Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1459, 151. löggjafarþing 375. mál: jarðalög (einföldun regluverks, vernd landbúnaðarlands, upplýsingaskylda o.fl.).
Lög nr. 53 27. maí 2021.

Lög um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004 (einföldun regluverks, vernd landbúnaðarlands, upplýsingaskylda o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 1., 2., 5.–13., 17.–19. og 21.–25. mgr. falla brott.
  2. 15. mgr. orðast svo:
  3.       Landbúnaður merkir í lögum þessum hvers konar framleiðslu búvöru og þá einkum búrekstur með áherslu á búfénað, matvæla- og fóðurframleiðslu.


2. gr.

     5. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Vernd landbúnaðarlands.
     Við skipulagsgerð samkvæmt skipulagslögum þar sem ráðgerðar eru breytingar sem fela í sér að land sé leyst úr landbúnaðarnotum, þ.e. að landnotkun breytist úr landbúnaði yfir í aðra landnotkun, skal gera grein fyrir og taka afstöðu til eftirfarandi:
  1. Hvort landið er stærra en þörf krefur að teknu tilliti til þeirra nýtingaráforma sem skipulagstillagan felur í sér. Jafnframt, eftir því sem við á, hvort aðrir valkostir um staðsetningu komi til greina fyrir fyrirhugaða nýtingu á landi sem hentar síður til landbúnaðar og þá sérstaklega jarðræktar.
  2. Hver áhrif breyttrar landnotkunar eru á aðlæg landbúnaðarsvæði, m.a. hvort hæfileg fjarlægð er milli lands með breyttri landnotkun og landbúnaðar sem fyrir er og hvort girt verði með nýtingaráformum fyrir möguleg búrekstrarnot af landinu í framtíðinni.

     Sveitarstjórn tekur ákvörðun um breytingar á landnotkun á grundvelli heildstæðs mats samkvæmt skipulagsáætlun og þeirra sjónarmiða sem greinir í 1. mgr.
     Við gerð aðalskipulags í dreifbýli skal land flokkað með tilliti til ræktunarmöguleika. Ráðherra gefur út leiðbeiningar um flokkun ræktarlands í samráði við yfirvöld skipulagsmála.

3. gr.

     6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Landskipti.
     Skipting lands á landbúnaðarsvæðum, sbr. 48. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, skal samrýmast skipulagsáætlun.
     Við beiðni um skiptingu eða sameiningu lands á landbúnaðarsvæðum er sveitarstjórn heimilt að krefjast þess að umsækjandi geri grein fyrir áhrifum hennar á búrekstrarskilyrði. Ákvörðun sveitarstjórnar um hvort fallist verði á skipti skal reist á heildstæðu mati á áhrifum þeirra samkvæmt skipulagsáætlun.
     Við skiptingu jarða og annarra fasteigna skal gætt ákvæða laga sem girða fyrir aðskilnað hlunninda og lands.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. b laganna:
  1. Í stað orðanna „þessi lög“ í 1. mgr. kemur: gildissvið þessara laga skv. 3. gr.
  2. Á undan orðunum „að 1/3 hluta“ í 2. og 3. tölul. 1. mgr. kemur: samanlagt.
  3. 3. mgr. orðast svo:
  4.      Lögaðilar sem falla undir 1. mgr., hér eftir nefndir upplýsingaskyldir aðilar, skulu tilkynna ríkisskattstjóra um beint og óbeint eignarhald sitt, þ.e. alla aðila sem eiga beint eða óbeint hlut í upplýsingaskyldum aðila, svo sem í formi hlutafjár, stofnfjár eða annars konar eignarhlutar. Með þeim hætti skal rekja beint og óbeint eignarhald upplýsingaskylds aðila þar til eignarhaldskeðja er tæmd. Upplýsingaskyldir aðilar skulu einnig tilkynna ríkisskattstjóra um raunverulegan eiganda eða eigendur sína í skilningi laga um skráningu raunverulegra eigenda. Upplýsingaskyldir aðilar sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. skulu að auki tilkynna ríkisskattstjóra um stjórnarmenn og aðra stjórnendur sína. Upplýsingar samkvæmt framansögðu skulu veittar ríkisskattstjóra árlega fyrir 1. febrúar ár hvert, á þann hátt sem mælt er nánar fyrir um í 4.–6. mgr.
  5. Á eftir 3. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  6.      Tilkynning til ríkisskattstjóra skv. 3. mgr. skal geyma upplýsingar um heiti, kennitölu og heimilisfang upplýsingaskylds aðila, svo og heiti og fasteignanúmer fasteigna sem falla undir gildissvið þessara laga skv. 3. gr. og hann á bein eignarréttindi yfir í heild eða að hluta.
         Tilkynning til ríkisskattstjóra skv. 3. mgr. skal jafnframt geyma eftirtaldar upplýsingar um beina, óbeina og raunverulega eigendur upplýsingaskylds aðila og stjórnendur hans ef við á:
    1. Nafn einstaklings eða heiti lögaðila, fjárvörslusjóðs eða sambærilegs aðila.
    2. Kennitölu eða annað auðkennisnúmer eða fæðingardag ef kennitölu er ekki til að dreifa.
    3. Ríkisfang og lögheimili hér á landi eða heimilisfang í öðru landi.
    4. Stærð eignarhlutar, í prósentum, sem er í beinni eigu sérhvers beins og óbeins eiganda upplýsingaskylds aðila og hlutfall atkvæðisréttar sem fylgir hverjum og einum eignarhlut.
    5. Tegund eignarhalds raunverulegs eiganda upplýsingaskylds aðila í skilningi 4. tölul. 3. gr. laga um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.
    6. Ef fjárvörslusjóður eða sambærilegur aðili á í hlut skal hvað hann varðar gera grein fyrir aðilum sem falla undir a–e-lið 1. mgr. 5. gr. laga um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

         Tilkynningar samkvæmt þessari grein skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn sé þess kostur. Upplýsingar sem veittar eru ríkisskattstjóra samkvæmt framansögðu skulu studdar viðhlítandi gögnum sem unnt er að sannreyna. Ríkisskattstjóra er heimilt að inna upplýsingaskyldan aðila eftir frekari gögnum og upplýsingum ef ástæða þykir til. Stjórnvöldum og öðrum er skylt að veita ríkisskattstjóra án endurgjalds og á því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem ríkisskattstjóri óskar eftir og unnt er að láta honum í té svo að hann geti rækt hlutverk sitt samkvæmt ákvæði þessu. Ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæði þessu.
  7. Í stað orðanna „Ríkisskattstjóri skal“ í 4. mgr. kemur: Að beiðni ráðherra skal ríkisskattstjóri.
  8. 1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Ábyrgð á því að tilkynna um atriði og leggja fram gögn samkvæmt þessari grein hvílir á upplýsingaskyldum aðila.


5. gr.

     IV. kafli laganna, Landskipti, sameining lands o.fl., fellur brott, ásamt fyrirsögn.

6. gr.

     Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Forkaupsréttur verður virkur við sölu og aðra ráðstöfun eða yfirfærslu á beinum eignarrétti, að hluta eða heild, yfir jörð sem háð er forkaupsrétti. Forkaupsréttur verður einnig virkur við eigendaskipti að a.m.k. 1/ 3 eignarhlutdeildar í lögaðila sem á jörð sem háð er forkaupsrétti. Hið sama gildir ef breyting verður á yfirráðum yfir lögaðila á annan hátt en hugtakið yfirráð hefur hér sömu merkingu og í lögum um ársreikninga.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „skal byggjast á“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: markaðsverði sambærilegs lands eða.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að miða söluverð lands skv. 36. gr. a við meðalhektaraverð á hálfgrónu landi eins og það er metið í sambærilegum matsgerðum við almenna sölu lands eða sölu til ábúenda. Skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar er að hið uppgrædda land sé tekið undir landbúnaðarnot og að notkun landsins verði ekki breytt næstu 20 ár á eftir að viðbættum öðrum skilyrðum sem gilda um beitingu kaupréttarheimildar þessarar samkvæmt lögum. Kvöð um landbúnaðarnot, með nánari lýsingu á nýtingartakmörkum og meðferð lands, skal þinglýst á landið samhliða sölu. Verði landið tekið undir önnur not innan þessa tímamarks þrátt fyrir kvöðina hefur ríkissjóður kaupréttarheimild fyrir hlutfallslega sama verð og það var selt á að teknu tilliti til verðhækkunar á byggingarvísitölu nema samið verði um greiðslu markaðsverðs fyrir landið að frádregnu því verði sem var upphaflega greitt fyrir landið.


8. gr.

     42. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Lausn óðalsbanda.
     1. júlí 2021 falla öll bönd á meðferð og ráðstöfun jarða sem töldust eða enn teljast til ættaróðala úr gildi.

9. gr.

     43.–52. gr. laganna falla brott, ásamt fyrirsögnum.

10. gr.

     IX. kafli laganna, Málskot, fellur brott, ásamt fyrirsögn.

11. gr.

     Orðin „ákvæðum IV. kafla um landskipti, sameiningu lands o.fl.“ í 1. mgr. 54. gr. a laganna falla brott.

12. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I–V í lögunum falla brott.

13. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.

Samþykkt á Alþingi 18. maí 2021.