Ferill 803. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1477  —  803. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (afnám aflvísis).

Flm.: Ásmundur Friðriksson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                 Heimildir fiskiskipa til veiða með botnvörpu, flotvörpu og dragnót innan fiskveiðilandhelgi Íslands miðast við lengd skipa. Er skipum skipt niður í þrjá flokka miðað við lengd þeirra þannig:
                 1. flokkur: Fiskiskip 42 metrar og lengri.
                 2. flokkur: Fiskiskip 29 metrar og lengri en styttri en 42 metrar.
                 3. flokkur: Fiskiskip styttri en 29 metrar og öll fiskiskip sem féllu undir 3. flokk við gildistöku laga þessara, enda verði ekki gerðar meiri háttar breytingar á skipunum.
     b.      3. og 4. mgr. falla brott.
     c.      7. mgr. orðast svo:
                 Stundi tvö eða fleiri skip veiðar með sömu botnvörpu, flotvörpu eða dragnót skulu heimildir þeirra samkvæmt þessari grein miðast við lengd lengsta skipsins.

2. gr.

    Orðin „enda séu þau með aflvísi lægri en 2.500“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um svonefndan aflvísi verði felld brott úr lögunum en hann samanstendur af margfeldi af afli aðalvélar og þvermáli skrúfu skipsins, þeim þáttum sem mestu ráða um toggetu fiskiskipa. Verði frumvarpið að lögum verða heimildir til tog- og dragnótaveiða eftir sem áður miðaðar við sömu lengdir skipa og eru í gildi nú. Markmiðið með framlagningu frumvarpsins er að ýta undir tækniframfarir í fiskveiðum og stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda við togveiðar.
    Á vegum ríkisstjórnarinnar er í gangi vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Sú áætlun snýst um aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030.
    Losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum og strandsiglingum hefur dregist verulega saman frá því að hún náði hámarki árið 1996, eða um 40%. Þessi samdráttur skýrist af ýmsum þáttum en ekki síst betri sóknarstýringu og að dregið hefur úr veiðum á fjarlægum miðum. Árangur hefur því náðst en enn eru tækifæri til frekari samdráttar og nauðsynlegt að nýta þau svo að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Umrædd losun er enda tæplega fimmtungur af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð Íslands.
    Með hliðsjón af markmiðum um að draga úr losun fiskiskipa má færa rök fyrir því að lagalegar takmarkanir sem draga úr hagkvæmni og auka orkunotkun ætti að afnema enda gangi þær gegn markmiðum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum. Samkvæmt þessu er því þörf á lagabreytingum sem afnemi framangreindar takmarkanir. Því er þörf á að leggja fram lagafrumvarp sem tekur á þessum þáttum.
    Í 2. mgr. 5. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, eru fiskiskip flokkuð í þrjá flokka með tilliti til heimilda þeirra til tog- og dragnótaveiða. Við flokkunina er annars vegar miðað við lengd skips og hins vegar er miðað við aflvísi skips. Aflvísir er margfeldi hestafla aðalvélar og þvermáls skrúfu, auk þess sem tillit skal taka til skrúfuhrings sé skip þannig útbúið. Áður hafði verið miðað við lengd og þar áður við brúttórúmlestir. Ástæða þessara viðmiðana er vafalaust sú að það hefur þótt eðlilegt að smærri og afkastaminni skip fengju togveiðiheimildir nær landi en þau stærri og afkastameiri. Hér er lagt til að áfram verði hin almenna regla sú að miðað verði við mestu lengd fiskiskipa, en aflvísir verði ekki lengur viðmið varðandi togheimildir skipa.
    Á þeim tíma sem frumvarpið sem varð að lögum nr. 79/1997 var í vinnslu, þ.e. árin 1995–1996, voru botnfisktogarar/-togskip u.þ.b. þrisvar sinnum fleiri en þau eru nú. Jafnframt var umtalsverður munur á getu þeirra togskipa sem stunduðu veiðar með fiskibotnvörpu. Hluti flotans á þessum tíma voru gamlir togbátar um og innan við 100 tonn, sem höfðu ekki sambærilega togveiðigetu miðað við skuttogarana og þar af leiðandi töluvert svigrúm til að fá að stunda veiðar nær landi en stærri og afkastameiri skuttogarar.
    Í skýrslu starfshóps um faglega heildarendurskoðun á regluverki varðandi notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum (sept. 2018) segir m.a.
    „Ákvæði um stærðarmörk veiðiskipa hafa gilt lengi, sum þeirra jafnvel áratugum saman. Þau virðast flest hafa verið sett vegna fjárhagslegra sjónarmiða þ.e. út frá hagkvæmni og/eða atvinnusköpun, en einnig sem málamiðlun eða tilraun til sátta milli ólíkra sjónarmiða s.s. milli landshluta, sveitarfélaga, veiðarfæra eða bátastærða. Ákvæði þessi byggjast hvorki á fiskifræðilegum né vistfræðilegum forsendum. Það er álit starfshópsins að í mörgum tilvikum sé illframkvæmanlegt að meta, með faglegum rökstuðningi, gildandi reglur um hvað sé „rétt stærð veiðiskips“ hvort sem það er við veiðar á einstökum tegundum eða á tilteknum veiðisvæðum.
    Almennt er það mat starfshópsins að of miklar stærðartakmarkanir stjórnvalda á veiðiskipum geti hamlað framþróun s.s. til bættrar aflameðferðar, aðbúnaðar áhafnar og öryggismála. Að sama skapi telur starfshópurinn afar mikilvægt við ákvörðun á nýtingu á nytjastofnum sjávar sé tekið fullt tillit til fiskifræðilegra og vistfræðilegra þátta.
    Í ljósi umfangsmikilla breytinga á fiskiskipastólnum og í gerð og búnaði veiðarfæra telur starfshópurinn mikilvægt að ákvæði um stærðarmörk veiðiskipa séu endurskoðuð með reglubundnum hætti.“
    Að undanförnu hafa orðið gífurlegar tækniframfarir varðandi orkusparnað við fiskveiðar bæði hvað varðar gerð og búnað veiðarfæra, en ekki síður byggingu og búnað skipa. Það er því mikilvægt að stjórnvöld taki mið af þeim tækniframförum og horfi til orkusparnaðar við lagasetningu.
    Auðveldasta leiðin til að spara orku við togveiðar er að búa skip stórri skrúfu. Aflvísir, eins og hann er fram settur nú, kemur hins vegar í veg fyrir að hægt sé að búa skip sem undir hann falla stórri skrúfu. Ástæðan er sú að 29 metra og 42 metra skip þurfa ákveðna lágmarksvélastærð, þannig að eina virka breytan í aflvísisjöfnuninni er þvermál skrúfu. Þannig enda nánast öll aflvísisskip með skrúfuþvermál upp á rúma 2 metra sem skilar um 13–14 kg togspyrnu á hvert hestafl aðalvélar. Öll þessi skip gætu haft mun stærri skrúfur sem gæti skilað allt að 70% meiri togspyrnu á hvert hestafl aðalvélar. Þannig gæti breytingin skilað allt að 70% minni losun gróðurhúsalofttegunda við togveiðar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lögð til breyting á 2. mgr. 5. gr. laganna á þann veg að aflvísir ásamt lengd skips verði ekki lengur notuð sem viðmið varðandi togheimildir skipa innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Þess í stað verði lengd skips það viðmið sem ákvarðar togheimildir skipa innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Jafnframt er lagt til að þau skip sem tilheyrðu 3. flokki 1. janúar 2021 heyri áfram undir þann flokk enda verði ekki gerðar meiri háttar breytingar á aflkerfi skipsins. Gert er ráð fyrir að hámarksaflauking miðist við 400 kW.
    Með greininni er lagt til að ákvæði 3. og 4. mgr. 5. gr. laganna falli brott en ákvæðin fjalla einvörðungu um aflvísi, þ.e. skilgreiningu á aflvísi og skyldu Samgöngustofu til að halda skrá um aflvísi skipa.
    Lagt er til að ákvæði um aflvísi í 7. mgr. 5. gr. laganna falli brott og heimildir miðist við lengd lengsta skipsins.

Um 2. gr.

    Með greininni er lögð til breyting á 1. mgr. 6. gr. Lagt er til að ákvæðið um aflvísi falli brott, en áfram verði miðað við að einungis skipum styttri en 42 metrar sé heimilt með sérstöku leyfi Fiskistofu að stunda veiðar með dragnót innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelgi Íslands.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.