík að ekki er unnt að vinna verkefnið með þeim hraða sem kallað er eftir.

     2.      Vegna hvers konar verkefna er leitað lagalegrar ráðgjafar hjá starfsmönnum og stofnunum lagadeilda háskólanna og hversu oft vegna hverrar tegundar verkefna?
    Leitað er utanaðkomandi ráðgjafar á sviði lögfræði vegna lagalegra úrlausnarefna á borð við undirbúning lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla. Verkefni sem kalla á utanaðkomandi lögfræðiráðgjöf eru ekki flokkuð eftir undirtegundum í skjala- og bókhaldskerfum ráðuneytisins.

     3.      Hversu mörg ráðgjafarverkefni sem 1. tölul. lýtur að hafa verið innt af hendi frá árinu 2018 og hversu mikið hefur verið greitt samtals fyrir ráðgjöfina á umræddu tímabili?
    Um er að ræða þrjú verkefni sem samtals hafa kostað 6,7 millj. kr. á tímabilinu.

     4.      Hversu mikið hefur verið greitt fyrir verkefni sem vikið er að í 1. tölul. frá ársbyrjun 2018 og hversu mörg hafa verið innt af hendi af annars vegar starfsmönnum og hins vegar stofnunum:
a. lagadeildar HA,
b. lagadeildar HÍ,
c. lagadeildar HR,
d. lagadeildar Bifrastar?

    a. Lagadeild HA 0 kr.
    b. Lagadeild HÍ 0 kr.
    c. Lagadeild HR 6,7 millj. kr.
    d. Lagadeild Bifrastar 0 kr.

     5.      Hvaða bókaútgáfu á sviði lögfræði hefur ráðuneytið styrkt frá árinu 2018 og hversu hár hefur styrkurinn verið fyrir hverja og eina útgáfu? Hvaða viðmið eru lögð til grundvallar við slíkar styrkveitingar?
    Ráðuneytið kaupir bækur og tímarit á sviði lögfræði til þess að styðja við lögfræðilega vinnu í ráðuneytinu. Ráðuneytið hefur ekki styrkt útgáfur en keypt þær bækur sem taldar eru styðja við vinnu ráðuneytisins.