Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1476  —  3. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (milliverðlagning).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Guðrúnu Ingu Torfadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Harald Inga Birgisson frá Deloitte ehf. og Theodóru Emilsdóttur og Ólaf Guðmundsson frá skattrannsóknarstjóra ríkisins.
    Umsagnir bárust frá Deloitte ehf., Félagi atvinnurekenda og Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Samtökum atvinnulífsins og skattrannsóknarstjóra ríkisins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 57. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, svo að skýrt verði að skjölunarskylda aðila nái einnig til viðskipta lögaðila við fasta starfsstöð sína. Að auki er lagt til að Skatturinn fái heimild til beitingar stjórnvaldssekta uppfylli skjölunarskyldur aðili ekki skyldur sínar skv. 5. mgr. 57. gr. laganna.
    Frumvarpið var áður flutt á 150. löggjafarþingi (594. mál) en á því hafa orðið þónokkrar breytingar.

Umfjöllun nefndarinnar.
Eftirlit Skattsins með milliverðlagningu.
    Nefndin fjallaði áður um málið á 150. löggjafarþingi. Við umfjöllun nefndarinnar þá óskaði nefndin eftir minnisblaði frá Skattinum þar sem fram kæmi afstaða stofnunarinnar til tiltekinna atriða. Í minnisblaðinu er bent á að tilgangur eftirlits Skattsins með milliverðlagningu sé að tryggja að verðlagning í viðskiptum tengdra aðila yfir landamæri sé réttmæt og að sporna gegn alþjóðlegri skattasniðgöngu. Nefndin telur nauðsynlegt að slíkt eftirlit sé viðhaft. Í því sambandi bendir Skatturinn m.a. á að fullnægjandi skjölun leiði af sér að varðveitt séu öll gögn sem nauðsynleg eru við mat á verðlagningu, svo sem um ákvörðun vaxta í lánaviðskiptum, ákvörðun á verði á vörum og þjónustu, eða hverjum öðrum þeim viðskiptum milli tengdra aðila sem máli skipta, og þar sem hætta er á að verð séu of- eða vanmetin eftir því hvar hagstæðast sé að greiða skatta. Sinni lögaðili ekki skjölunarskyldu sinni eða bregðist tímanlega við beiðni ríkisskattstjóra um skjölunargögn hafi það afar neikvæð áhrif á skilvirkni eftirlits með reglum um milliverðlagningu.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Sektarfjárhæð (4. mgr. b-liðar 1. gr.).
    Í 4. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um fjárhæð sekta uppfylli aðili ekki skjölunarskyldu sína skv. 1. málsl. 5. mgr. 57. gr. Er lagt til að sektir geti numið allt að 3 millj. kr. fyrir hvert reikningsár. Geti sektarálagning lengst tekið til sex tekjuára sem næst eru á undan því ári er sektarákvörðun fer fram og hæst numið 12 millj. kr. samtals. Við fyrri framlagningu málsins á 150. löggjafarþingi gat hámarksfjárhæð hæst numið 6 millj. kr. samtals. Er því í frumvarpinu lagt til að hámarkssektarfjárhæð verði umtalsvert hærri en við fyrri framlagningu málsins. Nefndin telur skynsamlegt að við lögfestingu sektarheimilda sé hófsemdar gætt en bendir einnig á að nauðsynlegt er að endurskoða fjárhæðir með hliðsjón af fenginni reynslu. Leggur nefndin því til breytingu þess efnis að ákvæðið verði samhljóða því sem lagt var til í frumvarpinu á 150. löggjafarþingi. Sekt skuli nema 3 millj. kr. hafi lögaðili ekki sinnt skjölunarskyldu sinni innan 45 daga. Sekt skuli nema 1,5 millj. kr. hafi lögaðili skilað inn gögnum sem teljist ófullnægjandi og lögaðili ekki orðið við kröfum Skattsins um úrbætur innan 45 daga. Sektarálagning geti lengst tekið til sex tekjuára sem næst eru á undan því ári þegar sektarákvörðun fer fram og numið hæst 6 millj. kr.

Gildistaka.
    Í gildistökuákvæði 2. gr. frumvarpsins er þess sérstaklega getið að lögin taki til brota eða vanrækslu á skjölunarskyldu sem á sér stað eftir gildistöku laganna. Í greinargerð frumvarpsins segir að ákvæðið komi inn vegna ábendinga um að efni frumvarpsins gæti leitt til afturvirkni við gildistöku þar sem ríkisskattstjóra verði veitt sektarheimild sex ár aftur í tímann. Nefndin bendir á að það leiði m.a. af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins að lagaákvæðum sem mæla fyrir um heimild til beitingar stjórnsýsluviðurlaga verður almennt ekki beitt afturvirkt. Því verði ekki talin þörf á því að árétta sérstaklega í gildistökuákvæði að viðurlagaheimildir taki eingöngu til brota sem eiga sér stað eftir gildistöku laganna.
    Til þess að gæta samræmis í löggjöfinni leggur nefndin því til að framangreind árétting falli brott. Tillagan hefur enga efnislega breytingu í för með sér enda ljóst að ákvæðum frumvarpsins verður ekki beitt vegna brota sem áttu sér stað fyrir gildistöku laganna.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðsins „greinarinnar“ í a-lið komi: málsgreinarinnar.
                  b.      4. mgr. b-liðar orðist svo:
                     Sekt sem lögð er á lögaðila getur numið allt að 3 millj. kr. fyrir hvert reikningsár sem skattaðili hefur látið hjá líða að uppfylla skilyrði 1. málsl. 5. mgr. að hluta eða að öllu leyti. Sekt skal nema 3 millj. kr. hafi lögaðili ekki sinnt skjölunarskyldu sinni innan 45 daga. Sekt skal nema 1,5 millj. kr. hafi lögaðili skilað inn gögnum sem teljast ófullnægjandi og lögaðili hefur ekki orðið við kröfum ríkisskattstjóra um úrbætur innan 45 daga. Getur sektarálagning af þessu tilefni tekið lengst til sex tekjuára sem næst eru á undan því ári þegar sektarákvörðun fer fram og numið hæst 6 millj. kr.
     2.      Orðin „og taka til þeirra brota og vanrækslu aðila á skjölunarskyldu sem á sér stað eftir gildistöku laganna“ í 2. gr. falli brott.

    Jón Steindór Valdimarsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 18. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara. Brynjar Níelsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, með fyrirvara. Smári McCarthy. Hjálmar Bogi Hafliðason.