Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1483  —  367. mál.
3. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).

Frá 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Annar minni hluti er hlynntur vexti og viðgangi frjálsrar og óháðrar fjölmiðlunar og styður alla raunverulega viðleitni í þá átt. Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla) nálgast ekki það markmið. Í raun er byrjað á öfugum enda því ekki er tekið á þeim tveim meginkröftum sem skekkja samkeppnisstöðu frjálsra og óháðra fjölmiðla. Ekki er vikið einu orði í frumvarpinu að RÚV ohf. sem býr að yfirburðastöðu á markaði vegna óhefts aðgangs að auglýsingamarkaði og að því er virðist óendanlegum fjárheimildum úr ríkissjóði. Ekki er heldur í tengslum við framlagningu frumvarpsins gerð minnsta tilraun til að skattleggja alþjóðlegar streymisveitur sem soga til sín æ stærri hlut af auglýsingamarkaði á Íslandi án þess að greiða hér laun eða skatta. Nær hefði verið að bæta þar úr fyrst til að jafna aðstöðumun frjálsra innlendra miðla í stað þess að ríkisvæða þá með framlögum úr ríkissjóði og takmarka með því frelsi þeirra, og tryggja að þeir séu raunverulega óháðir. Erfitt er að gera sér í hugarlund hvernig fjölmiðlar sem njóta ríkisstyrkja geta haldið uppi raunverulegri gagnrýni á stjórnvöld hvers tíma og veitt þeim aðhald.
    Frumvarpið er lagt fram í greinilegum ágreiningi stjórnarflokkanna og því hefur verið brugðið á það ráð að stytta gildistíma þess og gera frumvarpið að bráðabirgðagerningi. Það veldur því að þeir aðilar sem styrkja á hafa ekkert í hendi um fyrirkomulag styrkja til lengri tíma. Einnig er ljóst að enginn friður mun ríkja um pólitíska úthlutun fjármuna samkvæmt frumvarpinu og munu flestir þeirra sem styrkja njóta telja sig bera skarðan hlut frá borði. Engin tilraun er gerð til að jafna aðstöðumun minni fjölmiðla, einkum þeirra sem starfa út um land.
    Annar minni hluti leggur til að frumvarpið verði fellt og að nú þegar verði hafin vinna við að skattleggja erlendar streymisveitur. 2. minni hluti leggur einnig til að nú þegar verði jafnaður aðstöðumunur RÚV og annarra fjölmiðla. Bendir 2. minni hluti í því sambandi á tillögu Miðflokksins um að neytendum verði gert heimilt að ávísa hluta svokallaðs útvarpsgjalds til þeirra fjölmiðla sem þeir kjósa (397. mál á yfirstandandi löggjafarþingi). Aðeins með slíkum ráðstöfunum er unnt að jafna aðstöðumun á fjölmiðlamarkaði.

Alþingi, 19. maí 2021.

Þorsteinn Sæmundsson.