Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1421  —  584. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um aðgerðir gegn markaðssvikum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Nefndinni barst minnisblað um tiltekna þætti málsins frá ráðuneytinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (e. Market Abuse Regulation, MAR).
    Í 7. kafla greinargerðar með frumvarpinu eru raktar athugasemdir sem ráðuneytinu bárust við frumvarpið eins og það var birt í samráðsgátt stjórnvalda sem og afstaða ráðuneytisins til þeirra. Nefndinni bárust engar umsagnir um málið.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Lögbært yfirvald (3. gr.).
    Samkvæmt 22. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins um markaðssvik ber aðildarríkjum að skilgreina lögbært yfirvald sem tryggi framkvæmd ákvæða hennar í viðkomandi lögsögu. Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram að Fjármálaeftirlitið sé lögbært yfirvald samkvæmt lögunum og hafi eftirlit með að farið sé að þeim.
    Sambærileg ákvæði er að finna í öðrum frumvörpum sem nefndin hefur til umfjöllunar. Bendir meiri hlutinn einkum á frumvarp til laga um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, sbr. 641. mál á yfirstandandi löggjafarþingi. Í umsögn Seðlabanka Íslands og minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar um það mál er fjallað um hvort rétt sé að tilgreina Seðlabanka Íslands eða Fjármálaeftirlitið sem hið lögbæra yfirvald eftir sameiningu stofnananna. Meiri hlutinn vísar til umfjöllunar um 3. gr. þess frumvarps í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar um 641. mál og leggur til breytingu á 3. gr. frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar til samræmis.

Breytingar samkvæmt minnisblaði ráðuneytisins.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 25. apríl 2021, eru lagðar til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem meiri hlutinn hefur yfirfarið og gerir að sínum. Breytingarnar eru einkum tæknilegs eðlis, til leiðréttingar og til að auka skýrleika. Til þess m.a. að auka skýrleika er bætt við 2. gr. frumvarpsins tilvísunum til ákvæða landsréttar þar sem tiltekin ákvæði tilskipana sem málið varða hafa verið innleidd. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til minnisblaðs ráðuneytisins um útskýringar á breytingum.

Aðrar breytingar.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að gildistaka frumvarpsins verði 1. september 2021. Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 7. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Bryndís Haraldsdóttir.
Hjálmar Bogi Hafliðason. Jón Steindór Valdimarsson. Ólafur Þór Gunnarsson.
Smári McCarthy.