Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1425  —  461. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um mötuneyti ríkisins.


     1.      Hversu mörg mötuneyti eru starfrækt á vegum ríkisins og hver er áætlaður fjöldi máltíða sem þessi mötuneyti afgreiða á ársgrundvelli? Óskað er sundurgreiningar eftir því hvort aðilar reka eigið eldhús eða kaupa þjónustu að.
    Í tengslum við mótun á innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila var í október 2018 framkvæmd könnun um opinber innkaup á matvælum á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Maskína sá um framkvæmd könnunarinnar og var hún lögð fyrir forsvarsmenn allra ríkisstofnana. Könnunin var send á 176 stofnanir sem voru í úrtaki fyrir könnunina og svöruðu 145 (82,4%). Þar af voru 39 sem reka sitt eigið mötuneyti. Margir ríkisaðilar kjósa frekar að bjóða út mötuneytisþjónustu en að reka eigið eldhús samkvæmt könnuninni. Samkvæmt svörunum er hagræðing algengasta ástæða þess að mötuneytisþjónusta hefur verið boðin út og gildir það jafnt um stóra sem litla vinnustaði. Í könnunni var spurt hvað ætti best við af eftirtöldu: 1
    39 svöruðu: Stofnunin er með eigið mötuneyti, kaupir inn og eldar matinn á staðnum.
    51 svaraði: Innkaup og eldun er útvistað en borðað er á vinnustað/Sameiginlegt mötuneyti með fleiri stofnunum.
    37 svöruðu: Starfsfólk fær greidda matarpeninga og sér sjálft um að verða sér úti um mat.
    17 svöruðu: Annað. Meðal svara voru: Allir þrír möguleikar eiga við, starfsfólk fer heim í mat, starfsfólk kemur með nesti o.fl.
    Engar upplýsingar liggja fyrir um fjölda máltíða sem neytt er í mötuneytum á vegum ríkisins.

     2.      Hvert er áætlað kolefnisspor af mötuneytum ríkisins og hversu stór hluti þess er vegna
     a.      framleiðslu matvæla, og þar af hversu mikið vegna framleiðslu á kjöti og öðrum dýraafurðum,
     b.      flutninga á matvælum, og
     c.      matarsóunar?

    Í aðgerð 2.2.A í innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila kemur fram að stjórnvöld muni leggja til reiknilíkan sem mælir kolefnispor matvæla frá framleiðanda til kaupanda. Sú aðgerð er í undirbúningsferli.
    Aðrar upplýsingar sem spurt er um undir þessum tölulið liggja ekki fyrir.

     3.      Hvernig er unnið að því að draga úr kolefnisspori af mötuneytum ríkisins og hvernig eru slíkar aðgerðir tengdar vinnu við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum?
    Umhverfisstofnun fer með umsjón verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri en markmið þess er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins og auka þekkingu starfsmanna á umhverfismálum. Ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkis eru gjaldgeng í verkefnið og í dag eru 119 stofnanir skráðar til leiks. Samkvæmt loftslagsstefnu Stjórnarráðsins skulu allar stofnanir ríkisins hafa innleitt öll skrefin fyrir árslok 2021. Grænu skrefin eru byggð upp á þann hátt að stofnanir þurfa að uppfylla á bilinu 30–40 aðgerðir í fimm skrefum sem allar miða að því að efla umhverfisframmistöðu þeirra. Verkefnið er því kjörinn vettvangur til að koma áherslum stjórnvalda í umhverfis- og loftslagsmálum til framkvæmda hjá stofnunum ríkisins.
    Nú í janúar var endurbætt útgáfa af aðgerðum Grænna skrefa gefin út þar sem sérstök áhersla er lögð á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem hljótast af neyslu matvæla og rekstri mötuneyta. Aðgerðir Grænu skrefanna sem miða sérstaklega að því að draga úr kolefnisspori snúa meðal annars að því að auka hlutfall grænmetis og plöntupróteina í kjötréttum og auka framboð af grænkerafæði, ásamt mælingum á matarsóun og markvissum aðgerðum til að draga úr henni. Einnig þurfa stofnanir að kaupa inn umhverfisvottaðar rekstrarvörur fyrir eldhús og kaffistofur, nota margnota borðbúnað í stað einnota og auka hlut lífrænna matvæla. Aðgerðir þessar taka mið af innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila, loftslagsstefnu Stjórnarráðsins, 5. gr. c í lögum um loftslagsmál og aðgerð G.10 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem kveða á um að opinberir aðilar skuli setja sér loftslagsstefnu. Gátlista Grænna skrefa má nálgast á heimasíðu verkefnisins www.graenskref.is.
    Í tengslum við aðgerðir í innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila er í vinnslu uppfærsla á vistvænum skilyrðum fyrir innkaupum matvæla og gerð bæklings fyrir mötuneyti sem inniheldur fræðslu og góð ráð fyrir umhverfisvænni rekstur þeirra. Meðal þess sem fjallað er um í bæklingnum eru umhverfisáhrif matvæla og mötuneytisþjónustu, matur og heilsa, umhverfisstjórnun, úrgangur, umbúðir, rekstrarvörur og þjónusta, orku- og vatnsnotkun, flutningar, þjálfun starfsfólks, endurdreifing matvæla (matargjafir), innkaup matvæla og matarsóun. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á þessari vinnu.

     4.      Hvernig hefur hlutfall matvæla sem uppfylla vistvæn skilyrði þróast undanfarin ár hjá mötuneytunum?
    Unnið er að innleiðingu á innkaupakerfi fyrir A-hluta stofnana af hálfu Fjársýslu ríkisins og Ríkiskaupa og sem liður í því er stefnt á að hægt verði að mæla kaup á vistvænum matvælum. Núverandi rammasamningar bjóða upp á mikið úrval vistvænna matvæla en engar merkingar eru gerðar, hvorki í pöntunum né reikningum, sem aðgreinir vistvæn matvæli frá öðrum og því ekki hægt að mæla þá þróun fyrr en innkaupakerfi hefur verið tekið í notkun.

     5.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að auka áherslu á fæði úr jurtaríkinu og draga úr neyslu á kjöti, sbr. markmið innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila þess efnis að framreiddur matur í mötuneytum ríkisaðila sé í samræmi við ráðleggingar embættis landlæknis?
    Líkt og kom fram í svari við 3. tölul. er nú lögð enn frekari áhersla en áður á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem hljótast af neyslu matvæla og rekstri mötuneyta í aðgerðum Grænna skrefa. 2
    Þegar vistvæn skilyrði fyrir innkaupum matvæla og bæklingur um umhverfisvænan mötuneytisrekstur eru tilbúin seinna á árinu verður málefnið kynnt vel fyrir helstu haghöfum, svo sem stofnunum og mötuneytisþjónustum, í gegnum Grænu skrefin á Innkaupadegi Ríkiskaupa og sameiginlegum málstofum Umhverfisstofnunar og Ríkiskaupa.
    Í útboðum á mötuneytisþjónustu eru dæmi um að gerðar séu kröfur um að matvæli séu ,,í samræmi við stefnu ríkisins varðandi vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur“ og að verksali skuli hafa ,,í huga að nýta hráefnið sem best og vera ekki með offramboð af mat á boðstólum, til að sporna við matarsóun.“
    Þá hefur verið gerður áskilnaður um að við matseðlagerð skuli taka tillit til næringargildis samkvæmt ráðleggingum um mataræði sem settar hafa verið af Lýðheilsustöð eða embætti landlæknis.
    Einnig hafa verið veitt stig fyrir fjölbreytileika matseðla og gerðar kröfur um að neytendur hafi val um aðalrétt sem inniheldur kjöt eða fisk en einnig grænmetisrétt, eða sérfæði og grænmeti/ávexti sem meðlæti með öllum aðalréttum og/eða hluta af salatbar. Einnig eru dæmi um kröfur um að bjóða upp á grænmetis- eða baunarétt einu sinni í viku.
                                  
     6.      Hvaða stefnu er fylgt með tilliti til framboðs á grænkerafæði? Kemur til álita að öll mötuneyti yfir ákveðinni stærð bjóði daglega upp á grænkeravalkost eða að ákveðinn hluta daga verði eingöngu grænkerafæði í boði?
    Í Grænu skrefunum var, samkvæmt Umhverfisstofnun, tekin sú ákvörðun að miða aðgerðir sem tengjast mataræði við nýjustu rannsóknir á umhverfisáhrifum matvæla, ráðleggingum embættis landlæknis og atferlisfræðirannsóknum.
    Það er ótvíræð og samhljóma niðurstaða rannsókna að framleiðsla á grænmeti og plöntupróteini hefur minni áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda en framleiðsla á dýraafurðum og þá sérstaklega framleiðsla á rauðu kjöti. Því er æskilegt að fólk borði grænmeti og plöntuprótein í meiri mæli heldur en gert er í dag. Þessu taka Grænu skrefin og bæklingurinn fyrir umhverfisvæn mötuneyti mið af.
    Þar sem heilbrigðisyfirvöld benda á mikilvægi ýmissa næringarefna sem koma frá dýraafurðum, og sýnt hefur verið fram á að hægt sé að ná fram umhverfismarkmiðum án þess að útiloka dýraafurðir alveg, endurspegla Grænu skrefin og bæklingur um mötuneyti þau sjónarmið. Umhverfisins vegna þykir vera ástæða til að setja stefnuna á að vera nær þeim ráðleggingum sem samþætta heilbrigðis- og umhverfissjónarmið en ráðleggingum þar sem fyrst og fremst er litið til heilsu. Þær áherslur ættu með tímanum að hafa í för með sér að framboð grænkerafæðis verði aukið enn frekar í mötuneytum á vegum ríkisins frá því sem áður var.





1    Sjá má niðurstöður könnunarinnar í heild á vefsíðu matarauðs:
mataraudur.is/wp-content/uploads/2019/05/Viðauki-A_Spurningakönnun-05.11.18_Innkaupastef na-matvæla-fyrir-ríkisaðila_Maskínuskýrsla.pdf

2    Nánar má lesa um aðgerðir á vef grænna skrefa: graenskref.is/graen-skref/skref-1/