Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1430  —  402. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um raunverulega eigendur Arion banka hf.


     1.      Hverjir eru raunverulegir eigendur þeirra lögaðila sem eru skráðir eigendur meira en 1% hlutafjár í Arion banka hf.?
    Í 4. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, segir að fjármálafyrirtæki beri að tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í fyrirtækinu á hverjum tíma. Sé lögaðili eigandi hlutafjár eða stofnfjár umfram 1% skuli jafnframt koma fram hvaða einstaklingur eða einstaklingar séu raunverulegir eigendur viðkomandi lögaðila. Með raunverulegum eiganda samkvæmt ákvæðinu sé átt við einstakling eða einstaklinga sem eigi beina eða óbeina hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem geri honum eða þeim kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags. Á vef Arion banka hf. er birtur listi yfir aðila sem eiga a.m.k. 1% hlutafjár í bankanum og einstaklinga sem eiga a.m.k. 10% af hlutafé, beint eða óbeint, í þeim aðilum. Listinn tekur breytingum í samræmi við breytingar á viðkomandi eignarhlutum á hverjum tíma.
                                  
     1.      Telur ráðherra það samrýmast 4. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, að á vefsíðu Arion banka hf. komi ekki fram hverjir séu raunverulegir eigendur allra þeirra lögaðila, fyrir utan einn, sem eiga meira en 1% hlutafjár í bankanum?
    Á vef Arion banka hf. er sem fyrr segir birtur listi yfir aðila sem eiga a.m.k. 1% hlutafjár í bankanum og einstaklinga sem eiga a.m.k. 10% af hlutafé, beint eða óbeint, í þeim aðilum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi Seðlabanka Íslands, sem hefur eftirlit með því að fjármálafyrirtæki fari að lögum um fjármálafyrirtæki, bréf 18. janúar 2021 þar sem óskað var eftir afstöðu Seðlabankans til þess hvort skráning raunverulegra eigenda í Arion banka hf. væri að öllu leyti í samræmi við 4. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Í svarbréfi Seðlabankans, dags. 28. janúar 2021, sagði að svo virtist sem upplýsingagjöf Arion banka hf. og framsetning væri í samræmi við málsgreinina. Svo virtist sem raunverulegum eigendum flestra hluthafa bankans, sem færu með 1% hlut eða meira, væri ekki til að dreifa enda samanstæðu hluthafarnir einkum af innlendum og erlendum bönkum, sjóðum innlendra og erlendra sjóðastýringarfyrirtækja og innlendum lífeyrissjóðum. Með tilliti til þessa hefur ráðuneytið ekki tilefni til að ætla að fleiri einstaklingar en greint er frá á vef bankans fari með raunverulegan eignarhlut í skilningi laga um fjármálafyrirtæki í lögaðilum sem eigi a.m.k. 1% hlutafjár í Arion banka hf.