Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1458, 151. löggjafarþing 345. mál: lax- og silungsveiði (minnihlutavernd o.fl.).
Lög nr. 52 27. maí 2021.

Lög um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 (minnihlutavernd o.fl.).


1. gr.

     Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Úrræði Fiskistofu.
     Sé leyfisskyld framkvæmd samkvæmt lögum þessum hafin án leyfis getur Fiskistofa stöðvað hana tafarlaust. Ef staðið er þannig að framkvæmd eða starfsemi að ekki samrýmist lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða útgefnu leyfi skal Fiskistofa veita framkvæmdaraðila skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Ef þá er ekki farið að fyrirmælum er heimilt að stöðva framkvæmd eða starfsemi og beita dagsektum þar til úr hefur verið bætt. Dagsektir geta numið 10.000–500.000 kr. Við ákvörðun dagsekta skal tekið tillit til eðlis vanrækslu eða brots og þeirra hagsmuna sem eru í húfi. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt þeim sem hún beinist að á sannanlegan hátt. Dagsektir renna í ríkissjóð.
     Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Fiskistofu við aðgerðir skv. 1. mgr.
     Heimilt er Fiskistofu að afturkalla leyfi sem gefið er út samkvæmt lögum þessum ef um ítrekaða vanrækslu leyfishafa er að ræða eða ljóst er að hann getur ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt leyfinu.
     Heimilt er Fiskistofu að mæla fyrir um að sá sem staðið hefur að óheimilum framkvæmdum fjarlægi mannvirki, lagi jarðrask og færi umhverfi til fyrra horfs. Ef slíkri skyldu er ekki sinnt innan þeirra tímamarka sem Fiskistofa ákveður er heimilt að láta vinna verkið á kostnað hins brotlega. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða úr ríkissjóði en innheimtur síðar hjá hlutaðeigandi.
     Áður en gripið er til úrræða skv. 3. eða 4. mgr. skal veita skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.
     Dagsektir skv. 1. mgr. og krafa um endurgreiðslu kostnaðar skv. 4. mgr. eru aðfararhæfar.
     Úrræði Fiskistofu samkvæmt þessu ákvæði koma til viðbótar öðrum úrræðum opinberra aðila, m.a. á grundvelli vatnalaga, skipulagslaga og laga um mannvirki.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
 1. Á eftir 1. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 2.      Á fundi veiðifélags má ekki taka ákvörðun sem er ætlað að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins.
       Við ákvörðun um ráðstöfun veiðiréttar skv. d-lið 1. mgr. 37. gr. þarf samþykki hið minnsta 2/ 3 hluta atkvæða ef lagt er til að draga úr veiði frá því sem tíðkast hefur á viðkomandi veiðisvæði, nema breytingarnar séu óverulegar.
       Ef tillaga kemur fram á félagsfundi um að ráðstafa rétti til stangveiði til félagsmanns í veiðifélaginu eða til aðila sem tengjast honum þarf samþykki hið minnsta 2/ 3 hluta atkvæða. Þetta gildir þó aðeins ef hlutaðeigandi félagsmaður eða aðilar sem tengjast honum fara að lágmarki með 30% atkvæða. Hugtakið tengdir aðilar í skilningi ákvæðisins hefur sömu merkingu og í lögum um ársreikninga. Skylt er að tilkynna eigi síðar en á félagsfundi ef tengsl eða atkvæðavægi er sem segir í þessari grein.
       Matsnefnd skv. VII. kafla laga þessara sker úr ágreiningi skv. 3. og 4. mgr. Kærufrestur skal vera tvær vikur og hafa þeir einir kærurétt sem lögvarða hagsmuni hafa af úrlausn málsins. Óheimilt er veiðifélagi, eða veiðifélagsdeild, að gera bindandi samning um ráðstöfun veiðiréttar á meðan kærufrestur varir. Sé kæra lögð fram innan kærufrests er óheimilt að gera bindandi samning þar til matsnefnd hefur endanlega leyst úr málinu. Matsnefnd getur þó, hvort heldur er að kröfu málsaðila eða að eigin frumkvæði, tekið ákvörðun um að aflétta banni við samningsgerð ef ólíklegt er að meðferð nefndarinnar leiði til breytinga á ákvörðun veiðifélags. Úrskurður matsnefndar skal kveðinn upp innan átta vikna eftir að kæra barst nefndinni. Ef úrskurður hefur ekki verið kveðinn upp fyrir þann tíma er veiðifélagi heimilt að hrinda hinum umdeildu ákvörðunum í framkvæmd og getur matsnefnd þá ekki ógilt bindandi ákvarðanir.
 3. Orðin „í ákveðnum hlutföllum“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
 4. Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef ekki næst sameiginleg niðurstaða geta 2/3 hlutar sameigenda eða ábúenda tekið ákvörðun um það hver fari með atkvæðisréttinn. Um innbyrðis atkvæðavægi fer eftir almennum reglum.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
 1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar og einn að fenginni ábendingu Hafrannsóknastofnunar.
 2. 2. málsl. 4. mgr. fellur brott.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
 1. Orðin „og rennur hann í ríkissjóð“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
 2. Í stað 2. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Veiðifélag skal að jafnaði bera kostnað af ágreiningsmálum og endurskoðun arðskrár. Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi máls getur nefndin gert kæranda að greiða veiðifélagi málskostnað.
 3. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Matsnefnd getur krafið veiðifélag um tryggingu fyrir þóknun sinni og öðrum kostnaði, en krafa um það skal byggjast á rökstuddri kostnaðaráætlun og koma fram við fyrstu fyrirtöku máls.


5. gr.

     Á eftir 2. mgr. 49. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ef ákvörðun skv. 3. mgr. 40. gr. leiðir til tjóns fyrir veiðiréttarhafa skulu þeir sem lögðust gegn ákvörðuninni eiga rétt til bóta úr hendi þeirra sem greiddu tillögunni atkvæði sitt, á meðan sú ákvörðun gildir, nema hún hafi byggst á málefnalegum rökum. Þeir sem greiddu tillögunni atkvæði sitt eru sameiginlega ábyrgir gagnvart þeim sem lögðust gegn henni, en um bótaskyldu þeirra innbyrðis ræður hlutfall í arðskrá.

6. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Matsnefnd sem skipuð var af ráðherra í janúar 2021 á grundvelli 1. mgr. 44. gr. heldur valdheimild sinni óraskaðri út skipunartíma sinn, sbr. ákvæði 1. mgr. 44. gr.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó getur ákvæði 1. gr. gilt um framkvæmdir sem hafnar eru eða lokið er áður en lög þessi öðlast gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. maí 2021.