Ferill 684. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1474  —  684. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lagalega ráðgjöf.


     1.      Hvaða viðmið eru viðhöfð þegar ráðuneytið leitar eftir ráðgjöf til stofnana eða starfsmanna, þ.m.t. félaga í eigu starfsmanna lagadeilda Háskólans á Akureyri (HA), Háskóla Íslands (HÍ), Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskólans á Bifröst (Bifröst) sem gegna stöðu nýdoktora, háskólakennara, lektora, dósenta eða prófessora í fullu starfi og hlutastarfi, þ.m.t. starfsmenn í gesta- og rannsóknarstöðum?
    Þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið leitar eftir ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga um lagaleg álitamál er það í flestum tilvikum vegna þess að verkefni kallar á sérfræðiþekkingu sem ekki er fyrir hendi innan ráðuneytisins eða að verkefnaþungi innan ráðuneytisins á tilteknum tíma er með þeim hætti að þörf er á utanaðkomandi ráðgjöf.

     2.      Vegna hvers konar verkefna er leitað lagalegrar ráðgjafar hjá starfsmönnum og stofnunum lagadeilda háskólanna og hversu oft vegna hverrar tegundar verkefna?
    Leitað er til sérfræðinga í háskólum þegar talið er tilefni til þess vegna fyrirsjáanlegra álitamála um lögfræðileg atriði. Helstu verkefni þar sem leitað hefur verið eftir lagalegri ráðgjöf eru í tengslum við gerð lagafrumvarpa eða aðstoð við málflutning. Sjá svar við 3. tölul. um umfang slíkrar ráðgjafar.

     3.      Hversu mörg ráðgjafarverkefni, sem 1. tölul. lýtur að, hafa verið innt af hendi frá árinu 2018 og hversu mikið hefur verið greitt samtals fyrir ráðgjöfina á umræddu tímabili?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur leitað til dr. Andra Fannars Bergþórssonar, lektors við lagadeild Háskólans í Reykjavík, nokkrum sinnum vegna álitamála um rétta innleiðingu Evrópugerða á verðbréfamarkaði. Samtals hefur hann fengið í þóknun 8.163.500 kr. auk virðisaukaskatts vegna slíkrar ráðgjafar yfir þriggja ára tímabil frá árinu 2018.
    Ráðuneytið fékk Friðrik Árna Friðriksson Hirst, doktorsnema í refsirétti og starfsmann Lagastofnunar Háskóla Íslands, til yfirlesturs á viðurlagakafla í frumvarpi til nýrra heildarlaga um gjaldeyrismál. Fyrir yfirlesturinn greiddi ráðuneytið 612.500 kr. auk virðisaukaskatts.
    Samið hefur verið í tvígang við Lagastofnun Háskóla Íslands um aðstoð við gerð frumvarpa. Annars vegar um drög að frumvarpi að lögum um sérleyfissamninga vegna nýtingar á landi í eigu ríkisins í afmörkuðum tilfellum. Samkvæmt samningi verða greiðslur að hámarki 3.950.000 kr. auk virðisaukaskatts. Hins vegar um drög að frumvarpi til laga um opinberar fjárfestingar og fasteignaumsýslu ríkisins sem mun m.a. fela í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum um skipan opinberra framkvæmda. Verkefnið er í vinnslu en greiðslur fyrir verkefnið verða á hámarki 3.487.500 kr. auk virðisaukaskatts. Víðir Smári Petersen dósent við Háskóla Íslands fór með meginumsjón þessara verkefna en sérsvið hans er á sviði eigna-, fjármuna- og kröfuréttar.
    Þá var samið við Gunnar Þór Pétursson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og sérfræðing í Evrópurétti, um skrif á greinagerð, undirbúning málssóknar og aðstoð við málflutning í máli fyrir EFTA-dómstólnum í samvinnu við ríkislögmann. Samtals hefur hann fengið í þóknun 2.916.000 kr. auk virðisaukaskatts.

     4.      Hversu mikið hefur verið greitt fyrir verkefni sem vikið er að í 1. tölul. frá ársbyrjun 2018 og hversu mörg hafa verið innt af hendi af annars vegar starfsmönnum og hins vegar stofnunum:
              a.     lagadeildar HA,
              b.     lagadeildar HÍ,
              c.     lagadeildar HR,
              d.     lagadeildar Bifrastar?

    Sjá svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Hvaða bókaútgáfu á sviði lögfræði hefur ráðuneytið styrkt frá árinu 2018 og hversu hár hefur styrkurinn verið fyrir hverja og eina útgáfu? Hvaða viðmið eru lögð til grundvallar við slíkar styrkveitingar?
    Ráðuneytið hefur ekki styrkt bókaútgáfu á sviði lögfræði á þessu tímabili.