Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1442  —  345. mál.
3. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 (minnihlutavernd o.fl.).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn telur að fella eigi brott það ákvæði í frumvarpinu er kveður á um breytingu á skipan matsnefndar. Þar er lagt til að fallið sé frá því skilyrði í 1. mgr. 44. gr. laganna að tveir nefndarmenn skuli hæfir til að gegna embætti héraðsdómara og að Hæstiréttur tilnefni annan þeirra í matsnefnd. Í stað Hæstaréttar skuli Hafrannsóknastofnun tilnefna nefndarmann en áfram er gert ráð fyrir að ráðherra skipi hinn án tilnefningar.
    Minni hlutinn telur að framangreind tillaga um skipan matsnefndar sé tilefnislaus og óviðunandi að ekki séu gerðar neinar hæfniskröfur til setu í matsnefnd þegar nú þurfa tveir nefndarmenn að uppfylla skilyrði til héraðsdómara. Landssamband veiðifélaga mótmælir þessari breytingu harðlega í umsögn sinni og telur að meiri þörf sé á þekkingu innan matsnefndar til að taka á lögfræðilegum úrlausnarefnum, m.a. með hliðsjón af verkefnum nefndarinnar og þeim nýju verkefnum er henni verða falin verði frumvarpið að lögum. Jafnframt bendir minni hlutinn á að hætta sé á hagsmunaárekstrum tilnefni Hafrannsóknastofnun nefndarmann í matsnefnd, m.a. með vísan til þess sem segir í umsögn Landssambands veiðifélaga, en stofnunin kemur að ýmsum verkefnum og tekur ákvarðanir er koma til kasta matsnefndar.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    A-liður 3. gr. falli brott.

Alþingi, 17. maí 2021.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Sigurður Páll Jónsson.