Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1462, 151. löggjafarþing 641. mál: lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.
Lög nr. 55 28. maí 2021.

Lög um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.


1. gr.

Markmið og gildissvið.
     Markmið laga þessara er að gera almennum fjárfestum kleift að skilja og bera saman helstu eiginleika pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða og meðfylgjandi áhættu.
     Lög þessi gilda um framleiðendur pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta og aðila sem veita ráðgjöf um eða selja slíkar afurðir. Jafnframt gilda lögin um þá aðila sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd skv. II. kafla laga nr. 129/1997, sbr. 3.–5. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

2. gr.

Lögfesting.
     Ákvæði eftirfarandi reglugerða, eins og þær voru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 frá 30. apríl 2020, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest:
  1. Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta.
  2. Reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2340/2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta.


3. gr.

Eftirlit og upplýsingagjöf.
     Fjármálaeftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA annast eftirlit samkvæmt lögum þessum í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
     Um eftirlitið og upplýsingagjöf innlendra aðila fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.
     Seðlabanki Íslands er lögbært yfirvald í skilningi reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014.

4. gr.

Almennar íhlutunarheimildir.
     Að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014 er Fjármálaeftirlitinu heimilt að banna eða takmarka:
  1. markaðssetningu, dreifingu eða sölu vátryggingatengdra fjárfestingarafurða, vátryggingatengdra fjárfestingarafurða með tiltekna tilgreinda eiginleika eða
  2. tiltekna tegund fjármálastarfsemi eða framkvæmd vátrygginga- eða endurtryggingafélags.

     Fjármálaeftirlitinu ber að lágmarki mánuði áður en ráðstöfun skv. 1. mgr. er ætlað að taka gildi að greina öllum viðkomandi lögbærum yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni frá fyrirætlunum sínum til samræmis við 3. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014.
     Að uppfylltum skilyrðum 4. mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014 er Fjármálaeftirlitinu heimilt að grípa til ráðstafana skv. 1. mgr. með minnst sólarhrings skriflegum fyrirvara til handa öllum öðrum viðkomandi lögbærum yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni.
     Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum tilkynningu um allar ákvarðanir skv. 1. mgr. þar sem fram koma upplýsingar um bann eða takmörkun, hvenær ráðstafanirnar taka gildi eftir birtingu tilkynningarinnar og þau gögn sem það byggir ákvörðun sína á.

5. gr.

Aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og dóma EFTA-dómstólsins.
     Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfar, sem og dómar og úrskurðir EFTA-dómstólsins.

6. gr.

Úrbótakrafa vegna brots.
     Komi í ljós að ákvæðum laga þessara er ekki fylgt skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

7. gr.

Bann við afhendingu lykilupplýsingaskjals.
     Ef lykilupplýsingaskjal er ekki í samræmi við 6., 7., 8. eða 10. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014, og stjórnvaldsfyrirmæli sett með stoð í þeim, getur Fjármálaeftirlitið bannað hvers konar miðlun á skjalinu og krafist þess að endurbætt lykilupplýsingaskjal verði gefið út.

8. gr.

Bann við markaðssetningu.
     Vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 5. gr., 6. gr., 7. gr., 1.–3. mgr. 8. gr., 9. gr., 1. mgr. 10. gr., 1., 3. og 4. mgr. 13. gr., 14. gr. eða 19. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014 og stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim er Fjármálaeftirlitinu heimilt að banna eða stöðva tímabundið markaðssetningu á pakkaðri og vátryggingatengdri fjárfestingarafurð fyrir almenna fjárfesta.

9. gr.

Stjórnvaldssektir.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirfarandi ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 og stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í lögum þessum:
  1. 1. mgr. 5. gr. um skyldu til að semja lykilupplýsingaskjal.
  2. 6. gr., 7. gr. og 1.–3. mgr. 8. gr. um form og efni lykilupplýsingaskjals.
  3. 9. gr. um markaðsefni.
  4. 1. mgr. 10. gr. um endurskoðun upplýsinga í lykilupplýsingaskjali.
  5. 1., 3. og 4. mgr. 13. gr. og 14. gr. um afhendingu lykilupplýsingaskjals.
  6. 19. gr. um viðeigandi verkferla og ráðstafanir vegna kvartana.

     Þá getur Fjármálaeftirlitið lagt stjórnvaldssekt á hvern þann sem hlítir ekki ráðstöfun eftirlitsins skv. 4. gr. laga þessara eða fer ekki að kröfum þess um samstarf við rannsókn í tengslum við eftirlit eða beiðni um upplýsingar skv. 2. mgr. 3. gr. laga þessara.
     Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 110 millj. kr. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr. eða allt að 3% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða allt að 3% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
     Þrátt fyrir 3. mgr. er heimilt að ákvarða lögaðila eða einstaklingi stjórnvaldssekt allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem nemur fjárhagslegum ávinningi af broti eða tapi sem forðað er með broti.
     Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

10. gr.

Ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga og annarra ráðstafana.
     Við ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga, þar á meðal fjárhæðar stjórnvaldssekta, og annarra ráðstafana vegna brots skal tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi eftir því sem við á:
  1. alvarleika brots og tímalengdar brotsins,
  2. ábyrgðar hins brotlega einstaklings eða lögaðila,
  3. fjárhagsstöðu hins brotlega, sér í lagi með hliðsjón af heildarveltu lögaðila eða árstekjum eða hreinni eign hins brotlega einstaklings,
  4. þýðingar ávinnings eða taps sem forðað var með broti fyrir hinn brotlega,
  5. áhrifa brotsins á hagsmuni almennra fjárfesta,
  6. samstarfsvilja hins brotlega,
  7. fyrri brota hins brotlega og
  8. ráðstafana sem hinn brotlegi grípur til eftir brotið til að koma í veg fyrir að brotið verði endurtekið.

     Stjórnsýsluviðurlögum og öðrum ráðstöfunum vegna brots verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að aðili sem gerst hefur brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra sendi hlutaðeigandi almennum fjárfestum tilkynningu þar sem þeir eru upplýstir um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og hvar þeir geti lagt fram kvartanir eða kröfu um úrlausn deilumála.

11. gr.

Sátt.
     Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
     Seðlabanki Íslands setur reglur um framkvæmd 1. mgr., svo sem um inntak sáttar, ákvörðun sektarfjárhæðar og málsmeðferð.

12. gr.

Réttur grunaðs manns.
     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með stjórnsýsluviðurlögum hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

13. gr.

Frestur til að beita stjórnsýsluviðurlögum og öðrum ráðstöfunum.
     Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita stjórnsýsluviðurlögum og öðrum ráðstöfunum vegna brota samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
     Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um rannsókn á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum þeim sem staðið hafa að broti.

14. gr.

Birting ákvarðana.
     Fjármálaeftirlitið skal birta ákvarðanir um ráðstafanir vegna brota samkvæmt lögum þessum til samræmis við 29. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014.

15. gr.

Tilkynningar um brot í starfsemi fyrirtækis.
     Fyrirtæki sem framleiða pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta skulu hafa ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna sinna um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögunum. Ferlarnir skulu vera aðskildir frá öðrum ferlum innan fyrirtækisins.
     Starfsmaður sem tekur við tilkynningum skv. 1. mgr. og sér um vinnslu þeirra skal búa við sjálfstæði í störfum og tryggt skal að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.
     Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr., þ.m.t. um viðtöku og vinnslu tilkynninga.

16. gr.

Vernd starfsmanns vegna tilkynningar um brot í starfsemi fyrirtækis.
     Starfsmaður sem tekur við tilkynningum skv. 15. gr. og sér um vinnslu þeirra er bundinn þagnarskyldu um persónugreinanlegar upplýsingar sem koma fram í tilkynningunum. Þagnarskyldan gildir gagnvart öðrum starfsmönnum fyrirtækisins og einnig utanaðkomandi aðilum. Þó er heimilt að miðla upplýsingum sem þagnarskylda lýtur að til Fjármálaeftirlitsins og til lögreglu.
     Eftirlitsskyldir aðilar skulu vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum þessum gegn því að hann sæti misrétti sem rekja má til tilkynningar hans. Sama gildir um tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
     Ef fyrirtæki brýtur gegn skyldu sinni skv. 2. mgr. skal það greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.
     Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi milli starfsmanns og fyrirtækis.

17. gr.

Stjórnvaldsfyrirmæli.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð til að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um þau atriði sem koma fram í eftirfarandi greinum hennar:
  1. 4. mgr. 8. gr. um verkferla sem notaðir eru til að ákvarða hvort pökkuð og vátryggingatengd fjárfestingarafurð beinist að tilteknum umhverfislegum eða félagslegum markmiðum.
  2. 8. mgr. 16. gr. og 7. mgr. 17. gr. um íhlutunarheimildir Fjármálaeftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA.

     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur til að innleiða undirgerðir sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkir með stoð í reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um þau atriði sem koma fram í eftirfarandi greinum hennar:
  1. 5. mgr. 8. gr. um framsetningu og efni lykilupplýsingaskjals.
  2. 2. mgr. 10. gr. um endurskoðun upplýsinga í lykilupplýsingaskjali.
  3. 5. mgr. 13. gr. um miðlun lykilupplýsingaskjals.


18. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021. Þó öðlast 1. tölul. 19. gr. gildi 1. janúar 2022.

19. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum, sbr. þó 2. málsl. 18. gr.:
  1. Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997: Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Aðilar skv. 3.–5. mgr. 8. gr. sem bjóða upp á viðbótartryggingavernd skv. II. kafla skulu útbúa lykilupplýsingaskjal í samræmi við II. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014, sbr. lög um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.
  3. Lög um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021:
    1. Við 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ársreikning skal birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.
    2. Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
      1. Orðin „og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði“ í 1. og 2. mgr. falla brott.
      2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Efni ársreiknings og árshlutareiknings.


Samþykkt á Alþingi 18. maí 2021.