Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1424  —  384. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um stafræna skatta.


     1.      Hafa íslensk stjórnvöld af sjálfsdáðum, eða í samvinnu við önnur EFTA-ríki, metið hvaða þýðingu löggjöf um skattlagningu á stafræna þjónustu, eins og Evrópusambandið og OECD eru að skoða, hefði á Íslandi?
    Yfirgripsmikil athugun hefur staðið yfir síðustu ár af hálfu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á þeim áskorunum er varða stafræna hagkerfið og skattlagningu stafrænna viðskipta yfir landamæri. Kjarni þeirra álitaefna sem athugunin beinist að lýtur að skattlagningu tekna sem verða til vegna stafrænna viðskipta yfir landamæri í því ríki þar sem viðskiptavinir fyrirtækja eru staðsettir, þ.e. þar sem tekjurnar eru upprunnar og hagnaður fyrirtækja myndast. Niðurstaða um hvernig skattlagningu verði best háttað liggur ekki fyrir af hálfu OECD en vonir eru bundnar við að tillögur líti dagsins ljós eigi síðar en um mitt ár 2021 og að samstaða geti orðið um þær. Ekki hefur farið fram eiginleg greining af hálfu íslenskra stjórnvalda, af sjálfsdáðum eða í samvinnu við önnur EFTA ríki, hvaða þýðingu hugmyndir að löggjöf um skattlagningu stafrænnar þjónustu sem ESB og OECD hafa haft til skoðunar myndu hafa fyrir Ísland. Þar sem Ísland er aðili að OECD taka íslensk stjórnvöld hins vegar virkan þátt í ýmsum vinnuhópum á vegum stofnunarinnar og umræðum um þróun alþjóðlegs skattaréttar, þ.m.t. um skattlagningu stafræna hagkerfisins. Þá hafa íslensk stjórnvöld tekið þátt í víðtæku samstarfi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um álitamál er lúta að skattlagningu af þessum toga. Verði þær tillögur sem nú eru til skoðunar innan OECD að veruleika munu aðildarríkin fá auknar tekjur af skattlagningu stafrænna viðskipta yfir landamæri. Umfang þeirra skatttekna ræðst þó alfarið af þeim leiðum sem ákveðnar verða í þeim efnum þegar þar að kemur.

     2.      Hefur verið lagt mat á það hvort íslenskt skattaumhverfi sé í stakk búið að innleiða nauðsynlegar breytingar til að slík skattlagning, þvert á landamæri, virki með skilvirkum hætti á Íslandi?
    Endanleg útfærsla á þeim tillögum sem eru til umfjöllunar innan OECD um skattlagningu stafræna hagkerfisins hefur ekki litið dagsins ljós og því hafa engar ákvarðanir um framtíðarfyrirkomulag verið samþykktar. Þess má vænta að ef ákvörðun næst um slíka skattlagningu muni Ísland, í samræmi við þær leiðbeinandi reglur sem ætla má að gefnar verði út í kjölfarið, vinna að innleiðingu slíkra breytinga hér á landi, m.a. í samráði við önnur Norðurlönd. Ef þær tillögur sem nú eru til umfjöllunar hjá OECD verða samþykktar í óbreyttri mynd má gera ráð fyrir að íslenskt skattaumhverfi verði í stakk búið að innleiða nauðsynlegar breytingar, í samræmi við reglur á grundvelli alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, til að slík skattlagning þvert á landamæri virki með skilvirkum hætti hér á landi.

     3.      Telur ráðherra ekki mikilvægt að hafin sé strax vinna við gerð á íslenskri löggjöf um skattlagningu á stafræna þjónustu svo að Ísland verði tilbúið í breytingar með öðrum þjóðum á Evrópska efnahagssvæðinu þegar að þeim kemur?
    Sem áður segir liggur ekki fyrir endanleg útfærsla á þeim tillögum sem verið hafa til umfjöllunar, bæði innan OECD og annars staðar. Því hefur áhersla íslenskra stjórnvalda verið lögð á að fylgjast grannt með þeirri umfjöllun sem á sér stað og eftir atvikum að taka þátt í henni með það fyrir augum að gæta íslenskra hagsmuna og að tryggja að hægt verði að fylgja málum eftir þegar niðurstaða er fengin, m.a. með breytingum á löggjöf. Það er mat ráðherra að ekki sé tímabært á þessu stigi að hefja vinnu við að útfæra tillögur um breytingar á íslenskri löggjöf um skattlagningu á stafrænni þjónustu þar sem endanleg útfærsla og samþykki á þeim tillögum sem verið hafa til skoðunar hjá OECD liggur ekki fyrir. Mestu skiptir að sú tillögugerð geti unnist hratt og af vandvirkni þegar inntak tillagnanna hefur verið skilgreint betur.