Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1441  —  456. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980 (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Þórhallsson og Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Stefán Daníel Jónsson og Þór Hauksson Reykdal frá félagsmálaráðuneytinu. Nefndin fékk umsagnir um málið frá Landssamtökunum Þroskahjálp, MND-félaginu á Íslandi, NPA miðstöðinni svf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að framlengd verði til ársloka 2021 heimild til að víkja frá ákvæðum 53. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins þannig að hvíldartími verði styttri hjá starfsfólki sem veitir einstaklingum þjónustu á grundvelli 11. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
    Fram kom við meðferð málsins að nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins væri að fjalla um vinnutíma starfsmanna í NPA-þjónustu með það markmið að koma á framtíðarlausn við skipulag þjónustunnar. Sú vinna er flókin enda þarf að vega og meta bæði hagsmuni þeirra sem veita þjónustuna og þeirra sem hana þiggja. Þá komu fram þær upplýsingar að vinna þessi væri í tengslum við heildarendurskoðun á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem stefnt væri á að ljúka næsta vetur. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að vinnu við samningagerð vegna vinnutíma starfsmanna í NPA-þjónustu verði hraðað þannig að ekki þurfi að koma til frekari framlenginga á ákvæðinu.
    Fyrrnefnd heimild var í bráðabirgðaákvæði 9 í lögunum sem er fallið úr gildi þar sem síðasta framlenging þess var út árið 2020. Telur meiri hlutinn því rétt að taka ákvæðið upp að nýju í heild. Ef ætla má að vinna við tillögur að lausn tefjist beinir meiri hlutinn því til ráðherra að leggja fram frumvarp til framlengingar áður en gildistími ákvæðisins rennur út svo að ekki verði óvissa um gildi þeirra samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sem gerðir eru. Meiri hlutinn telur af þeim sökum farsælast að framlengingin gildi til 1. apríl 2022.
    Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Bráðabirgðaákvæði 9 í lögunum orðast svo:
    Með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins er heimilt að víkja frá ákvæðum 53. og 56. gr. um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli 11. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Sé með slíku samkomulagi vikið frá ákvæði 53. gr. þannig að hvíldartíminn verði styttri hjá viðkomandi starfsmönnum en ákvæðið gerir ráð fyrir skal við það miðað að starfsmennirnir fái eins fljótt og við verður komið samsvarandi hvíldartíma að lágmarki og kveðið er á um í fyrrnefndu ákvæði. Vinnueftirlit ríkisins skal veita umsögn um slíkt samkomulag samtaka aðila vinnumarkaðarins.
    Ákvæði þetta gildir til 1. apríl 2022 og tekur til samninga sem gerðir eru á tímabilinu frá 1. janúar 2021 til 1. apríl 2022.

Alþingi, 14. maí 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form., með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir.