Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1479  —  367. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).

(Eftir 2. umræðu, 19. maí.)


1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast þrjár nýjar orðskýringar, svohljóðandi, og raðast orðskýringar í greininni um leið í rétta stafrófs- og töluröð:
     1.      Einkarekinn fjölmiðill er fjölmiðill sem er hvorki í heild né að hluta í eigu ríkis, sveitarfélaga, stofnana eða félaga alfarið í þeirra eigu.
     2.      Ritstjórnarefni er allt það efni sem birtist eða er miðlað af fjölmiðli, nema viðskiptaboð, fjarkaup og annað efni sem miðlað er gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eða til kynningar í eigin þágu.
     3.      Staðbundinn fjölmiðill er landshluta-, héraðs-, hverfis- eða bæjarmiðill sem hefur fyrst og fremst staðbundna efnisskírskotun og höfðar aðallega til notenda sem tengsl hafa við útbreiðslusvæði miðilsins.

2. gr.

    Á eftir X. kafla A laganna kemur nýr kafli, X. kafli B, Stuðningur við einkarekna fjölmiðla, með sex nýjum greinum, 62. gr. d – 62. gr. i, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (62. gr. d.)

Stuðningur við einkarekna fjölmiðla.

    Styðja skal við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni með því að veita einkareknum fjölmiðlum rekstrarstuðning, sbr. 62. gr. g, vegna hluta kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni. Markmiðið er að koma til móts við einkarekna fjölmiðla til að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum auglýsingaveitum og samfélagsmiðlum.

    b. (62. gr. e.)

Úthlutunarnefnd.

    Ráðherra skipar þriggja manna úthlutunarnefnd um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Nefndarmenn skulu tilnefndir af ríkisendurskoðanda og skal einn uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara, einn vera löggiltur endurskoðandi og sá þriðji hafa sérþekkingu á fjölmiðlum eða fjölmiðlarétti. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úthlutunarnefndar úr hópi nefndarmanna.

    c. (62. gr. f.)

Umsókn.

    Úthlutunarnefnd auglýsir eftir umsóknum um rekstrarstuðning. Umsókn um rekstrarstuðning, ásamt fylgigögnum, skal berast úthlutunarnefnd eigi síðar en 1. ágúst ár hvert. Ef fjölmiðlaveita starfrækir beint eða óbeint fleiri en einn fjölmiðil sem uppfyllir skilyrði 62. gr. g skal umsókn vera sameiginleg vegna þeirra.
    Í umsókn skulu koma fram gögn um stuðningshæfan rekstrarkostnað, sbr. 62. gr. h, og skal hann vera sundurliðaður. Skila ber upplýsingum m.a. um meðalfjölda stöðugilda, fjölda verktaka og heildarfjárhæð greiðslna til þeirra vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni fyrir árið á undan. Upplýsingarnar skulu vera staðfestar af löggiltum endurskoðanda.
    Í því skyni að sannreyna stuðningshæfan rekstrarkostnað skv. 62. gr. h getur úthlutunarnefnd óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá umsækjanda, til að mynda virðisaukaskattsskýrslum og bókhaldi. Séu gögn ófullnægjandi skal úthlutunarnefnd veita umsækjanda frest til að skila inn fullnægjandi gögnum.
    Fjölmiðlanefnd sér um umsýslu umsókna og veitir úthlutunarnefnd sérfræðiaðstoð eftir nánara samkomulagi. Kostnaður við mat á umsóknum og annarri umsýslu skal greiddur úr ríkissjóði.

    d. (62. gr. g.)

Skilyrði fyrir rekstrarstuðningi.

    Skilyrði fyrir stuðningi við einkarekinn fjölmiðil eru eftirfarandi:
     1.      Rekstrarkostnaður er stuðningshæfur, sbr. 62. gr. h.
     2.      Fjölmiðill skal vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar skv. IV. kafla. Fjölmiðill skal jafnframt hafa starfað með leyfi eða skráningu frá fjölmiðlanefnd óslitið í 12 mánuði eða lengur.
     3.      Á fjölmiðli skulu starfa a.m.k. þrír starfsmenn í fullu starfi við að afla og miðla efni, en einn starfsmaður hjá staðbundnum fjölmiðli.
     4.      Prentmiðlar skulu koma út að lágmarki 20 sinnum á ári. Netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu miðla nýju efni á virkum dögum í 20 vikur á ári.
     5.      Fjölmiðlaveita skal hafa staðið skil á árlegri skýrslugjöf til fjölmiðlanefndar skv. 23. gr. vegna ársins á undan og hafa veitt fjölmiðlanefnd fullnægjandi gögn og upplýsingar um eignarhald fjölmiðlaveitunnar, þ.m.t. gögn um raunverulegan eiganda.
     6.      Fjölmiðlaveita er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok næsta árs á undan, og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til ríkisskattstjóra næstliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða frá því að fjölmiðlaveita hóf starfsemi ef það var síðar.
     7.      Laun og réttindi starfsmanna á fjölmiðli skulu vera í samræmi við lög og kjarasamninga.
     8.      Fjölmiðlaveita var ekki í fjárhagserfiðleikum í lok næsta árs á undan, í skilningi reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014 þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast innri markaðnum til beitingar á 107. og 108. gr. sáttmálans, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2014 frá 27. júní 2014, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1165/2015 um gildistöku reglugerða framkvæmdastjórnarinnar (ESB) um ríkisaðstoð.

    e. (62. gr. h.)

Stuðningshæfur rekstrarkostnaður.

    Eftirfarandi kostnaðarliðir falla undir stuðningshæfan rekstrarkostnað samkvæmt lögum þessum, enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt:
     a.      Beinn launakostnaður blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara, umbrotsmanna og prófarkalesara sem fellur til við að afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.
     b.      Beinar verktakagreiðslur til aðila skv. a-lið sem falla til við að afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.

    f. (62. gr. i.)

Útreikningur og hámark rekstrarstuðnings.

    Rekstrarstuðningur skal að hámarki vera 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjanda, sbr. 62. gr. h. Stuðningur til hvers umsækjanda getur þó ekki orðið hærri en sem nemur 25% af fjárveitingu til verkefnisins.
    Fari heildarfjárhæð samþykktra umsókna um stuðningshæfan rekstrarkostnað, að teknu tilliti til takmarkana skv. 1. mgr., umfram fjárveitingu til verkefnisins skerðist stuðningur til allra umsækjenda í jöfnum hlutföllum. Verði heildarfjárhæð samþykktra umsókna um stuðningshæfan rekstrarkostnað lægri en fjárveiting til verkefnisins skiptast afgangsfjármunir milli umsækjenda í réttum hlutföllum við kostnað þeirra. Þannig ræður umfang og fjöldi umsókna um stuðning hvernig stuðningur dreifist endanlega á milli fjölmiðla.
    Telji úthlutunarnefnd að fjölmiðill uppfylli skilyrði fyrir rekstrarstuðningi skal hún ákvarða fjárhæð stuðnings en ella skal umsókn hafnað. Berist umsókn um rekstrarstuðning vegna næstliðins árs eftir 1. ágúst skal vísa henni frá. Heimilt er þó að taka umsókn til meðferðar hafi hún borist að þessum fresti liðnum ef gildar ástæður eru fyrir töfinni. Úthlutunarnefnd metur í hverju tilviki fyrir sig hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.
    Stjórn eða framkvæmdastjóri fjölmiðils skal staðfesta að upplýsingar og gögn vegna umsóknar séu í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Berist nefndinni ekki fullnægjandi gögn að loknum veittum fresti eða bendi gögn málsins til þess að kostnaðaruppgjör sé ekki í samræmi við ákvæði laga þessara skal hún hafna beiðni um rekstrarstuðning.
    Komi í ljós að rekstrarstuðningur við umsækjanda hafi verið of hár er úthlutunarnefnd heimilt að hlutast til um að fyrri ákvörðun verði tekin upp. Við meðferð slíkra mála skal úthlutunarnefnd afla nauðsynlegra gagna og gefa aðilum kost á andmælum áður en ákvörðun er tekin. Leiði endurákvörðun til lækkunar á stuðningsfjárhæð skal annaðhvort umsækjandi endurgreiða ríkissjóði mismuninn innan tíu daga frá því að tilkynnt er um ákvörðunina eða fjárhæðin dregin frá rekstrarstuðningi sem ákveðinn hefur verið á grundvelli umsóknar næsta árs. Úthlutunarnefnd er heimilt að fresta afgreiðslu annarra umsókna sama umsækjanda þar til niðurstaða er fengin um hvort til endurákvörðunar kemur. Heimild til endurupptöku samkvæmt þessu ákvæði fellur niður að liðnum fjórum árum frá upphaflegri ákvörðun úthlutunarnefndar.
    Ákvarðanir úthlutunarnefndar samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

3. gr.

    Við 64. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði X. kafla B falla úr gildi 1. janúar 2023.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. ágúst 2021.